NÝ STEFNA RÚV 2026

HLUTVERK

Hlutverk RÚV er að upplýsa og fræða, skerpa skilning og þátttöku í samfélaginu, auka ánægju og hreyfa við fólki á uppbyggilegan hátt.

FRAMTÍÐARSÝN

RÚV vill endurspegla litríkt samfélag.

GILDI

Gildi RÚV einkenna vinnubrögð, viðhorf og framkomu starfsfólks.

STEFNUÁHERSLUR

Fimm stefnuáherslur liggja til grundvallar stærri og smærri aðgerðum RÚV til ársloka 2026.

Ný stefna Ríkisútvarpsins er í senn skýr, aðgengileg og metnaðarfull. Þar er hlutverk okkar skilgreint sem og þau gildi sem við störfum eftir, stefnuáherslur og framtíðarsýn.

 

Styrkur RÚV í samtímanum liggur ekki síst í því að hvert og eitt okkar hefur vaxandi möguleika á að stýra samsetningu dagskrár eftir eigin áhugasviði og tíma. Þess vegna tekur nýtt kjörorð einstaklinginn inn í myndina – sem er kjarninn í starfseminni.

 

Markmiðið er að RÚV fylgi þér í daglegu amstri og á þínum bestu stundum.

STEFNUÁHERSLUR

Áherslurnar sem settar eru fram í stefnunni taka mið af lykilbreytingum í ytra umhverfi, viðhorfi og hegðun neytenda, þróun fjölmiðlamarkaðar og stöðu almannaþjónustumiðla. Stefnuskjöl systurstöðva annars staðar á Norðurlöndum og Bretlandseyjum voru rýnd en að auki byggist vinnan við stefnumótun RÚV á umfangsmiklum rannsóknum frá sambandi evrópskra sjónvarpsstöðva, EBU.

 

Önnur lykilatriði í ytra umhverfi eru samfélagsleg ábyrgð, tengsl við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, auknar áherslur á sviði jafnréttismála og umhverfis- og loftslagsmála, áherslur á fjölbreytileika, jafnræði, aðgengi og sýnileika fjölbreyttra hópa. Horft var til aukinnar norrænnar samvinnu við framleiðslu á efni, auk þess sem stefnumótun og áherslur EBU á mörgum sviðum höfðu áhrif á þá áherslu að horfa á aukið virði (e. added value) almannaþjónustumiðlanna. Horft var til nauðsynjar þess að auka meðvitund um falsfréttir og leiðir til að sporna gegn þeirri þróun og upplýsingaóreiðu almennt, meðal annars með áherslu á miðla- og upplýsingalæsi.

 

Staða RÚV, hlutverk og áskoranir voru bornar saman við stöðu annarra miðla og þær leiðir sem þeir hafa valið og samhljómurinn er mikill. RÚV sinnir mikilvægri þjónustu í íslensku samfélagi sem er að einhverju leyti sambærileg við þjónustu annarra almannaþjónustumiðla.

STAFRÆNT RÚV

Stafræn tækni þróast hratt og RÚV tekur virkan þátt í þessum umbreytingum í þágu notenda og vinnur einnig frumkvöðlastarf í framleiðslu og dreifingu.

FRÉTTIR OG ÞJÓÐFÉLAGSRÝNI

RÚV starfar í þágu fólksins í landinu og gegnir mikilvægu öryggis- og lýðræðis­hlutverki. Aðaláherslan er á vandaðan og hlutlægan fréttaflutning og kappkostað er að standa undir trausti almennings.

MENNING OG MIÐLUN

RÚV tekur virkan þátt í íslensku menningar­lífi með því að skapa, miðla og fjalla um öll svið menningar og lista. RÚV sýnir frumkvæði og djörfung í sköpun, miðlun og umfjöllun.

