16:05
Síðdegisútvarpið
Óánægja á Austfjörðum, fjárhagsáætlun borgarinnar og Úffi
Síðdegisútvarpið

Þau Guðrún Dís Emilsdóttir, Hrafnhildur Halldórsdóttir og Þórður Helgi Þórðarson halda landanum vel upplýstum um menn og málefni á leið úr vinnu. Þau fylgjast vel með fréttum og dægurmálum og spila nóg af góðri tónlist.

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambands Íslands og Verkalýðsfélags Akraness, spyr í nýlegri færslu á samfélagsmiðlinum Facebook hvort stýrivextirnir séu dýrasti liðurinn í verðbólgunni? En Seðlabankastjóri hefur ítrekað talað um áhrif kjarasamninga á verðbólguna. Vilhjálmur var á línunni hjá okkur.

Margrét Víkingsdóttir berst nú við Matvælastofnun, MAST, til að bjarga lífi besta vinar síns og lífsgjafa; hundsins Úlfgríms. Þegar kviknaði í íbúð á neðri hæð húss sem þau Margrét og Úffi búa í í miðborginni með þeim afleiðingum að maður lést, vakti Úffi sína konu og komust þau bæði út úr brennandi húsinu. En nú hefur verið kvartað yfir meintri vondri meðferð Margrétar á Úffa sínum. Hann glímir við gigt. Margét Víkingsdóttir fékk í vikunni bréf frá MAST þar sem hún fær tveggja vikna frest til að mótmæla kröfu um að hundurinn Úlfgrímur verði aflífaður vegna lélegs heilsufars. MAST fer með löggjöf og eftirlit sem varðar heilbrigði og velferð dýra. Margrét kom og sagði sögu sína í Síðdegisútvarpinu.

Eyjólfur Ármannsson, innviðaráðherra, kynnti samgönguáætlun til ársins 2040 á blaðamannafundi fyrr í dag. Ráðherra boðar breytta forgangsröðun jarðgangaframkvæmda. Fljótagöng, milli Siglufjarðar og Stafár í Fljótum, eru sett í fyrsta sæti en Fjarðarheiðargöng, milli Seyðisfjarðar og Fljótsdalshéraðs, koma ekki til framkvæmda, Fjarðagöng koma í staðinn í annað sæti forgangs. Við hringdum austur í Jónínu Brynjólfsdóttur forseta sveitastjórnar Múlaþings og formann heimastjórnar Seyðisfjarðar.

Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar var samþykkt í borgarstjórn seint í gærkvöld. Samkvæmt henni er stefnt að rúmlega 3,4 milljarða króna rekstrarafgangi A-hluta, eða þess hluta reksturs borgarinnar sem fjármagnaður er af skatttekjum. Til að ræða fjárhagsáætlunina og málefni borgarinnar komu til okkar Einar Þorsteinsson oddviti Framsóknar í borginni og Sanna Magdalena Mörtudóttir forseti borgarstjórnar.

Sala SÁÁ á Jólaálfinum hófst í morgun. Stefán Pálsson markaðs- og kynningarstjóri SÁÁ kom til okkar í lok þáttar.

Aðgengilegt til: Rennur ekki út.
Lengd: 1 klst. 52 mín.
,