06:50
Morgunútvarpið
1. sept - leiguþak, hamfarahaglél, ylströnd og ADHD
Morgunútvarpið

Morgunútvarpið vekur hlustendur með glóðvolgum fréttum og snarpri umfjöllun um samfélagsmál. Umsjón: Hafdís Helga Helgadóttir og Rúnar Róbertsson.

Nokkur hópur stórhuga fólks á Djúpavogi hefur tekið sig saman og skorað á bæjaryfirvöld að koma upp ylströnd við Búlandshöfn en fyrir áratug síðan fannst heitt vatn á svæðinu sem nú er leitt í ker sem hafa orðið vinsæl hjá ferðafólki. Eiður Ragnarsson fulltrúi fulltrúi sveitarstjóra Múlaþings á Djúpavogi var á línunni.

Ný rannsókn við Háskóla Íslands sýnir að almennt upplifi feður sem hitti börn sín lítið, þ.e. minna en aðra hverja helgi, mikla sorg en jafnframt að þeir hafi almennt átt sögu um ágreining við móður eða stjórnsýsluna. Nína Eck, nemi við Félagsráðgjafadeild HÍ, vann rannsóknina og kom til okkar.

Nýjar tölur frá Landlæknisembættinu sýna að notkun ADHD lyfja jókst um heil 20% á milli áranna 2020 og 2021 - í miðjum heimsfaraldri. Rúm 16 prósent drengja á aldrinum 10-14 ára eru á þessum tegundum lyfja en þó má merkja aukna notkun kvenna á lyfinu undanfarin ár. Við ræddum þessa aukningu og almennt um notkun geðlyfja við Héðinn Unnsteinsson formann Geðhjálpar.

Kristján Þórður Snæbjarnarson, forseti Alþýðusambands Íslands, telur að leigubremsa á húsnæðismarkaði sé bæði raunhæf og skynsamleg. Við ræddum leiguþak, leigubremsu og aðgerðir á leigumarkaði við Kristján og Jóhannes Stefánsson, lögfræðing Viðskiptaráðs Íslands, sem segir leiguþak feita pælingu sem gengur ekki upp - leiguþak Berlínarbúa hafi til að mynda verið lestarslys í beinni útsendingu.

Í gær var greint frá því að bandaríska dómsmálaráðuneytið telji líklegt að leyniskjöl hafi verið falin á heimili Donalds Trump, fyrrverandi forseta, í Flórída. Það hafi verið gert til þess að hindra rannsókn alríkislögreglunnar. Þá var samfélagsmiðlinn Trumps, Truth Social, fjarlægður af forritinu Google Play. Mikið hefur verið fjallað um sundrungu í bandarískum stjórnmálum og samfélagi undanfarið en samkvæmt niðurstöður nýrrar könnunar búast 40 prósent íbúa Bandaríkjanna við einhvers konar borgarastríði á næstu árum. Við ræddum við Silju Báru Ómarsdóttur, prófessor í stjórnmálafræði, um stöðuna í Bandaríkjunum.

Tæplega tveggja ára barn lést og tugir slösuðust í Katalóníu á Spáni í gær þegar mikið haglél féll þar. Höglin voru stór og þungt - þau stærstu um tíu sentímetrar að þvermáli - og rafmagnslínur, þök og rúður eyðilögðust. Við ræddum við Elínu Björk Jónasdóttur, veðurfræðing, um þetta veðurfyrirbæri.

Var aðgengilegt til 01. september 2023.
Lengd: 2 klst. 10 mín.
,