Í upphafi ársins 2022....
02.01.2022

Vel heppnað Áramótaskaup og Krakkaskaup

Áramótaskaupið er ómissandi endapunktur sjónvarpsársins hjá RÚV. Einvalalið leikara og skemmtikrafta rýndi í fréttir, viðburði og uppákomur ársins. Höfundar Áramótaskaupsins voru Bergur Ebbi, Gagga Jónsdóttir, Hugleikur Dagsson, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Lóa Hjálmtýsdóttir og Vilhelm Neto. Leikstjóri var Reynir Lyngdal og framleiðsla í höndum Republik. Krakkaskaupið í umsjón Berglindar Öldu Ástþórsdóttur og Mikaels Emils Kaaber fékk líka góðar viðtökur. Í Krakkaskaupinu voru vel valin innsend atriði frá krökkum í bland við skemmtileg atriði frá Mikka og Beggu.

11.01.2022

MENNINGARVIÐURKENNINGAR RÚV 2021

Menningarviðurkenningar RÚV fyrir árið 2021 voru kynntar 6. janúar. Faraldurinn stóð í vegi fyrir því að hægt væri að halda viðburðinn í Útvarpshúsinu og færðist þess í stað yfir í beina útsendingu á Rás 1. Kristín Helga Gunnarsdóttir hlaut viðurkenningu Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins fyrir ritstörf. Í rökstuðningi úthlutunarnefndar segir meðal annars: „Hún hefur verið mikilvirk á ritvellinum og útgefin skáldverk hennar eru nú komin á fjórða tug og hafa notið mikilla vinsælda. Tónlistarkonan Bríet hlaut Krókinn 2021 - viðurkenningu Rásar 2, fyrir framúrskarandi tónlistarflutning á árinu.

14.01.2022

Metáhorf á Verbúðina í spilara RÚV

Verbúðin fór vel af stað og fjórði hver Íslendingur sat við skjáinn á sunnudagskvöldum og horfði á þættina, samkvæmt rafrænum áhorfsmælingum Gallups. Yfir 100.000 manns horfðu daginn eftir á fyrsta þáttinn í Spilara RÚV, samkvæmt mælingum á vefstreymi. Fyrsti þáttur Verbúðarinnar sló þannig áhorfsmet í Spilaranum og línulegt áhorf jókst með hverjum þætti. Verbúðin var sýnd á RÚV 2 samtímis með enskum texta en það er þjónusta sem þúsundir nýttu sér.

19.01.2022

Auglýst eftir fréttastjóra og dagskrárstjóra Rásar 2

Þann 19. janúar voru auglýstar stöður fréttastjóra RÚV og dagskrárstjóra Rásar 2. Leitað var að fréttastjóra til að leiða fréttastofu Ríkisútvarpsins og bera ábyrgð á fréttaflutningi í sjónvarpi, útvarpi og á vefnum. Einnig var auglýst eftir dagskrárstjóra til að leiða Rás 2 og bera ábyrgð ritstjórn og dagskrárgerð rásarinnar.

21.01.2022

Magnaður árangur og mikið áhorf á EM í handbolta

Strákarnir okkar stóðu sig með stakri prýði á EM í handbolta þrátt fyrir að margir leikmenn hefi dottið úr hópnum vegna covid. Ljóst er að handboltinn er aftur orðinn að þjóðaríþrótt Íslendinga. Meirihluti landsmanna horfði á leiki Íslands við Ólympíumeistara Frakklands eða 58% samkvæmt tölum frá Gallup.

26.01.2022

RÚV starfar á neyðarstigi í samræmi við viðbragðsáætlun

Starfsemi RÚV í janúar 2022 var hólfaskipt og fleiri ráðstafanir gerðar til að tryggja órofinn rekstur. Margir starfsmenn RÚV smituðust af covid í byrjun ársins. Ekki skapaðist alvarleg staða vegna smita þó dagskrá hafi raskast í einhverjum tilvikum.

09.02.2022

Viðmælendagreining 2021

Skráning á kynjahlutfalli viðmælenda er birt opinberlega á þriggja mánaða fresti til samræmis við stefnu RÚV í jafnréttismálum. Árið 2021 var hlutfall kvenna sem viðmælendur í dagskrá og fréttum 43% og karla 57%. Í dagskrá utan frétta var hlutfall kvenna 49% og karla 51% viðmælenda.

14.02.2022

Jafnlaunavottun RÚV endurnýjuð

Jafnlaunavottun RÚV var endurnýjuð í febrúar. RÚV náði þeim jafnlaunamarkmiðum að launamunur sé innan við 2%. Jafnlaunakerfi RÚV uppfyllir áfram þær kröfur sem tilgreindar eru í staðlinum 85:2012.

