Sjónvarp

Innlend dagskrá í öndvegi

Viðburðaríkt sjónvarpsár

Sjónvarpsárið var sérlega viðburðaríkt og þáttaraðir RÚV sópuðu að sér Eddu-verðlaunum sem aldrei fyrr.

fangar_500x500

Leikið íslenskt efni

Nýtt leikið íslenskt sjónvarpsefni var fyrirferðarmikið á RÚV á árinu, sérstaklega í byrjun árs. Á nýársdag var frumsýnd ný þáttaröð í sex hlutum, Fangar, í leikstjórn Ragnars Bragasonar. Þáttaröðin, sem byggð er á hugmynd Unnar Aspar Stefánsdóttur og  Nínu Daggar Filippusdóttur, vakti gríðarlega athygli og hlaut 10 Eddur, meðal annars fyrir leikið sjónvarpsefni og sjónvarpsefni ársins. Í kjölfar hennar var frumsýnd gráglettin rómantísk gamanmynd í tveimur hlutum, Reykjavík, eftir Ásgrím Sverrisson og önnur þáttaröð um listamanninn Hulla. Hulli er teiknuð útgáfa af höfundi þáttanna, Hugleiki Dagssyni, sem býr í teiknaðri Reykjavík og hangir með teiknuðum vinum sínum. Um páskana var frumsýndur gamanþáttur í tveimur hlutum eftir Veru Sölvadóttur, Líf eftir dauðann, um poppstjörnuna Össa sem á að keppa fyrir Íslands hönd í Eurovision en neitar að fara af landi brott fyrr en búið er að jarðsetja móður hans. Í september frumsýndi RÚV Loforð, nýja íslenska þáttaröð fyrir alla fjölskylduna í leikstjórn Braga Þórs Hinrikssonar. Þættirnir voru unnir upp úr hugmynd Guðjóns Karlssonar (Góa).

Loforð_1

Fjölmargar nýjar íslenskar kvikmyndir voru frumsýndar á árinu. Þar á meðal voru verðlaunamyndirnar Hjartasteinn og Þrestir, gamanmyndirnar Bakk og Þetta reddast, kvikmyndirnar Frost, XL og Morðsaga og verðlaunastuttmyndirnar Hjónabandssæla, Regnbogapartý og Ungar, og auk þess myndirnar Brynhildur og Kjartan, Leitin að Livingstone og Góður staður. Athygli vakti að konur leikstýrðu fimm af sex stuttmyndum sem frumsýndar voru á árinu.

Íslenskt bíósumar var á sínum stað á sunnudögum í sumar. Þá voru endursýndar sígildar íslenskar kvikmyndir í eldri jafnt sem endurbættum útgáfum.

Áramótaskaupið 2017, í leikstjórn Arnórs Pálma Arnarsonar, vakti mikla lukku. Titillag Skaupsins, Seinni tíma vandamál, sló í gegn og var í mikilli spilun mánuðina eftir Skaupið. Lagið samdi Daði Freyr, sem vann hug og hjörtu Íslendinga í Söngvakeppninni fyrr á árinu.

RÚV sýndi tvær einstakar leikhúsuppsetningar í beinni útsendingu á árinu, lokasýningu Njálu, uppsetningu Borgarleikhússins og Íslenska dansflokksins á Brennu-Njáls sögu í leikstjórn Þorleifs Arnar Arnarssonar, og leikritið Með fulla vasa af grjóti í Þjóðleikhúsinu, þar sem Hilmir Snær Guðnason og Stefán Karl Stefánsson fóru á kostum í öllum hlutverkunum.

Fjörskyldan

Fjölskyldan og fróðleikur í fyrirrúmi

Úrval innlendra þáttaraða var sem fyrr fjölbreytt og vandað. Einna mesta athygli vöktu þættir sem tóku á aðgengilegan máta á viðfangsefnum sem í senn eru aðkallandi og fræðandi, með efnistökum sem samræmdust vel nokkrum af meginhlutverkum RÚV. Þar má nefna Paradísarheimt þar sem Jón Ársæll Þórðarson ræddi við fólk sem á við geðrænan vanda að stríða. Þættirnir vöktu mikla athygli þegar þeir voru frumsýndir í febrúar. Auk þess má nefna þáttaröðina Ævi, í umsjón Sigríðar Halldórsdóttur, þar sem fjallað var um ævina frá upphafi til enda, Sögustaði, með Einari Kárasyni, þar sem fjallað er um atburði sem urðu á sögufrægum slóðum og aðra þáttaröð Brauðryðjenda, þar sem Eva María Jónsdóttir ræddi við konur sem rutt hafa brautina í einhverjum skilningi.

Fjölskyldan var í forgrunni á árinu og var lögð áhersla á að sameina kynslóðirnar fyrir framan skjáinn og var boðið upp á fjölbreytt fjölskylduvænt efni. Má þar nefna Fjörskylduna, nýjan fjölskyldu- og skemmtiþátt í umsjón Jóns Jónssonar á haustmánuðum. Í þættinum etja fjölskyldur kappi í bráðfyndnum spurningaleikjum og þrautum. Örkin var fróðleg þáttaröð um samband manns og dýra. Í nýrri þáttaröð, Háseta, fóru Fannar Sveinsson og Benedikt Valsson, fyrrverandi hraðfréttamenn, á ævintýralegan túr sem hásetar á frystitogara. Framapot voru þættir fyrir ungt fólk þar sem Steiney Skúladóttir og Sigurlaug Sara Gunnarsdóttir kynntu sér hvaða nám og störf standa ungu fólki til boða og fengu nasasjón af ýmiss konar starfsframa. Í desember var frumsýnd ný þáttaröð, Aðstoðarmenn jólasveinanna, þar sem öll fjölskyldan fékk tækifæri til að kynnast fólkinu sem aðstoðar jólasveinana við jólaundirbúning og hjálpar okkur hinum að komast í jólaskapið.

Kveikur hóf göngu sína í nóvember. Kveikur er nýr vikulegur fréttaskýringaþáttur með áherslu á rannsóknarblaðamennsku unninn í samstarfi fréttastofu og dagskrárdeildar. Um leið varð breyting á Kastljósi sem varð einfaldara í sniðum með áherslu á viðtöl í sjónvarpssal.

