Ein helsta menningar- og lýðræðisstofnun þjóðarinnar

HLUTVERK

Kjarninn í tilvist RÚV og tilgangur – að vekja fólk til umhugsunar, virkja til athafna og efla til sköpunar og aðgerða

FRAMTÍÐARSÝN

Lýsir þeirri stöðu sem RÚV stefnir að, þeim áhrifum sem það vill hafa – að hafa hlutverki að gegna svo hér á landi megi búa vakandi og víðsýn þjóð

GILDI

Leggja grunn að menningu RÚV og einkenna vinnubrögð, viðhorf og framkomu starfsfólks – heilindi, gæði, hugrekki og samvinna

STEFNUÁHERSLUR

Leiðarljós RÚV næstu árin og um leið loforð RÚV til samfélagsins – fyrir þig, fyrir menninguna, fyrir framtíðina, fyrir sjálfstæði, fyrir framtíðina

Hlustendur og áhorfendur eru í fyrsta sæti og starfsfólk kappkostar að þjóna þeim af kostgæfni með fjölbreyttu dagskrárefni í hæsta gæðaflokki.

Stefnuáherslur skerpa á hlutverki og sérstöðu

FYRIR ÞIG: Að mæta þörfum og auka aðgengi fólksins í landinu

RÚV er íslenskur fjölmiðill í þjónustu almennings og hjartað í starfseminni er fólkið í landinu. RÚV hlustar og tekur mark á almenningi með markvissri notkun gagna og kannanna. Það endurspeglast bæði í þjónustunni og skipulagðri leit að hugmyndum frá almenningi með Hugmyndadögum sem haldnir voru í fyrsta sinn í október 2017 með góðum árangri, og verða eftirleiðis fastur liður í starfsemi RÚV vor og haust ár hvert. Áherslur í dagskrá endurspegla íslenskt mannlíf á víðtækan og fjölbreyttan hátt, stöðugt er unnið að kynjajafnrétti í starfsemi og dagskrá. Staða fulltrúa nýrra Íslendinga var auglýst í árslok 2017 en markmið starfsins er að sníða dagskrá og miðlun RÚV að þörfum þeirra sem ekki hafa fullt vald á íslenskri tungu. Með aukinni áherslu á ólínulega miðlun, vef- og samfélagsmiðlun er leitast við að auka aðgengi að efni RÚV og mæta þörfum notenda.

FYRIR MENNINGU: Að efla sköpun og miðlun íslenskrar menningar

RÚV er stærsta menningarstofnun þjóðarinnar; lífæð lista, menningar og íþrótta í landinu. RÚV varðveitir og miðlar menningu, vinnur að frumsköpun verka og framleiðslu leikins efnis úr íslenskum veruleika. Innlend dagskrárgerð og menning var sem endranær í öndvegi í öllum miðlum RÚV. Fimm leiknar þáttaraðir voru frumsýndar á árinu, þ.a.m. Fangar sem hlutu afburða áhorf og 10 Edduverðlaun. Þróun stórra leikinna verkefna var í fullum gangi, m.a. hófst þróun við Ófærð 2, Fanga 2, Sjálfstætt fólk og Mannasiði. RÚV myndir voru festar í sessi, fagráð skipað og handritaráðgjafi ráðinn til starfa. Tónskáldasjóður RÚV og STEFs var stofnaður og Menningarverðlaun RÚV afhent. Menningarvefur RÚV var settur í loftið á sama tíma og menningarvetrinum var hleypt af stokkunum í Klassíkinni okkar. Sýnt var beint frá tveimur rómuðum leiksýningum og tónlistarhátíð Rásar 1 Deilt með tveimur var haldin í fyrsta sinn. Rás 2 tók þátt í nær öllum tónlistarhátíðum á landinu. RÚV var sigursælt á Eddunni og hlaut sex af sjö verðlaunum fyrir sjónvarpsefni. Útvarpsleikritið Lifun var verðlaunað á Prix Europa og KrakkaRÚV fékk Vorvinda-viðurkenningu IBBY fyrir framlag til barnamenningar.

