Útvarpsfréttir.
Fjölgað verður í herliði Dana á Grænlandi á næstunni, segir varnarmálaráðherra Danmerkur. Utanríkisráðherrar Danmerkur og Grænlands hitta varaforseta og utanríkisráðherra Bandaríkjanna í Washington í dag á fundi þar sem mikið er talið í húfi.
Íranar eru tilbúnir að gera árásir á herstöðvar Bandaríkjanna í nágrannalöndum sínum ef Bandaríkin skerast í leikinn í blóðugum mótmælum sem geisa í Íran. Mannréttindasamtök segja að á þriðja þúsund hafi verið drepnir í mótmælunum.
Niðurstöður Gerðardóms í kjaradeilu flugumferðarstjóra eru súrsætar segir formaður flugumferðarstjóra.
Dósent við kennaradeild Háskólans á Akureyri gagnrýnir orð Ingu Sæland, nýs mennta- og barnamálaráðherra, um lestrarkennslu barna; ráðherra skorti læsi á málefni ráðuneytisins.
Bið eftir augasteinaaðgerð hefur lengst töluvert síðustu ár; á fjórða þúsund hefur beðið í meira en ár.
Ásgeir Jónsson hefur bæst í hóp seðlabankastjóra sem heita stuðningi við bandaríska seðlabankastjórann.
Enginn hefur enn boðið sig fram til formennsku í Framsóknarflokknum. Kjósa nýjan formann eftir mánuð.
Tveimur talmeinafræðingum á Reykjalundi hefur verið sagt upp. Þjónustunni verður útvistað í hagræðingarskyni.
90 prósent landsmanna voru ánægð með Áramótaskaupið. Það er mesta ánægja síðan Maskína hóf mælingar á viðhorfi til Skaupsins.
Júlía Sylvía Gunnarsdóttir og Manuel Piazza keppa í dag á EM í listdansi á skautum. Þetta er í annað sinn sem parið keppir á Evrópumóti.