Gamlir og góðir þættir voru á sínum stað í vetur svo sem Útsvar, Vikan með Gísla Marteini, Alla leið, Gettu betur, Silfrið og Kiljan og nýjar þáttaraðir af Ísþjóðinni og Með okkar augum, tveir nýir þættir af Hæpinu og Andri fór aftur á flandur, nú í túristalandinu Íslandi.

Að lokum má nefna skemmti- og söfnunarþátt í beinni útsendingu á degi rauða nefsins, í samvinnu við UNICEF. Grínistar, leikarar, fjölmiðlafólk og tónlistarmenn sköpuðu saman ógleymanlegt kvöld og skoruðu á fólk að hjálpa börnum um heim allan með því að gerast heimsforeldrar.

svala_500x500

Söngvakeppnin

Fyrirkomulag Söngvakeppninnar 2017 var með svipuðu sniði og árið áður. Tvær forkeppnir voru í Háskólabíói og í ljósi mikillar velgengni árið áður var ákveðið að endurtaka leikinn og hafa úrslitakvöldið í Laugardalshöllinni. Útsendingin heppnaðist jafnvel enn betur þetta árið og komust færri áhorfendur að en vildu. Ljóst er að það fyrirkomulag að gefa almenningi kost á að kaupa miða á forkeppnir og úrslit hefur fest sig í sessi og eftirspurn og miðasala eykst með hverju ári.

Eftir æsispennandi keppni milli Daða Freys og Svölu stóð Svala uppi sem sigurvegari í Söngvakeppninni 2017 með lagið Paper. Hún keppti því fyrir Íslands hönd í Eurovision í Kænugarði í Úkraínu í maí.

Klassíkin_2

Menning á RÚV

Mikið framboð var á menningardagskrá og beinar útsendingar og upptökur frá hvers kyns menningartengdum viðburðum léku stórt hlutverk í dagskrá RÚV á árinu. Tónlistin var sérstaklega fyrirferðamikil, bæði klassísk og samtímatónlist. Má þar nefna tónleika í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Íslands með Emilíönu Torrini, John Grant og Skálmöld sem og sinfóníska vísindatryllistónleika Ævars vísindamanns. Auk þess sýndi RÚV afmælistónleika Bubba Morthens, 100 ára afmælistónleika karlakórsins Fóstbræðra, sjálfshátíð Nýdanskra í sjónvarpssal, stórtónleika Friðriks Dórs í Hörpu, kveðjutónleika hljómsveitarinnar Retro Stefson og jóla- og fjölskyldutónleika Góa og Stórsveitarinnar.

Klassíkin okkar opnaði vetrardagskrá RÚV öðru sinni. Að þessu sinni var heimur óperunnar í forgrunni í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Íslands og Íslensku óperuna. Þjóðinni gafst kostur á að velja eftirlætis óperuverk sín í netkosningu og Sinfóníuhljómsveitin flutti verkin ásamt fremstu óperusöngvurum og kórum landsins á sérlega veglegum tónleikum í Eldborgarsal Hörpu sem sýndir voru í beinni útsendingu.

Einnig var sýnt frá viðburðum á Listahátíð 2016 og þar bar hæst The Mosaic Project og UR Kammeróperuna. Í desember sýndi RÚV tvo viðburði í beinni útsendingu á tónlistarhátíð Sigur Rósar, Norður og niður, sem haldin var í Hörpu milli jóla og nýárs. Það voru opnunartónleikar hátíðarinnar, jólatónleikarnir Gloomy Holiday, þar sem þekkt jólalög voru færð í myrkari búning í flutningi nokkurra af ástsælustu söngvurum þjóðarinnar, og lokatónleikar Sigur Rósar í Eldborgarsal.

Fimm nýir þættir í viðtals- og tónlistarþáttaröðinni Af fingrum fram voru frumsýndir í upphafi árs eftir þrettán ára hlé. Jón Ólafsson fékk ýmsa tónlistarmenn í spjall og laðaði með þeim fram ljúfa tóna fyrir áhorfendur. Einnig voru sýndir fjórir nýir þættir í þáttaröðinni Stúíó A.

Í þættinum Velkominn Þorri ræddi Sigurlaug M. Jónasdóttir við góða gesti um matargerð og aðra siði sem tíðkast á þorranum. Einnig voru flutt sex ný þorralög eftir Ragnhildi Gísladóttur og Steinunni Þorvaldsdóttur.

Heimildaþáttaröðin Opnun, sem var sýnd snemma árs, fjallaði um samtímamyndlist á Íslandi. Þar að auki sinnti Menningin almennri menningarumfjöllun allan veturinn og fastir viðburðir eins og Tónaflóð á Menningarnótt, Músíktilraunir, Söngkeppni framhaldsskólanna, Iceland Airwaves, Eddan, Gríman og Íslensku tónlistarverðlaunin voru á sínum stað.

opnun
johann_500

Íslenskar heimildarmyndir og þættir 

Fjölmargar íslenskar heimildarmyndir voru frumsýndar á árinu. Í ársbyrjun hófst íslensk heimildarmyndahátíð þar sem áhersla var lögð á myndir sem sýndu hinar ýmsu hliðar mannlífsins. Þar á meðal voru myndirnar Jökullinn logar, Ránsfengur, Jöklaland, Heiti potturinn, Veðrabrigði og Keep Frozen.

Heimildarmyndir tengdar ýmsum listgreinum og listamönnum voru einnig áberandi á árinu. Þar má meðal annars nefna heimildarmynd um 100 ára starfsafmæli Leikfélags Akureyrar, mynd um einleikjahátíðina Act Alone á Vestfjörðum, þátt um Sigurð Pálsson rithöfund og þátt um Tónsmiðjuna, þar sem fyglst var með íslenskum tónlistarkonum sem hittust á Hvammstanga til að vinna að tónsmíðum og textagerð. Þá var á dagskrá Sýning sýninganna, heimildarmynd um sögu fjölleikahúsa og farandskemmtikrafta við frumsamda tónlist eftir nokkra liðsmenn Sigur Rósar. Í annarri mynd var fylgst með ferð karlakórsins Fjallabræðra til Lundúna í Abbey Road hljóðverið. Í myndinni Vegir liggja til allra átta var farið yfir farsælan feril Kristbjargar Kjeld, einnar ástsælustu leikkonu þjóðarinnar.