FYRIR FRAMTÍÐINA: Að þjóna betur ungu fólki

Almannaþjónusta á að ná til allra aldurshópa. Til að RÚV uppfylli grunnhlutverk sitt er mikilvægt að unga fólkið hafi þörf fyrir, finni og noti þjónustu þess, eins og þeir sem eldri eru. KrakkaRÚV, sem kynnt var til sögunnar árið 2015, var enn frekar eflt og fest í sess á árinu og aukið til þess fjármagn. Nýtt teymi, RÚVnúll var sett á laggirnar til að bæta þjónustu við 15–29 ára og starfar það með svipuðu sniði og KrakkaRÚV, sjálfstæð eining sem rýnir þarfir þessa aldurshóps, framleiðir og miðlar dagskrá í takt við þær. Fyrsta þáttaröð RÚVnúll „Hvað í fjandanum á ég að kjósa?“ leit dagsins ljós í október 2017 og vakti mikla athygli.

FYRIR SJÁLFSTÆÐI: Að vera snarpari og dýpri í umfjöllun

RÚV er ein mikilvægasta og traustasta veita upplýsinga út í samfélagið. RÚV starfar í þágu almannahagsmuna. Sjálfstæði, traust og óhlutdrægni eru lykilhugtök í því hvernig RÚV nálgast lýðræðishlutverk sitt. RÚV gætir jafnvægis milli hraðrar símiðlunar og dýpri umfjöllunnar og krafan um hraða má aldrei vera á kostnað áreiðanleika og gæða. Á árinu hófst vinna við nýtt fréttastúdíó sem skilar snarpari og hagkvæmari fréttaþjónustu. Kveikur, nýr vikulegur fréttaskýringaþáttur með áherslu á rannsóknarblaðamennsku, hóf göngu sína. Umfjöllun um neytendamál og var aukin sem og beinar útsendingar af fréttum á erlendum vettvangi og fyrsti Borgarafundurinn haldinn í beinni. Fréttamenn á RÚV hlutu í ár Blaðamannaverðlaunin fyrir rannsóknarblaðamennsku og Edduverðlaunin fyrir frétta- og viðtalsþátt ársins.

FYRIR SAMFÉLAGIÐ: Að virkja og hvetja samfélagið

RÚV er uppbyggilegt hreyfiafl og leitar eftir samvinnu og samtali við ólíka aðila í samfélaginu í samræmi við hlutverk sitt, stefnu og framtíðarsýn. Allt starf RÚV miðar að því að skila auknu virði út í samfélagið. RÚV er opinn og aðgengilegur vettvangur hugmyndaþróunar og lifandi samstarfs sem kappkostar að sameina þjóðina, hvort sem er hversdags eða á stórum stundum. Á árinu var lokið við skýrslu og tillögu um yfirfærslu alls safnaefnis á stafrænt form og hvernig gera eigi Gullkistu RÚV aðgengilega almenningi. Samstarf við aðrar stofnanir og félög um dagskrárgerð og miðlun var aukið, s.s. með Klassíkinni okkar, Sögum og Kóðanum á KrakkaRÚV. Kaup af sjálfstæðum framleiðendum voru aukin, þeim boðið að nýta sér þjónustu RÚV sölu (í samstarfi við RÚV sales) og grunnur lagður að því að gera búnað, aðstöðu og þjónustu RÚV aðgengilega öðrum. Útvarpsstjórar norrænu sjónvarpsstöðvanna undirrituðu samkomulag um aukið samstarf og stóraukna framleiðslu og framboð á leiknu, norrænu sjónvarpsefni. Þjóðin sameinaðist í áhorfi á fjölda stórviðburða í útsendingu RÚV, s.s. EM kvenna í fótbolta, Söngvakeppnina, Áramótaskaupið og Fanga.

