Í krafti íbúanna að snúa þróuninni við

Raufarhöfn er líklega eins langt frá Reykjavík og hugsast getur. Og Raufarhöfn er ekki svona eins og Selfoss eða Borgarnes sem menn keyra í gegnum á leiðinni eitthvert annað. Hingað kemur enginn nema hann virkilega hafi ætlað sér að koma hingað.

Raufarhöfn er einn af útvörðum Íslands í norðri. Ekkert þorp liggur norðar ef frá er talin byggðin í Grímsey. Í leikskólanum og grunnskólanum eru 18 börn - samtals. Og á elliheimilinu búa fjórir. Búðin í bænum er agnarsmá en selur samt allt sem skiptir máli. Hér bjuggu einu sinni 500 manns en síðan eru liðin mörg ár.

Í mestri hættu

Fyrir 5 árum síðan mat Byggðastofnun það svo að Raufarhöfn væri sú byggð í landinu sem stæði hvað höllustum fæti. Þá var árið 2012 og byggðin hafði gengið í gegnum röð áfalla sem höfðu leitt til þess að íbúum fækkaði um meira en helming á 15 árum. Kvótinn var á bak og burt og búið að loka bræðslunni.

Staða Raufarhafnar á þessum tíma leiddi til þess að þorpið varð fyrsta viðfangsefni Byggðastofnunar í verkefninu Brothættar byggðir - og þannig fyrirmynd annarra verkefna víðar á landinu. En hefur staða Raufarhafnar batnað?

Íbúum hefur að minnsta kosti ekki haldið áfram að fækka með sama hraða og Raufarhöfn er ekki í efsta sæti á lista Byggðastofnunar yfir byggðarlög í vanda – heldur í því fjórða.

Gáfu sig í verkefnið

„Það er ekki gerð þannig stúdía að maður geti sagt nákvæmlega hvað hefur áhrif og hvað ekki en ramminn skiptir mjög miklu máli að við höfum haft verkefnisstjóra á staðnum sem gefur sig 100 prósent í verkefnið, er hluti af samfélaginu og svona viðheldur svona þeim anda sem að mér hefur fundist mjög ánægjulegur í verkefninu, að íbúar sannarlega vilja taka þátt í því að byggja upp sitt pláss og um það snýst auðvitað alltaf málið,“ segir Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri í Norðurþingi.

Skólastjórinn í bænum börnunum hafi heldur fjölgað en hitt. „Það hefur nú heldur verið að fjölga undanfarið og... ja allavega ekki fækkað. Og mér finnst það hafi verið að koma ungt fólk og það hefur fjölgað í skólanum. Og ég myndi segja nokkuð stöðugt atvinnuástand,“ segir Birna Björnsdóttir, skólastjóri og íbúi á Raufarhöfn.

Börnin eru þó ekki mörg. „Þau eru þrettán í grunnskóla og fimm á leikskóla,“ segir hún. „Það er yfir hundrað prósent fjölgun, eigum við ekki að segja það? Það var komið niður í 6 eða 7 nemendur í grunnskólanum fyrir um fjórum árum,“ segir Birna.

Kveikur heimsótti Raufarhöfn og ræddi við íbúa í bænum, fór yfir stöðuna eins og hún blasir við þeim. Þú getur horft á viðtölin og umfjöllun Kveiks í heild í spilaranum hér að ofan.