FJÖLBREYTILEIKI, JAFNRÆÐI OG ÞÁTTTAKA

RÚV ber að endurspegla fjölbreytileika sam­félagsins í dagskrá og allri starfsemi. Jafnrétti kynja er hornsteinn í ytra og innra starfi og gætt er að jafnræði fjölbreyttra hópa og einstaklinga. Aðgengi allra landsmanna að þjónustu RÚV skal vera tryggt og áhersla lögð á þjónustu við ólíka einstaklinga.

SJÁLFBÆRNI OG SAMFÉLAGSÁBYRGÐ

RÚV gegnir mikilvægu hlutverki við að byggja upp sjálfbært samfélag í samræmi við heims­markmið Sameinuðu þjóðanna. Stefna um sjálfbærni felur í sér skuld­bindingu um að styrkja hringrásarhagkerfið, skapa virði og efla þá þætti í stefnumótun, aðgerðum og ákvarðanatöku er snúa að umhverfis- og loftslagsmálum, félagslegri sjálfbærni og ábyrgum stjórnunarháttum.

Stjórn RÚV ohf.

janúar–apríl

Aðalmenn

  • Jóhanna Hreiðarsdóttir, formaður
  • Mörður Árnason
  • Jón Ólafsson
  • Guðlaugur G. Sverrisson
  • Brynjólfur Stefánsson
  • Mörður Áslaugarson
  • Marta Guðrún Jóhannesdóttir
  • Björn Gunnar Ólafsson
  • Ragnheiður Elín Árnadóttir
  • Hrafnhildur Halldórsdóttir
    (fulltrúi starfsmanna)

Varamenn

  • Jónas Skúlason
  • Margrét Tryggvadóttir
  • Bragi Guðmundsson
  • Sigríður Valdís Bergvinsdóttir
  • Jón Jónsson
  • Kristín Amalía Atladóttir
  • Dorothée Kirch
  • Kolfinna Tómasdóttir
  • Inga Hrefna Sveinbjarnardóttir
  • Valgeir Vilhjálmsson (fulltrúi starfsmanna)

apríl-desember 

Aðalmenn

  • Silja Dögg Gunnarsdóttir, formaður
  • Margrét Tryggvadóttir
  • Jón Ólafsson
  • Þráinn Óskarsson
  • Nanna Kristín Tryggvadóttir
  • Mörður Áslaugarson
  • Ingvar Smári Birgisson
  • Aron Ólafsson
  • Diljá Ámundadóttir Zoëga
  • Hrafnhildur Halldórsdóttir
    (fulltrúi starfsmanna)

Varamenn

  • Jónas Skúlason
  • Viðar Eggertsson
  • Marta Guðrún Jóhannesdóttir
  • Natalie Guðríður Gunnarsdóttir
  • Inga María Hlíðar Thorsteinsson
  • Sigurður Helgi Birgisson
  • Kristín Amalía Atladóttir
  • Sandra Rán Ásgrímsdóttir
  • Ingvar Þóroddsson
  • Valgeir Vilhjálmsson (fulltrúi starfsmanna)

Skipurit

Stjórnskipulag RÚV er í stöðugri þróun. Breytingar eru gerðar til að styrkja dagskrárþróun, framleiðslu og miðlun til stafrænnar framtíðar.

Innri áherslur

IMG_5515

Velferð og vistvænar samgöngur

Stigin voru enn markvissari skref á árinu til að styðja við markmið um velferð starfsfólks. Unnið var áfram samkvæmt fjarvinnustefnu með það að markmiði að auka sveigjanleika í þeim störfum þar sem það er mögulegt. Sálfræðiþjónusta til starfsmanna var efld frá fyrra ári og boðið upp á sérstaka ráðgjöf hjá markþjálfa til starfsfólks vegna langvarandi álags og streitutengdra vandamála. Heilsuvísitala starfsfólks lækkaði aðeins á milli ára sem skýrist af hversu hátt hlutfall starfsfólks veiktist af covid-19 fyrri hluta árs 2022. Yfirvinnutölur lækkuðu aðeins á milli ára og áfram verður unnið að því að draga úr yfirvinnu eins og kostur er.

