Kannabisverksmiðja í miðri borg

Innflutningur á kannabisefnum þekkist ekki lengur hérlendis. Það er ekki vegna þess að neysla þessara efna hafi dregist svona mikið saman, heldur eru þau bara framleidd á Íslandi.

Undanfarna mánuði hefur Kveikur rætt við nokkra kannabisræktendur á höfuðborgarsvæðinu. Og við erum ekki að tala um áhugamenn með eina eða tvær plöntur í bílskúrnum heldur fólk sem gerir þetta í atvinnuskyni.

Falið í miðri borg

Í skrifstofuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu, þar sem þrífst margs konar starfsemi, er að finna kannabisverksmiðju. Hún er ekki stór í sniðum en þó svo stór að þrír starfsmenn í framleiðslunni þurfa að vinna saman að því að halda henni gangandi. Einn þessara manna bauð okkur í heimsókn og samþykkti að ræða við okkur með því skilyrði að nafn hans kæmi ekki fram.

„Ég er að rækta kannabis þrátt fyrir að vera í ágætis starfi og stöðu í þjóðfélaginu. Virtur innan míns fags, samt er ég að stunda það sem er skilgreint sem glæpastarfsemi,“ segir maðurinn.

Aðspurður segir hann það hafa verið tiltölulega einfalt að setja upp verksmiðjuna. „Það er ekkert neitt voðalega flókið að fara á YouTube og horfa á einhver nokkur myndbönd, komast að því að það eru nokkrar verslanir í Reykjavík sem eru að selja allt sem þú þarft til þess. Vegna þess í grunninn er ekkert frábrugðið því að ná góðum árangri með tómatplöntur og með kannabis. Og þetta er oft talað um þetta sem sömu jurtina,“ segir hann.

Aðstoð við að velja búnað

Maðurinn segir að ef farið er inn í þessar verslanir og talað í ákveðnum tóni um það hvers konar tómata til stendur að rækta, þá viti starfsfólkið að um sé að ræða kannabis. „Fólk er alveg að kaupa þessa sömu hluti til þess að gera eitthvað bara löglegt heima hjá sér en ég giska á það að það sé minnihlutinn af veltunni hjá þessum fyrirtækjum. Meirihlutinn af veltuinni er að fara í kannabis,“ segir hann.

Kveikur heimsótti eina slíka verslun með falda myndavél. Þar sýndu starfsmenn fréttamanni búnað tjáðu honum að fyrsta uppskera myndi borga upp rúmlega 200 þúsund króna fjárfestingu í tækjum og búnaði. „Maður getur alveg sparað sér en með því að gera þetta almennilega þá ertu að fá miklu fínna út úr því sko,“ sagði einn afgreiðslumannanna og hinn greip þá orðið: „Og það kemur til baka alveg strax í fyrsta.“

Engan fyrirvara þarf til að fá allt sem þarf til ræktunar afhent: „Við eigum þetta allt til.“

(Mynd Aðalsteinn Kjartansson/RÚV)

Sannfærðist um ágæti kannabis

Viðmælandi okkar er vel menntaður, í dagvinnu, sem hann þarf þó ekki á að halda peninganna vegna, en ákvað fyrir nokkru að fara að stað og hefja kannabisræktun. Ástæðan? Nákominn ættingi veiktist af krabbameini fyrir áratug og eftir að hafa lesið sér til sannfærðist hann um að kannabis gæti hjálpað til við meðhöndlun sjúkdómsins eða jafnvel stuðlað að lækningu.

„Ég reyni að hjálpa öllum þeim sem ég veit af. En að mestu leytinu til lít ég það sem mína skyldu að halda uppi framboði. Ef nægilega margir komast í snertingu við þetta þá sjá þeir að það er ekki eins mikið að óttast í þessu og þeir halda. Það er allt of mikið hlustað á, ég ætla ekki að segja læknamafíuna, en sjónarmið þeirra sem takast á við neikvæðar afleiðingar hjá þeim sem að nota. Og það er alveg fullt af fólki sem lendir í vandræðum en ef við ætluðum að hafa viðmiðin þannig þá væri löngu búið að banna áfengi. Og við gerum það ekki,“ segir hann.

Það er ólöglegt að framleiða og selja kannabisefni á Íslandi - það er ekkert loðið eða óskýrt. Þannig er það. Viðmælandi okkar segist hins vegar líta á þetta sem mannréttindabaráttu; borgaralega óhlýðni til að knýja á um breytingar á lögum. Það kemur fyrir að hann óttist að lögreglan handtaki sig en upplifir ekki að lögreglan sé með skipulögðum hætti að reyna að hafa upp á verksmiðjum eins og þeirri sem hann er með. „Nei. Sérstaklega ekki á skalanum sem ég er á. Ég er algjört peð í þessum heimi sko,“ segir hann.

