06:50
Morgunútvarpið
26. apríl - sund, sparnaður, loftslag og framtíðin
Morgunútvarpið

Morgunútvarpið vekur hlustendur með glóðvolgum fréttum og snarpri umfjöllun um samfélagsmál. Umsjón: Hafdís Helga Helgadóttir og Rúnar Róbertsson.

Fjallað var um þá alvarlegu stöðu sem uppi er í Laugardalslaug vegna þess að gestir gleyma að skila aðgangsarmböndum í kvöldfréttum Stöðvar 2 í byrjun vikunnar. Dæmi eru um að fólk hafi tekið tugi armbanda með sér heim, það er kostnaðarsamt og því hefur verið biðlað til gesta að skila armböndunum. Við ræddum við Árna Jónsson, forstöðumann Laugardalslaugar, í upphafi þáttar og spyrjum hvort ákallið hafi skilað einhverju.

Bæjarstjórn Kópavogs samþykkti á fundi sínum í gær að leggja Héraðsskjalasafn Kópavogs niður. Þá hyggst bærinn fara í samvinnu við Þjóðskjalasafn um að taka við safnkostinum. Skjalasöfn hafa verið nokkuð í umræðunni undanfarið, ekki síst eftir að ákveðið var að leggja Borgarskjalasafn niður. Sagnfræðingafélag Íslands heldur því málþing um stöðu íslenskra skjalasafna á morgun og við ræddum við tvö sem koma að málþinginu, Sigurð Gylfa Magnússon, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, og Ásu Ester Sigurðardóttur, sem situr í stjórn félagsins.

Nýsköpunardagur hins opinbera fer fram í næsta mánuði en þar verður lögð áhersla á sparnaðarlausnir fyrir hið opinbera. Fjöldi hugmynda hefur borist frá fyrirtækjum og frumkvöðlum og við ræddum þær við Sveinbjörn Inga Grímsson, hjá Ríkiskaupum.

Eftir átta fréttir ætlum við að ræða loftslagsmarkmið Íslands og hvernig megi ná þeim. Markmiðið er að ræða raunhæfar lausnir og hvernig stjórnvöld ættu að beita sér til að ná markmiðum um umtalsvert lækkaða losun á næstu árum. Við fengum þingmennina Höllu Signýju Kristjánsdóttur frá Framsókn og Andrés Inga Jónsson frá Pírötum en bæði eiga þau sæti í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis sem fundaði með umhverfis- orku- og loftslagsráðherra í gær.

Eiríkur Örn Norðdahl rithöfundur tók sér frí frá samfélagsmiðlum í þrjá mánuði í upphafi árs og vaknaði upp við nýjan veruleika þar sem spjallandi gervigreindarbotti er orðinn daglegur þátttakandi í lífi Íslendinga og dagskrár bókmenntahátíðar fór meira og minna fram á ensku. Við hringdum vestur til Eiríks og ræða tungumálið, gervigreind og hvað kristalskúla skáldsins segir.

Blásið verður til stórtónleika í Gamla bíó í kvöld og á morgun til að minnast tónlistarmannsins Prins Póló. Fjölmargir tónlistarmenn koma að þessari veislu og þar á meðal Benni Hemm Hemm sem var gestur okkar í dag ásamt Berglindi Häsler eiginkonu prinsins.

Tónlist:

STEBBI JAK - Líttu í kringum þig.

HARRY STYLES - As It Was.

THE STROKES - Last Nite.

X AMBASSADORS - Renegades.

NO DOUBT - Don't Speak.

TRABANT - The One (The Filthy Duke Remix).

Kraftwerk - Das Model.

MAC DEMARCO - Let Her Go.

PRINS PÓLÓ -

Var aðgengilegt til 25. apríl 2024.
Lengd: 2 klst. 10 mín.
,