16:05
Síðdegisútvarpið
Eurovision, Nice Air endurvakið, Breki Karlsson og spennandi Kastljós kvöldsins

Þau Hrafnhildur Halldórsdóttir, Rúnar Róbertsson og Margrét Marteinsdóttir halda landanum vel upplýstum um menn og málefni á leið úr vinnu. Þau fylgjast með fréttum og dægurmálum og spila nóg af góðri tónlist.

RÚV tekur ekki þátt í Eurovision árið 2026. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem send var út eftir fund stjórnar RÚV í dag. Við fylgdumst með og sögðum frá eftir því sem fréttir bárust.

197 börn hafa verið getin með sæði manns með lífshættulegan genagalla og íslensk börn eru þar á meðal.  Um þetta verður fjallað í Kastljósi kvöldsins, Urður Örlygsdóttir er með þessa frétt og hún kom til okkar.

Hæstiréttur hafnaði í dag kröfu Neytendasamtakanna í máli samtakanna gegn Arion banka vegna vaxtaskilmála verðtryggðra fasteignalána og staðfestir þar með niðurstöðu landsréttar.  Neytendasamtökin töldu vaxtaskilyrði bankans ekki í samræmi við lög en því hafnaði bankinn.  Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna var á línunni hjá okkur.

Rán Flygenring ferðaðist eitt sumar vítt og breitt um landið og dýfði sér í hverja laug, lón og náttúrupoll sem hún fann og festi baðmenningu á Íslandi í teikningar. Útkoman er handbók fyrir alla sem hafa áhuga á náttúru landsins og mannlegu eðli.  Rán kom til okkar og við flettum bókinni með henni.

Við rákum augun í það nú eftir hádegi að Róbert Ragnarsson fyrrum bæjarstjóri í Grindavík hefur ákveðið að bjóða sig fram til að leiða Viðreisn í borgarstjórnarkosningunum í vor.  Nokkrir hafa verið orðaðir við oddvitasætið og þar á meðal Róbert sem er sérfræðingur í stjórnsýslu með rekstur sveitarfélaga sem sérsvið.  En hvaða skoðanir hefur Róbert á rekstri borgarinnar og hvaða breytingar vill hann sjá ? Róbert kom til okkar klukkan fimm.

Það kom fram í fréttum í morgun hjá okkur á Rúv að erlendur athafnamaður vilji endurvekja flugfélagið niceair á næsta ári.  Stefnt sé að því að fyrstu flugferðirnar verði í febrúar 2026.  Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson er einn þeirra sem stóð að stofnun Niceair á sínum tíma og við ræddum við hann í þættinum.

Aðventan er annasamur tími fyrir marga og þá ekki síst tónlistarfólk.  Stefán Hilmarsson tók sér hlé frá jólatónleikahaldi fyrir nokkrum árum síðan en ákvað að blása í lúðra þessi jól enda gaf hann út örplötu með jólalögum á dögunum.  Stefán er staddur niðrí Hörpu núna þar sem hann er að undirbúa jólatónleika sem hann heldur á laugardaginn.  Við tókum púlsinn á Stebba.

Aðgengilegt til: Rennur ekki út.
Lengd: 1 klst. 52 mín.
,