16.02.2022

Samningur við Myndstef undirritaður

Þann 16. febrúar var nýr samningur við Myndstef undirritaður, en Myndstef og RÚV gerðu fyrst með sér samning árið 1996 vegna notkunar höfundavarinna myndverka við dagskrárgerð hjá RÚV. Samningurinn hafði lítið sem ekkert breyst frá árinu 1999 og því var orðið tímabært að uppfæra hann. Þessi nýi samningur er ólíkur eldri samningi að því leyti að um er að ræða svokallaðan samningskvaðasamning, sem Myndstef hefur heimild til að gera þar sem samtökin hafa viðurkenningu menningar- og viðskiptaráðuneytis. RÚV fagnar þessum samningi sem greiðir án efa fyrir notkun íslenskra myndverka í dagskrárgerð í miðlun RÚV og tryggir að höfundum verði greitt fyrir notin.

16.02.2022

Ráðið í störf fréttastjóra RÚV og dagskrárstjóra Rásar 2

Tilkynnt var um ráðningu fréttastjóra RÚV og dagskrárstjóra Rásar 2 þann 16. febrúar. Heiðar Örn Sigurfinnsson var ráðinn í starf fréttastjóra Ríkisútvarpsins og Matthías Már Magnússon í starf dagskrárstjóra Rásar 2. Störfin voru auglýst um miðjan janúar. Hagvangur annaðist ráðningarferlið sem var vandað og ítarlegt.

20.02.2022

Þóra Arnórsdóttir fékk stöðu sakbornings

Stefán Eiríksson útvarpsstjóri og Heiðar Örn Sigurfinnsson fréttastjóri sendu frá sér tilkynningu 20. febrúar. Þóra Arnórsdóttir, ritstjóri Kveiks, auk annarra blaðamanna, fengu stöðu sakbornings við rannsókn lögreglunnar á Norðurlandi eystra í tengslum við umfjöllun um Samherja og stjórnendur og starfsmenn fyrirtækisins. Á þeim tímapunkti, þegar mörg atriði í tengslum við rannsókn málsins voru óljós og til nánari skoðunar hjá héraðsdómi, þótti þeim engu að síður mikilvægt að horfa til eftirfarandi grundvallarsjónarmiða: Forsenda fyrir því að fjölmiðlar geti rækt hlutverk sitt er að þeir geti aflað upplýsinga um mál sem hafa þýðingu fyrir almenning og miðlað þeim án afskipta annarra. Einn þáttur í þessu sjálfstæði fjölmiðla er að þeir geti tekið við slíkum upplýsingum í trúnaði án þess að þurfa að gera grein fyrir hvaðan eða frá hverjum þær stafi, líkt og staðfest hefur verið í dómum Hæstaréttar og dómum Mannréttindadómstóls Evrópu. Þá er ljóst að hafi gögn að geyma efni, sem eiga erindi til almennings og varða mál, sem styr hefur staðið um í þjóðfélaginu, er fjölmiðlum rétt að fjalla um slíkt, jafnvel þótt um sé t.d. að ræða einkagögn sem fjölmiðlum eru fengin. Ríkisútvarpið og starfsmenn þess hafa þessi sjónarmið að leiðarljósi í sínum störfum, enda grundvallarþáttur í lýðræðisþjóðfélagi, sem virða verður í hvívetna.

08.03.2022

Tvö verkefni RÚV í nýrri handbók EBU

Í byrjun mars var handbók DEI (Diversity, Equity and Inclusion) stýrihóps EBU gefin út og birt á heimasíðu EBU. Tvö verkefni frá RÚV rötuðu í handbókina – þáttaröðin Með okkar augum annars vegar og jafnlaunavottun og vinna RÚV í jafnlaunamálum hins vegar. Handbók DEI-stýrihópsins beinir kastljósinu að framúrskarandi verkefnum á þessu sviði frá tugum EBU-félaga um allan heim. Efni hennar er ætlað að veita innblástur og sýna hvernig fjölmiðlastofnanir í almannaþjónustu gera fjölbreytileika, jöfnuð og breiða þátttöku að forgangsverkefni. DEI-handbókin er hér.

10.03.2022

Bláfjallasalur opnaður á ný

Fimmtudaginn 10. mars opnaði Bláfjallasalur, matsalur Ríkisútvarpsins við Efstaleiti, á ný eftir endurbætur. Matsalurinn hafði einnig verið lokaður í faraldrinum og starfsfólk fékk matarbakka á starfsstöðvar sínar í lokuðum hólfum.

10.03.2022

Aðgengisnefnd RÚV sett á laggirnar

Þann 10. mars var skipað í aðgengisnefnd RÚV og um leið gefin út aðgengisstefna Ríkisútvarpsins. Í aðgengisstefnunni er lögð áhersla á þrjá meginþætti: aðgengi að miðlum; aðgengi í og við Útvarpshúsið, aðrar starfsstöðvar RÚV og á viðburðum á vegum þess; og að fjölbreytileikinn í samfélaginu endurspeglist í miðlum RÚV. Nefndina skipa Anna Lilja Þórisdóttir, Gísli Þórmar Snæbjörnsson, Helga Ólafsdóttir og Anna Sigríður Þráinsdóttir, sem stýrir starfi nefndarinnar. Jafnframt starfar með nefndinni Atli Sigþórsson, verkefnisstjóri aðgengis og fjölbreytileika hjá RÚV. Aðgengisstefna RÚV er hér.

