Samherji hefur undanfarinn áratug greitt háttsettum stjórnmála- og embættismönnum í Namibíu hundruð milljóna í þeim tilgangi að komast yfir eftirsóttan kvóta. Þetta sýna gögn sem lekið var til Wikileaks og Kveikur hefur rannsakað undanfarið í samstarfi við Al Jazeera Investigates og Stundina.

Samherjaskjölin

Það sem Samherji
hafði að fela

Samherjaskjölin

Það sem Samherji
hafði að fela

Samherji hefur hagnast verulega á starfsemi sinni í Namibíu og notfært sér alræmt skattaskjól í þeim tilgangi að koma hagnaði úr landi.

Gagnalekinn til Wikileaks inniheldur þúsundir skjala og tölvupóstsamskipti starfsmanna Samherja. Einn þeirra hefur sömuleiðis ákveðið að stíga fram og segja frá. Það er Jóhannes Stefánsson sem var verkefnastjóri Samherja í Namibíu til 2016.

„Þetta er bara glæpastarfsemi, þetta er bara skipulögð glæpastarfsemi. Þeir eru að græða á auðlindum landsins, taka allan pening út úr landi til þess að fjárfesta annars staðar, þá í Evrópu eða Bandaríkjunum,” segir Jóhannes. Hann gengst sjálfur við því að hafa brotið lög. „Ég braut lög fyrir hönd Samherja þegar ég var þarna. Ég var maðurinn til að ná í kvótana og hafa tengingarnar og svoleiðis og svo er ég bara með ordur frá hærra settum mönnum.“

Starfsemi Samherja í Namibíu hefur í tæpan áratug farið þannig fram að allt að þrír verksmiðjutogarar hafa verið við veiðar á hrossamakríl við landið. Togarana hafa dótturfélög Samherja á Kýpur leigt tveimur útgerðum Samherja í Namibíu: Kötlu, sem seinna fékk nafnið Mermaria, og Arcticnam, sem Samherji átti ásamt hópum kvótaleyfishafa í landinu.

Þennan eftirsótta kvóta hefur Samherja tekist að komast yfir og tryggja sér þannig tugmilljarða króna verðmæti. Katla, eða Mermaria, hefur verið umsvifamest í veiðum í landinu og notið óvenjulegra sérkjara ríkisfyrirtækisins Fishcor og með milliríkjasamningi á milli Namibíu og Angóla.

Þú getur horft á þáttinn í heild sinni hér eða haldið áfram að lesa vefútgáfu umfjöllunarinnar.

Næsti hluti:
Af hverju Namibía →