12:20
Hádegisfréttir
Hádegisfréttir 12. apríl 2020
Hádegisfréttir

Útvarpsfréttir.

Óttast er að Kórónuveirufaraldurinn sé að eflast að nýju á Spáni en þar hafa hátt í sautján þúsund látist vegna COVID-19. Greindum smitum hefur farið fækkandi undanfarið en tilkynnt var um 619 smit í dag, talsvert fleiri en hafa greinst síðustu daga.

Þeir sem ekki hafa fast ráðningarsamband við vinnuveitanda þurfa að sækja um hefðbundnar atvinnuleysisbætur en geta ekki nýtt sér hlutabótaleið stjórnvalda, segir forstjóri Vinnumálastofnunar um gagnrýni leiðsögumanna á leiðina.

Miklu skiptir að fólk ræði við sína nánustu áður en það verður mjög veikt um hvernig aðstæður það geti ekki lifað við og hvernig það myndi vilja deyja. Þetta segir hjúkrunarfræðingur á Landspítala sem hvetur fjölskyldur um að tala saman um hvað mestu máli skiptir í lífinu.

Milljónum margnota andlitsgríma úr kalda stríðinu var fargað í Svíþjóð fyrir nokkrum árum. Svíar sakna þeirra í dag, þegar hlífðarbúnað skortir vegna kórónuveirunnar.

Mikil óvissa ríkir hvort hægt verði að leika fótbolta hér á landi í sumar. Framtíð Íslandsmótanna skýrist á fundi KSÍ og Almannavarna í vikunni.

Veðurhorfur: Suðlæg átt, fimm til þrettán metrar og lítilsháttar rigning eða súld víða um land, en birtir til á norður- og austurlandi. Hvessir í nótt, sunnan tíu til átján í fyrramálið, en staðbundið átján til tuttugu og fimm á norðanverðu landinu. Rignir vestantil í nótt og á suðurlandi undir hádegi. Úrkomulítið í öðrum landshlutum. Hægari vindur og smá skúrir seinni partinn á morgun. Hægt hlýnandi veður og hiti víða fimm til tíu stig á morgun.

Aðgengilegt til: Rennur ekki út.
Lengd: 17 mín.
,