12.03.2022

Systurnar Sigga, Beta og Elín sigruðu Söngvakepnina

Með hækkandi sól í flutningi systranna Sigríðar, Elísabetar og Elínar Eyþórsdætra sigruðu í Söngvakeppninni 2022. Höfundur lagsins er Lovísa Elísabet Sigrúnardóttir sem landsmenn þekkja betur sem LayLow. Fimm lög tóku þátt í úrslitum Söngvakeppninnar. Tvö þeirra komust í úrslitaeinvígið: Með hækkandi sól með Systrum og Turn This Around með Reykjavíkurdætrum.

17.03.2022

Kosningaumfjöllun RÚV

Undirbúningur að umfjöllun RÚV fyrir sveitarstjórnarkosningar 2022 hófst um miðjan mars. Ákveðið var að hafa kosningaumfjöllun á sérstökum kosningavef, í sjónvarpi, útvarpi og hlaðvarpi. Kosningaumfjöllun RÚV hófst í apríl þegar fyrsti þáttur kosningahlaðvarpsins fór í loftið. Kosningaumfjöllun RÚV var sem hér segir:  Kosningavefur RÚV opnaður um miðjan apríl. Umræðuþáttur í sjónvarpi með oddvitum framboða í Reykjavík, 13. maí. Framboðsfundir á Rás 2 og RÚV.is með oddvitum framboða í mörgum stórum sveitarfélögum. Málefnaumræða í útvarpi í ýmsum þáttum á Rás 1 og Rás 2. Kosningahlaðvarp RÚV þar sem fjallað var um kosningamálin, og rætt við sérfræðinga, kjósendur og álitsgjafa. Fréttaskýringar í sjónvarpsfréttum um kosningamálin. Fræðslu- og skemmtiþættir í sjónvarpi, á ruv.is og samfélagsmiðlum fyrir yngri kjósendur. Kosningaumfjöllun á samfélagsmiðlum RÚV. Kosningavaka í sjónvarpi að kvöldi kjördags, 14. maí og kosningavakt á Rás 2. Oddvitar framboða sem náðu kjöri í borgarstjórn Reykjavíkur mættust í Silfrinu daginn eftir kjördag.

25.03.2022

Arnhildur og Þórdís tilnefndar til Blaðamannaverðlauna

Tilnefningar dómnefndar til Blaðamannaverðlauna Blaðamannafélags Íslands voru birtar þann 25. mars. Verðlaun voru veitt í fjórum flokkum og þrjár tilnefningar eru í hverjum flokki. Markmiðið með blaðamannadeginum 1. apríl er að „vekja athygli á mikilvægi blaðamennsku, vekja áhuga á fjölmiðlun og stéttinni og veita innsýn í það mikilvæga starf sem balðamenn vinna í þágu samfélagsins og lýðræðisins“ eins og segir í kynningu Blaðamannafélagsins. Fréttamenn RÚV fengu tvær tilnefningar; Þórdís Arnljótsdóttir fyrir umfjöllun ársins um jarðhræringar og eldgos í Fagradalsfjalli og Arnhildur Hálfdánardóttir í flokknum Blaðamannaverðlaun ársins fyrir umfjöllun um loftslagsmál í útvarpsþáttunum Loftslagsdæminu. Stundin og fréttastofa Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar fengu þrjár tilnefningarnar; Fréttablaðið tvær og Morgunblaðið og Kjarninn eina.

08.04.2022

Ný stjórn RÚV

Þann 8. apríl kaus Alþingi stjórn Ríkisútvarpsins, fjölmiðils í almannaþágu, til eins árs, að viðhafðri hlutfallskosningu, skv. 9. gr. laga nr. 23/123 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu. Í stjórn sitja Nanna Kristín Tryggvadóttir, Margrét Tryggvadóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir (formaður), Jón Ólafsson (varaformaður), Þráinn Óskarsson, Ingvar Smári Birgisson, Mörður Áslaugarson, Aron Ólafsson, Diljá Ámundadóttir Zoëga. Fulltrúi starfsmanna í stjórn RÚV er Hrafnhildur Halldórsdóttir.

12.04.2022

Þáttaröðin Vitjanir frumsýnd um páskana

Þáttaröðin Vitjanir var frumsýnd um páskana. Af öðrum dagskrárliðum má nefna upptöku frá 50 ára afmælistónleikum Páls Óskars, kvikmyndina Ölmu á föstudaginn langa og heimildarmyndina Milli fjalls og fjöru á skírdag. Hvunndagshetjur var einnig í sjónvarpinu um páskana, heimildarmynd um fjórar konur af erlendum uppruna sem hafa búið á Íslandi í 20 ár.

