*

Hafði áhyggjur af kosningasvikum

Michele Ballarin hafði strax, nokkrum dögum eftir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum í nóvember 2020, áhyggjur af kosningaóreiðu og afleiðingum þess ef efasemdir kæmu upp um réttmæti kosningaúrslitanna. Hún lýsti þessari skoðun sinni í viðtali við Kveik.

Hafði áhyggjur af kosningasvikum

Ballarin var heitur stuðningsmaður Donalds Trump, sagði hann vilja endurreisa Ameríku – Make America great again, hefði stuðlað að öflugum efnahagsvexti og væru stoltur af Bandaríkjunum.

Áhugi bandarískra fjölmiðla á Ballarin nú er kominn til vegna samsæriskenningar um kosningasvik sem Michele og samstarfsmenn hennar hafa breytt út, kenningar sem kölluð er Italygate. Í sem stystu máli er kenning Michele sú að ítalskir tölvuhakkarar hafi í samstarfi við fulltrúa leyniþjónustunnar CIA í Róm hakkað kjörtölvur í nokkrum lykilríkjum Bandaríkjanna, fært kosningagögn þaðan á tölvuþjóna í Frankfurt, þaðan hafi þau verið send til Ítalíu þar sem hakkarar hafi snúið niðurstöðunum Joe Biden í vil og svo hafi gögnum verið hlaðið upp á kjörtölvurnar aftur í gegnum hergervihnetti.

Stólpagrín er gert að kenningunni í bandarískum fjölmiðlum og miðað við gögn úr dómsmálaráðuneytinu í Washington, sem nú hafa verið birt, tóku stjórnendur þar kenninguna ekki alvarlega þegar starfsmannastjóri Hvíta hússins í tíð Trumps fór fram á að hún yrði rannsökuð. Þvert á móti töldu þeir þetta geggjuðustu kenninguna sem þeir hefðu rekist á.

Ítalskir saksóknarar hafa þó til rannsóknar hvort kenningin sé dæmi um saknæma dreifingu falsfrétta, samkvæmt fregnum ítalskra fjölmiðla. Ballarin mun meðal sex sem til rannsóknar eru vegna þessa.

Ballarin lýsti áhyggjum sínum af kosningasvikum fyrir Kveik í viðtali þremur dögum eftir kosningar í nóvember 2020:

„Áhyggjurnar eru af því að tilkynnt sé um misferli í landi sem okkar“, sagði hún í viðtalinu, og bætti við: „Ég hef unnið mikið góðgerðastarf á stöðum þar sem maður býst við misferli. Þar er slíkt eðlilegt, en ekki hér. Ég er ekki svo spennt, ég hef áhyggjur,því ég vil sjá góð úrslit, hver sem þau eru, að þau séu lögmæt.“

Ánægð með Trump sem vill gera Ameríku mikla aftur

Ballarin er yfirlýstur stuðningsmaður Donalds Trumps og segir stjórn hans á efnahagsmálum skipta einna mestu.

„Ég hef stutt forsetann allan tímann. Ég hitti hann fyrst árið 1969, í New York. Mér finnst mjög mikilvægt að hafa einhvern sem skilur mikilvægi viðskipta og verslunar. Hann hefur unnið ótrúlega gott starf með efnahaginn. Verg landsframleiðsla var 30% fyrir viku, sem er sögulegt, það er V-laga efnahagsbati í miðju COVID.“

En þessu til viðbótar taldi hún Trump sýna þjóðarstolt.

„Hann er afar stoltur af landi okkar, mikill föðurlandsvinur. Hann vill gera Ameríku mikla aftur, það er viðkvæði hjá honum. Það er mikilvægt til að skilja stoltið af staðnum.“

Ballarin hefur ekki viljað svara spurningum bandarískra fjölmiðla eftir að böndin tóku að berast að henni. Hún hefur raunar sjaldan viljað veita fjölmiðlum viðtöl um nokkur ævintýra sinna, sem ná frá Sómalíu til heilsulinda í Virginíu, fraktflugfélagi í Djíbútí til hergagna í Bandaríkjunum.

Viðtalið í villunni

Viðtal Kveiks við Michele Roosevelt Edwards, eða Michele Ballarin, átti sér nokkurn aðdraganda. Vikum saman stóðu samskipti við Gunnar Stein Pálsson, blaðafulltrúa hennar á Íslandi, en ákvörðun um að veita viðtalið var að lokum ekki tekin fyrr en kvöldið áður en það fór fram. Fimmtudagskvöldið 5. nóvember 2020, tveimur dögum eftir forsetakosningar, var staðfest að Ballarin myndi taka á móti tveggja manna Kveiks-teymi á heimili sínu í Virginíu: North Wales, risastórri landareign með gríðarstórri villu og nokkrum minni eignum. En margt benti til þess að landareignin væri alls ekki í eigu Ballarin. Eignin var auglýst til sölu og opinberir pappírar um eigendurna nefndu Michele Ballarin eða Michele Roosevelt Edwards aldrei á nafn. Eignarhaldsfélagið sem skráð er eigendi North Wales var í eigu látins auðjöfurs og ekkert sem benti til þess að félagið hefði verið selt úr dánarbúinu. Svo virtist sem villan væri í raun sviðsmynd, valin til þess að gefa þá mynd að þar byggi vellauðug kaupsýslukona. Við komuna var því einboðið að fá skoðunarferð um herlegheitin.

Í myndskeiðinu lýsir Michele eigninni fjálglega sem og áhuga sínum á að flytja inn fersk, afskorin blóm til Íslands sem og alþjóðlegu viðskiptaneti sínu. Viðskiptaveldið finnst hvergi og hún á ekki landareignina. Vélar WOW-air hafa heldur ekki sést neins staðar.