06:50
Morgunútvarpið
6. apríl - Krabbamein, sóttvarnarreglur, Reykjanes og vísindi
Morgunútvarpið

Morgunútvarpið vekur hlustendur með glóðvolgum fréttum og snarpri umfjöllun um samfélagsmál. Umsjón: Hafdís Helga Helgadóttir, Rúnar Róbertsson og Hulda G. Geirsdóttir.

Ákvörðunartæki Krabbameinsfélagsins er fjölþætt og gagnvirkt tæki sem hjálpar körlum að skilja og meta þörf á krabbameinsskimun miðað við aldur, fjölskyldusögu og lífsmynstur. Tækið er unnið af sérfræðingum Krabbameinsfélagsins í forvörnum og fræðslu og þar hefur Sigrún Elva Einarsdóttir, lýðheilsufræðingur, komið að. Hún kíkti til okkar og sagði okkur betur af ákvörðunartækinu og hvernig hægt er að nýta það.

Við heyrðum í Ómari R. Valdimarssyni, lögmanni eins þeirra sem kærðu til héraðsdóms vistunina í sóttvarnarhúsi eftir heimkomu til landsins. Héraðsdómur kvað upp úrskurð sinn í gær varðandi þær kærur sem þangað bárust og var niðurstaðan sú að stjórnvöld máttu ekki skikka fólkið í sóttvarnarhús ef þau gætu farið í sóttkví heima hjá sér. Ekki var uppi ágreiningur um að fólkið þyrfti að fara í sóttkví.

Reykjanesið hefur verið í sviðsljósinu undanfarnar vikur og mánuði eftir jarðhræringar og svo eldgos. Skömmu áður hafði Reykjanes UNESCO Global Geopark gefið út veglega bók um svæðið þar sem finna má fjölda ljósmynda af einstökum Reykjanesskaganum og tilvísanir í menningu og sögu þessa landshluta sem kalla má hliðið inn í landið. Þráinn Kolbeinsson ljósmyndari tók myndirnar í bókinni og þekkir svæðið vel, enda búsettur í Grindavík um tíma, og við heyrðum aðeins í honum áður en hann lagði í verkefni dagsins.

Og við spáðum meira í Reykjanesskagann og eldsumbrotin þar, en eins og allir vita væntanlega opnuðust þar tvær nýjar sprungur í gær. Við fengum Halldór Geirsson jarðeðlisfræðing til að spá í spilin með okkur og fara yfir þessa nýju stöðu.

Við spjölluðum líka við Sævar Helga Bragason sem ræddi drónaflug á Mars í Vísindahorni vikunnar.

Það hefur mætt mikið á Gylfa Þór Þorsteinssyni, umsjónarmanni sóttvarnarhúsa, og starfsfólki hans hjá Rauða krossinum. Við hringdum í Gylfa og spurðum hvernig gekk um páskahelgina.

Tónlist:

Ellen Kristjáns og John Grant - Veldu stjörnu.

Toto - Rosanna.

Tryggvi - Við erum eitt.

Valdimar - Slétt og fellt.

Auður - Enginn eins og þú.

Feist - 1234.

Bubbi Morthens og Bríet - Ástrós.

Var aðgengilegt til 06. apríl 2022.
Lengd: 2 klst. 10 mín.
,