12.04.2022

Forvitnileg dagskrá á Rás 1 um páskana

Dagskrá Rásar 1 var að venju forvitnileg um páskana. Útvarpsleikritið Fjöldasamkoman á Gjögri eftir Hallveigu Kristínu Eiríksdóttur og Eygló Höskuldsdóttur Viborgvar var frumflutt í Útvarpsleikhúsinu. Boðið var upp á tónleika með Grammy-verðlaunahafanum Dísellu Lárusdóttur í Salnum og Elektra eftir Richard Strauss var flutt í beinni útsendingu frá Metrópolitan-óperunni í New York og fluttir voru tónleikar Stórsveitar Reykjavíkur, Gullöld sveiflunnar. Sigríður Jónsdóttir fjallaði um ævi, störf og arfleifð bandaríska söngleikjaskáldsins Stephen Sondheim í þáttunum Að klára hattinn og Jón Ársæll Þórðarson fjallaði um Jesú frá Nasaret í Syni smiðsins. Í þáttunum Á flótta heyrðum við sögur þeirra sem flýja til Íslands og í Þá var bara þögn fjallaði Melkorka Ólafsdóttir um Kvennaathvarfið. Neðanjarðar voru þættir um 33 námuverkamenn sem festust á 700 metra dýpi í námu í Chile árið 2010 í umsjón Sigurlínar Bjarneyjar Gísladóttur. Í þáttaröðinni Kerfinu í umsjón Guðmundar Pálssonar og Ágústs Ólafssonar var leitast við að draga upp mynd af íslenska kvótakerfinu. Árið 2022 var öld síðan Ódysseifur eftir James Joyce og Wasteland eða Eyðilandið eftir T.S. Eliot komu út. Í þáttaröðinni Óróapúls 1922 var fjallað um verkin, áhrif þeirra og tímann sem þau eru sprottin úr.

12.04.2022

Páskadagskrá Rásar 2 var fjölbreytt og skemmtileg

Matthías Már Magnússon var á Ísafirði og hlustendur Rásar 2 fengu „aldrei“-stemninguna beint í æð að vestan og spurningaþættirnir Nei hættu nú alveg! sneru aftur um páskana. Veitingamaðurinn og matarspekúlantinn Ólafur Örn Ólafsson skoðaði músík og mat, spjallaði við tónelska matgæðinga og stúderaði með þeim samhengi listar og lystar í þáttunum Músík og matur. Ólafur Páll Gunnarsson og Þorsteinn Hreggviðsson rýndu í kvikmyndina Rokk í Reykjavík og rifjuðu upp plötuna og tónlistina sem öllu breytti á Íslandi fyrir 40 árum.

12.04.2022

Siggi Gunnars ráðinn tónlistarstjóri Rásar 2

Þann 12. apríl var tilkynnt um ráðningu í stöðu tónlistarstjóra Rásar 2. Sigurður Þorri Gunnarsson var ráðinn í starfið en hann starfaði áður sem dagskrár- og tónlistarstjóri útvarpsstöðvarinnar K100. Starfið var auglýst í byrjun mars. Í rökstuðningi fyrir ráðningunni kom fram að Sigurður Þorri uppfyllti allar hæfniskröfur mjög vel og sér í lagi hefði hann til að bera menntun á sviði fjölmiðlafræði og útvarps ásamt því að búa yfir mikilli reynslu af dagskrárgerð og tónlistarstjórn.

27.04.2022

Aðalfundur RÚV 2022

Aðalfundur Ríkisútvarpsins var í Útvarpshúsinu Efstaleiti miðvikudaginn 27. apríl. Í ársreikningi kemur fram að reksturinn var jákvæður að nýju. „Árið 2021 var sannarlega viðburðaríkt í íslensku samfélagi. Allt árið glímdum við saman við heimsfaraldur og eldgos hófst á Reykjanesskaga í fyrsta sinn í 800 ár, svo ég nefni það helsta. Ríkisútvarpið gegnir dag hvern, og sérstaklega við slíkar aðstæður, ríku öryggishlutverki sem sinnt var með fjölbreyttum hætti,“ sagði Stefán Eiríksson útvarpsstjóri.

13.05.2022

Viðmælendagreining RÚV

Skráning á kynjahlutfalli viðmælenda er birt opinberlega á þriggja mánaða fresti til samræmis við stefnu RÚV í jafnréttismálum. Skráðir eru viðmælendur í fréttum og fréttatengdum þáttum og í reglubundnum innlendum þáttum í útvarpi og sjónvarpi. Talning sem þessi gefur ekki heildarmynd af hlutfalli karla og kvenna í dagskránni en hún er mikilvægur liður í því að mæla hver staðan og þróunin er. Hlutfall kynjanna í dagskrá RÚV á fyrsta ársfjórðungi 2022, utan frétta, var nánast jafnt, 48% karlar og 52% konur. Með kynjajafnvægi í dagskrá sker RÚV sig frá flestum miðlum hérlendis og erlendis. Séu eingöngu fréttatímar og fréttatengdir þættir teknir saman er hlutfall viðmælenda 60% karlar og 40% konur.   

13.05.2022

Eurovision og kosningar á RÚV og RÚV 2

Laugardagugurinn 14. maí var stór sjónvarpsdagur hjá RÚV. Þann dag var bein útsending frá úrslitum Eurovision í Tórínó og kosningavaka sveitarstjórnarkosninganna 2022. Kosningavakan hófst í sjónvarpinu áður en úrslit Eurovision lágu fyrir en Eurovision-útsendingin færðist yfir á RÚV 2 þegar kosningavakan hófst. Eurovision-keppnin var táknmálstúlkuð á RÚV.is.

