16:05
Síðdegisútvarpið
1. febrúar
Síðdegisútvarpið

Þau Valur Grettisson, Guðrún Dís Emilsdóttir og Hrafnhildur Halldórsdóttir halda landanum vel upplýstum um menn og málefni á leið úr vinnu á daginn. Þau fylgjast vel með fréttum og dægurmálum og spila nóg af góðri tónlist.

Drífa Snædal forseti ASÍ segir að ný skýrsla um fjölda óskráðra íbúða og leiðir til þess að fá eigendur óskráðra íbúða til að skrá þær opinberlega, sé "brýning til okkar allra og ekki síst stjórnvalda að spýta í lófana og tryggja öllum mannsæmandi húsnæði á viðráðanlegum kjörum." Vinnuhópurinn sem tók skýrsluna saman telur að fimm til sjö þúsund manns búi í óleyfisíbúðum á Íslandi, húsnæði sem er skipulagt undir atvinnustarfsemi en nýtt til íbúðar. Drífa verður gestur okkar á eftir.

Þjóðleikhúsið hefur verið að óska eftir hugmyndum um umfjöllunarefni fyrir nýtt og spennandi verkefni fyrir ungt fólk, Trúnó, sem er verið að þróa á glænýju sviði Þjóðleikhússins, Loftinu. Skilafrestur rennur út um miðnætti svo nú fer hver að verða síðastur til að sjá sína sögu á sviðinu. Dominique Sigrúnardóttir og Sigga Dögg kynfræðingur hafa umsjón með verkefninu. Sigga segir okkur nánar frá Trúnó í þættinum.

Ólympíuleikarnir verða settir í Tókýó í Japan 23. júlí næstkomandi. Ef allt fer eins og lagt er upp með. Við ætlum að heyra af undirbúningi og framkvæmd Ólympíuleika í skugga heimsfaraldurs. Einar Örn Jónsson íþróttafréttamaður fer yfir þetta með okkur.

Stelpurnar okkar í íslenska kvennalandsliðinu í körfubolta eru komnar til Slóveníu eftir langt ferðalag með krókaleiðum. Stelpurnar eru að fara að taka þátt í undankeppni Evrópumótsins. Þær leika við Grikki 4. febrúar og 6. febrúar eiga þær leik við heimastúlkurnar í Slóveníu. Við hringjum í formann körfuboltasambandsins og fararstjórann Hannes Jónsson.

Ungir umhverfissinnar hafa nú fundað með öllum þingflokkum að undanskildum Flokki Fólksins til að ræða um frammistöðu Íslands í loftslagsmálum. Fulltrúar samtakanna hittu líka forsætisráðherra til að ræða þennan mikilvæga málaflokk, nú á kosningaári. Við heyrum í formanni samtkanna Þorgerði Maríu Þorbjarnadóttur.

Dagurinn í dag er dagur kvenfélagskonunnar. Og fyrir nákvæmlega ári síðan, 1. febrúar 2020, fagnaði Kvenfélagasambandið 90 ára afmæli. Við það tilefni réðst sambandið í landssöfnunina "Gjöf til allra kvenna á Íslandi." Okkur skilst að það hafi safnast tugir milljóna sem á að nýta til kaupa á tækjum og búnaði sem mun stuðla að bættri heilsuvernd kvenna um allt land. Guðrún Þórðardóttir forseti Kvenfélagasambands Íslands segir okkur meira.

Var aðgengilegt til 01. febrúar 2022.
Lengd: 1 klst. 54 mín.
,