16:05
Síðdegisútvarpið
28.september
Síðdegisútvarpið

Þau Valur Grettisson, Guðrún Dís Emilsdóttir og Hrafnhildur Halldórsdóttir halda landanum vel upplýstum um menn og málefni á leið úr vinnu á daginn. Þau fylgjast vel með fréttum og dægurmálum og spila nóg af góðri tónlist.

Evrópusamtök höfunda GESAC sem STEF á aðild að gefur út í dag nýja áhugaverða skýrslu um streymi á tónlist . Guðrún Björk Bjarnadóttir framkvæmdastjóri STEFS kemur til okkar og segir okkur frá helstu niðurstöðum skýrslunnar.

Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga var sett í núna klukkan fjögur með ávarpi formanns stjórnar Sambandsins Aldísar Hafsteinsdóttur. Dagskrá þingsins sem fram fer á Akureyri er fjölbreytt venju samkvæmt og má búast við áhugaverðum erindum og umræðum um sveitarstjórnarmál. Aldís mun á þinginu láta af embætti formanns en því hlutverki hefur hún gengt í fjögur í ár og það mun koma í hlut Heiðu Bjargar Hilmisdóttur að taka við keflinu. Aldís er á línunni hjá okkur.

Samtök Iðnaðarins standa fyrir kynningu á skýrslu á morgun er varðar umbótatillögur sem ætlað er að efla samkeppnishæfni í grænni iðnbyltingu og stuðla að framförum. Í skýrslunni er að finna 26 umbótatillögur. Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóra Samtaka Iðnaðarins er kominn til okkar til að segja okkur frá því helsta og ræða við okkur um hvers vegna við þurfum að fara að fullum þunga í græna iðnbyltingu.

Nú er komið haust og þá kemur tími kerta, kvikmynda og sjónvarpsþáttaraða. Kvikmynda og sjónvarpsrýnirinn okkar Ragnar Eyþórsson mætir til okkar og mælir með einhverju fyrir okkur að horfa á.

Á horni Þingholtsstrætis og Spítalastígs stendur hús sem á sér viðburðaríka sögu. Það var byggð árið 1884 sem fyrsta sjúkrahús Reykvíkinga. Síðar var það gert að farsóttaspítala og geðsjúkrahúsi og seinast að gistiskýli fyrir heimilislausa. Núna klukkan fimm hófst síðan útgáfuhóf í húsinu til að fagna útkomu bókarinnar Farsótt. Hundrað ár í Þingholtsstræti 25. Höfundur bókarinnar Kristín Svava Tómasdóttir er komin hingað til okkur til að segja okkur frá bókinni og þessu merkilega húsi.

Rafmagnslaust er á gjörvallri Kúbu eftir að fellibylurinn Ian fór þar hamförum í gær. Fárviðrið hamaðist á vesturhluta eyríkisins af ógnarkrafti í fimm tíma áður en það mjakaðist aftur á haf út. Fellibylurinn Ian stefnir nú nánast beint norður yfir Mexíkóflóann til Flórída í Bandaríkjunum. Yfirvöld þar hafa skikkað 2,5 milljónir manna, einkum við Tampaflóa, til að yfirgefa heimili sín og forða sér í öruggt skjól áður en ofviðrið skellur á í kvöld eða nótt. Ian var þriðja stigs fellibylur þegar hann gekk yfir Kúbu, hann hefur sótt í sig veðrið og má búast við að hann verði orðinn að fjórða stigs fellibyl þegar hann tekur land í Flórída. Á línunni hjá okkur er Óskar Kristjánsson íbúi í Orlando í Flórída.

Var aðgengilegt til 28. september 2023.
Lengd: 1 klst. 54 mín.
,