14.05.2022

Systur geisluðu á stóra sviðinu í Tórínó

Framlag Íslands í Eurovision, Með hækkandi sól, í flutningi Systra hafnaði í 23. sæti af 25 atriðum. Kalush Orchestra frá Úkraínu bar sigur úr býtum með laginu Stefania. Úkraína fékk alls 631 stig. Þetta er í þriðja sinn sem Úkraína vinnur keppnina, fyrst árið 2004, þá 2016 og svo nú árið 2022.  

20.06.2022

Nýjar siðareglur RÚV

Nýjar siðareglur Ríkisútvarpsins tóku gildi í júní, en þær eru afrakstur yfirferðar og endurskoðunar á eldri reglum. Þjónustusamningur menningarmálaráðherra og RÚV gerir ráð fyrir að siðareglurnar séu endurskoðaðar reglulega. Þær fela í sér viðmið um hátterni starfsfólks Ríkisútvarpsins og tilgangur þeirra er að efla fagleg vinnubrögð og auka traust á starfsemina. Í reglunum er fjallað um grunngildi Ríkisútvarpsins og starfsfólk þess, heilindi, hagsmunaárekstra, starfsumhverfi, jafnrétti, einelti, ofbeldi, samfélag og umhverfið. Gætt hefur verið að samræmi milli siðareglna og annarra reglna sem gilda um starfsemi Ríkisútvarpsins, þar á meðal reglna um fréttir og dagskrárefni tengt þeim og reglna um meðferð athugasemda og kvartana sem einnig hafa verið endurskoðaðar. Siðareglurnar má sjá hér.  

22.06.2022

Breytingar í framkvæmdastjórn

Hildur Sigurðardóttir mannauðsstjóri hefur tekið sæti í framkvæmdastjórn RÚV samkvæmt ákvörðun útvarpsstjóra sem liður í því að auka áherslu á mannauðsmál, jafnréttismál, fjölbreytileika og til að undirbúa innleiðingu nýrrar stefnu Ríkisútvarpsins.

29.06.2022

Útvarpsstjóri stýrði pallborðsumræðum á aðalfundi EBU

Stefán Eiríksson útvarpsstjóri stýrði pallborðsumræðum á aðalfundi EBU, Samtökum almannaþjónustumiðla í Evrópu, í Króatíu í lok júní. Til umfjöllunar voru þær áskoranir sem stjórnendur standa frammi fyrir og hvernig takast eigi á við þær og leiða breytingar. Umræðurnar hófust með inngangserindi Martins Reeves, sem er stjórnarformaður BCG Henderson Institute í Bandaríkjunum og stjórnunarráðgjafi með meiru. Aðrir þátttakendur voru Frederieke Leeflang frá NPO í Hollandi, Luisa Ribeiro frá RTP í Portúgal og Katja Wildermuth útvarpsstjóri Bayerischer Rundfunk í Þýsklandi. Sérstök umræða var einnig um hlutverk almannaþjónustumiðla í fréttaflutningi af stríðsátökum, þar sem stríðið í Úkraínu var að sjálfsögðu í forgrunni. Fréttastjóri UA:PBC í Úkraínu, Angelina Kariakina, tók þátt í umræðunum í gegnum fjarfundabúnað frá Kænugarði. Þá var einnig rætt um framtíð almannaþjónustumiðla þar sem Hanna Stjärne útvarpsstjóri SVT í Svíþjóð ræddi við Tim Davie útvarpsstjóra breska ríkisútvarpsins BBC.

05.07.2022

Margrét Jónasdóttir nýr aðstoðardagskrárstjóri RÚV

Margrét Jónasdóttir var ráðin í starf aðstoðardagskrárstjóra RÚV og hefur faglega umsjón með innkaupum og framleiðslu á heimildaefni ásamt því að leiða hugmyndavinnu, þróun, stefnumótun og gæðaeftirliti með öllu heimildaefni fyrir sjónvarp í samstarfi við dagskrárstjóra sjónvarps.

21.07.2022

Áhorfsmet á EM kvenna

Leikur Íslands og Frakklands 18. júlí sló áhorfsmet samkvæmt bráðabirgðatölum frá Gallup. Áhugi á kvennafótbolta hefur aldrei verið meiri. Áhorfið mældist 63% uppsafnað en fyrra metið var á móti sömu andstæðingum á EM 2017 á sama degi, 18. júlí en þá horfðu 58% landsmanna á leik Íslands og Frakklands á EM í fótbolta.

03.08.2022

Eldgos hófst á Reykjanesskaga

Eldgos hófst á ný í Meradölum 3. ágúst 2022 eftir mikla skjálftavirkni dagana á undan. Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir fréttamaður, Guðmundur Bergkvist og Kristinn Þeyr Magnússon myndatökumenn voru með þeim fyrstu á vettvang. Bragi Valgeirsson, tökumaður og Sigríður Hagalín Björnsdóttir komust einnig fljótlega að gosstöðvunum á jeppa sem þau keyrðu eftir mjög torfærum slóða.

