REKSTRARYFIRLIT 2022

Samkvæmt rekstrarreikningi og yfirliti um heildarafkomu var tap af rekstri RÚV að fjárhæð 164 milljónir króna á árinu 2022. Í árslok námu heildareignir 8.986 milljónum króna og eigið fé nam 1.804 milljónum króna og eiginfjárhlutfall var 20,1% í árslok 2022. Vísað er til eiginfjáryfirlits í ársreikningnum varðandi breytingar á eiginfjárreikningum. Fjöldi ársverka var 254.

Hagnaður/tap, regluleg starfsemi: 2016-2022

Þróun eiginfjárhlutfalls: 2016-2022

FRAMTÍÐARHORFUR OG EFNAHAGUR

 

Markmið stjórnar hefur verið að rekstur RÚV sé ávallt yfirvegaður og hallalaus. Á árinu 2022 náðist það markmið ekki þar sem félagið skilaði neikvæðri rekstrarniðurstöðu. Ástæðu þess má fyrst og fremst rekja til aukinnar verðbólgu á árinu 2022 og óhagstæðrar gengisþróunar íslensku krónunnar. Höfðu þessir þættir afgerandi áhrif á rekstrarniðurstöðu ársins þar sem stærstur hluti skulda RÚV er verðtryggt lán vegna eldri lífeyrisskuldbindinga. Tap ársins kemur til lækkunar á eigin fé félagsins. Skuldir RÚV hafa um árabil verið háar, m.a. vegna uppgjörs á eldri lífeyrisskuldbindingum. Þrátt fyrir margvíslegar aðgerðir á undanförnum árum sem hafa leitt til lækkunar skulda, telur stjórn RÚV að félagið sé enn of skuldsett og mun halda áfram að leita varanlegra lausna varðandi skuldsetningu þess.

 

Núverandi þjónustusamningur við mennta- og menningarráðherra (nú menningar- og viðskiptaráðherra) gildir til 31. desember 2023. Þar kemur fram að samkvæmt lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu nr. 23/2013 er RÚV ætlað að stuðla að lýðræðislegri umræðu, menningarlegri fjölbreytni og félagslegri samheldni auk þess að leggja rækt við íslenska tungu, sögu og menningararfleifð. Lýðræðishlutverki sínu sinnir RÚV með fréttaþjónustu og sem vettvangur skoðanaskipta og umræðu um samfélagsmál. Rækt við íslenska tungu og fjölbreytt efni um listir, menningararf, íþróttir, ýmis konar fræði og áhugamál almennings er hornsteinninn í menningarhlutverki RÚV. Sérstök áhersla er lögð á framboð á efni fyrir ungu kynslóðina og að virkja hana til þátttöku í dagskrárgerð. RÚV kappkostar að sameina fólkið í landinu og stuðla þannig að félagslegri samheldni. RÚV er fjármagnað með þjónustutekjum og tekjum af samkeppnisrekstri skv. lögum.

 

 

RÚV SALA

AUGLÝSINGAR OG KOSTUN

Tekjur RÚV Sölu á rekstrarárinu 2022 af sölu auglýsinga og kostana námu 2.398 m.kr.

 

Eftirtaldir dagskrárliðir voru kostaðir á árinu:

Bikarkeppni í handbolta, Bikarkeppni í körfubolta, Bikarkeppni í blaki, Bikarkeppni í fótbolta, Verbúðin, Vitjanir, Eurovision, Söngvakeppnin, Hestaíþróttir, EM í handbolta, HM félagsliða, HM og heimsbikarmót í skíðaíþróttum, HM í frjálsum, HM í íshokkí, Íslandsmótið í fimleikum, Íslandsmótið í golfi, Landsleikir í fótbolta, Landsleikir í handbolta, vetrar Ólympíuleikar, Landsleikir í körfubolta,  Reykjavíkurleikarnir, Skólahreysti, Tónaflóð.

 

Eftirtaldir dagskrárliðir voru rofnir með auglýsingahléum á árinu:

Alla leið, Edduverðlaunin, Eurovision, Vikan með Gísla Marteini, Gettu betur, Klassíkin okkar, Reykjavíkurleikarnir, Silfrið, Skrekkur, Skólahreysti, Söngvakeppnin, Söngkeppni framhaldsskólanna og Tónaflóð.

 

RÚV sala er dótturfélag RÚV sem heldur utan um sölu auglýsinga og kostana.