Í myndunum Sporlaust (Out of thin air) og Meinsærið, sem sýndar voru á haustmánuðum, var fjallað um Guðmundar- og Geirfinnsmálið og tilurð þeirra röngu sakargifta sem fjallað hefur verið um undanfarna áratugi. Meðal annara heimildarmynda voru Finndið, Halli siguvegari, Ljúfi Vatnsdalur, Línudans, Eldhuginn Sigurður A. Magnússon, InnSæi og Spólað yfir hafið, sem sýnd var í tveimur hlutum.

Í tilefni þess að 500 ár voru frá upphafi siðbreytingarinnar gerði RÚV tvo þætti um lífshlaup Marteins Lúthers og helstu hugmyndir siðbótarinnar. RÚV frumsýndi einnig tvær metnaðarfullar heimildarþáttaraðir, annars vegar Vatnajökul – Eldhjarta Íslands, þáttaröð í fjórum hlutum þar sem áhorfendur kynntust undraheimi jökulsins, og hins vegar tvo þætti um Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrrverandi forsætisráðherra og formann Samfylkingarinnar.

sjonvarp_skam_500x500

Erlent

 

Fyrir ungt fólk

Norska ungmennaþáttaröðin Skömm (Skam), sem hóf göngu sína á RÚV á haustdögum, naut mikilla vinsælda frá upphafi. Þáttaröðin var sett í heild sinni í spilara á vef RÚV og í appi og hafði birting þeirra þar forgang fram yfir sýningar í sjónvarpi. Mun þetta vera í fyrsta sinn sem svo er gert hjá RÚV.

Leikið efni 

Leikið erlent efni hefur löngum átt stóran hlut í dagskrá RÚV og sem fyrr var áhersla lögð á sem fjölbreyttast úrval af leiknu evrópsku efni. Leikið norrænt efni skipaði veglegan sess sem og efni frá Bretlandi, Frakklandi og Þýskalandi. Sérstaka athygli vöktu norska þáttaröðin Hernám (Okkupert), sænska spennuþáttaröðin Miðnætursól (Midnattsol), sænsku þættirnir Fröken Frímann fer í stríð (Fröken Frimans Krig) og danska þáttaröðin Svikamylla (Bedrag). Margverðlaunaðir breskir þættir á borð við Hamingjudal (Happy Valley II), Stríð og frið (War and Peace) og Næturvörðinn (The Night Manager) voru einnig á dagskrá RÚV. Síðast en ekki síst rann upp kveðjustund þegar lokaþáttaröðin af Downton Abbey var sýnd.

Heimildarmyndir og fræðsluþættir 

Fjölbreytileikinn var í fyrirrúmi í erlendum heimildarmyndum og fræðsluþáttum. Rýnt var í sögu sjöunda og áttunda áratugarins (The Sixties, The Seventies) og forsetakosningum í Bandaríkjunum voru gerð góð skil. David Attenborough var heiðraður í tilefni af 90 ára afmæli  sínu í maí sem og minning frægra tónlistarmanna sem féllu frá á árinu. Þar bar hæst fráfall Davids Bowie. Einnig voru á dagskrá fræðsluþættir á borð við Heim mannsins (Human Universe), Sögu guðstrúar (Story of God) með Morgan Freeman og Í saumana á Shakespeare (Shakespeare Uncovered).

Nætur
ras 1_menning_bok_2_Thverbordar_kynningavefur2015

Rás 1

Forvitnilegt ár

gr_20161027_000416

Aukin markaðshlutdeild Rásar 1

Markaðshlutdeild Rásar 1 jókst um tæp 20% árið 2017. Á undanförnum árum hafa nokkrar breytingar verið gerðar á dagskrá Rásar 1. Þær hafa miðað að því að styrkja dagskrárrammann þar sem megináhersla er lögð á sterka samfélags- og fréttaumfjöllun, menningarumfjöllun, mannlífsþætti og tónlist. Morgunvaktin byrjaði dagskrána alla virka daga. Þátturinn var lengdur í byrjun ársins og er í beinni útsendingu frá kl. 6.50 til 9. Segðu mér tók við og svo nýr tónlistarþáttur með Kristjáni Kristjánssyni, Á reki með KK. Mannlegi þátturinn og Samfélagið römmuðu svo inn hádegið. Tónlist tekur svo við og endurfluttir þættir af ýmsu tagi úr helgardagskrá. Síðdegið var svo helgað menningunni. Eftir Spegilinn voru sendir út þættir á vegum KrakkaRÚV og kl. 19 tóku við tónlistarútsendingar frá viðburðum í evrópskum tónlistarsölum eða tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Kvölddagskrá Rásar 1 var að mestu endurflutningur á efni frá því fyrr um daginn en Kvöldsagan var þó fastur punktur í henni. Bryddað var upp á þeirri nýbreytni að hafa alla nýja bókmenntalestra aðgengilega í Hlaðvarpi RÚV og bætir það mjög þjónustu við hlustendur. Fjórir nýir lestrar voru teknir upp á árinu, Tómas Jónsson Metsölubók eftir Guðberg Bergsson, Undantekningin eftir Auði Övu Ólafsdóttur, Fiskarnir hafa enga fætur eftir Jón Kalman Stefánsson og Óratorrek eftir Eirík Örn Norðdahl. Tekin voru ítarleg viðtöl við þrjá fyrstnefndu höfundana í tilefni af þessu, bæði í hljóði og mynd.

