HLUTVERK OG SÉRSTAÐA RÚV

HLUTVERK

Kjarninn í tilvist RÚV og tilgangur – að vekja fólk til umhugsunar, virkja til athafna og efla til sköpunar og aðgerða

FRAMTÍÐARSÝN

Lýsir þeirri stöðu sem RÚV stefnir að, þeim áhrifum sem það vill hafa – að hafa hlutverki að gegna svo hér á landi megi búa vakandi og víðsýn þjóð

GILDI

Leggja grunn að menningu RÚV og einkenna vinnubrögð, viðhorf og framkomu starfsfólks – heilindi, gæði, hugrekki og samvinna

STEFNUÁHERSLUR

Leiðarljós RÚV næstu árin og um leið loforð RÚV til samfélagsins – fyrir þig, fyrir menninguna, fyrir framtíðina, fyrir sjálfstæði

Hlustendur og áhorfendur eru í fyrsta sæti og starfsfólk kappkostar að þjóna þeim af kostgæfni með fjölbreyttu dagskrárefni í hæsta gæðaflokki.

Stefna RÚV til 2021

Ný stefna var kynnt vorið 2017 sem ötullega hefur verið hrint í framkvæmd á öllum sviðum starfseminnar.  Meginstefnuáherslurnar fimm miða allar að þörfum notenda og samfélagsins undir framtíðarsýninni „fyrir vakandi og víðsýna þjóð.“  Vinna við uppfærða stefnu RÚV til 2026 er hafin.

FYRIR ÞIG: Að mæta þörfum og auka aðgengi fólksins í landinu

RÚV er íslenskur fjölmiðill í þjónustu almennings og hjartað í starfseminni er fólkið í landinu. RÚV hlustar og tekur mark á almenningi með markvissri notkun gagna og kannanna. Það endurspeglast bæði í þjónustunni og skipulagðri leit að hugmyndum frá almenningi.

FYRIR MENNINGU: Að efla sköpun og miðlun íslenskrar menningar

RÚV er stærsta menningarstofnun þjóðarinnar; lífæð lista, menningar og íþrótta í landinu. RÚV varðveitir og miðlar menningu, vinnur að frumsköpun verka og framleiðslu leikins efnis úr íslenskum veruleika.

FYRIR SAMFÉLAGIÐ: Að virkja og hvetja samfélagið

RÚV er uppbyggilegt hreyfiafl og leitar eftir samvinnu og samtali við ólíka aðila í samfélaginu í samræmi við hlutverk sitt, stefnu og framtíðarsýn. Allt starf RÚV miðar að því að skila auknu virði út í samfélagið.

FYRIR FRAMTÍÐINA: Að þjóna betur ungu fólki

Almannaþjónusta á að ná til allra aldurshópa. Til að RÚV uppfylli grunnhlutverk sitt er mikilvægt að unga fólkið hafi þörf fyrir, finni og noti þjónustu þess, eins og þeir sem eldri eru.

FYRIR SJÁLFSTÆÐI: Að vera snarpari og dýpri í umfjöllun
RÚV er ein mikilvægasta og traustasta veita upplýsinga út í samfélagið. RÚV starfar í þágu almannahagsmuna og er hluti af almannavörnum landsins. Sjálfstæði, traust og óhlutdrægni eru lykilhugtök í því hvernig RÚV nálgast lýðræðishlutverk sitt. RÚV gætir jafnvægis milli hraðrar símiðlunar og dýpri umfjöllunnar og krafan um hraða má aldrei vera á kostnað áreiðanleika og gæða.

