Innflytjendur settir neðarlega á framboðslista

Jasmina Vajzović Crnac, sérfræðingur og ráðgjafi í málefnum innflytjenda og flóttafólks, segir að það komi sér ekki á óvart að kosningaþátttakan sé lítil. Fram kom í fréttaskýringaþættinum Kveik í gær að af 30.000 erlendum ríkisborgurum sem hér búa kusu aðeins 4.130 í fyrra.

Innflytjendur settir neðarlega á framboðslista

Jasmina Vajzović Crnac, sérfræðingur og ráðgjafi í málefnum innflytjenda og flóttafólks, segir að það komi sér ekki á óvart að kosningaþátttakan sé lítil. Fram kom í fréttaskýringaþættinum Kveik í gær að af rúmlega þrjátíu þúsund erlendum ríkisborgurum sem hér búa nýttu aðeins 4.130 atkvæðisrétt sinn í síðustu sveitarstjórnarkosningum.

„Þetta er þekkt og þetta tala innflytjendur mikið um,“ segir Jasmína í viðtali við Morgunútvarpið. Svona hafi staðan verið síðustu tuttugu ár. Þessu sé vissulega hægt að breyta. Margoft hafi verið bent á að brýnt sé að meta menntun innflytjenda. Þá hafi Efnahags- og framfarastofnun Evrópu (OECD) bent á þetta. „Við erum eitt af þeim OECD-ríkjum, rannsóknir sýna það, sem eru slökust í þessu. En á sama tíma erum við með 87% innflytjenda á vinnumarkaði sem er hæsta tala innan OECD,“ segir Jasmína.

Mikilvægt er að sú menntun sem innflytjendur öfluðu sér áður en þeir fluttust hingað sé tekin gild, segir Jasmína.

Hún bendir á að það að viðurkenna menntun innflytjenda og gera þeim kleift að starfa á sínu sviði og nýta mannauðinn stuðli að inngildingu þeirra í samfélaginu. „Þá tilheyra þau. Það er þetta virði og þessi tilfinning að vera hluti af einhverju. Þetta er til dæmis eitt sem er alveg hægt að gera og er  framkvæmanlegt,“ segir Jasmína. Þá er hún hlynnt því að fyrirtæki, sveitarfélög og stofnanir móti sér stefnu um inngildingu og innleiði hana í alla starfsemi. Með því verði fólk meðvitaðra um að gæta að fjölbreytileikanum.

Jasmína tekur undir með viðmælendum Kveiks að stjórnmálamenn muni bara eftir innflytjendum rétt fyrir kosningar. „Það er þannig. Það vantar sýnileika. Fólk af erlendum uppruna er ekki á [framboðs]listum, eða mjög fá. Og ef þau eru á listum þá eru þau mjög neðarlega. Það vantar rödd inn á Alþingi til að geta talað þeirra máli.“ Viðbúið sé að innflytjendum fjölgi og brýnt að stuðla að aukinni þátttöku og sýnileika innflytjenda.