Á sama tíma og dagskrárramminn var styrktur hefur markvisst verið unnið að því að fjölga þáttum í dagskrá Rásar 1 sem byggja á ítarlegri heimildavinnu og hljóðvinnu. Nefna má þætti Veru Illugadóttur, Í ljósi sögunnar, sem slegið hafa rækilega í gegn, einkum í Hlaðvarpinu og ýmsar þáttaraðir á borð við Reykjavíkurnætur eftir Sigyn Blöndal, Fátækt fólk eftir Mikael Torfason, 460 Tálknafjörður eftir Arnhildi Hálfdanardóttur og Markmannshanskana hans Alberts Camus eftir Guðmund Björn Þorbjörnsson.

gr_20170406_000628
deiltmedtveimur_500x500

Frumsköpun í Útvarpsleikhúsinu

Í Útvarpsleikhúsinu er lögð áhersla á frumsköpun íslenskra listamanna, framleidd eru útvarpsleikrit og vandað heimildaefni þar sem skapandi efnistökum er beitt.  Útvarpsleikhúsið frumflutti á árinu 2017 fjögur framhaldsverk, tvö stök verk og sjö stuttverk eftir nemendur í ritlist við Háskóla Íslands. Framhaldsleikrit fyrir alla fjölskylduna var frumflutt um páska, leikritið Skepnan eftir Hildi Knútsdóttur, og um jól fékk Útvarpsleikhúsið til liðs við sig spunaleikhópinn Improv Ísland sem spann þrjá stutta söngleiki. Framhaldsleikritið Lifun eftir Jón Atla Jónasson hlaut þriðju verðlaun á evrópsku ljósvakahátíðinni Prix Europa í sínum flokki á árinu og undirritaður var samstarfssamningur til þriggja ára við Sviðlistadeild Listaháskóla Íslands sem felur meðal annars í sér að útskriftarárgangar leika í útvarpsverkum sem samin verða sérstaklega fyrir hópinn. Einnig má geta þess að leikritið Mannasiðir eftir Maríu Reyndal, sem frumflutt var á árinu, fær framhaldslíf í sjónvarpi á árinu 2018 en RÚV framleiðir sjónvarpsmynd í tveimur þáttum sem byggð er á útvarpsverkinu.

morgunvakt_500x500

Tónlistin mikilvægur hluti

Tónlist er mikilvægur hluti af dagskrá Rásar 1. Hún kemur við sögu í flestum dagskrárliðum rásarinnar og er hlutur tónlistar tæpur þriðjungur af dagskrá Rásar 1.

Á rekstrarárinu voru á dagskrá Rásar 1 bæði tónlistarþættir, þar sem umsjónarmenn kynntu tónlist af ýmsu tagi, tónleikahljóðritanir, bæði innlendar og erlendar og hljóðrit Ríkisútvarpsins bæði ný og úr safni.

tosca_500x500

Einn mikilvægasti liðurinn í tónlistardagskrá Rásar 1 er hljóðritun á tónlist. Með beinum útsendingum frá tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands og útsendingum frá tónlistarviðburðum á borð við Listahátíð í Reykjavík, Jazzhátíð Reykjavíkur og sýningum Íslensku óperunnar gegnir Rás 1 lykilhlutverki við miðlun tónlistar til allra landsmanna. Upptökur frá ýmsum tónlistarviðburðum eru fluttar annars vegar í þættinum Úr tónlistarlífinu og í hátíðardagskrá. Auk Sinfóníuhljómsveitar Íslands er Rás 1 í samstarfi um hljóðritanir við Stórsveit Reykjavíkur, tónlistarhátíðirnar Myrka músikdaga, Reykjavík Midsummer Music, Reykholtshátíð og Sumartónleika í Skálholti. Ennfremur má nefna tónleika Kammersveitar Reykjavíkur, tónleika úr Tíbrárröð Salarins í Kópavogi, tónleika Kammermúsíkklúbbsins, Kúnstpásu Íslensku óperunnar, Ung Nordisk Musik og tónleikahljóðritanir frá Þjóðlagahátíðinni á Siglufirði og Reykjavík Folk Festival.

Sígild tónlist og samtímatónlist eru í öndvegi í dagskrá Rásar 1, en einnig djass, dægurlög fyrri tíðar og það sem skarar fram úr í nýrri tónlist af öllum gerðum hér á landi sem erlendis. Rás 1 leitast við að að upplýsa og fræða hlustendur um sögu tónlistar og strauma og stefnur í samtímanum. Þar gegna og Lestin mikilvægu hlutverki og einnig má nefna þáttaröðina Klassíkin okkar – heimur óperunnar og spurningaleikinn Hvað er að heyra. Í október stóð Rás 1 fyrir sinni eigin tónlistarhátíð, Deilt með tveimur, þar sem frumflutt voru ný verk sem pöntuð voru sérstaklega af þessu tilefni.

Samstarf við Samband evrópskra útvarpsstöðva (EBU) er þýðingarmikill liður í tónlistardagskrá Rásar 1 og hafa hlustendur notið þessa samstarfs í reglulegum útsendingum. Ríkisútvarpið og íslenskt tónlistarlíf hafa með þessu samstarfi verið virkir þátttakendur í frjóu samfélagi evrópsks tónlistarlífs því að hljóðritanir Ríkisútvarpsins standa öðrum evrópskum útvarpsstöðvum til boða auk þess sem Ríkisútvarpið hefur tekið þátt í alþjóðlegum samsendingum til milljóna hlustenda um allan heim, til dæmis á árlegum tónleikadögum EBU.

ras2_mic_mixer_Thverbordar_kynningavefur2015

Rás 2

Íslenskt tónlistarútvarp

sidegisutvarpid_500x500

Íslensk tónlist var í öndvegi á Rás 2 árið 2017 enda er eitt meginhlutverk stöðvarinnar að spila, kynna og fjalla um íslenska tónlist. Rúmur helmingur þeirrar tónlistar sem leikin var á stöðinni var íslensk auk þess sem mikið var lagt upp úr tónleikaupptökum. Rásin hefur ávallt gefið ungu tónlistarfólki tækifæri og á því varð engin breyting. Sem fyrr tók Rás 2 þátt í stórum tónlistarhátíðum og má þar nefna Aldrei fór ég suður, Drangey, Iceland Airwaves, Secret Solstice, Sónar og Havarí. Hápunktur ársins hverju sinni er svo Tónaflóð, stórtónleikar Rásar 2 á Menningarnótt. Hljómsveitin Síðan skein sól lauk dagskrá Tónaflóðs að þessu sinni og fagnaði um leið 30 ára starfsafmæli sínu.

