12:40
Heimskviður
Nick Fuentes og pöndupólitík

Fréttaskýringaþáttur sem fjallar á ítarlegan og lifandi hátt um heimsmálin, um allt það sem ekki gerist á Íslandi.

Umsjón: Birta Björnsdóttir og Bjarni Pétur Jónsson.

Nick Fuentes er kristinn þjóðernissinni og kynþáttahatari og vill að hvítir, kristnir karlmenn fari með tögl og hagldir í bandarískum stjórnmálum. Hann hefur sagst vera á móti lýðræði því það steypi saman ólíkum og ósamræmanlegum hagsmunum. Lýðræði leiði alltaf á endanum til þess að þjóðríkið bíði óafturkræfan skaða. Hann segist líka elska Hitler, hefur lagst gegn því að konur séu útivinnandi, talað vel um aðskilnað svartra og hvítra í Bandaríkjunum og hefur almennt spúið hatri sínu á öllum mögulegu þjóðfélagshópum og trúarhópum.

En mögulega býr eitthvað annað að baki því. Hvað þýðir það að frægum stjórnmálaáhrifavaldi sé sama um að vera kallaður rasisti, nasisti eða eitthvað annað? Hvað þýðir það að einhver skuli storka samfélagslegum normum með þessum hætti og hvað þýðir það að þannig málflutningur fái hljómgrunn hjá hundruð þúsundum eða jafnvel milljónum víða um heim.

Svo fjöllum við um pöndupólitík, en það má segja að pöndur séu krúttlegustu diplómatarnir. Talið er að pöndur í heiminum séu nú um 2.700. Þar af lifa nærri 2.000 villtar í Kína. Kínverjar hafa í áratugi stundað pöndupólitík, ef ríki vilji fá til sín pöndur þurfi þau að vera í góðum samskiptum við yfirvöld í Kína. Og Kínverjar kölluðu til sín tvær pöndur frá Japan í vikunni. Borgaryfirvöld í Tókýó hafa óskað eftir að fá aðrar pöndur í staðinn en þeirri beiðni hefur ekki verið svarað. Ætli svarið velti ekki á því hvernig samskipti Kína og Japans þróast á næstunni?

Aðgengilegt til: Rennur ekki út.
Lengd: 44 mín.
,