 

RÚV býður starfsfólki sínu upp á íþróttastyrk og starfsfólk er hvatt til að gera samgöngusamning um vistvænar samgöngur.

Hugað var að hreyfingartengdum heilsuviðburðum; þátttöku í Lífshlaupinu, Hjólað í vinnuna og átakinu Syndum. Hvatt var til þátttöku og hvatningarverðlaun veitt. RÚVurum var boðið í spinning undir öruggri stjórn tónlistarstjórans Sigga Gunn og einnig var hlaupið saman við nokkur tilefni. Verulegar endurbætur voru gerðar á aðstöðu fyrir starfsfólk sem kemur hjólandi til vinnu. Til að styðja við markmið um vistvænar samgöngur er boðið upp á hjólastillingar og yfirferð hjóla á vorin.

Nudd á vinnutíma hefur fest sig í sessi og  RÚVarar héldu áfram að njóta hinnar rjúkandi fargufu sem hefur verið vinsæll viðburður; sambland af sauna og sjóbaði.

ma_20221031_005494

Fræðsla og ferlar

Fræðslufundir voru á dagskrá á árinu sem fjölluðu um velferðartengd efni, svo sem vinnuaðstöðu og áhrif á stoðkerfi, langtímaárangur og markmiðasetningu er varðar heilsu, húmor og jákvæð samskipti.

Ferlar í eineltis- og áreitnimálum voru uppfærðir líkt og gert er ráð fyrir með árlegri endurskoðun og fræðsluerindi á dagskrá um birtingarmyndir og viðbrögð við einelti og áreitni á vinnustað. Viðhorf starfsfólks til margra þátta í vinnuumhverfinu voru greind í viðhorfskönnun í loks árs og unnin verða úrbótaverkefni í framhaldi af þeim niðurstöðum. Hlutfall starfsfólks sem nýtir íþróttastyrk: 56% – Hlutfall starfsfólks sem nýtir samgöngustyrk: 37%.

fr_20200908_143503

Umhverfis- og loftlagsstefna RÚV

Umhverfis- og loftlagsstefna RÚV var lögð fram og samþykkt í febrúar 2022. Ríkisútvarpið ætlar að minnka losun gróðurhúsalofttegunda á hvert stöðugildi um sem nemur 30% fyrir árið 2030, miðað við losun ársins 2019. Það þýðir að árið 2030 má losun RÚV ekki fara yfir 200 tonn af koltvísýringsígildum.   Árið 2022 var losun vegna starfsemi RÚV samtals tæp 300 tonn af koltvísýringsígildum, hafði aukist um 42 tonn frá fyrra ári.

Umhverfis- og loftslagsnefnd skilaði aðgerðaáætlun vegna stefnu RÚV fyrir árin 2022-2026. Liður í þeirri áætlun var að uppfylla þrjú fyrstu grænu skref Umhverfisstofnunar. Auk þess tók RÚV upp loftslagsbókhald sem hugbúnaðarfyrirtækið Klappir heldur utan um. Fyrirtækið sérhæfir sig í stafrænni umhverfisstjórnun og bókhaldið gerir kleift að fylgjast með losun RÚV á nokkrum sviðum, því sem næst í rauntíma. Ríkisútvarpið leggur sitt af mörkum til kolefnisbindingar í gegnum mismunandi verkefni, en þó ríkir meðvitund um að slíkt framlag bætir ekki það tjón sem losun RÚV veldur og réttlætir ekki að slegið sé slöku við í að draga úr losun.

