Sann­leikurinn í Banda­ríkjum Trumps

Fréttamenn í Bandaríkjunum voru mikið skammaðir fyrir forsetakosningarnar fyrir tveimur árum. Þeir væru rænulitlir um líf fólks utan stóru borganna, orðnir gagnrýnislausir hlutar af elítunni. En hvernig er ástandið núna tveimur árum síðar? Hefur þetta batnað? Eða var þetta kannski ekki rétt? Og hvernig er að flytja fréttir af forseta sem skapar sínar eigin staðreyndir og sinn eigin raunveruleika?

Það er engum blöðum um það að fletta: Forseti Bandaríkjanna á í vægast sagt flóknu og afar sérstöku sambandi við fjölmiðla. Þeir, eru að hans mati, uppspretta lyga og ala á klofningi í samfélaginu.

Erik Wemple, fjölmiðlarýnir Washington Post. (Mynd Stefán Aðalsteinn Drengsson/Kveikur)

Hálfgert leikhús á fréttastöðvunum

CNN sucks, CNN er ömuleg, kalla stuðningsmenn Trumps. Fyrir rétt um hálfum mánuði sendi einn þeirra sprengjur til málsmetandi Demókrata og á ritstjórnarskrifstofur CNN. Fréttamenn verða fyrir aðkasti á uppákomum tengdum Trump. En fjölmiðlar, einkum fréttastöðvarnar, fjalla ekki um neitt annað en Donald Trump og græða vel á því. Nánast leikhús fáránleikans. Hvernig fara fréttamenn að því að vinna vinnuna sína við svona aðstæður – og hvernig standa fréttamiðlar sig? Við heimsóttum ritstjórnarskrifstofur Washington Post og hittum þar Erik Wemple, fjölmiðlarýni blaðsins.

„Þegar horft er á fréttir í kapalsjónvarpi kemur þar fyrir hálfgert leikhús. Því þetta er orðið svo persónulegt og beinist svo eindregið að fjölmiðlafyrirtækjumég býst við að tilfinningahitinn sé orðinn meiri en hann hefur að öllu jöfnu verið. Lítum bara til síðastliðinna tveggja viknaforsetinn og fjöldi annarra hefur stöðugt og í sífellu gagnrýnt CNN og ráðist á þau. Og oftast á veikum grunni og án nokkurs áþreifanlegs. Bréfasprengjur voru svo sendar til CNN svo að það verður þessi gríðarlegi árekstur milli... Þið hafið ráðist á okkur og nú fáum við bréfasprengjurhvað segið þið núna? Getið þið fordæmt þetta? Þeir fordæma sprengjurnar en ekki, allavega ekki til að byrja með, taka þeir CNN með í þeim stofnunum sem hafa orðið fyrir þessum árásum. Svo að CNN finnst það skilið útundan, að þau tilheyri ekki borgurum landsins,“ segir hann.

Með suma í sínu liði

Ekki þar fyrir, Trump er hæstánægður með suma fjölmiðja og fjölmiðlamenn. Til dæmis fyrir réttri viku, á kosningafundi í Wisconsin, kallaði Donald Trump fjölmiðlamanninn Sean Hannity upp á svið til sín. Hannity er umsjónarmaður eins vinsælasta þáttarins á Fox News fréttastöðinni, uppáhaldsstöð Trump. Og hann var þarna, að eigin sögn, til að taka viðtal við Trump.

„Reyndar er allt liðið þarna baka til falsfréttir. Og eitt framar öðru hefur skilgreint forsetatíð þína: Loforð gefin, loforð haldin. Fjögur og hálf milljón nýrra starfa. 4,3 milljónir Bandaríkjamanna hættir með matarmiða, fjórar milljónir lausar undan fátækt. Og við flytjum ekki flugvélafarma af reiðufé til íranskra klerka sem kyrja: Dauðinn til handa Bandaríkjunum. Herra forseti, þakka þér fyrir,“ sagði hann á fundinum.

Fréttamenn láta að jafnaði vera að lýsa yfir stuðningi við tiltekna stjórnmálamenn eða flokka. Þeir reyna líka að halda höfði þegar á þá er ráðist, hvort sem það er forseti á Twitter eða einhver annar.

En daginn eftir kosningar gerðist svo þetta: Starfsmaður Hvíta hússins reyndi að hrifsa hljóðnemann af fréttamanni CNN sem Trump þótti spyrja dónalega.

Nokkrum stundum síðar var Jim Acosta, fréttamaður CNN, sviptur aðgangi að Hvíta húsinu, fyrir að hafa „ráðist á stúlkuna“, eins og talsmenn Hvíta hússins orðuðu það.
Viðbrögð CNN hafa verið harkaleg, atburðarásin fordæmd og talsmenn forsetans sakaðir um lygar, en talsmaður Hvíta hússins dreifði falsaðri upptöku af atburðinum.

Stundum er þetta líkara kjánalegu stríði en fréttum.