Stjórn RÚV

Janúar – maí 2017

Maí – desember 2017

Aðalmenn

  • Gunnar Sturluson, formaður
  • Guðlaugur G. Sverrisson
  • Jón Ólafsson
  • Úlfhildur Rögnvaldsdóttir
  • Friðrik Rafnsson
  • Lára Hanna Einarsdóttir
  • Mörður Árnason
  • Eiríkur Finnur Greipsson
  • Kristinn Dagur Gissurarson
  • Sjöfn Þórðardóttir
  • Valgeir Vilhjálmsson
    (áheyrnarfulltrúi starfsmanna)

Varamenn

  • Árni Gunnarsson
  • Pétur Gunnarsson
  • Gissur Jónsson
  • Andrea Hjálmarsdóttir
  • Katrín Sigurjónsdóttir
  • Lilja Nótt Þórarinsdóttir
  • Jóhanna Pálsdóttir
  • Þuríður Bernódusdóttir
  • Birna Ósk Hansdóttir
    (áheyrnarfulltrúi starfsmanna)

Aðalmenn

  • Ragnheiður Ríkharðsdóttir, formaður
  • Guðlaugur G. Sverrisson
  • Jón Ólafsson
  • Brynjólfur Stefánsson
  • Friðrik Rafnsson
  • Lára Hanna Einarsdóttir
  • Mörður Árnason
  • Jón Jónsson
  • Birna Þórarinnsdóttir
  • Valgeir Vilhjálmsson
    (áheyrnarfulltrúi starfsmanna)

Varamenn

  • Árni Gunnarsson
  • Pétur Gunnarsson
  • Sjöfn Þórðardóttir
  • Andrea Hjálmarsdóttir
  • Ólöf Hugrún Valdimarsdóttir
  • Ásgeir Örn Blöndal Jóhannsson
  • Eva Hrönn Jónsdóttir
  • Líneik Anna Sævarsdóttir
  • Björn Ólafsson
  • Birna Ósk Hansdóttir
    (áheyrnarfulltrúi starfsmanna)

Skipurit RÚV til 31.12. 2017

Nýtt skipurit

Uppfært stjórnskipulag RÚV var kynnt í lok árs 2017 og tók gildi 1. janúar 2018. Breytingarnar stuðla að því að styrkja dagskrárþróun, framleiðslu og miðlun til stafrænnar framtíðar.

Markmið breytinganna er fyrst og fremst að gera RÚV betur í stakk búið til að efla stafræna og ólínulega þjónustu við nútímafólk. Stafræn þróun og þjónusta er byggð inn í kjarnastarfsemi allra dagskrársviðanna í stað þess að vera í sérdeild eins og verið hefur.

Kraftmikið teymi dagskrárgerðarfólks verður til á nýju sviði, „Númiðlun – Rás 2“, sem sinnir jöfnum höndum síkvikri dagskrárgerð á vef, í útvarpi og á samfélagsmiðlum. Áherslan er á unga fólkið og á að vera alltaf á staðnum með fólki í dagsins önn. RÚVnúll, ný þjónusta fyrir ungt fólk, og samfélagsmiðlar verða einnig á þessu sviði. Baldvin Þór Bergsson var ráðinn dagskrárstjóri sviðsins.

Þá verður til nýtt framleiðslusvið þar sem við byggjum upp einfalda og sterka framleiðslueiningu til að framleiða hágæðadagskrárefni fyrir RÚV og bæta þjónustu við sjálfstæða framleiðlendur og aðra fjölmiðla með samframleiðslu og útleigu til þeirra í auknum mæli. Hingað til hafa framleiðsludeildir verið á ólíkum sviðum inni í starfsemi RÚV. Steinunn Þórhallsdóttir var ráðin framkvæmdastjóri sviðsins.

Dagskrársviðin eru styrkt með nýrri stöðu, framkvæmdastjóra miðla, sem veita mun liðsstyrk við samninga- og áætlanagerð, birgðastýringu og daglegan rekstur enda hefur RÚV stóraukið þátttöku sína í framleiðslu stórra leikinna sjónvarpsverkefna sem kallar á lengri þróunarferli og flóknari samningagerð en áður. Birgir Sigfússon var ráðinn framkvæmdastjóri miðla.