20.08.2022

Tónaflóð - Menningarnæturtónleikar 2022

Bein útsending á RÚV og Rás 1 var frá hátíðartónleikum Rásar 2 við Arnarhól í tilefni Menningarnætur eftir sem haldin var eftir þriggja ára hlé. Nokkrar stærstu stjörnur íslenska tónlistarbransans stigu á svið og léku lög sín þar til dagskránni lauk með glæsilegri flugeldasýningu. Þau sem komu fram á Arnarhóli að þessu sinni voru BRÍET, KK Band, Unsteinn, FLOTT, Kusk og Óviti, gugusar og Daniil. Tónleikarnir voru virkilega vel sóttir en einnig var hægt að fylgjast með þeim í beinni útsendingu á RÚV og Rás 2.

29.08.2022

Viðmælendagreining RÚV fyrir fyrrihluta 2022

Starfsfólk RÚV hefur í huga að álitsgjafar, bæði sérfræðingar og almenningur, um hin ýmsu málefni, hvort sem það eru þjóðmál, menningarmál eða afþreying, séu af öllum kynjum, á mismunandi aldri, af mismunandi þjóðernum og með margvíslegt líkamlegt atgervi, til dæmis með hvers kyns sýnilega fötlun. Það er í samræmi við aðgengisstefnu RÚV. Hlutfall karla og kvenna í dagskrá RÚV, utan frétta, var nánast jafnt á fyrri hluta þessa árs, 49% karlar og 51% konur. Með kynjajafnvægi í dagskrá sker RÚV sig frá flestum miðlum hérlendis og erlendis. Séu eingöngu fréttatímar og fréttatengdir þættir teknir saman er hlutfall viðmælenda 58% karlar og 42% konur. Tölurnar hafa þróast í átt til jafnvægis frá því að mælingar hófust og er nokkur munur á milli ára.

01.09.2022

Höfundar Áramótaskaupsins 2022

Nýtt teymi handritshöfunda hóf sumarið 2022 að skrifa Áramótaskaupið. Óhætt er að segja að þar sé valinn gleðigjafi í hverju rúmi, ferskur og fjölbreyttur hópur höfunda með fjölbreytta og farsæla reynslu af að semja og flytja grín af öllum toga sem hvívetna hefur fallið í kramið. Yfirhöfundur var Saga Garðarsdóttir og meðhöfundar hennar Friðgeir Einarsson, Vigdís Hafliðadóttir og Jóhann Kristófer Stefánsson. Leikstjóri og meðhöfundur var Dóra Jóhannsdóttir sem leiddi höfundahóp Skaupsins 2017 og 2019. Framleiðandi og meðhöfundur var Sigurjón Kjartansson. Nýstofnað framleiðslufyrirtæki Sigurjóns, S800, framleiddi Skaupið sem var fyrsta verkefni fyrirtækisins.

01.09.2022

Samgöngustyrkur til starfsfólks RÚV

Ákveðið var að bregðast við áskorun frá umhverfis- og loftslagsnefnd RÚV um að hækka samgöngustyrk til starfsfólks sem nýtir vistvænan samgöngumáta til og frá vinnu. Frá og með 1. september hækkar styrkurinn í 9000 kr. (var áður 6000). Á sama tíma urðu skilyrði samnings þau að til að uppfylla samning um vistvænar samgöngur þarf starfsmaður  að ferðast fjóra daga af fimm (80%) með vistvænum hætti til og frá vinnu í stað þriggja daga áður (60%).

02.09.2022

Klassíkin okkar í sjöunda sinn

Í sjöunda sinn efndu Sinfóníuhljómsveit Íslands og RÚV til glæsilegra tónleika í beinni sjónvarpsútsendingu undir yfirskriftinni Klassíkin okkar, en þeir hafa notið mikilla vinsælda og eru ómissandi hluti af tónleikaárinu. Í þetta sinn var athyglinni beint að einleikskonsertinum og spannaði litrík efnisskráin fjölda vinsælla og hrífandi konsertkafla frá ýmsum tímum. Tónleikarnir báru að þessu sinni yfirskriftina Einleikaraveisla. Hljómsveitarstjóri var Daníel Bjarnason. Kynnar kvöldsins voru sem fyrr Halla Oddný Magnúsdóttir og Guðni Tómasson.

16.09.2022

Wyspa, nýtt fréttahlaðvarp á pólsku

Hlaðvarpsþátturinn Wyspa hóf göngu sína í september. Wyspa er þáttur sem kemur vikulega inn í spilara RÚV og á hlaðvarpsveitur. Í þættinum er farið yfir helstu fréttir vikunnar á Íslandi á pólsku. Einnig er rætt við áhugavert pólskumælandi fólk í þættinum sem býr á Íslandi eða hefur tengingu við Ísland. Umsjón með þættinum hefur Margrét Adamsdóttir.

