SWAPO-flokkurinn hefur verið nær einráður í landinu allt frá sjálfstæði þess og margir flokksmenn efnast ævintýralega á sama tíma. Flokkurinn varð til upp úr andspyrnuhreyfingu svartra sem barðist gegn hernámi landsins.

Samherjaskjölin

Sjálfstæðið
og SWAPO

Samherjaskjölin

Sjálfstæðið
og SWAPO

Saga Namibíu er ekki löng. Saga fólksins sem bjó lengst af í friðsemd hirðingjasamfélaga í landinu er lengri. Landnám Evrópumanna á svæðinu fyrir hundrað og fimmtíu árum var byggt á ásælni í auðlindir.

Eftir fyrri heimsstyrjöld tóku Suður-Afríkumenn við stjórnartaumunum. Mismunun kynþátta var bundin í lög. Eftir að fulltrúar mismunandi þjóðflokka svartra náðu saman í sjálfstæðishreyfingunni SWAPO hófst baráttan við hernámið.

Þúsundir týndu lífi og tugþúsundir fóru í útlegð á tímum sjálfstæðisbaráttunnar, sem lauk árið 1989. SWAPO varð að stjórnmálaflokki og í fyrstu kosningum landsins vann flokkurinn stóra sigra í þing- og forsetakosningum.

Namibíumenn fengu sjálfstæði seinna en flestir nágrannar þeirra. Það gaf  þeim tækifæri til að læra af biturri reynslu nágranna sinna.

Hvergi í víðri veröld var bilið milli ríkra og fátækra eins mikið og í Namibíu. Úti fyrir 1.500 kílómetra strandlengju landsins eru þó einhver auðugustu fiskimið jarðar. Margra áratuga rányrkjuveiðar útlendinga höfðu hins vegar höggvið skarð í þær auðlindir, sem til þessa höfðu lítið sem ekkert skilað sér til íbúa landsins.

Íslendingar til aðstoðar

Sigurður Bogason er einn þeirra Íslendinga sem fluttust búferlum til Afríku á tíunda áratugnum í tengslum við þróunaraðstoð Íslendinga í Namibíu.

„Sameinuðu Þjóðirnar höfðu tekið landið í fóstur og undirbyggt stjórnarskrá, hún er mjög byggð á stjórnaskrá norræna velferðarsamfélagsins, það var mikil von í fólki og fólk vildi ná árangri, að vinna með öllum ráðum gegn spillingu. Það átti að vera vitinn sem allir aðrir gætu siglt eftir,“ segir hann.

Fjöldi Íslendinga lagði hönd á plóg. Meðal annars við uppbyggingu sjávarútvegsfyrirtækisins Fishcor, sem namibíska ríkið stofnaði. Sigurður varð fyrsti forstjóri þess.

„Að reyna að koma öllum í aðstöðu til þess að geta komist í gang og í sjálfu sér var markmiðið að fyrirtækin myndu smátt og smátt færast í hendur heimamanna,“ segir hann.

Sigurður yfirgaf landið tveimur árum síðar. Fishcor var þá að verða stórfyrirtæki, átti tvö dótturfélög undir nafninu Seaflower, skipaflota og þúsund manns á launaskrá.

Skoðaði hvernig til tókst

Formlegri þróunaraðstoð íslenskra stjórnvalda lauk árið 2010. Sigurði var síðar falið að skoða hvernig til hefði tekist og endurnýjaði því kynnin við land og þjóð, í nóvember og desember árið 2013.

„Það er náttúrulega vel á annan milljarð króna sem að við setjum í þetta heilt yfir, menntaaðstoðin var mikilvæg eins og sjómannaskólinn, það var verið að byggja undir hafrannsóknarstofnunina, og við komum að því að reka hafrannsóknarskipið þeirra Benguela,“ segir Sigurður.

Í skýrslu Sigurðar segir að það stappi nærri kraftaverki hversu vel hafi gengið að koma namibískum sjávarútvegi á legg. Eitt og annað vakti þó spurningar. Íslendingar höfðu til að mynda varið tugum milljóna króna í  upplýsingatæknikerfi sem tryggja átti gegnsæi og yfirsýn yfir kvótaúthlutun og veiðar í Namibíu

Þegar Sigurður svo fór að spyrjast fyrir um afdrif þess, kom í ljós að einfaldlega hefði verið slökkt á því.