Sjálfstæði fréttastofunnar er einnig formfest með enn skýrari hætti í nýju skipuriti sem og skilin milli dagskrárstjórnar og framkvæmdastjórnar RÚV. Formföst dagskrárstjórn fer með óumdeilt dagskrárvald og samhliða var fækkað í framkvæmdastjórninni sjálfri. Kynjajafnvægi er í yfirstjórn RÚV eins og raunin hefur verið frá árinu 2014.

Innri áherslur í nýrri stefnu

Innra starf_9

Uppbygging hæfni og mannauðs

Þjálfun og ráðningar starfsfólks mæta kröfum um uppbyggingu hæfni og mannauðs hjá RÚV. Sífelld þjálfun starfsfólks er lykilatriði í síbreytilegum heimi fjölmiðlunar. Örar breytingar á tækni og samfélagi gefa til kynna að störf í fjölmiðlun munu breytast ört á næstu árum. Samþætting tækni- og dagskrárvinnu krefst þess að þróa hæfni alls starfsfólks í að vinna með nýja tækni. Sameiginleg ábyrgð teymis í dagskrárgerð og tækni ber þar hæst. RÚV vinnur markvisst að móttöku og þjálfun starfsmanna með uppbyggingu RÚV skólans. Þjálfun tekur í meira mæli mið af reynslu systurstöðva RÚV í Evrópu jafnframt því sem þekking innanhúss er nýtt til fullnustu. Ráðningar starfsfólks til RÚV fylgja skýru og metnaðarfullu ráðningarferli. Ráðningin miðar að því að ráða hæfasta einstaklinginn sem uppfyllir jafnframt kröfur um fjölbreytni hópsins. Fagleg móttaka allra nýrra starfsmanna er við lýði og öflug þjálfunaráætlun í upphafi starfs styður við kröfur RÚV um gæði og fagmennsku í allri starfsemi.

Skipulagsveggur

Vinnubrögð uppfærð og teymisvinna efld

RÚV setur skýr viðmið um fagmennsku og nútímaleg vinnubrögð. Lögð er áhersla á að efla starfsemina og starfsmannahópinn með skýrri markmiðasetningu í verkefnum og mati á árangri þeirra. Markviss miðlun upplýsinga hefur aukist mikið og áhersla á sýnileika verkefna og frumkvæði í starfi. Opin og hreinskilin samskipti er lykill að umbótahugsun og einlægum vilja til að gera sífellt betur. Samsetning starfsmannahópsins á að endurspegla íslenskt samfélag enda styrkir fjölbreytileiki starfsfólks starfsemina. Öflug liðsheild og bætt leiðtogafærni eru markmið hjá RÚV sem unnið er að með markvissum hætti. Gullmerki jafnlaunaúttektar PwC náðist hjá RÚV á árinu 2017. Það er stórkostlegur árangur sem tryggir jöfn laun kynjanna fyrir sömu vinnu.

Innra starf_4

Uppfærð kerfi

Vinnuumhverfi RÚV er í auknum mæli stutt af stafrænum kerfum sem styðja við nýsköpun, upplýsingamiðlun, stjórnun verkefna og skráningu. Undanfarið hefur nýr hugbúnaður og ný kerfi tekið við af eldri kerfum í starfsemi RÚV. Kröfur eru um að sífelld þróun hæfni og verkfæri framtíðar haldist í hendur. Hjá RÚV er nútímaleg og öguð fjármálastjórn sem styður við sköpun og fagmennsku í starfseminni. Undanfarið ár hefur áætlanagerð, skipulag og innri kerfi verið þróuð enn frekar og innleidd en þau styðja vel við stefnuáherslurnar. RÚV vegur og metur hagkvæmustu og bestu leiðina við vinnslu hvers verkefnis, m.a. með hliðsjón af útvistun og samvinnu við sjálfstæða framleiðendur. Uppbygging stafrænna innviða er í fullum gangi og munu þeir styrkja kjarnaferla og nýsköpun í dagskrárgerð og vinnslu efnis.

