06:50
Morgunútvarpið
16. jan. - Sleðabrekka, ánægjuvog, umhverfisslys, gengi, HM o.fl.
Morgunútvarpið

Morgunútvarpið vekur hlustendur með glóðvolgum fréttum og snarpri umfjöllun um samfélagsmál. Umsjón: Hafdís Helga Helgadóttir og Rúnar Róbertsson.

Tálknfirðingingar deyja ekki ráðalausir þegar góða sleðabrekku vantar og hafa nú brugðið á það ráð að beita götulokun til að nýta megi akveg sem brekku. Allt er þetta gert íbúum til ánægju og við slógum á þráðinn vestur og heyrðum af þessu skemmtilega vetrar uppátæki. Ólafur Þór Ólafsson sveitarstjóri var á línunni.

Niðurstöður Íslensku ánægjuvogarinnar 2022 voru kynntar sl. föstudag í 24. sinn, en það er Stjórnvísir sem er framkvæmdaaðili íslensku ánægjuvogarinnar. En hvernig fer þetta mat fram og hvaða þýðingu hefur það? Við fengum Gunnhildi Arnardóttur framkvæmdastjóra Stjórnvísis til að fara yfir það með okkur.

Íbúar í vestur- og norðurbæ Hafnarfjarðar fundu fyrir jól fyrir höfuðverk og ógleði vegna ólyktar sem rekja má til leka frá bensínstöð Costco í Garðabæ. Búið er að tilkynna olíulekann til Umhverfisstofnunnar en nú stendur jafnframt til að ræða málið á vettvangi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar. Hildur Rós Guðbjargardóttir bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Hafnarfirði kom til okkar og fór yfir þetta umhverfisslys.

Heilbrigðisráðherra skipaði fyrir helgi nýjan forstjóra Sjúkratrygginga Íslands án auglýsingar í krafti þess að hinn nýi forstjóri væri svo öflugur eins og ráðherra komst að orði. Þetta er ekki fyrsta opinbera skipun ríkisstjórnarinnar án Auglýsingar en skipan Þjóðminjavarðar á síðasta ári og ýmsar tilfærslur innan embættismannakerfisins hafa vakið athygli. Við ræddum málið við Sonju Þorbergsdóttur formann BSRB.

Við finnum öll fyrir veikingu krónunnar þessi misserin og höfum fengið skömm í hattinn frá Seðlabankastjóra fyrir yfirdrifna kortaveltu erlendis með tilheyrandi gjaldeyrisútstreymi. Minna hefur verið rætt opinberlega um stærri viðskiptaaðila á gjaldeyrismarkaði en þeir sem þekkja vel til markaða nú telja sig sjá að óvenjuleg gjaldeyriskaup Landsbankans hafi haft sterk áhrif til veikingar krónunnar undanfarna mánuði. Við fórum yfir þetta með Herði Ægissyni ritstjóra viðskiptamiðilsins Innherja.

Reykjavíkurborg, í samstarfi við Betri samgöngur ákvað að framkvæma fyrsta framsýna lýðheilsumatið á Íslandi, á fyrstu lotu Borgarlínunnar. Markmiðið var að kanna hvernig innviðir Borgarlínu og nýtt leiðanet almenningssamgangna gætu hámarkað jákvæð áhrif á lýðheilsu og lágmarkað neikvæð áhrif. Harpa Þorsteinsdóttir verkefnastjóri lýðheilsu og Hugrún Snorradóttir lýðheilsusérfræðingur sögðu okkur frá niðurstöðum matsins.

Og við heyrðum svo í Einari Erni Jónssyni íþróttafréttamanni á HM í handbolta í Svíþjóð.

Var aðgengilegt til 16. janúar 2024.
Lengd: 2 klst. 10 mín.
,