Síðustu mánuði hafa tveir útsendarar á vegum fréttastöðvarinnar Al Jazeera fundað með sjávarútvegsráðherra Namibíu. Allt undir því yfirskini að þeir væru erlendir fjárfestar á höttunum eftir sjófrystikvóta.
Samherjaskjölin
Falin
myndavél
Samherjaskjölin
Falin
myndavél
Ráðherrann lýsti sig fljótlega tilbúinn til að greiða leið „fjárfestanna“ og skaffa þeim ódýran kvóta gegn greiðslu og bauð jafnvel ráð til að komast hjá skattgreiðslum. Ráðherrann vildi að greiðslur til sín færu fram í gegnum lögmann á sínum vegum og lagði þunga áherslu á leynd.
Bernhard Esau hafði tvívegis afþakkað viðtal þegar við hittum hann í Osló, 22. október. Á þriðja hundrað ráðamenn og áhrifafólk alls staðar að úr heiminum kom þar saman til að ræða leiðir vernd lífríkis sjávar, baráttu gegn spillingu og ólöglegum veiðum. Hingað var sjávarútvegsráðherra Namibíu fenginn til að flytja ræðu um nauðsyn gegnsæis í greininni.
Ráðherrann bauð Kveik og Al Jazeera viðtal síðar sama dag. Þar hélt hann því fram að hvorki hann né lögmaður hans hefðu lofað „fjárfestunum“ neinu gegn umræddri greiðslu, sem hann sagði nú að hefði verið hugsuð sem framlag í kosningasjóð SWAPO, sem væri ekki ólöglegt.
Hann þvertók fyrir öll tengsl eða aðstoð við Samherja og sagði málefni tengdasonar síns og stjórnarformanns Fishcor ekki koma sér við. Hafnaði því að hafa stundað eða ráðlagt skattsvik eða skattasniðgöngu.
„Það er ekki hægt að spilla mér. Annars væri ég orðinn moldríkur.“