Jóhannes Stefánsson var maður Samherja á staðnum og hafði milligöngu í samskiptum hákarlanna svokölluðu, sjávarútvegsráðherra Namibíu og yfirmanna sinna hjá Samherja, þeirra Aðalsteins Helgasonar og Þorsteins Más.
Samherjaskjölin
Hver er uppljóstrarinn?
Samherjaskjölin
Hver er uppljóstrarinn?
Hann var verkefnastjóri Samherja í Namibíu til 2016. Hann hóf störf hjá fyrirtækinu árið 2007.
„Þegar ég var ungur þá var ég strax mikil ævintýraþrá hjá mér. Ég fór skiptinemi til Panama þegar ég var 18 ára, kláraði tvö ár í menntó og var síðan bara strax kominn í að vinna í fiskvinnslu og var bæði í landi og á sjó. Í Danmörku, Noregi, sjó á Rússlandi, sjó á Suður-Indlandshafi á tannfiskveiðum. Svo var ég kominn til Vestur-Afríku á sjó þar fyrir Sjólaskip. Enda svo í landi í Marokkó fyrir íslenskt fyrirtæki og svo fór ég þaðan á sjó til Kötlu Seafood. Þaðan fór í ég að sjá um landvinnsluverkefni fyrir Samherja í Marokkó. Innan einhverja þriggja ára þá var ég kominn í því að „lobbya“ fyrir sjófrystikvóta í Marokkó,“ segir Jóhannes þegar hann er beðinn um að útskýra hvernig hann endaði á að starfa fyrir Samherja í Afríku.
„Það sem að keyrir mig til dæmis dálítið áfram hjá Samherja í Afríku er að ég hélt að við ætluðum að byggja upp stórt verkefni í landi og skapa fullt af störfum en þessu var svona hent fram til að blekkja fólk. Og eftir sem tíminn líður þá fer ég að átta mig á því hvað ég, hvað ég tók þátt í stóru spillingar dæmi, bara milli Samherja og hákarlana, að þarna var bara verða til eitthvert monster,“ segir Jóhannes.
„Það er bara vestrænt ríki að ræna auðlindirnar með spilltum aðilum í landinu. Það eru 40 prósent af þjóðinni sem búa í þarna í kofum. Það er takmarkaður aðgangur að vatni. Menntun er orðið vandamál að komast í. Atvinnuleysi unga fólksins er 44 prósent í dag. Maður spyr sig, maður veit ekki alveg hvernig þessir menn geta sofið á nóttunni.“
Aðspurður segist hann sjálfur ekki eiga auðvelt með það.
„Þetta hefur valdið mér þvílíku hugarangri og þess vegna er ég að stíga fram, því ég, ég er ekki heilagur en ég svík ekki fólk og bara heila þjóð svona mikið,“ segir hann.
„Ég meina mín framtíð í hvaða atvinnu sem er hún er náttúrulega bara búin, en ég allavega mun geta sofið á nóttunni ef að við náum að koma þessu vel og rétt fram og það verða breytingar til hins betra og fólkið í Namibíu fær að njóta góðs af auðlindunum en ekki eitthvað vestrænt ríki og einhverjir örfáir spilltir aðilar sem síðan horfa upp á þjóðina þjást.“
Þrjár eftirlitsstofnanir í Namibíu, þar á meðal spillingarlögreglan ACC, hafa undanfarna mánuði rannsakað starfshætti Samherja og meinta mútuþægni „hákarlanna“. Rannsókn sem hófst eftir ólögmæta kvótaúthlutun ráðherrans árið 2014 en tók stakkaskiptum eftir að Jóhannes Stefánsson gaf sig fram. Honum var þegar í stað tryggð staða uppljóstrara gagnvart namibískum stjórnvöldum.
Sjálf rannsóknin teygði sig fljótt út fyrir namibíska landhelgi. Yfirvöld í Noregi og hér á landi vita nú af málinu.