Músíktilraunir

Músíktilraunir voru haldnar í 35. sinn 2017 og hefur Rás 2 útvarpað óslitið frá úrslitakvöldinu í 25 ár, frá 1992. Margar frægustu sveitir Íslandssögunnar hafa þreytt frumraun sína í þessari mögnuðu keppni og það er sönn ánægja að geta fært þjóðinni keppnina ár eftir ár. Sigursveitin Between Mountains var skipuð tveimur vestfirskum stúlkum sem munu vafalítið láta mikið til sín taka. En það er ekki aðeins með Músíktilraunum sem Rás 2 sinnir grasrótinni í íslenskri tónlist. Í þáttum á borð við Langspil og Skúrinn er eingöngu leikin ný íslensk tónlist og ný íslensk lög rata greiðlega inn á spilunarlista stöðvarinnar.

ras2_500x500

Fréttir og stórviðburðir

Rás 2 leggur mikið upp úr því að vera með þjóðinni þegar stórir atburðir verða. Í fréttatengdum þáttum á borð við Morgunútvarpið og Síðdegisútvarpið er fylgst með málefnum líðandi stundar og bæði er haft frumkvæði að umfjöllun og öðrum fréttum fylgt eftir. Fréttir eru sendar út á Rás 2 allan sólarhringinn auk þess sem fréttastofan á greiða leið inn í útsendingu þegar mikið liggur við. Þannig er Rás 2 mikilvægur liður í öryggishlutverki RÚV og miðlar upplýsingum til þjóðarinnar á hraðan og öruggan hátt.

Áskoranir í breyttum heimi

Á undanförnum árum hefur Rás 2 skerpt á sérstöðu sinni. Íslensk tónlist stendur enn framar í dagskránni en áður og Rás 2 tekur þátt í nær öllum tónlistarhátíðum á landinu. Mikil áhersla er lögð á kynjajafnvægi í dagskrá. Það hefur batnað mikið á síðastliðnum fjórum árum og nú er jafnvægi  milli kynja á Rás 2. Á síðustu misserum hefur þeim Íslendingum fjölgað hratt sem eru áskrifendur að tónlistarveitum á borð við Spotify auk þess sem hlaðvarp frá öllum heimshornum er aðgengilegt í öllum snjalltækjum. Í flestum löndum hefur línulegt útvarp átt undir högg að sækja og þá einkum í yngri aldurshópunum. Rás 2 heldur þó enn sterkri stöðu á íslenskum útvarpsmarkaði, þótt nokkuð hafi dregið úr hlustun.
Með skipulagsbreytingum í lok árs var ákveðið að sameina Rás 2 og númiðla í eitt svið sem sinnir símiðlun hér og nú. Mikil tækifæri felast í að sameina þann hóp sem fylgir stórum hluta landsmanna í gegnum daginn með lifandi símiðlun. RÚV núll er ný þjónusta fyrir fólk á aldrinum 15-29 ára sem er hluti af nýja sviðinu. Baldvin Þór Bergsson er dagskrárstjóri Rásar 2 og númiðla en samhliða sameiningunni létu tveir stjórnendur af störfum eftir frábært uppbyggingarstarf, þeir Frank Hall dagskrárstjóri Rásar 2 og Ingólfur Bjarni Sigfússon sem leiddi nýmiðla.

sirkusjons_500x500
ruvis laptop kk sarpur Thverbordar_kynningavefur2015

RÚV.is

Vefþjónusta í örum vexti

ruvis_spilari_500x500

Segja má að árið 2017 hafi ekki aðeins verið lögð áhersla á að auka og bæta þjónustu nýmiðlasviðs heldur var lagður grunnur að stórum verkefnum sem efla RÚV til frambúðar. Nýr menningarvefur endurspeglar vel fjölbreytta umfjöllun um allt frá hámenningu og heimspeki til poppmenningar í víðum skilningi. Undir lok ársins fór mikil orka í hönnun og smíði nýs spilara sem fer í loftið í ársbyrjun 2018 og gerir kleift, ásamt flutningi rúv.is í skýið, að mæta þörfum framtíðarinnar með öflugri ólínulegri miðlun. Allt miðar það að því að mæta notendum á þeirra forsendum og auðvelda almenningi að nálgast allt efni RÚV.

Notendur rúv.is virtust ánægðir með breytingar á vefnum því að árið 2017 skoðuðu þeir mun meira efni en 2016 og vörðu að meðaltali rúmlega tvöfalt lengri tíma á síðunni.

Hlutfall þeirra vefnotenda sem heimsækja vefinn og fara beint þaðan út, lækkaði umtalsvert, um 14,54%.

Hlutur samfélagsmiðla jókst einnig og lætur nærri að fjórir af hverjum tíu komi á RÚV.is af samfélagsmiðli með Facebook fremst í flokki.

Nýr spilari

Með nýjum spilara á RÚV.is stórbatna allir möguleikar á framsetningu á ólínulegu efni. Á forsíðunni er efni raðað eftir efnisflokkum þannig að almenningur getur með einföldum hætti fundið hljóð- og myndefni við sitt hæfi.
Nýi spilarinn er forritaður í React og sækir öll gögn í nýtt vefþjónustulag (API) sem hýst er hjá Amazon og nýtir ýmsa þjónustu frá þeim, t.d. ElasticSearch, Lamba functions og CloudFront. Vinnan hófst í byrjun árs með hönnun á útliti spilarans og er hugmyndin sú að hann birtist fólki með samræmdum hætti, hvort sem er á vef, í appi eða sjónvarpsboxum símafélaganna. Í ágústlok hófst forritun af fullum krafti og að jafnaði unnu þrír forritarar í nýjum spilara sem var kominn í loftið tæpum fimm mánuðum síðar.
Nýr spilari RÚV er ekki bara uppfærsla á útliti því gæði upptakna voru stórlega aukin, skráning lýsigagna bætt og allt gagnalíkan RÚV endurhugsað.