grill1

RÚVara lífið

Lífið á RÚV lifnaði aftur við eftir að samkomureglum var aflétt í upphafi árs 2022. Starfsmannasamtökin buðu upp á ýmsa viðburði á árinu; spurningakeppnir, haustgleði, aðventugleði og loks var hægt að halda jólaball aftur í stúdíó A og var það vel sótt fjölskylduskemmtun. Einnig var haldinn fjölskyldudagur í samstarfi við RÚV um vorið. Golfklúbbur RÚV var einnig virkur og þrjú vel sótt golfmót haldin um sumarið.

ma_20221031_005511

Þróun þekkingar

Lögð er áhersla að byggja upp hæfni og styrkja starfsfólk í fjölbreyttum hlutverkum innan RÚV. Starfsmannasamtöl eru notuð fyrir endurgjöf og sem vettvangur til að ræða starfsþróun. Starfsfólk allt styður við mikilvægt hlutverk almannaþjónustumiðils sem rýnir samfélagið, segir mikilvægar sögur og þróar nýjar leiðir til miðlunar.

Chanel Björk

Alls voru 50 fræðslu- og upplýsingafundir á árinu. Haldið var áfram með þróun rafræns fræðslukerfis þar sem starfsfólki gefst kostur á að sækja fræðsluefni þegar því hentar best og í boði eru fjölmörg stutt og hnitmiðuð námskeið. Kerfið er mikilvæg upplýsingaveita til starfsfólks um ýmis mannauðstengd mál og gegnir einnig þýðingarmiklu hlutverki í nýliðaþjálfun.

 

Lagt er kapp á að bjóða upp á sem flest fræðsluerindi á fjarfundum. Örfundir um málfar voru haldnir reglulega yfir árið og lögð var áhersla á fræðslu um fjölbreytileika og jafnrétti. Einnig voru sérhæfð námskeið í boði bæði fyrir stjórnendur og starfsfólk, til dæmis vel sótt námskeið um röddina sem atvinnutæki.

 

Náms- og kynnisferð var farin til Finnlands þar sem ríkissjónvarpið YLE var heimsótt og starfsfólk fékk tækifæri til að kynnast því starfi sem þar er unnið og mynda tengingar við finnska kollega. Þegar heim var komið var gerð ítarleg samantekt á því sem hæst bar í námsferðinni og getur nýst í starfi á RÚV.

Oodi

Umbætur

Starfsánægja og líðan hefur verið greind árlega með nokkuð ítarlegri starfsumhverfiskönnun. Góður árangur hefur náðst í  mörgum þáttum og viðhorf starfsfólks til vinnustaðarins almennt jákvæð. Starfsánægja jókst á milli ára og sjálfstæði í starfi, skuldbinding, hollusta og stolt af vinnustaðnum eru sem fyrr helstu styrkleikar í viðhorfum starfsfólks.

Helstu umbótaþættir snúa að álagstengdum þáttum og samstarfi á milli sviða og eininga innan RÚV.

Varðveisla og miðlun íslenskrar tungu og menningar

Safnadeild RÚV

Safn Ríkisútvarpsins varðveitir sjónvarps- og útvarpsefni frá upphafi útsendinga árið 1930. Óhætt er að segja að Ríkisútvarpið hafi skráð nútímasögu þjóðarinnar og mikilvægur hluti þeirrar sögu er í safni RÚV. Þar á meðal eru sannkallaðar þjóðargersemar, þar sem efni af öllu tagi er varðveitt: upptökur af daglegu lífi Íslendinga á tímabilinu, upptökur frá stærstu viðburðum í sögu þjóðarinnar og aðrar ómetanlegar heimildir af merku fólki og merkum listviðburðum. Umfang efnisins er mikið og er unnið er að því jafnt og þétt að skrá það og yfirfæra á stafrænt form. Efni úr safni hefur í auknum mæli verið dagskrársett í línulegri dagskrá sjónvarps og í spilara og aðgengi þannig aukið að eldri upptökum í útvarpi og sjónvarpi.