Stjórn RÚV ohf.

janúar – apríl 2020

apríl – desember 2020

Aðalmenn

  • Kári Jónasson, formaður
  • Ragnheiður Ríkharðsdóttir
  • Jón Ólafsson
  • Brynjólfur Stefánsson
  • Lára Hanna Einarsdóttir
  • Guðlaugur G. Sverrisson
  • Birna Þórarinnsdóttir
  • Mörður Árnason
  • Elísabet Indra Ragnarsdóttir
  • Valgeir Vilhjálmsson
    (fulltrúi starfsmanna)

Varamenn

  • Jóhanna Hreiðarsdóttir
  • Jón Jónsson
  • Bragi Guðmundsson
  • Sjöfn Þórðardóttir
  • Mörður Áslaugarson
  • Sigríður Valdís Bergvinsdóttir
  • Björn Gunnar Ólafsson
  • Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir
  • Marta Guðrún Jóhannesdóttir

Aðalmenn

  • Jóhanna Hreiðarsdóttir, formaður
  • Ragnheiður Ríkaharðsdóttir
  • Jón Ólafsson
  • Brynjólfur Stefánsson
  • Lára Hanna Einarsdóttir
  • Guðlaugur G. Sverrisson
  • Björn Gunnar Ólafsson
  • Mörður Árnason
  • Elísabet Indra Ragnarsdóttir
  • Valgeir Vilhjálmsson
    (fulltrúi starfsmanna)

Varamenn

  • Jónas Skúlason
  • Jón Jónsson
  • Bragi Guðmundsson
  • Sjöfn Þórðardóttir
  • Mörður Áslaugarson
  • Sigríður Valdís Bergvinsdóttir
  • Margrét Tryggvadóttir
  • Kolfinna Tómasdóttir
  • Marta Guðrún Jóhannesdóttir
  • Hrafnhildur Halldórsdóttir (fulltrúi starfsmanna)

Skipurit

Uppfært stjórnskipulag RÚV tók gildi 1. janúar 2018. Breytingarnar styrkja dagskrárþróun, framleiðslu og miðlun til stafrænnar framtíðar.

Innri áherslur í stefnu

bjorn

Velferð og vistvænar samgöngur

Markvisst er unnið að því að skapa gott starfsumhverfi þar sem líðan í starfi og starfsánægja er í forgrunni. Einnig er lögð áhersla á að starfsfólk njóti sveigjanleika eins og kostur er til að samræma starf og einkalíf. Margt var gert á árinu til að styðja við markmið um velferð starfsfólks. Boðið var m.a. upp á jóga, hugleiðslu og nudd á vinnutíma. Margir fræðslufundir voru á dagskrá á árinu sem fjölluðu um velferðartengd efni, svo sem svefn, næringu, álag í starfi, kulnun, samskipti og hreyfingu. Ferlar í eineltis- og áreitnimálum voru uppfærðir og samstarf við sálfræðiþjónustu eflt. Unnið var að útfærslu á styttingu vinnuvikunnar í samvinnu við starfsfólk en vinnutímastytting var innleidd fyrir flesta hópa í upphafi árs 2021. Viðhorf starfsfólks til margra þátta í vinnuumhverfinu voru greind í viðhorfskönnun í loks árs og unnin verða úrbótaverkefni í framhaldi af þeim niðurstöðum.

 

RÚV býður starfsfólki sínu upp á íþróttastyrk og starfsfólk er hvatt til að gera samgöngusamning um vistvænar samgöngur.

 

Hlutfall starfsfólks sem nýtir íþróttastyrk: 45% – Hlutfall starfsfólk sem nýtir samgöngustyrk: 38%

arssk

Þróun hæfni

Lögð er áhersla að byggja upp hæfni og styrkja starfsfólk í þeim fjölbreyttu hlutverkum sem eru innan RÚV. Starfsmannasamtöl eru nýtt fyrir endurgjöf og sem vettvangur til að ræða starfsþróun. Starfsfólk allt styður við mikilvægt hlutverk almannaþjónustumiðils sem rýnir samfélagið, segir mikilvægar sögur og þróar nýjar leiðir til miðlunar. Aukin tæknifærni er lykilatriði fyrir fjölbreyttari miðlun og stigin voru skref á árinu til áframhaldandi þróunar, svo sem með því að efla tæknifærni dagskrárgerðarfólks í útvarpi með þjálfun í sjálfkeyrslu í tengslum við nýtt hljóðver. Einnig var reglulega boðið upp á fræðslu um framsetningu efnis á samfélagsmiðlum.