22.09.2022

Útvarpsþing RÚV 2022

Fimmtudaginn 22. september var ný stefna RÚV til ársins 2026 kynnt á útvarpsþingi Ríkisútvarpsins undir yfirskriftinni RÚV okkar allra – fyrir þig. Á þinginu var stefna Ríkisútvarpsins til næstu ára ásamt framtíðarsýn og stefnuáherslum kynnt. Öflugir erlendir fyrirlesarar dýpkuðu umfjöllun um helstu áhersluatriðin í stefnu RÚV á þinginu. Sandy French, fréttastjóri DR fjallaði um mikilvægi almannaþjónustumiðla í fréttaþjónustu, stafræna stefnu DR, og birtingarmynd hennar á samfélagsmiðlum og hvernig almannaþjónustumiðlar og einkamiðlar geta starfað samhliða. Francesca Scott, sérfræðingur EBU á sviði fjölbreytileika, jafnræðis og þátttöku, fjallaði um mikilvægi þess að auka fjölbreytileika og jafnræði í fjölmiðlum. Olivier van Duüren, stjórnunarráðgjafi hjá The Dualarity, fjallaði um stjórnun stafrænna breytinga og hvernig tryggja megi árangur í hröðu umbreytingaferli. Að erindum loknum voru pallborðsumræður.

22.09.2022

Stefna RÚV til 2026

RÚV hefur fylgt þjóðinni í meira en 90 ár og gegnir mikilvægara hlutverki en nokkru sinni fyrr. Fjölmiðlanotkun hefur tekið stakkaskiptum, bæði hvað varðar fréttir, fræðslu og afþreyingu. RÚV er allt í senn förunautur íslensku þjóðarinnar, háskóli alþýðunnar og uppspretta skemmtunar og fróðleiks sem tengir þjóðir og einstaklinga í skilningi og friði, er vettvangur heilbrigðra skoðanaskipta, leiksvið margra lista, verkstæði fjölbreyttra framkvæmda og staður stórra drauma. Styrkur RÚV í samtímanum liggur ekki síst í því að hvert og eitt okkar hefur vaxandi möguleika á að stýra samsetningu dagskrár eftir eigin áhugasviði og tíma. Þess vegna tekur nýtt kjörorð einstaklinginn inn í myndina - sem er kjarninn í starfseminni. Markmiðið er að RÚV fylgi þér jafnt í daglegu amstri sem á þínum bestu stundum. Stefna Ríkisútvarpsins er í senn skýr, aðgengileg og metnaðarfull. Þar er hlutverk RÚV skilgreint sem og þau gildi sem starfað er eftir, stefnuáherslur og framtíðarsýn. Hér má sjá stefnu RÚV.

06.10.2022

Edduverðlaunin 2022

Edduverðlaunin voru haldin við hátíðilega athöfn í Háskólabíói eftir tveggja ára hlé vegna covid. Árið 2021 var metár í útkomu leikins sjónvarpsefnis og kvikmynda í fullri lengd en aldrei hafa jafn mörg verk komið til sýninga á einu ári í sögu íslenskrar sjónvarps- og kvikmyndagerðar. Vikan með Gísla Marteini var valinn skemmtiþáttur ársins og Salóme Þorkelsdóttir fékk Edduverðlaun fyrir upptöku- eða útsendingastjórn ársins.

18.10.2022

Hugmyndadagar RÚV fara fram í tíunda sinn

Hugmyndadagar RÚV fara fram tvisvar á ári og voru fyrst haldnir í október 2017. Þar gefst hugmyndasmiðum, höfundum, framleiðendum og öðrum  kostur á að kynna hugmyndir og tillögur að dagskrárefni fyrir dagskrárdeildum RÚV. Yfir 2200 hugmyndir hafa borist Hugmyndadögum frá upphafi, um 550 hópar og einstaklingar verið boðaðir á fund í Efstaleiti eða á Teams til að kynna tillögur sínar nánar og um 100 verkefni hafa þegar orðið að veruleika, eru í þróun eða í frekari skoðun. Markmiðið er að auka enn á fjölbreytni í dagskrárframboði RÚV, opna hugmyndaþróunina og styrkja tengsl RÚV og sjálfstæðra framleiðenda.

26.10.2022

Vel heppnuð ferð starfsfólks RÚV til Helsinki

YLE, systurstöð RÚV í Finnlandi, bauð RÚV í heimsókn í lok október og stór hópur starfsfólks hélt utan í náms- og fræðaferð. Starfsfólk fór í ferðina á eigin kostnað með aðstoð styrkja frá stéttarfélögum. Hópurinn fékk kynningu á starfsemi YLE í heild og síðan var hópnum skipt í smærri einingar sem fengu ítarlegri fræðslu og kynningu.

04.11.2022

Vetrarfrí í Útvarpsleikhúsinu vakti mikla athygli

Vetrarfrí, nýtt leikið hlaðvarp í átta þáttum, var frumflutt í Útvarpsleikhúsinu í byrjun nóvember. Vetrarfrí er spennandi framhaldsleikrit í átta þáttum fyrir ungt fólk eftir Hildi Knútsdóttur í leikstjórn Sigurjóns Kjartanssonar. Furðurleg drepsótt brýst út og enginn hugsar um neitt annað en að bjarga lífi sínu. Þættirnir hlutu mikla athygli og hlustun í spilara RÚV og á hlaðvarpsveitum.

