
Í þáttaröðinni fjallar Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson íþróttafréttamaður um fyrstu fótboltamennina frá gömlu Júgóslavíu sem komu til Íslands á árunum 1989-1992 til að spila fótbolta og settust svo hér að. Framleiðandi: Þorgerður E. Sigurðardóttir. Hljóðmynd: Jón Þór Helgason.
Umsjón: Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson
Það vakti athygli á sínum tíma þegar okkar menn fengu íslenskt ríkisfang að þeir þurftu flestir að taka sér upp íslensk nöfn og nota samhliða nöfnunum sem þeir báru áður og bera enn. Í þessum þætti heyrum við söguna á bak við þessi íslensku nöfn, hvers vegna þeir urðu Íslendingar og um möguleikann á að spila fyrir íslenska landsliðið. Rætt er við Izudin Daða Dervic, Milan Stefán Jankovic, Ejub Purisevic , Zoran Daniel Ljubicic, Luka Lúkas Kostic, Goran Kristófer Micic, Salih Heimi Porca, Heimi Karlsson, Hajrudin Cardaklija, Rúnar Kristinsson og Guðna Bergsson.