Færslur: Morð í Rauðagerði

Áfrýja og krefjast þyngri refsingar í Rauðagerðismáli
Ríkissaksóknari hefur áfrýjað niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í Rauðagerðismálinu. Bæði er krafist þyngri refsingar yfir Angjelin Sterkaj og sakfellingar þeirra sem voru sýknuð í héraði.
Telur ósannað að hin hafi vitað af áformum Angjelins
Héraðsdómur Reykjavíkur segir engan vitnisburð benda til þess að þeir þrír sakborningar sem voru sýknaðir í Rauðagerðismálinu hafi vitað eða mátt vita að Angjelin Sterkaj myndi svipta Armando Beqiri lífi þegar hann fór til fundar við hann í Rauðagerði laugardaginn 13. febrúar. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fær skammir í hattinn fyrir skjal sem ákæruvaldið lagði fram.
Verjendum létt, saksóknari þarf tíma til að lesa dóminn
Friðrik Smári Björgvinsson, saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara, segir of snemmt að fullyrða hvort dómnum í Rauðagerðismálinu verði áfrýjað til Landsréttar. Fyrst þurfi að fara yfir forsendur hans. Angjelin Sterkaj var í morgun dæmdur í 16 ára fangelsi fyrir morðið á Armando Beqirai en hinir sakborningarnir þrír voru allir sýknaðir. „Þetta er mikill léttir, “ segir verjandi eins þeirra.
Fékk 16 ára fangelsi fyrir morðið í Rauðagerði
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag Angjelin Sterkaj í 16 ára fangelsi fyrir morðið á Armando Beqirai í Rauðagerði um miðjan febrúar. Hinir þrír sakborningarnir í málinu voru sýknaðir..
Angjelin sakfelldur - hinir sakborningarnir sýknaðir
Angjelin Sterkaj var í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun dæmdur í sextán ára fangelsi fyrir að hafa orðið Armando Bequiri að bana. Hinir þrír sakborningarnir sem voru ákærðir í málinu voru sýknaðir.
Verjandi Angjelins undrandi á málflutningi saksóknara
Oddgeir Einarsson, verjandi Angjelins Sterkaj sem hefur einn játað sök í Rauðagerðismálinu, sagðist vera undrandi á málflutningi saksóknara sem hefði sleppt því að minnast á þær hótanir sem Angjelin hefðu borist frá fólki tengdu Armando Beqiri. Hann sagði vissulega sérstakt að sakborningur færi fram á refsileysi í manndrápsmáli en ekkert við Rauðagerðismáli væri eðlilegt.
Angjelin hafi gengið langt í að sverta orðspor Armando
Réttargæslumaður fjölskyldu Armando Beqiri sagði Angjelin Sterkaj hafa gengið mjög langt í að sverta orðspor Armando Beqiri sem gæti ekki borið hönd fyrir höfði sér. Hann tók undir með saksóknara um að morðið í Rauðagerði hefði í raun verið vel skipulögð aftaka þar sem ekkja Armando hefði verið svipt sínum lífsförunaut.
Saksóknari: Morðið í Rauðagerði vel skipulögð aftaka
Kolbrún Benediktsdóttir, saksóknari í Rauðagerðismálinu, sagði morðið á Armando Beqiri um miðjan febrúar hafa verið vel skipulagða aftöku og gaf lítið fyrir játningu Angjelin Sterkaj í málinu. Hann hefði ekki játað fyrr en hann var kominn út í horn þegar lögregla lagði fyrir hann ítarleg gögn í þrettán liðum sem öll bentu til sektar hans. Saksóknari taldi að refsing hans ætti að vera á bilinu 16 til 20 ár og refsingin ætti að vera nær 20 árum.
Benti á Angjelin í fyrstu yfirheyrslu hjá lögreglu
Verjandi Murat Selivrada, sem er einn af fjórum sakborningum í Rauðagerðismálinu, tjáði lögreglu strax við fyrstu yfirheyrslu að hans tilgáta væri að Angjelin Sterkaj væri viðriðinn morðið. Þetta er meðal þess sem kemur fram í greinargerð til Héraðsdóms Reykjavíkur. Það verði að telja augljóst að Murat hefði ekki gert það ef hann hefði framið morðið í félagi með Angjelin eins og ákæruvaldið haldi fram.
