Leður­skjald­bakan á Stein­gríms­firði

Leður­skjald­bakan á Stein­gríms­firði

Um hádegisbil þann 1. október 1963 voru feðgarnir Einar Hansen og Sigurður að veiðum á trillubát skammt innan við Grímsey á Steingrímsfirði. Feðgarnir voru á leið heim úr róðri þegar Einar kom auga á undarlegan hlut sem maraði í hálfu kafi nokkuð frá bátnum.

Hann stýrði þá bátnum nær hlutnum sem hann taldi í fyrstu vera bobbing eða annað veiðafæri en sá fljótlega að var einhvers konar sjávardýr. Hann krækti þá í skolt dýrsins með hákarlasókn en við það fór úr því allt loft og það tók að sökkva. Þó náðu þeir feðgar að draga dýrið inn að Hólmavík þar sem það var skoðað nánar af héraðslækninum sem úrskurðaði það nýdautt.

Dýrið var vegið og mælt á Hólmavík og var jafnframt greint sem leðurskjaldbaka en það er stærsta skjaldbökutegund sem til er. Leðurskjaldbökur eru sjávardýr sem koma einungis að landi til að verpa. Þær lifa í hlýjum sjó hitabeltislanda, í kringum miðbaug, en hafa þó oft fundist til að mynda við strendur Norður-Evrópu. Þá er talið líklegt að þær hafi borist þangað úr Karíbahafinu með Golfstraumnum.

Fólk úr nærsveitum Hólmavíkur dreif að því allir vildu skoða dýrið enda var þetta í fyrsta sinn sem sannað var að sæskjaldbaka hefði komið til Íslands. Fundurinn vakti athygli fólks víða um land og öll helstu dagblöð á Íslandi fjölluðu um hann fram eftir mánuðinum.

Þá flutti Einar dýrið suður og hélt sýningar á því bæði á Akranesi og í Reykjavík þar sem fjöldi fólks mætti og bar dýrið augum. Menntamálaráðuneytið keypti að lokum skjaldbökuna af Einari fyrir 10.000 krónur en þá var gerð afsteypa af henni sem nú er varðveitt á Náttúrufræðistofnun Íslands.

Þetta er hluti af umfjöllun Kveiks um framandi tegundir. Sjáðu heildarumfjöllunina hér.