Flugverð mun hækka verulega

Verð og framboð á alþjóðaflugi hefur verið afar hagstætt Íslendingum undanfarin ár. Hægt hefur verið að fljúga víða um heim fyrir lítið fé. Þessir tímar virðast vera að líða undir lok.

Kerfi Evrópusambandsins um losunarheimildir, sem Ísland er hluti af, er hannað þannig að þeir sem menga, borgi fyrir það. Verð á losunarheimildum hefur hækkað mikið, sem og eldsneytisverð.

Enginn vafi á hækkun

Jón Ágúst Þorsteinsson, forstjóri Klappa - grænna lausna, segir engan vafa leika á því að flugverð muni hækka verulega.

„Eins og Icelandair var að greiða ef ég man rétt einhvern milljarð í fyrra í Kýótó-samkomulaginu. En í stað 8 evra á losunartonnið, þá er það komið í 20 evrur, þannig að þetta er farið að verða miklu, miklu stærri tölur en við höfum nokkurn tímann reiknað með,“ segir Ágúst.

Flug losar gríðarmikið af gróðurhúsalofttegundum og ETS kerfið er gert til þess að reyna að draga úr því.

Náttúran þarf hækkunina

„Það er ekki nokkur vafi á því að verð á flugi mun hækka verulega. Það þurfa allir á því að halda, ekki síst náttúran. Og þar kemur til að við sem fljúgum, ETS-reikningurinn endar í flugmiðaverðinu. Þannig að það mun gerast algerlega af sjálfu sér að verð á flugi mun hækka.

Þannig að þessir tímar eru liðnir, saumaklúbburinn að skjótast yfir helgina eitthvað?

„Já, ég held að þeir séu að líða, það mun breytast mjög hratt og það mun gerast bara vegna þess að losunarheimildir, verð á þeim mun hækka, eldsneytisverð mun hækka og einu greiðendurnir að því eru þeir sem kaupa flugið,“ segir Ágúst.

Þriðji hluti umfjöllunar Kveiks um loftslagsmál er á dagskrá annað kvöld kl. 20:00. Þar er meðal annars rætt um endurheimt votlendis og möguleika Íslands til að uppfylla skilmála Parísarsamkomulagsins um loftslagsmál.