Framandi lífverum fjölgar
Framandi lífverum fer fjölgandi í náttúru Íslands. Sjö þeirra hafa verið skilgreindar sem ágengar en líklegt er að þær séu fleiri.
Skordýrafræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands fann fjölda skordýra í mold sem fylgdi innfluttum plöntum til landsins í vor og fréttaskýringaþátturinn Kveikur lét rannsaka. Dæmi eru um að skaðvaldar hafi borist með þessum hætti til landsins.
Víða um heim hefur maðurinn orðið þess valdandi að lífverur hafa flust til nýrra heimkynna, þar sem þær hafa valdið raski í vistkerfum og á tíðum, miklu efnahagslegu tjóni.
„Í dag eru framandi tegundir önnur helsta ógnin við líffræðilegan fjölbreytileika á eftir búsvæðaeyðingu,“ segir Óskar Sindri Gíslason sjávarlíffræðingur. „Þetta er í rauninni stærra vandamál en mengun.“
Á Íslandi hefur framandi lífverum fjölgað ár frá ári og sjö þeirra eru nú skilgreindar sem ágengar. Það er að segja, þeim vegnar svo vel í náttúru Íslands að það kemur niður á tegundum sem fyrir voru.
Ein af mögulegum flutningsleiðum framandi lífvera hingað til lands er með erlendum jarðvegi. Hann má strangt til tekið ekki flytja inn, að undanskilinni svokallaðri mómosamold og svo þeim jarðvegi sem fylgir rótum innfluttra plantna.
Kveikur fékk Erling Ólafsson, skordýrafræðing, til þess að greina lífríkið í tveimur innfluttum blómapottum og þar fannst fjöldi smádýra.
„Ja ég ætla bara rétt að vona að áhugasamir garðræktendur hafi þetta í huga. Að með því að kaupa einhvern svona innfluttan jarðveg í garðinn sinn þá eru þeir kannski að gera usla í garðinum sjálfum,“ segir hann.
„Og svo fyrir utan garðinn sjálfan er það sem heitir íslensk náttúra. Og það eru dæmi um það að svona meinsemdir hafa flutt sig út í náttúruna.“
Sem dæmi um nýjar tegundir, sem gætu hafa borist hingað með jarðvegi eru birkikemba og birkiþéla, sem hafa herjað á birki síðustu sumur.
„Gæti þetta mögulega gert út af við birkið? Ég vona ekki. En maður veit ekki,“ segir Guðríður Helgadóttir garðyrkjufræðingur.
Erling tekur í sama streng.
„Sko ég veit ekki hvað við erum að gera með þessu. Getum við ekki búið til mold sjálfir? Mér stendur ekki á sama um þetta, ég verð bara að viðurkenna það,“ segir hann.
Nánar verður fjallað um framandi og ágengar tegundir í náttúru Íslands í Kveik í kvöld klukkan átta.