„Þvældist inn í þetta mál af kjánaskap“
Verjandi Claudiu Sofiu Carvahlo, sakbornings í Rauðagerðismálinu, sakar lögreglu, ákæruvald og fjölmiðla um að hafa teiknað skjólstæðing sinn sem afbrotamanneskju í skipulagðri brotastarfsemi sem víli ekki fyrir sér að myrða mann. Raunveruleikinn gæti vart verið fjær sanni. „[Hún] þvældist inn í þetta mál af kjánaskap,“ og hafi ekki rennt í grun um að hún væri að gera eitthvað ólögmæt.
Angjelin segir morðið hafa verið örþrifaráð
Verjandi Angjelin Sterkaj, sem hefur einn játað sök í Rauðagerðismálinu, krefst þess í greinargerð til Héraðsdóms Reykjavíkur að hann verði ekki dæmdur til refsingar fyrir að hafa orðið Armando Beqiri að bana með því að skjóta hann níu sinnum. Morðið hafi verið örþrifaráð föður sem hafi verið hótað lífláti af mönnum sem lögregla telji að tengist skipulagðri glæpastarfsemi. Hótanir þeirra hafi beinst bæði að honum og syni hans.
Sótt að lögreglumönnum undir lok réttarhaldanna
Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sagðist ekki geta tjáð sig um meint tengsl Armando Beqiri við skipulagða glæpastarfsemi vegna rannsóknarhagsmuna. Þetta kom fram í skýrslutöku fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í Rauðagerðismálinu. Verjandi Claudiu Sofiu Carvahlo gekk nokkuð hart fram gegn lögreglumanni sem kom fyrir dóminn. Hann gagnrýndi að Claudia skyldi ekki hafa fengið að hafa túlk eða verjanda með sér í vettvangsferð sem hún fór í með lögreglu.
Þótti hegðun Angjelins í ferðinni norður vera undarleg
Fjórði dagur aðalmeðferðar í Rauðagerðismálinu hefur farið fram á allnokkrum tungumálum í morgun; spænsku, rússnesku, litháísku og albönsku. Meðal vitna voru menn sem voru sagðir hafa verið fluttir hingað til lands sem lífverðir Íslendingsins sem var um tíma grunaður í málinu. Einn þeirra, spænskur karlmaður, sagðist hins vegar hafa komið hingað til að opna sauna-stað með Íslendingnum.
Íslendingurinn: Var beðinn um að losa mig við Angjelin
Íslendingurinn, sem sat um tíma í gæsluvarðhaldi vegna morðsins í Rauðagerði, og hefur verið sagður umfangsmikill í undirheimum, kannaðist ekki við að hafa átt í neinum deilum við Armando Beqiri. Hann hefði heyrt orðróm um að Armando vildi vinna honum mein vegna leka á gögnum þar sem fram kom að hann hefði verið upplýsingagjafi lögreglu. Á fundi sem haldinn var á Mathúsi Garðabæjar hefði komið í ljós að þær sögusagnir áttu ekki við rök að styðjast. Orðrómurinn hefði komið frá Angjelin Sterkaj.
Sagði Angjelin ekki hafa viljað sáttafund í deilu
Samstarfsmaður Armando Beqiri, sem gaf skýrslu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í Rauðagerði, fullyrti að Angjelin Sterkaj hefði logið því að Armando Beqiri væri reiður við Íslending, sem sat um tíma í gæsluvarðhaldi vegna málsins og hefur verið sagður umfangsmikill í undirheimum.  Hann hefði reynt að koma á sáttafund í deilunni en „mér finnst eins og Angjelin hafi ekki viljað að þessi fundur færi fram.“
Sagði sakborningana vera hluti en ekki manneskjur
Náinn vinur og samstarfsmaður Armando Beqiri fór býsna hörðum orðum um sakborningana í Rauðagerðismálinu í skýrslutöku sinni fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun og sagði þá ekki vera manneskjur heldur hluti. Hann kannaðist ekki við að hann og Armando Beqiri hefðu verið að reyna kúga fé út úr Íslendingnum sem sat um tíma í gæsluvarðhaldi vegna málsins eins og Angjelin Sterkaj, sem hefur einn játað sök í málinu, fullyrti í skýrslutöku sinni.
