06:50
Morgunútvarpið
16. maí - Uppgjör sveitarstjórnarkosninga og íþróttir helgarinnar
Morgunútvarpið

Morgunútvarpið vekur hlustendur með glóðvolgum fréttum og snarpri umfjöllun um samfélagsmál. Umsjón: Hafdís Helga Helgadóttir og Rúnar Róbertsson.

Í-listinn í Ísafjarðarbæ hlaut hreinan meirihluta atkvæða í bænum eftir spennandi kosninganótt, þar sem meirihluti Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks var felldur. Bæjarstjóraefni flokksins, Arna Lára Jónsdóttir, verður fyrsta konan til þess að vera ráðin bæjarstjóri í sveitarfélaginu.Við ræddum við Örnu í upphafi þáttar.

Í Kópavogi hélt meirihluti Framsóknar og Sjálfstæðisflokks þar sem Framsóknarflokkurinn bætti við sig manni, fór úr einum í tvo en Sjálfstæðisflokkurinn missti einn, fór úr fimm í fjóra. Við ræddum við Ásdísi Kristjánsdóttur, oddvita Sjálfstæðisflokksins í bænum, um framhaldið.

Sveitarstjórnarkosningarnar 2022 fara á spjöld sögunnar vegna mikillar sveiflu til Framsóknarflokksins á landsvísu en flokkurinn tvöfaldar fylgi sitt frá síðustu sveitarstjórnarkosningum. Sveitarstjórnarmönnum Framsóknar fjölgar um 22 frá 2018 og eru þeir nú 67. Sjálfstæðisflokkurinn, Miðflokkurinn, Samfylkingin og Viðreisn tapa hins vegar sveitarstjórnarsætum. Við ræddum stöðu Framsóknarflokksins og kosningasigur hans við Eirík Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði.

Það fór tvennum sögum af því í gær hvort meirihlutaviðræður væru hafnar í Reykjavík og þá í hvora áttina, hægri eða vinstri, þær væru að hefjast. Við getum þó líklega slegið því föstu að þreifingar á milli oddvita stærstu flokkanna eigi sér stað í dag og hví ekki að hefja samtalið hér í morgunútvarpinu á mánudagsmorgni. Þau komu til okkar, Hildur Björnsdóttir, Dagur B. Eggertsson og Einar Þorsteinsson.

Það féllu hátt í 9000 atkvæði á landsvísu niður dauð í sveitarstjórnarkosningunum á laugardag þegar hin ýmsu framboð náðu ekki inn fólki í sveitar-, bæjar- og borgarstjórnir. Sumsstaðar var hlutfall þessara atkvæða afskaplega hátt og hvergi hærra en í Hafnarfirði þar sem 17,5% greiddra atkvæða féllu til framboða sem ekki náðu inn í bæjarstjórn - en kjörsókn í Hafnarfirði var um 59%. Eva Heiða Önnudóttir prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands kom til okkar til að rýna aðeins í þetta hlutfall hringinn í kringum landið.

Og íþróttir helgarinnar verða á sínum stað. Einar Örn Jónsson íþróttafréttamaður kíkti til okkar með allt það sem er að frétta eftir spennandi íþróttahelgi.

Tónlist:

Fimm - Bríet

Stand By me - Ben E. King

You and I - Wilco and Feist

Young Hearts Run free - Candi Staton

Blame it on the Sun - Emiliana Torrini

This is America - Childish Gambino

What a life (úr Druk) - Scarlet Pleasure

Var aðgengilegt til 16. maí 2023.
Lengd: 2 klst. 10 mín.
,