16:05
Víðsjá
Sæunn Þorsteinsdóttir, Farsótt og hönnuðurinn Hómer Simpson
Víðsjá

Þáttur fyrir áhugafólk um listir og menningu. Ljósi varpað á það sem efst er á baugi hverju sinni, menningin nær og fjær skoðuð frá ólíkum sjónarhornum og skapandi miðlar settir undir smásjána.

Umsjón: Halla Harðardóttir og Tómas Ævar Ólafsson.

Sæunn Þorsteinsdóttir er einn fremsti sellóleikari Íslands og hefur hlotið verðskuldaða athygli fyrir innblásinn og tilfinningaþrunginn leik sinn. Sæunn hefur verið búsett í Bandaríkjunum stóran hluta ævinnar, en verður í vetur staðarlistamaður hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands. Sem slíkur kemur hún fram sem einleikari á tvennum tónleikum hljómsveitarinnar, ásamt því að halda einleikstónleika í tvígang. Sæunn verður gestur Víðsjár í svipmynd dagsins, segir okkur frá þessum og fleiri verkefnum framundan og svarar nokkrum spurningum af spurningalista Proust.

Og við fáum að heyra vangaveltur arkitektúrs-sagnfræðingsins Óskars Arnórssonar. Pistill Óskars fjallar að þessu sinni um það þegar Homer Simpson hannaði bíl og hvernig við getum ekki öll fengið allt það sem við viljum þegar kemur að hönnun. Við sögu koma einnig þvottaefni á ruslahaug í Japan, Vatnshóllinn í Hlíðunum og nýjar byggingar hannaðar fyrir eldri borgara og miðaldra hvítur karl.

Í dag gefur Sögufélagið út bókina Farsótt: Hundrað ár í Þingholtsstræti 25, eftir skáldið og sagnfræðinginn Kristínu Svövu Tómasdóttur. Í bókinni er ekki aðeins sögð 100 ára saga Farsóttarhússins, heldur líka saga af lækningum, saga borgar og velferðarkerfis en ekki síst saga af fólki. Víðsjá hitti Kristínu Svövu í litlu herbergi á fyrstu hæð timburhússins gamla á horni Spítalastígs og Þingholtsstrætis og forvitnaðist um bókina.

Umsjón: Halla Harðardóttir og Melkorka Ólafsdóttir

Aðgengilegt til: Rennur ekki út.
Lengd: 53 mín.
,