Stafræn miðlun og skipulagsbreytingar

Í stefnu RÚV til 2021 er tekið sérstakt mið af þeim breytingum sem eru að verða á neyslumynstri fólks. Ólínulegt áhorf og hlustun hafa stóraukist og í tvístruðum heimi er mikilvægt að mæta neytendum á þeirra forsendum. Í stefnunni segir að til þess að almannaþjónustumiðill geti uppfyllt grunnmarkmið sín til framtíðar verði hann að vera til staðar á hverjum þeim vettvangi sem fólk notar hverju sinni, bæði á hefðbundnum útvarps- og sjónvarpsrásum og öllum stafrænum miðlunarleiðum. Samkvæmt nýju skipuriti eru númiðlar skilgreindir sem eitt af dagskrársviðum RÚV og var vef- og nýmiðlasvið sameinað Rás 2 í árslok. Ingólfur Bjarni Sigfússon framkvæmdastjóri nýmiðla gekk þá til liðs við fréttaskýringaþáttinn Kveik en Baldvin Þór Bergsson hætti sem umsjónarmaður Kastljóss og tók við starfi nýja sviðsins, Rásar 2 og númiðla.

ruvis_500x500

Þjónusta við ungt fólk

Ný þjónusta við fólk á aldrinum 15-29 ára fékk heitið RÚV núll og var ráðinn verkefnastjóri fyrir þessa þjónustu. Áhersla er lögð á að framleiða vandað efni fyrir þennan aldurshóp þar sem vefur og samfélagsmiðlar eru helsta miðlunarleiðin. Rannsóknir sýna að ungt fólk vill gæðaefni sem framleitt er með það í huga en það vill ekki endilega nálgast það eftir hefðbundnum miðlunarleiðum útvarps og sjónvarps. Fyrsta verkefni RÚV núll var vefþáttaserían Hvað í fjandanum á ég að kjósa, þar sem ung kona ræddi við fulltrúa allra framboða og ákvað framhaldi af því hvaða flokkur kæmist næst skoðunum hennar. Stefnt er að öflugri framleiðslu á efni fyrir þennan aldurshóp 2018. RÚV núll er hluti af númiðlasviði sem endurspeglar stafrænar áherslur þjónustunnar.

Kosningar með skömmum fyrirvara

Alþingiskosningar voru boðaðar með stuttum fyrirvara og því lítill tími sem gafst til að hanna nýjan vef. Þar sem aðeins ár var liðið frá síðustu kosningum var ákveðið að nýta sér útlit og virkni eldri vefsins að mestu enda hafði hann gefist vel. Kjósendur gátu nálgast upplýsingar um öll framboð á vefnum auk kosningaumfjöllunar RÚV í öllum miðlum. Þá var ákveðið að bjóða aftur upp á kosningaprófið vinsæla þar sem kjósendur taka afstöðu til sömu 30 fullyrðinga og frambjóðendur um ýmiss mál. Skemmst er frá því að segja að fjölmargir frambjóðendur sendu inn svör og um 95.000 kjósendur tóku prófið.

kosningar_500x500

Stórviðburðir á vefnum

Þjóðin notar miðla RÚV aldrei eins mikið og í kringum stórviðburði. Kosningar, náttúruvá og menningar- og íþróttaviðburðir sameina þjóðina. Árið 2017 var þar engin undantekning. Umferð um vef RÚV var þó mest í janúar þegar leitin að Birnu Brjánsdóttur stóð yfir. Ef einstakir viðburðir eru skoðaðir fékk leikur Íslands og Kosovo í undankeppni HM karla í knattspyrnu mesta umferð á vefnum enda var það í þeim leik sem Íslendingar tryggðu sér þátttökurétt á heimsmeistaramótinu.

frettir vadlaheidagong Thverbordar_kynningavefur2015

Fréttastofa RÚV

Stendur vaktina í þágu þjóðar

frettir_kosningar_500x500

Óvæntar alþingiskosningar

Þjóðin gekk að kjörborðinu þriðja árið í röð eftir að ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar var óvænt slitið seint að kvöldi 14. september 2017. Boðað var til alþingiskosninga 28. október, aðeins sex vikum síðar. Ellefu flokkar tilkynntu framboð, þar af buðu níu fram í öllum kjördæmum. Þar sem boðað var til kosninga með skömmum fyrirvara og stutt var frá síðustu kosningum vann kosningaritstjórnin á sama grunni og árið áður. Lögð var áhersla á að kynna öll framboð vel og gæta jafnræðis eins og hægt var. Kosningaumfjöllun hófst formlega með leiðtogaumræðum 8. október þegar formenn allra framboða mættust í sjónvarpssal. Formennirnir voru allir teknir tali í þættinum Forystusætinu og öllum flokkum var boðið að senda fulltrúa fjóra málefnaþætti þar sem rætt var um stefnu flokkanna í helstu málaflokkum. Allir flokkar nema einn þáðu boðið. Talsmenn allra framboða í hverju kjördæmi mættust á kosningafundum í útvarpi þar sem fjallað var um þau málefni sem hæst bar í kjördæmunum. Daginn fyrir kjördag, föstudaginn 27. október, mættust í sjónvarpssal formenn allra þeirra framboða sem buðu fram á landsvísu. Lögð var áhersla á viðamikla umfjöllun á vef og samfélagsmiðlum. Í byrjun október var opnaður kosningavefur og þar gátu kjósendur meðal annars mátað sig við frambjóðendur í sínu kjördæmi með æví að taka kosningapróf RÚV. Þar var líka umfjöllun KrakkaRÚV fyrir kosningarnar og umfjöllun RÚVnúll sem fékk Ingileif Friðriksdóttur blaðamann til að ræða við frambjóðendur, við óvenjulegar aðstæður, um málefni ungs fólks. Þættirnir hétu Hvað í fjandanum á ég að kjósa og voru eingöngu birtir á vef og samfélagsmiðlum. Að kvöldi kjördags var umfangsmikil kosningavaka þar sem fylgst var með nýjustu tölum, kosningavökur flokkanna sóttar heim og rætt við frambjóðendur, kjósendur og álitsgjafa.

Kveikur – nýr fréttaskýringaþáttur

Kveikur er nýr vikulegur fréttaskýringaþáttur. Tæpur áratugur var frá því að Ríkisútvarpið hélt síðast út reglulegum fréttaskýringaþætti í sjónvarpi en vinna við stefnumótun RÚV til 2021 leiddi með afgerandi hætti í ljósi ákall almennings um slíkan þátt. Nokkrir reyndustu frétta- og dagskrárgerðarmenn RÚV fengu það hlutverk að móta þáttinn sem hóf göngu sína í nóvember 2017, að þingkosningum loknum. Í þættinum er leitast við að grafa upp mál sem ekki hafa ratað í fréttir eða krefjast nánari skoðunar. Brugðið er upp myndum af áhugaverðu fólki og farið á vettvang atburða erlendis svo eitthvað sé nefnt.