„Þetta var svona gegnsæiskerfi til þess að menn gætu séð mjög fljótt og vel hvað var að gerast í sjávarútveginum. Það var íslenskur ráðgjafi sem hafði unnið í ráðuneytinu, að mig minnir í rúm tvö ár, við að byggja þetta upp og með því að hafa ekki gagnsæi þá er náttúrulega mjög auðvelt að segja að hlutirnir séu öðruvísi en þeir eru,“ útskýrir Sigurður.

Sigurður segist loks hafa fengið þau svör að ákvörðun um að hætta söfnun og birtingu upplýsinganna hafi komið frá sjávarútvegsráðherranum sjálfum, Bernhard Esau.

„Þannig að þetta er alveg brotið á æðsta level, æðsta stigi og það er vandamál og miklu meiri hætta á því að þetta lendi í fárra höndum með svona kerfi,“ segir hann.

Fátæktin enn til staðar

Þó að vel hafi teksti er ekki að sjá að auðurinn úr hafi eða námum hafi skilað miklu til meginþorra landsmanna. Í kofabyggðum eins og Tutaleni í Walvis Bay, býr um og yfir helmingur allra íbúa stærstu borga Namibíu. Ástæðan er þó ekki eingöngu fátækt og atvinnuleysi, það kemur nefnilega fleira til.

Kofar eru einfaldlega eina húsnæðið sem býðst venjulegu launafólki, sem heldur uppi stærstu atvinnugreinum landsins. Innviðirnir eru ekki sterkari en svo. Því þrátt fyrir að fiskveiðiauðlindin skili milljörðum á land í hafnaborginni Walvis bay ár hvert þá skila tekjur af henni sér illa til samfélagsins.

„Við höfum ýmislegt í Namibíu. Námur, landbúnað, fiskveiðar, vefnaðarvörur og fleira, en stjórnvöld kunna ekki að útvega okkur störf og því eigum við erfitt,“ segir Eddy, sem býr og rekur verslun og bílaþvottastöð í Tutaleni. Konan hans er á spænskum togara. Þrátt fyrir að þau séu bæði í vinnu sjá þau ekki fram á að komast í betra húsnæði næstu áratugina.

„Ég held að íbúar landsins séu 2,9 milljónir en þeir ríku hafa miklu meira milli handanna en við hin, þannig að forsetinn og ráðherrarnir lifa eins og kóngar meðan við berjumst í bökkum,“ segir Eddy.

„Forsetinn og ráðherrarnir fá allir sinn skerf. Ef fjölskyldan þín vinnur ekki fyrir ríkisstjórnina áttu bágt. Þeir eru spilltir. Stjórnvöld eru spillt.”

Þróunarsamvinnan út, Samherji inn

Þegar Íslendingarnir sem sinntu þróunarsamvinnu yfirgáfu Namibíu árið 2010, birtust aðrir í þeirra stað: starfsmenn útgerðarfyrirtækisins Samherja.

Á innan við áratug síðan hefur fyrirtækinu tekist að komast yfir og veiða hátt í þriðjung hrossamakrílskvóta þjóðarinnar. Umsvif Samherja í Namibíu eru í tonnum talið um fimmtungur þess sem fyrirtækið dregur á land um heim allan.

Fyrirferð Samherja í Namibíu er í hróplegu ósamræmi við  skilyrði þarlendra stjórnvalda. Sami hópur manna og setti þessi skilyrði hefur gengið lengst í að greiða götu Samherja en um leið fengið á annan milljarð króna frá íslenska fyrirtækinu.

Samtökin Global Witness, hafa um árabil rannsakað og komið upp um spillingarmál víða um heim. Þau kynntu sér gögn málsins og segja vísbendingar um spillingu og mútur, augljósar.

„Þetta grefur undan markmiðum utanríkisstefnu Íslands. Fyrirtæki sem kemur og greiðir mútur til þess að tryggja sér kvóta grefur með því undan stjórnun heils þjóðríkis. Félagið sviptir landið fjármagni sínu, tekjustofnum, sem það þarf nauðsynlega til að halda uppi heilbrigðis- og menntakerfinu. Stærsta útgerðarfélag Íslands þarf að uppfylla strangar kröfur en þess í stað sýnir það svívirðilega hegðun,“ segir Daniel Balint-Kurti, yfirrannsakandi hjá Global Witness.

Fyrri hluti:
← Milliríkjasamningurinn

Næsti hluti:
Peningatilfærslur →