 

ársskýrsla17

Jafnrétti

Unnið hefur verið að árangri í jafnréttismálum á RÚV með margvíslegum hætti. Jafnlaunakerfi sem fer eftir jafnlaunastaðlinum ÍST 85:2012 hefur verið innleitt og fékk fyrst vottun í febrúar 2019. Vottunin var síðan endurnýjuð á árinu 2020 með viðhaldsúttekt. Boðið var upp á fræðslu um jafnréttislög í RÚV skólanum á haustönn. Viðhorf starfsfólks gagnvart jafnrétti innan RÚV mælist jákvætt og ekki er munur á viðhorfi kynja gagnvart tækifærum til starfsþróunar innan fyrirtækisins.

ársskýrsla7

RÚVara lífið

Minna var um félagslíf starfsfólks á ári samkomubanns en þó voru farnir ýmsar leiðir til að halda gleði og góðum anda. Starfsmannasamtökin skipulögðu FjarSvar í tvígang þar sem reynsluboltar í dagskrárgerð sömdu spurningar og stýrðu spennandi spurningakeppni í gegnum Kahoot. Einnig var haldið fjarbingó sem var fjölskylduskemmtun heima í stofu. Boðið var upp á tónlistaratriði á starfsmannafjarfundum og haldið var upp á sigra með heimsendingu á góðgæti þegar nokkuð stór hópur starfsfólks vann til Edduverðlauna. Fyrir jólin fékk starfsfólk piparkökusett að gjöf sem vakti mikla lukku.

Varðveisla og miðlun íslenskrar tungu og menningar

Safnadeild RÚV

Í safni Ríkisútvarpsins er mikið magn sjónvarps- og útvarpsefnis frá upphafi útsendinga árið 1930. Óhætt er að segja að Ríkisútvarpið hafi skráð nútímasögu þjóðarinnar og að mikilvægur hluti þeirrar sögu sé geymdur í söfnum Ríkisútvarpsins. Þar á meðal eru sannkallaðar þjóðargersemar, þar sem efni af öllu tagi er varðveitt: upptökur af daglegu lífi Íslendinga á þessum tíma, upptökur frá stærstu viðburðum í sögu þjóðarinnar, ómetanlegar heimildir af merku fólki og merkum listviðburðum. Umfang þessa safnaefnis er mikið og er unnið hefur verið að því jafnt og þétt að skrá það og yfirfæra á stafrænt form. Efni úr safni hefur í auknum mæli verið dagskrársett í línulegri dagdagskrá sjónvarps og í spilara og aðgengi þannig aukið að eldri upptökum í útvarpi og sjónvarpi. Stóran hluta ársins 2020 var safnið lokað almenningi vegna COVID-19 en starfsmenn hafa skráð dagskrárefni og sinnt þjónustu við starfsfólk og almenning á heimaskrifstofum.
Á árinu var undirritaður samningur við rétthafa og allt efni í upplestri Halldórs Laxness í safni RÚV yfirfært og gert aðgengilegt almenningi í spilara.

 

  • Á árinu var útbúin ný skjalageymsla sem fékk formlegt samþykki frá Þjóðskjalasafni Íslands.
  • Lakkplötusafni RÚV var pakkað í sérstakar öskjur og komið fyrir í öruggum skápum.
  • Elsta spjaldskrá útvarps og sjónvarps var skönnuð inn og gerð aðgengileg stafrænt á innra neti.

RÚV English

Í stefnu RÚV til 2021 er kveðið á um að bæta skuli aðgengi innflytjenda. RÚV English birtir fréttir á ensku og heldur úti vikulegum spjallþætti á ensku, The Week in Iceland, um fréttir liðinnar viku á Íslandi á RÚV.is. RÚV English heldur utan um þýðingar á völdu íslensku sjónvarpsefni sem birtist með texta á RÚV 2 og RÚV.is. Þjónusta RÚV English var aukin í faraldrinum, vel var fylgt eftir öllum upplýsingum og birtar fréttir af upplýsingafundum. Þá hélt verkefnastjóri RÚV English utan um þýðingar á pólsku og túlkun á borgarafundum og upplýsingafundum á pólsku.