Greinin nýtur verndar í stjórnarskrá

„Ætíð þegar fréttamiðlum verður mikið niðri fyrir og fordæma ákveðinn stjórnmálamann þá telur stór hluti Bandaríkjamanna að miðlarnir brjóti með því eigin prinsip, siðferðileg viðmið og vinnureglur. En við höfum heldur aldrei séð slíkar hamfarir í stjórnarháttum eins og við sjáum nú og einkum hvað viðvíkur fjölmiðlum,“ segir Wemple.

„Við erum að fjalla hér um einu atvinnugreinina sem nýtur verndar í stjórnar- skránni, sem sagt frjáls fjölmiðlun. Það er atvinnugreinin sem kveðið er á um í réttindayfirlýsingunni og skilgreind í réttindaskránni sem aðnjótandi verndar. Og hún er ekki beint vel varin eins og er.“

Wemple á skrifstofu Washington Post. (Mynd Stefán Aðalsteinn Drengsson/Kveikur)

En á meðan umræðan snýst um Twitter, fjölmiðla sjálfa og ásakanir á báða bóga, hvað verður um þau mikilvægu mál sem ættu kannski frekar að vera í kastljósinu?

„Ég tel að nú hljóti mörg þjóðþrifamál ekki þá athygli sem þau eiga skilið af því áherslan er svo mikil á miðlana. Og vissulega knýr forsetinn það áfram. Hve ítarleg er umræðan um heilbrigðismálin? Hve ítarleg um innflytjendamálin? Hve ítarleg er umræðan um loftslagsbreytingarnar? Ekki ýkja. Í hverjum hringborðsþættinum á fætur öðrum koma þessir álitsgjafar og þetta er viðskiptamódel. Það er ódýrt og auðvelt að fylla dagskrána og láta fólk bara blaðra um síðasta dægurmálið,“ segir hann.

Ekki bara froða

Þrátt fyrir endalaust spjall og eltingaleik við Trump á fréttastöðvunum, er reyndar töluvert af efnisríkum og vel unnum fréttum í bandarískum fjölmiðlum. Fréttum sem valda titringi og viðbrögðum.

„Það hafa komið ágætar stundiráberandi skyssur hafa orðið sem stuðningsmenn Trumps stökkva á og blása útOg skyssunar verða varasamari en nokkru sinni. Verði manni á mistök í umfjöllun um Trump vita allir af því og maður fær að finna fyrir því. Ég tel það ekki slæma gagnvirkni. Almennt er það ágætt fyrir fréttamiðla. En margir eru á nálum við ritstjórnarlegar ákvarðanir,“ segir Wemple.

Í aðdraganda kosninganna 2016 voru fjölmiðlar sakaðir um tvennt öðru fremur: að veita Donald Trump óheftan og gagnrýnislausan aðgang og að hafa ekki minnstu hugmynd um hvað væri að gerast utan stórborganna sem flestir fréttamenn búa í. Að búa í bólu, þekkja bara fólk af sama tagi og miða allt við þann hóp. Hefur þetta batnað?

„Ef því er haldið fram að fjölmiðlar hafi ekki verið tengdir við dreifbýlið er ekki víst að þeir hafi verið það í borgunum eða úthverfunum. Alls staðar, kannski voru fjölmiðlar úr tengslum og ekki nógu rótfastir á öllum þessum búsvæðum. Ég tel að það verði að spyrja miðlana þessarar spurningar og þá ekki aðeins með tilliti til dreifbýlisins heldur líka til borgarlandsins. Þetta er almenn spurning: Erum við í tengslum við fólkið sem við fjöllum um?“

Tími valkvæðra staðreynda

Á tímum þar sem folk ákveður að vilja ekki trúa staðreyndum sem passa við sínar mótuðu hugmyndir, er einhver leið fyrir fjölmiðla að eiga við það eða fjalla þeir um staðreyndir eftir bestu getu?

„Það virðist vera glataður hópur meðal bandarískra fréttaneytendafólk sem við höfum misst af. Það hafa verið gerðar rannsóknir á þessu og vandinn er einkar skæður meðal íhaldsmanna og Repúblikana sem hafa sagt við fólk í könnunum að fjölmiðlar geti ekkert gert til að endurheimta traustið. Og það er stórt og mikið vandamál þegar fólk segir hreint út að það sé farið, hafi fengið nóg. Þið eruð austur- og vesturstrandar yfirstétt og ykkur er sama um mig. Og þið ljúgið o.s.frv. Ég glími við sumt af þessu fólki í netpóstum og á Twitter og ég reyni að taka það ekki um of inn á migað efna til deilna við það því ég tel mikilvægt að hlusta á það og gagnrýni þess og stundum fæ ég hjá því vísbendingar um atriði sem það sér og eru mikilvæg fyrir mig að íhuga. En ég tel að ákveðinn hópur sé orðinn fráhverfur helstu fjölmiðlum landsins,“ segir Wemple.