Sagði Angjelin hafa verið rólegan skömmu eftir morðið
Þriðji dagur aðalmeðferðar í Rauðagerðismálinu svokallaða í Héraðsdómi Reykjavíkur hófst á skýrslutöku yfir vinkonu Angjelin Sterkaj og Claudiu Sofiu Carvahlo. Vinkonan sagði Angjelin hafa tjáð sér að syni hans hefði verið hótað og að hann hefði verið órólegur skömmu áður en hann fór í snjósleðaferð norður í land helgina sem Armando Beqiri var myrtur. Hann hefði hins vegar verið rólegur þegar hún hitti hann á þriðjudeginum.
„Virkuðu stressuð og fylgdust með fréttum af morði“
Rúmenskur nágranni Angjelins Sterkaj greindi frá því í skýrslutöku í morgun að hann hefði verið beðinn um að skutla jepplingi og fötum norður í Varmahlíð, daginn eftir að Armando Beqiri var myrtur fyrir utan heimili sitt. Þegar hann hefði komið þangað ásamt eiginkonu sinni hefðu Angjelin og Claudia Sofia Carvahlo virkað stressuð og verið að fylgjast með sjónvarpsfréttum af morði.
Var minnst metra frá Armando þegar hann hleypti af
Öðrum degi réttarhaldanna í Rauðagerðismálinu lauk á þriðja tímanum í dag. Meðal þeirra sem gáfu skýrslu fyrir dómi eftir hádegi var réttarmeinafræðingur sem sagði að Angjelin Sterkaj, sem hefur játað að hafa orðið Armando Beqiri að bana fyrir utan heimili hans í Rauðagerði, hefði verið minnst metra frá þegar hann skaut Armando níu sinnum, þar af tvívegis í höfuðið þegar Armando var þegar látinn.
Neitaði að svara um tengsl Armando við brotastarfsemi
Einar Guðberg Jónsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sagðist ekki hafa heimild til að upplýsa af hverju lögreglan teldi að Armando Beqiri hefði tengsl við skipulagða glæpastarfsemi. Því yrðu þeir að svara sem stóðu fyrir blaðamannafundi um morðið í Rauðagerði á sínum tíma
Hélt fyrst að Armando hefði verið laminn
Mágur Armando Beqiri var fyrstur til að koma að Armando þar sem hann lá hreyfingarlaus fyrir utan bílskúrinn við Rauðagerði. Hann sagðist fyrir dómi hafa farið út til að sjá hvað væri á seyði eftir að heyrt dynk. Meðleigjandi hans sagðist hafa haldið fyrst að Armando hefði verið laminn.
Lögregla fann engin skotvopn í bílskúr Armando
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fann engin skotvopn í bílskúr Armando Beqiri. Angjelin Sterkaj, sem hefur einn játað sök í Rauðagerðismálinu, fullyrti í skýrslutöku sinni í gær að hann hefði séð Armando með haglabyssu inni í bílskúrnum, kvöldið sem hann var myrtur. Og að það hefði verið ein af ástæðum þess að hann fór vopnaður byssu á fund Armando.
Ekkja Armando: Kvíðir öllum kvöldum
Þóranna Helga Gunnarsdóttir, ekkja Armando Beqiri sem var myrtur í Rauðagerði um miðjan febrúar, var fyrsta vitnið þegar aðalmeðferð hófst að nýju í Héraðsdómi Reykjavíkur. Hún sagði málið hafa haft mikil áhrif á sig og að hún kviði öllum kvöldum.
Sagðist eingöngu hafa heyrt um morðið í fjölmiðlum
Claudia Sofia Carvahlo, sem hefur verið sögð kærasta Angjelin Sterkaj og er ákærð fyrir aðild að morðinu með því að hafa fylgst með tveimur bílum Armando Beqiri sem lagt var við Rauðarástíg, sagði fyrir dómi að hún hefði eingöngu frétt af morðinu í fjölmiðlum. Hún hefði átt að senda Angjelin skilaboðin "Hi sexy" þegar öðrum hvorum bílnum yrði ekið af stað.
Sakaði Armando um að hafa hótað sér og fjölskyldu sinni
Angjelin Sterkaj, eini sakborningurinn í Rauðagerðismálinu sem hefur játað sök, gaf fyrstur skýrslu þegar aðalmeðferð hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Hann sagði játningu sína standa, hann hefði orðið Armando Beqiri að bana og verið einn að verki. Hann sakaði Armando um að haft í hótunum við sig ef hann ynni ekki Íslendingi, sem var um tíma sakborningur í málinu, mein vegna 50 milljón króna sektar.