Hekla gæti skotið niður farþegaflugvél

Flestar eldstöðvar sýna skýr merki um að eldgos sé að hefjast klukkustundum eða jafnvel nokkrum dögum áður er gos hefst.

„En Hekla, hún er styttri. Það er nánast alltaf styttra heldur en klukkutími og stundum ekki meira en tuttugu, tuttugu og fimm mínútur,“ segir Páll Einarsson jarðfræðingur.

Aðspurður segir hann það bjóða hættunni heim að vera að ferðast um á Heklu. „Ef það er gönguhópur í hlíðum fjallsins þegar menn sjá þessi merki þá er of seint að láta þá vita því þeir eru þegar lentir í vandræðum.“

Að ógleymdu fluginu.

„Það vill svo til að Hekla er beint undir flugleið, einni af aðalflugleiðunum yfir Atlantshafið, og það fljúga semsé flugvélar beint yfir toppinn á Heklu alltof oft,“ segir hann.

„Líkurnar á því að Hekla skjóti niður farþegaflugvél hreinlega í byrjun næsta goss, þær eru semsé umtalsverðar.“

Þetta er brot úr umfjöllun Kveiks um íslensku eldfjöllin sem sýnd verður í kvöld klukkan 20.00.