07:03
Morgunvaktin
Alþjóðamál, tækjakostur heilbrigðisstofnana og sígild tónlist

Björn Þór Sigbjörnsson og Þórunn Elísabet Bogadóttir fylgja hlustendum inn í daginn, skýra baksvið frétta og ræða við áhugavert fólk um Ísland og umheiminn.

Alþjóðamálin voru áfram til umfjöllunar og gestur okkar í dag var Davíð Stefánsson, formaður Varðbergs - samtaka um vestræna samvinnu og alþjóðamál. Í ljósi atburða og yfirlýsinga síðustu daga ræddum við um framtíð Atlantshafsbandalagsins og vestrænnar samvinnu, og stöðu Íslands í umheiminum.

Svo var rætt um tækjabúnað heilbrigðisstofnana úti um landið. Þær fá samtals 77 milljónir nú í byrjun árs til að endurnýja tæki. Tæpur helmingur fjárins fer í kaup á varaaflsstöðvum. Í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu segir að víða sé uppsöfnuð innviðaskuld. Við töluðum við Jón Helga Björnsson, forstjóra heilbrigðisstofnunar Norðurlands, um þessa uppsöfnuðu skuld; um tækjakost og tækjaskort.

Umfjöllun um sígilda tónlist var svo á sínum stað. Í dag gerði Magnús Lyngdal skil stefi sem talið er að hafi fyrst komið fram á þrettándu öld og hefur gengið í gegnum tónlistarsöguna allar götur síðan. Dies Irae nefnist það; við heyrðum það meðal annars í meðförum Benediktsmúnka, Chicago-sinfóníunnar og Vladimirs Ashkenazys.

Tónlist:

Joan Baez - Diamonds and rust.

June McDoom, Kate Davie - Take this stone.

Aðgengilegt til: Rennur ekki út.
Lengd: 1 klst. 55 mín.
,