Verkefnið er viðamikið og þar sem ekki kom til sérstök fjárveiting í það var ákveðið að flytja mannskap og fjármuni sem áður voru í Kastljósi yfir í nýja fréttaskýringaþáttinn. Og með samstarfi við dagskrárdeild sem leggur til einn umsjónarmann og einn pródúsent var fréttastofunni kleift að taka þetta mikilvæga skref. Kastljósi var aftur breytt í viðtalsþátt í beinni útsendingu með tveimur umsjónarmönnum og báðir þættir hafa dafnað mjög vel á þessum fyrstu mánuðum.

kveikur_500x500

Verðlaunuð fréttamennska

Aukin áhersla fréttastofunnar á dýpri umfjöllun í öllum miðlum og rannsóknarblaðamennska hefur fallið í góðan jarðveg hjá áhorfendum, hlustendum og lesendum RÚV. Þannig fékk Kveikur Edduverðlaunin sem frétta- og viðtalsþáttur ársins 2017 og Alma Ómarsdóttir fréttamaður hlaut Blaðamannaverðlaun ársins 2017 fyrir rannsóknarblaðamennsku. Verðlaunin hlaut hún fyrir upplýsandi umfjöllun sína um uppreist æru. Auk hennar hlutu fréttamenn á fréttastofu RÚV tilnefningu til blaðamannaverðlauna fyrir umfjöllun ársins og sem blaðamaður ársins.

Fréttastofan á vettvangi erlendis

Eitt af mikilvægum hlutverkum fréttastofunnar er að fjalla heimsmálin, stóra atburði sem smáa. RÚV hefur síðustu ár ekki haft tök á að vera með fréttamenn eða fréttaritara starfandi á erlendri grundu en sendir reglulega fréttateymi á vettvang utan landsteina. Þannig var fréttastofa RÚV í Washington þegar Trump Bandaríkjaforseti tók við embætti í upphafi árs, fréttateymi fylgdi forseta Íslands til Danmerkur og Finnlands og fréttamaður RÚV fór til Sómalíu og flutti fréttir af yfirvofandi hungurssneyð. Fréttastofan var einnig í Frakklandi og Þýskalandi þegar þingkosningar voru haldnar þar í fyrra. Og þá fór teymi Kveiks til Bangladesh og heimsótti flóttamannabúðir Róhingja þar sem ástandið er skelfilegt.

frettir_bakvidtjold_500x500

Fréttastúdíó

Fréttastofan hefur ekki haft sitt eigið sjónvarpsmyndver síðan fréttastofa Sjónvarps flutti af Laugavegi 177 í Efstaleitið í ágúst 2000. Síðustu átján ár hafa sjónvarpsfréttir og fréttatengdir þættir samnýtt Stúdíó A með dagskrárframleiðslu sjónvarps. Slíkt fyrirkomulag er óvenjulegt á sjónvarpsstöð og óheppilegt fyrir sjónvarpsframleiðslu RÚV. Það voru því mikil tímamót þegar ákveðið var að ráðast loks í framkvæmdir við sérstakt fréttastúdíó.

Undirbúningur fyrir nýja fréttastúdíóið hófst snemma árs og framkvæmdir strax um haustið. Þær töfðust vegna óvæntra kosninga í október en var framhaldið að þeim loknum. Fréttastúdíóið verður notað fyrir beinar útsendingar á sjónvarpsfréttum, aukafréttatímum, Kastljósi, íþróttum, veðurfréttum og fyrir upptökur á fréttatengdu efni.

fimleikakonur_Thverbordar_kynningavefur2015

RÚV íþróttir

Gera íþróttalífi í landinu góð skil

ma_20170710_001677

Eitt besta íþróttaár í sögu Íslands.

Árið 2017 verður lengi í minnum haft sem einstakt íþróttaár. Mánudagskvöldið 9. október tryggði íslenska karlalandsliðið í fótbolta sér sæti í lokakeppni heimsmeistaramótsins í Rússlandi 2018 með 2-0 sigri á Kósovó á Laugardalsvelli. Þar með varð Ísland fámennasta þjóðin sem hefur tryggt sér sæti í lokakeppni HM í 87 ára sögu mótsins. RÚV sýndi alla leiki Íslands í undankeppninni í beinni útsendingu og áhugi almennings var mikill. 58% áhorf var á leik Íslands og Kósóvó og 45% áhorf á leik Íslands og Króatíu. Framundan er HM í Rússlandi 2018 dagana 14. júní til 15. júlí og verða allir 64 leikir mótsins í beinni útsendingu á RÚV. Verkefnið verður eitt það stærsta sem RÚV hefur ráðist í.

Kvennalandsliðið í fótbolta náði þeim frábæra árangri að komast í lokakeppni Evrópumótsins í Hollandi. RÚV sýndi alla leiki mótsins í beinni útsendingu og var umfjöllun RÚV frá mótinu í veglegri umgjörð. Edda Sif Pálsdóttir og María Björk Guðmundsdóttir hlutu fjölmiðlaviðurkenningu KSÍ fyrir þættina Leiðin á EM sem sýndir voru í aðdraganda keppninnar og fjölluðu um leið kvennalandsliðins á EM í fótbolta.

RÚV sendi einnig beint út frá lokakeppni HM karla í handbolta í Frakklandi og lokamóti EM karla í körfubolta í Finnlandi. Þetta var í annað sinn sem íslenska karlalandsliðið í körfubolta fer á lokamót.

ithrottir_500x500

HM í frjálsum íþróttum og HM fatlaðra í frjálsum íþróttum.