Málfar

RÚV hefur ríkar skyldur við íslenskt mál og í málstefnunni er málrækt í fyrirrúmi. Málfarsráðgjafar sinna yfirlestri og ráðgjöf og stuðla þannig að því að bæta íslenskufærni og auðga málfar starfsfólks. Daglegar ábendingar og fundir um málfar eru liður í þeirri starfsemi. Umfang yfirlestrar eykst ár frá ári. Málfarsráðunautur og málfarsráðgjafar sinna líka upplýsingagjöf og fræðslu um íslenskt mál í vikulegu spjalli í Morgunútvarpinu á Rás 2, Málfarsmínútunni í Samfélaginu á Rás 1 og þættinum Orð af orði sem hefur verið á dagskrá Rásar 1 í hverri viku frá 2013.

Aðgengi

Þegar heimsfaraldur COVID-19 braust út kom berlega í ljós hvað það er mikilvægt að allir landsmenn hafi aðgang að upplýsingum sem varða almannaheill og aðgengisþjónusta var aukin verulega. Á daglegum upplýsingafundum almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra var táknmálstúlkur og var þess gætt að hann væri alltaf sýnilegur í útsendingum á RÚV og RÚV.is. Allir upplýsingafundir almannavarna og blaðamannafundir ríkisstjórnarinnar frá upphafi faraldursins hafa verið rittúlkaðir með texta á síðu 888 í textavarpi. Þá voru sjónvarpsfréttir kl. 19 túlkaðar á táknmál á RÚV 2 og RÚV.is frá 9. mars og svo lengi sem fyrsta bylgja faraldursins varði. Túlkun var tekin upp að nýju í annarri og þriðju bylgju. Samtímatextun var á öllum beinum útsendingum sem tengdust faraldrinum og túlkun og texti með umræðuþáttum og borgarafundum um COVID-19. RÚV English hélt úti upplýsingagjöf og fréttaþjónustu að venju en bætti verulega í þegar faraldurinn hófst. Þá voru settar upp undirsíður á vef RÚV, ruv.is/audskilid með auðlesnum texta og ruv.is/polski með frétta- og upplýsingamiðlun á pólsku. Auðlesinn texti er ætlaður fólki með þroskahömlun en hentar ýmsum öðrum hópum líka mjög vel.

RÚV ber að stuðla að því að blindir og sjónskertir, heyrnarlausir og heyrnarskertir fái upplýsingar og geti verið virkir þátttakendur í samfélaginu. Gerðar hafa verið endurbætur á RÚV.is og RÚV-appinu til að bæta aðgengi blindra og sjónskertra og auðvelda skjáþulu að lesa efni frá RÚV. Aðalfréttatími og íþróttir í sjónvarpi eru með samtímatextun á síðu 888 í textavarpi. Nær allt íslenskt sjónvarpsefni sem ekki er í beinni útsendingu er með skjátexta á síðu 888 og í spilara á RÚV.is. Rittúlkun og bein textun á menningarefni hefur aukist. Áramótaávörp forseta Íslands og forsætisráðherra voru send út með táknmálstúlkun á RÚV 2 sem og umræðuþáttur með forsetaframbjóðendum í aðdraganda forsetakosninga.

Mannauður

266

Meðalfjöldi stöðugilda

43ár

Meðalaldur starfsfólks

11ár

Meðalstarfsaldur starfsfólks

42%

Hlutfall kvenna í hópi starfsmanna

Jafnréttisátak RÚV og sýnilegur árangur

FJÖLBREYTTUR STARFSHÓPUR

Hjá RÚV starfar fjölbreyttur hópur fólks með víðtæka reynslu og þekkingu. Á árinu 2020 störfuðu að meðaltali 288 starfsmenn í 266 stöðugildum hjá RÚV og RÚV Sölu. Starfsstöðvar eru í Reykjavík, Borgarnesi, Akureyri og á Egilstöðum. Kynjahlutfall hjá RÚV skiptist þannig að 42% starfsfólks eru konur og 58% karlar. Kynjahlutföll stjórnenda eru 39% konur og 61% karlar. Kynjahlutföll nýráðninga á árinu 2020 voru 54% konur og 46% karlar. Mikill áhugi er jafnan á starfi hjá RÚV og alls bárust yfir 1100 umsóknir á árinu.