Áfram var áhersla á skráningu og stafræna yfirfærslu á eldri segulböndum í geymslu, bæði tónlist og dagskrárefni. Merkt segulbönd eru nú skráð í gagnagrunn og skýrslur þeirra skannaðar inn. Þá var mikið af eldra efni frá Rás 2 gert leitarbært sem og eldri tónlistarbönd og hluti af lakkplötusafni Ríkisútvarpsins var skráður í gagnagrunn með hljóði. Fólk í starfsendurhæfingu og samfélagsþjónustu var fengið í hagnýt verkefni við skönnun á skýrslum með frétta- og dagskrárefni og starfsnemar í upplýsingatækni unnu hagnýt verkefni við skjalafrágang. Þá var gerður samstarfssamningur við sagnfræðideild HÍ og meistaranema LHÍ um nemendaverkefni í safni RÚV.

Sýning á sögu Ríkisútvarpsins á Markúsartorgi var tekin niður og varðveislusamningur gerður við Þjóðminjasafn Íslands um varðveislu á þekktum brúðum út Stundinni okkar. Vikulega voru sett brot úr safni á samfélagsmiðla og efni úr safni RÚV birtist reglulega á TikTok á vegum fréttastofu. Innslög með völdum brotum úr safninu voru hálfsmánaðarlega á dagskrá í Samfélaginu á Rás 1. Þá var gerður samningur við Kvikmyndasafn Íslands um að yfirfæra allar skráðar umatic-spólur á stafrænt form. Þjóðskjalasafn Íslands samþykkti skjalavistunaráætlun RÚV og undirbúningur hófst að innleiðingu á nýjum gagnagrunni þar sem gervigreind er í forgrunni.

Málfar

RÚV hefur ríkar skyldur við íslenskt mál og hefur sett sér málstefnu þar sem málrækt er í fyrirrúmi. Málfarsráðgjafar sinna yfirlestri og ráðgjöf og stuðla þannig að því að bæta íslenskufærni og auðga málfar starfsfólks. Daglegar ábendingar og fundir um málfar eru liður í þeirri starfsemi. Umfang yfirlestrar eykst ár frá ári. Málfarsráðunautur og málfarsráðgjafar sinna líka upplýsingagjöf og fræðslu um íslenskt mál í miðlum RÚV, þar á meðal í þættinum Orð af orði sem hefur verið á dagskrá Rásar 1 í hverri viku frá 2013. Auk þess tekur RÚV þátt í ýmsum samstarfsverkefnum sem tengjast verndun íslenskrar tungu svo sem máltækniáætlun stjórnvalda. Þá á RÚV fulltrúa í Íslenskri málnefnd.

Aðgengi

Aðgengi fatlaðs fólks að miðlum RÚV hefur verið aukið að mun, frá því að kórónuveirufaraldurinn braust út, til að tryggja sem best aðgang allra að upplýsingum sem varða allt íslenskt samfélag. Hægt er að fá íslenskan skjátexta með nær öllu íslensku sjónvarpsefni sem sýnt er í miðlum RÚV. Lagt er kapp á að hafa vef og öpp RÚV aðgengileg fyrir blint og sjónskert fólk. Helstu fréttum er varða almannaheill er einnig miðlað með auðskildum texta sem hentar fólki með þroskahömlun. Á árinu var byrjað að túlka aðalfréttatíma sjónvarps og Krakkafréttir á táknmál og þjónusta á táknmáli var þannig aukin til mikilla muna. Á árinu var einnig hætt að senda út sérstaka táknmálsfréttatíma. Vinna er hafin við gerð aðgengisstefnu fyrir RÚV og í því skyni hefur meðal annars verið leitað til hagsmunasamtaka fatlaðs fólks til að meta þarfir þess hvað aðgengismál snertir.