21.11.2022

Nýr RÚV.is

Nýr RÚV.is fór í loftið í lok nóvember. Nýtt vefumsjónarkerfi var á sama tíma tekið í notkun sem skilar bættri notendaupplifun og stórbættu aðgengi. Megináhersla er lögð á þjónustu við snjalltæki. Nýr vefur er mikilvæg aðgerð í tengslum við nýja stefnu RÚV þar sem ein af megináherslunum var stafrænt RÚV.

27.11.2022

Jólalögin í nóvember á Rás 2

Jólalögin fóru að óma á Rás 2 óvenjusnemma en ákvörðun var tekin um að byrja að spila jólalögin fyrsta sunnudag í aðventu í stað þessa að bíða til 1. desember eins og hefð var fyrir.

29.11.2022

Traust fréttastofu RÚV eykst

Traust landsmanna á fréttaflutningi er mælt tvisvar á ári, í maí og nóvember, í samræmi við þjónustusamning RÚV og menntamálaráðuneytisins. Könnun Maskínu sem gerð var í nóvember 2022 sýnir að 69% aðspurðra bera mikið traust til fréttastofu RÚV. Um 18% segjast hvorki bera mikið né lítið traust til hennar en 13% bera lítið traust til fréttastofu RÚV. Kannanir MMR/Maskínu hafa verið gerðar með sambærilegum hætti frá 2017 og hefur traust fréttastofu aukist nokkuð frá þeim tíma. Mest mældist traust fréttastofu 75% í nóvember 2020 en minnst 64% í nóvember 2018.

01.12.2022

Nýtt íslenskt jóladagatal, Randalín og Mundi

Ný íslensk leikin þáttaröð, Randalín og Mundi: Dagar í desember, hóf göngu sína 1. desember á RÚV. Þættirnir voru svo á dagskrá daglega til 24. desember. Fimmtán ár eru síðan RÚV frumsýndi síðast nýtt íslenskt leikið jóladagatal. Silja Hauksdóttir og Ilmur Kristjánsdóttir leikstýrðu þáttaröðinni, sem byggð er á vinsælum barnabókum eftir Þórdísi Gísladóttur um vinina Randalín og Munda.

02.12.2022

Aðventugleði Rásar 2

Rás 2 blés til árlegrar aðventugleði í Efstaleiti og fékk til góða gesti sem komu landsmönnum í jólagírinn. Siggi Gunnars, Gunna Dís, Felix Bergsson, Árni Beinteinn, Friðrik Ómar og Hulda Geirsdóttir voru í beinni útsendingu frá kl. 9 til 16. Hægt var að fylgjast með útsendingunni á Rás 2 og í streymi á RÚV.is. Fram komu: Valdimar, bræðurnir Jón Jónsson og Friðrik Dór, Sigga Beinteins, Eyþór Ingi, Guðrún Árný, Sigríður Thorlacius, Sigurður Guðmundsson og Guðmundur Óskar.

25.12.2022

Breytt fyrirkomulag á Jólastundinni

Breytt fyrirkomulag var á Jólastundinni. Farið var úr spjallþáttarforminu og yfir í leikið efni. Jólastundin var jólaævintýri um feðginin Elísu og Egill (Margrét Rúnarsdóttir og Jóhann Axel Ingólfsson) sem eru á leið í jólaboð þegar að bíllinn þeirra festist. Til að reyna að komast áfram leiðar sinnar ákveða þau að fara og banka upp á kofa sem þau finna. Þar býr Ómar Sveinn jólasveinn (Örn Árnason). Handrit og leikstjórn var í höndum Agnesar Wild og framleiðandi var Hekla Egilsdóttir. Upphafsatriðið með laginu Jólastund með Stuðkompaníinu var tekið upp í Aðalstræti á Akureyri þar sem hátt í 80 aukaleikarar tóku þátt. Þátturinn var allur tekin upp á Akureyri. Þrír af fjórum leikurum sem fóru með hlutverk voru búsettir eða fráfluttir Akureyringar og flestir sem störfuðu í upptökunum eiga rætur að rekja norður. Tökurnar stóðu yfir í fimm daga og var unnið í góðu samstarfi við Akureyrarbæ, Miðbæjarsamtökin, Freyvangsleikhúsið, Dansstúdíó Alice, Litla garð og Hof.

25.12.2022

Jólalag Ríkisútvarpsins

Jólalag Ríkisútvarpsins hefur fyrir löngu skapað sér sess í jóladagskrá Rásar 1. Jólalagið 2022 er eftir Pál Ragnar Pálsson tónskáld og Tui Hirv og Spilmenn ríkisins frumfluttu það í desember. Tónskáldasjóður Ríkisútvarpsins og STEF styrkir verkefnið.

31.12.2022

Mikil hlustun á hlaðvarpsþætti í spilara RÚV

Árið 2022 voru svo framleiddar nokkrar hlaðvarpsseríur sem slógu í gegn og fengu mikla hlustun í Spilara RÚV. Þeir vinsælustu voru Leitin, Sjándinn á Vesturbrú, Skeggi og Joe Grimson, saga af svikum. Hlustað var tæplega 127 þúsund sinnum á Joe Grimson í spilaranum og rúmlega 100 þúsund sinnum á Skeggja.

... árið á enda.