 

VIÐBRÖGÐ VEGNA COVID-19

Viðbrögð vegna heimsfaraldursins setti mark sitt á mannauðsmál og innra starf. Starfsstöðvum var skipt í sóttvarnahólf og starfsfólk vann fjarvinnu eins og kostur var. Reyndi því töluvert á aðlögunarhæfni og nýjar lausnir. Lögð var áhersla á reglulega upplýsingamiðlun til starfsmanna á fjarfundum með útvarpsstjóra. Gefin var út fjarfundanámskrá fyrir RÚV skólann þar sem boðið var upp á fjölmarga fræðsluviðburði. Gerðar voru tvær kannanir til að mæla starfsánægju og viðbrögð við COVID-19 á vinnustaðnum. Báðar sýndu þær mjög jákvæð viðhorf starfsfólks.

 

SKÝR MARKMIÐ OG NÁKVÆM GREINING

Liður í jafnréttisvinnu RÚV er samræmd skráning á kynjahlutfalli viðmælenda sem tekin var upp 2015. Skráðir eru viðmælendur í fréttum og fréttatengdum þáttum og í reglubundnum innlendum þáttum í útvarpi og sjónvarpi. Talning sem þessi gefur ekki heildarmynd af því hver birtingarmynd karla og kvenna er í dagskránni en hún er mikilvægur liður í því að mæla hver staðan og þróunin er.
RÚV setti sér skýr markmið um að ná jafnvægi milli kynja í hópi viðmælenda. Markmiðið er að það séu algerlega jöfn kynjahlutföll í allri dagskrá allra miðla, að tekin séu viðtöl við jafnmargar konur og karla. Fréttir endurspegla samfélagið sem við búum í og í því samfélagi er því miður ekki enn jafnvægi á milli kynja í valdastöðum, til að mynda í stjórnmálum og stjórnunarstöðum í atvinnulífinu. Því þótti óraunsætt að setja jafn ströng viðmið fyrir fréttir og aðra dagskrá.

JAFNVÆGI MILLI KYNJA Í DAGSKRÁ RÚV 2020

Skráðir eru viðmælendur í fréttum og fréttatengdum þáttum og í reglubundnum innlendum þáttum í útvarpi og sjónvarpi. Talning sem þessi gefur ekki heildarmynd af því hver birtingarmynd karla og kvenna er í dagskránni en hún er mikilvægur liður í því að mæla hver staðan og þróunin er.

Hlutfall kynjanna í dagskrá RÚV, utan frétta, var alveg jafnt, 50% karlar og 50% konur. Með kynjajafnvægi í dagskrá sker RÚV sig frá flestum miðlum hérlendis og erlendis. Séu eingöngu fréttatímar og fréttatengdir þættir teknir saman er hlutfall viðmælenda 63% karlar og 37% konur. Það skýrist af hærra hlutfalli karla í leiðandi stöðum í stjórnmálum og samfélaginu, sem fluttar eru fréttir af.  Tölurnar hafa þróast í átt til jafnvægis frá því að mælingar hófust.

 

JAFNLAUNAVOTTUN

Stjórnendur hafa einnig unnið markvisst að því að eyða út óútskýrðum launamun sem er nú kominn vel undir 2% og hlaut RÚV gullmerki jafnlaunaúttektar PwC vorið 2016, fyrst fjölmiðla. Jafnlaunakerfi hefur verið byggt upp og RÚV hlaut í kjölfar þess jafnlaunavottun og heimild Jafnréttisstofu til að nota jafnlaunamerkið.

Mannauður viðhorf starfsfólks

97%

Heilsuvísitala starfsfólks

4,1

Viðhorf til jafnréttismála

4,3

Starfsánægja

4,3

Stolt og ímynd

*Einkunn á bilinu 0-5 í viðhorfskönnun starfsmanna