12:20
Hádegisfréttir
Hádegisfréttir 13. janúar 2023
Hádegisfréttir

Útvarpsfréttir.

Miklar umbætur þarf að gera á bráðaþjónustu í landinu, að því er fram kemur í skýrslu viðbragðsteymis heilbrigðisráðherra. Pottur virðist víða brotinn en lagðar eru til ýmsar breytingar sem margar eru einfaldar og ekki dýrar.

Skurðaðgerðum á Sjúkrahúsinu á Akureyri verður fækkað um tæp þrjátíu prósent vegna manneklu, að minnsta kosti út mánuðinn. Forstjóri sjúkrahússins segir ljóst að biðlistar lengist.

Fulltrúar Vinnumálastofnunar og Grindavíkurbæjar funduðu í morgun um vistun flóttamanna á hóteli í bænum, en deilt hefur verið um hvort það sé heimilt. Forstjóri Vinnumálastofnunar er bjartsýn á að lausn náist.

Rússar segjast hafa náð bænum Soldar í austurhluta Úkraínu. Úkraínsk stjórnvöld vísa þessu á bug og segja harða bardaga enn geisa um bæinn.

Fulltrúar í minnihluta bæjarstjórnar Akureyrarbæjar segja dapurlegt að ekki sé gert ráð fyrir fjölgun félagslegra íbúða á árinu. Langur biðlisti er eftir félaglegu húsnæði á Akureyri.

Tónlistarkonan Lisa Marie Presley, einkabarn Elvis Presley, er látin 54 ára að aldri. Banamein hennar hefur ekki verið staðfest en bandarískir miðlar segja að hún hafi farið í hjartastopp.

Landsliðsfyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir er hætt að spila með íslenska landsliðinu í fótbolta. Hún er leikjahæsti leikmaður í sögu liðsins.

Íslenska karlalandsliðið í handbolta getur tryggt sig áfram í milliriðla á HM með sigri á Ungverjalandi á morgun. Liðið vann Portúgal með fjórum mörkum í gærkvöldi.

Aðgengilegt til: Rennur ekki út.
Lengd: 22 mín.
,