Varðveisla og miðlun íslenskrar tungu og menningar

Safnadeild RÚV 

Í safni Ríkisútvarpsins er gríðarlegt magn sjónvarps- og útvarpsefnis frá upphafi útsendinga hérlendis árið 1930. Óhætt er að segja að Ríkisútvarpið hafi skráð nútímasögu þjóðarinnar og að mikilvægur hluti þeirrar sögu sé geymdur í söfnum Ríkisútvarpsins. Þar á meðal eru sannkallaðar þjóðargersemar, þar sem efni af öllu tagi er varðveitt; upptökur af daglegu lífi Íslendinga á þessum tíma, upptökur frá stærstu viðburðum í sögu þjóðarinnar, ómetanlegar heimildir af merku fólki og merkum listviðburðum. Umfang þessa safnaefnis er gríðarlegt og hluti þess liggur undir skemmdum. Því hefur legið fyrir um nokkra hríð að brýnt sé að ráðast í yfirfærslu efnisins á stafrænt form, skráningu og að endingu að gera efnið aðgengilegt almenningi. Þannig verði tryggt að safnaefnið glatist ekki og þessi mál komist í ásættanlegt horf, sambærilegt því sem tíðkast hjá nágrannaþjóðum.
Í þjónustusamningi milli mennta- og menningarmálaráðherra og Ríkisútvarpsins frá apríl 2016 er kveðið á um að safnaefni skuli fært yfir á stafrænt form á tíma samningsins, sem lýkur í lok árs 2019 og að RÚV skuli framkvæma kostnaðarmat og kynna ráðuneytinu. Í framhaldinu verði tekin ákvörðun um framhald verkefnisins. Á starfsárinu hóf Ríkisútvarpið undirbúning fyrir kostnaðarmat og aðgerðaáætlun. Verkefnið fólst í að greina safn Ríkisútvarpsins og skila tillögu að aðgerðaáætlun um það hvernig safnaefninu væri komið á stafrænt form. Hvernig skráning þess væri endurskoðuð þannig að það uppfyllti nútímakröfur um aðgengi og nýtingu. Einnig að gera kostnaðarmat og tillögu miðað við að verkefninu yrði lokið á fimm árum. Markmiðið var að standa að verkefninu á sem hagkvæmastan hátt en þó þannig að öllum gæðastuðlum væri fullnægt. Síðast en ekki síst var horft til þess hvernig almannaþjónustumiðlar í löndunum í kringum okkur hefðu unnið að sambærilegum málum. Þar var leitað til DR, SVT, Kringvarpsins í Færeyjum og NRK. Ráðgert er að afhenda ráðuneytinu greinargerðina á fyrri hluta árs 2018.

Málfar og þýðingar

RÚV hefur ríkar skyldur gagnvart íslensku máli. RÚV hefur sett sér málstefnu og málfarsráðunautur veitir ráðgjöf og sinnir yfirlestri og stuðlar þannig að því bæta íslenskukunnáttu og auðga málfar starfsfólks. Á starfsárinu voru upplýsandi og fræðandi þættir um íslenskt mál í öllum miðlum. Þýðingardeild RÚV sér um þýðingar á öllu erlendu efni í sjónvarpsdagskrá RÚV. Þess er gætt að ávallt fylgi íslenskt tal, íslensk talsetning eða texti á íslensku eftir því sem við verður komið.

Bætt aðgengi

Samkvæmt 6. gr. laga um Ríkisútvarpið nr. 23/2013 skal stuðlað að því að heyrnar- og sjónskertir fái upplýsingar og geti verið virkir þátttakendur í samfélaginu. Ríkisútvarpið tekur það hlutverk alvarlega að veita heyrnar- og sjónskertum víðtæka þjónustu jafnt við miðlun menningar sem og upplýsinga er varða allan almenning. Aðalfréttatími í sjónvarpi er textaður á síðu 888 í textavarpi og Kastljós er sent út með texta í endursýningu.

Fjölbreyttur, samstilltur starfsmannahópur

260

Meðalfjöldi stöðugilda

43,9

Meðalaldur starfsfólks

8,5

Meðalstarfsaldur starfsfólks

43%

Hlutfall kvenna í hópi starfsmanna

Jafnréttisátak RÚV og sýnilegur árangur

Eftirfarandi texti birtist í skýrslu félagsmála- og jafnréttisráðherra 2015-2017:

Á undanförnum misserum hefur RÚV haft jafnréttismál í forgrunni í allri sinni starfsemi og náð marktækum árangri. Á árunum 2014 og 2015 voru hlutföll karla og kvenna jöfnuð í yfirstjórn RÚV, í hópi millistjórnenda og umsjónarmanna í allri dagskrá RÚV, í útvarpi og sjónvarpi.