Þarf að horfa í gegnum fingur sér

En gerir hann sér grein fyrir því hvert varan fer? Veit hann hverjir eru að nota þau efni sem hann framleiðir? „Ég veit að þeir sem taka við efnunum úr minni ræktun reyna að stýra þessu í burtu frá yngra crowdinu en ég hef enga fullvissu fyrir því hvar þetta endar og skipti mér ekki af því,“ svarar maðurinn, sem segist ekki bera ábyrgð á dreifingu efnanna sjálfur.

„Nei, ég er í samvinnu við fólk sem sér um þá hlið mála. Það eru alls konar hlutir sem gerast í þeim heimi sem eru ekkert æskilegir í samfélaginu og eru bara hrein og bein afleiðing af því að starfsemi af þeirri tegund sem ég er með getur ekki farið í Inkasso til að setja reikning í innheimtu. Það þurfa að koma einhverjar aðrar aðferðir til, miður fallegar,“ segir hann.

Hvaða aðferðir eru það? „Það er bara einhvers konar handrukkun. Þetta er það eina í þessu öllu saman sem ég þarf pínulítið að líta í gegnum fingur mér með. Sem ég er ekkert svona ánægður með,“ segir hann og viðurkennir aðspurður að líkamlegt ofbeldi eigi sér örugglega stað. „Ég bara veit ekkert af því.“

Einangrar ólíka þætti lífsins

Maðurinn segist byggja eldveggi til að aðskilja daglegt líf og kannabisræktunina og til að mynda ofbeldið sem fylgi starfseminni. „Það er ekkert úr öðrum heiminum sem þarf að snerta hitt. Það er alveg hægt að gera þetta bara með góðum aðskilnaði, bara með því að hugsa það fyrirfram. Þetta er bara eins og aðgreining af öllu öðru tagi. Þetta er bara eins og að aðgreina vinnu og heimilislíf. Maður bara finnur einhverja leið til þess að láta það ganga upp,“ segir hann.

„Ég vonast til þess á einhverjum tímapunkti að geta sagt öllu mínu fólki frá þessu eftir að þetta er lögleitt og að ég hafi átt minn þátt í því að það hafi átt sér stað.“

Maðurinn vill að kannabis verði lögleitt. „Já alveg klárlega. Vel flestir ef ekki allir af þeim sem ég þekki af ræktendum eru fylgjandi því líka. Þetta er fólk sem er bara með sínar fjölskyldur og sína reikninga og myndi greiða sína skatta og skyldur af þessu, borga í lífeyrissjóð og fá einhverja vinnuvernd,“ segir hann.

Viðmælandi okkar fór í kannabisræktun af hugsjón, en hvað með peningana? Þeir hljót að vera hvati til að halda áfram?

„Ég fer inn í þetta af algjörri hugsjón og held áfram í þessu í einhvern tíma af einhverri hugsjón. Ég hugsa að ef ekki væri fyrir peningana aukalega þá hugsa ég, ég hefði að minnsta kosti ekki stækkað. Peningarnir eru góðir. Peningarnir hjálpa manni að drullast af stað, niður í tjald þegar maður nennir því ekki. Þá getur maður alltaf hugsað til þess að maður sé að reyna að búa til qualitets vöru,“ segir hann.

Walter White úr sjónvarpsþáttunum Breaking Bad. (Mynd AMC)

Walter White ekki fyrirmyndin

Á pappírum myndi líklega enginn giska á að maðurinn sem við erum að tala við stundi glæpastarfsemi. Og margt minnir mig á efnafræðikennarann Walter White, eða Heisenberg, úr sjónvarpsþáttunum Breaking Bad.

Það liggur beinast við að spyrja: Ert þú hinn íslenski Heisenberg?

„Nei, ég myndi nú frekar segja að Heisenberg hafi verið mér víti til varnaðar heldur en nokkur tímann að hann hafi verið fyrirmynd. Það er ákveðinn tímapunktur þar sem Walter White þarf að taka ákvörðun um það hvort það eigi að ganga í mjög harkalegar aðgerðir til að ná í allan peninginn sem úti er, ég er einangraður frá þessu. Ég veit ekkert hvort þetta gerist eða ekki. Ég held ekki. Þetta er sjaldgæft ef þetta kemur fyrir innan þeirra viðskiptasambanda sem ég hef í þessu. Mest mengis eru þetta established millimenn sem eru ekkert að klúðra sínum málum,“ segir hann.