 

RÚV English og RÚV Polski

Þjónusta RÚV English hefur aukist jafnt og þetta og þjónustan RÚV Polski bæst við. Það er enda mikilvægt að miðla upplýsingum er varða þjóðina til allra landsmanna, líka þeirra sem hafa ekki fullt vald á íslensku. RÚV English birtir fréttir á ensku og heldur úti vikulegum spjallþætti, The Week in Iceland, um fréttir liðinnar viku á Íslandi á RÚV.is/english. RÚV Polski birtir fréttir af íslensku samfélagi á RÚV.is/polski. RÚV English sér um þýðingar á völdu íslensku sjónvarpsefni sem birtist með texta á RÚV 2 og í spilurum RÚV. Þá hélt verkefnastjóri RÚV English utan um þýðingar á pólsku og túlkun á borgarafundum og upplýsingafundum á pólsku.

Mannauður

254

Meðalfjöldi stöðugilda

44ár

Meðalaldur starfsfólks

10ár

Meðalstarfsaldur starfsfólks

48%

Hlutfall kvenna í hópi starfsmanna

Starfsfólk og jafnrétti

FJÖLBREYTTUR STARFSHÓPUR

Hjá RÚV starfar kraftmikill og fjölbreyttur hópur fólks sem vinnur verk sín af lífi og sál og er stolt af starfi sínu.  Það er stefna RÚV að skapa sveigjanlegt starfsumhverfi sem laðar að hæfasta starfsfólkið á sérhverju sviði. Velferð, vellíðan og öryggi starfsfólks er í forgrunni á vinnustaðnum.

 

FÓLKIÐ

Árið 2022 störfuðu 276 manns að meðaltali á RÚV í 254 stöðugildum. Starfsmannavelta jókst frá fyrra ári og var rétt um 11%, að meðtöldu því starfsfólki sem fór á eftirlaun. Mun fleiri nýráðningar voru á árinu en þær jukust um 65% á milli ára. Mikill áhugi er á störfum hjá RÚV og alls bárust 1325 umsóknir um auglýst störf. Lögð er áhersla á að taka vel á móti nýju starfsfólki og könnuð er líðan og aðlögun þeirra í nýliðasamtölum. Starfað er eftir stefnu um að auka fjölbreytileika í starfshópnum, jafna kynjahlutföll og á árinu jókst fjölbreytni m.t.t. þjóðerna nýliða. Í hópi nýliða blandast eldra reynslumikið fólk við yngra starfsfólk. Aldursdreifing starfsfólks er nokkuð jöfn en meðalaldurinn er 43,5 ár.

JAFNVÆGI MILLI KYNJA Í DAGSKRÁ RÚV 2022

Hlutfall kynjanna í dagskrá RÚV, utan frétta, var nánast jafnt, 51% konur og 49% karlar. Séu eingöngu fréttatímar og fréttatengdir þættir teknir saman er hlutfall viðmælenda 43% konur og 57% karlar. Búið er að víkka út þessa talningu í takt við stefnu RÚV í jafnréttismálum og frá 1. október bættist valmöguleikinn kynsegin/annað við þessa skráningu. Gert er ráð fyrir að ítarlegri greining verði opinberuð eftir fyrsta ársfjórðung 2023.

RÚV hefur markvisst staðið fyrir ýmsum aðgerðum til að hvetja konur til þátttöku á sviðum þar sem þær hafa ekki verið jafnar körlum, m.a. með  námskeiði í hagnýtri viðmælendaþjálfun í samvinnu við Félag kvenna í atvinnulífinu. Námskeiðið er fyrst og fremst hugsað til að auka fjölbreytni viðmælenda í íslenskum fjölmiðlum og bæta um leið aðgang fjölmiðlafólks að konum.

Viðhorf og heilsa

96%

Heilsuvísitala starfsfólks

4,0

Viðhorf til jafnréttismála

4,3

Starfsánægja

4,2

Stolt og ímynd

*Einkunn á bilinu 0-5 í viðhorfskönnun starfsmanna