 

Skýr markmið og nákvæm greining
RÚV setti sér skýr markmið um að ná jafnvægi milli kynja í hópi viðmælenda. Markmiðið er að það séu algerlega jöfn kynjahlutföll í allri dagskrá allra miðla, þar er krafan að tekin séu viðtöl við jafnmargar konur og karla. Fréttir endurspegla samfélagið sem við búum í og í því samfélagi er því miður ekki enn jafnvægi á milli kynja í valdastöðum, t.a.m. í stjórnmálum og stjórnunarstöðum í atvinnulífinu. Því þótti óraunsætt að setja jafn ströng viðmið fyrir fréttir og aðra dagskrá. Af þeim sökum var sett það viðmið að hlutfall kvenna sem viðmælenda í fréttum á ársgrundvelli yrði yfir 35% á árinu 2017 og myndi svo vaxa jafnt og þétt á næstu árum.

Til að fylgjast markvisst með fjölda viðmælenda og byggja greiningu á marktækum gögnum var ákveðið að ráðast í umfangsmikla skráningu gagna um alla dagskrá á hverjum degi og er kynjahlutfall skráð með reglubundnum hætti í meira en 60 dagskrárliðum. Gerð var krafa um að ábyrgðarmenn hvers dagskrárliðar næðu jafnvægi í hópi viðmælenda og skráðu kyn þeirra jafnóðum í sérstakt forrit sem hannað var til að fylgjast með framvindunni. Dagskrárstjóri hvers miðils fylgir markmiðum eftir frá degi til dags og sér stöðu einstakra þátta og miðilsins í heild. Ársfjórðungslega er safnað saman tölum fyrir alla miðla og RÚV í heild og tölurnar birtar opinberlega á vef RÚV. Með þeim hætti skapast frekara aðhald og almenningur hefur tækifæri til að fylgjast með stöðu og árangri.

 

Kynjajafnvægi í allri dagskrá RÚV árið 2017
Mikill árangur hefur náðst og nú í febrúar var kynjauppgjör ársins 2017 birt opinberlega fyrir alla miðla RÚV. Niðurstaðan er jafnvægi í allri dagskrá RÚV, þar sem hlutfall viðmælenda er eftirfarandi: karlar 51% en konur 49%. Tölurnar staðfesta mun betri árangur en birst hefur í öðrum könnunum. Í fréttum er lengra í land því að þar voru 64% viðmælenda karlar en 36% konur þrátt fyrir að gripið hafi verið til aðgerða til að fjölga viðmælendum í hópi kvenna, t.d. með því að fjölga álitsgjöfum úr hópi kvenna.

RÚV tekur hlutverk sitt sem fjölmiðill í almannaþjónustu alvarlega og vill hafa jákvæð og uppbyggileg áhrif á samfélagið. Til viðbótar við aðgerðir til að jafna hlutföll kvenna og karla í hópi stjórnenda, umsjónarmanna og viðmælenda hefur RÚV ráðist í fjölmörg önnur verkefni í sama tilgangi. Stjórnendur hafa unnið að því að eyða út kynbundnum launamun sem er nú kominn vel undir 2% og hlaut RÚV gullmerki jafnlaunaúttektar PWC vorið 2016, fyrst fjölmiðla. Vinna við jafnlaunavottun stendur sem hæst og samhliða því hefur verið unnið að bættri samþættingu vinnu og einkalífs starfsfólks miðilsins. Þá hefur RÚV markvisst staðið fyrir ýmsum aðgerðum til að hvetja konur þátttöku á sviðum þar sem þær hafa ekki látið til sín taka, m.a. með námskeiði í íþróttafréttamennsku fyrir konur, námskeiðum í spurningatækni fyrir Gettu betur og kynjakvóta í liðum í Gettu betur.