RÚV sendi beint út frá heimsmeistaramótinu í frjálsum íþróttum í London. Mótið var það síðasta hjá Usain Bolt og Mo Farah, margföldum Ólympíu- og heimsmeisturum, og eftirvæntingin var því talsverð. Aníta Hinriksdóttir, hlaupari í ÍR, kom fjórða í mark í sínum riðli í undanrásum og náði með því bestum árangri Íslendinga. Helgi Sveinsson spjótkastari vann silfurverðlaun á heimsmeistaramóti fatlaðra sem einnig fór fram í London. Helgi keppti í fötlunarflokki 42-44 sem er flokkur aflimaðra. RÚV var á staðnum og sendi beint út frá báðum þessum mótum auk samantektarþátta sem sýndir voru alla virka daga.

fotbolti_500x500

Meistaradagar

Meistaradagar er yfirskrift íþróttahátíðar sem haldin var í fyrsta sinn í apríl 2017 í samstarfi RÚV og margra sérsambanda. Keppt var um bikar- og meistaratitla í beinni sjónvarpsútsendingu með veglegri umgjörð. Margt af allra fremsta íþróttafólki þjóðarinnar var meðal þátttakenda og keppti um stóra titla í ýmsum greinum hóp- og einstaklingsíþrótta

ithrottir_anita_500x500
krakkaruv_utvarp_Thverbordar_kynningavefur2015

KrakkaRÚV

Úrvalsþjónusta við börn

Stóraukin þjónusta RÚV við börn

Mikil áhersla er nú lögð á framleiðslu innlends barnaefnis. Gæði og framboð innlends barnaefnis endurspeglast ekki síst í KrakkaRÚV sem er yfirheiti yfir alla þjónustu RÚV við börn. Kjarninn í starfseminni er www.krakkarúv.is þar sem nálgast má allt innlent barnaefni RÚV, gamalt og nýtt, fjölda myndskeiða úr safni sjónvarps og talsettar teiknimyndir ásamt vönduðum útvarpsþáttum fyrir börn.

Stundin_4

Stundin okkar

Í Stundinni okkar ferðumst við um landið og hittum skemmtilega krakka. Stundin okkar hefur nú stoppað á 40 stöðum á landinu og kynnst lífinu og tilverunni hjá krökkum á aldrinum 6-12 ára. Stórhættuleg spurningakeppni, grænar slímgusur, furðuverur og ævintýri, stórfurðulegar íþróttagreinar, skapandi þrautir og sögur eftir krakka sem lifna við. Við framleiddum 8 stuttmyndir eftir sögum krakka sem þau sendu inn í Sögu- samkeppnina. Um 1000 börn hafa komið fram í Stundinni okkar í vetur.

Ævar vísindamaður

Ævar vísindamaður hélt áfram að fræða börnin um vísindin í tilverunni en fjórða serían fór í loftið árið 2017.

Krakkafréttir

Krakkafréttir héldu áfram að fræða börn landsins um málefni líðandi stundar. Þá stóð KrakkaRÚV í samstarfi við umboðsmann barna fyrir umfangsmikilli umfjöllun fyrir krakka í tengslum við Alþingiskosningar á Krakkakosningar.is. Markmiðið var að gefa börnum í grunnskóla kost á því að taka þátt í kosningum og kjósa eftir sinni eigin sannfæringu. Um leið fengu þau fræðslu um kosningar og þau framboð og frambjóðendur sem í boði voru.

Útvarp KrakkaRÚV

KrakkaRÚV framleiðir fjóra útvarpsþætti í hverri viku. Mánudaga til fimmtudaga klukkan 18:30 taka fjalla þau Ingibjörg Fríða, Jóhannes Ólafsson, Sigyn Blöndal og Ísgerður Elfa Gunnarsdóttir og Sævar Helgi Bragason um vísindi, menningu, Krakkafréttir vikunnar og málefni líðandi stundar. Þættina má einnig finna á hlaðvarpinu og á vef KrakkaRÚV.

Krakkaruv_500x500

Kóðinn

Kóðinn, forritunarleikar fyrir krakka, voru endurteknir á árinu. Micro:bit smátölvunni var dreift í 110 skóla og hóf Kóðinn formlegt samstarf við Háskóla Íslands. Sérstakur áfangi Kóðans var settur á laggirnar á tölvunarfræðibraut og Micro:bit kennsluvika var innleidd í nám grunnskólakennara.

Kóðaverkefnið á Íslandi var valið sem eitt af bestu sportaverkefnum verkefnum ársins hjá útvarpsstjórum EBU landanna.

Bókaormaráð og KrakkaKiljan

Í haust stofnuðum við Bókaormaráð þar sem við báðum krakka um að lesa nýjar barnabækur. Höfundarnir voru boðaðir hingað í hljóðver og krakkarnir, með aðstoð dagskrárgerðafólks okkar, tóku viðtöl við höfundana um bækurnar þeirra, skapandi skrif og fengu hjá þeim góð ráð. Viðtölunum var streymt beint á RÚV2 og á netinu og auglýst í grunnskólum landsins. Krakkarnir í Bókaormaráðinu fjölluðu svo um bækurnar í Krakka-Kiljunni í Krakkafréttum.

Sögur – Verðlaunahátíð barnanna: (október 2017 – apríl 2018)

Risa-verkefni um læsi og sköpun barna. Hófst haustið 2017 þar sem KrakkaRÚV auglýsti eftir innsendum sögum og handritum frá krökkum.

Við framleiðum stuttmyndir, Borgarleikhúsið sviðsverk, útvarpsleikhúsið útvarpsverk, Borgarbókasafnið heldur námskeið í skapandi skrifum og svo mætti lengi telja. Risa-samstarfs-verkefni sem endar á Sögum-verðlaunahátíð barnanna í apríl 2018 þar sem þessar sögur verða verðlaunaðar sem og sögur sem ætlaðar eru börnum. Fagnefndir verðlauna börnin og börnin verðlauna þau verk sem framleidd eru fyrir þau.

Krakkaviðburðir

KrakkaRÚV leggur mikla áherslu á að fylgjast með Krakkaviðburðum. Skrekkur og Söngkeppni Samfés voru í beinni útsendingu á RÚV en öðrum viðburðum voru einnig gerð góð skil í gegnum vef KrakkaRÚV með hjálp tíu ungmenna sem tóku þátt í fréttamannanámskeiðinu Ungir fréttamenn á vegum KrakkaRÚV og Barnamenningarhátíðar.