Færslur: Mexíkó

Yfir fimm milljónir kórónaveirusmita í Bandaríkjunum
Kórónaveirusmit í Bandaríkjunum eru nú orðin fleiri en fimm milljónir talsins, samkvæmt samantekt Reuters-fréttastofunnar, og dauðsföll af völdum COVID-19 eru ríflega 162.000 þar í landi. Fyrr í gærkvöld bárust fréttir af því að staðfest smit í Brasilíu væru komin yfir þrjár milljónir og að fleiri en eitt hundrað þúsund manns hefðu dáið úr sjúkdómnum þar. Á Nýja Sjálandi var því aftur á móti fagnað nú í morgunsárið að þar hefur ekki greinst nýtt samfélagssmit í 100 daga.
09.08.2020 - 06:30
Yfir 2.000 dóu úr COVID-19 í Bandaríkjunum í gær
2.060 dauðsföll af völdum COVID-19 voru skráð í Bandaríkjunum næstliðinn sólarhring og um 58.000 ný kórónaveirusmit voru staðfest þar í landi. Fleiri hafa ekki dáið á einum sólarhring vestra í hartnær þrjá mánuði. Eftir að nokkuð var tekið að hægjast á útbreiðslu farsóttarinnar í Bandaríkjunum í vor færðist hún aftur mjög í aukana í lok júní og hefur ekki slakað á klónni síðan. Rétt rúmlega 160.000 manns hafa nú dáið úr COVID-19 þar í landi og staðfest smit nálgast 4,9 milljónir.
Yfir 50.000 látin úr COVID-19 í Mexíkó
Rúmlega 50.000 manns hafa nú dáið úr COVID-19 í Mexíkó svo vitað sé. Mexíkósk heilbrigðisyfirvöld greindu frá því í dag að 819 ný dauðsföll af völdum COVID-19 hefðu verið staðfest í landinu síðasta sólarhringinn. Þar með hafa alls 50.517 dáið úr sjúkdómnum í Mexíkó og um 463.000 manns greinst með kórónaveirusmit frá því að fyrsta tilfellið greindist þar í landi í febrúar.
07.08.2020 - 00:53
Fellibylurinn Hanna hamast á Texas og Norðaustur-Mexíkó
Fellibylurinn Hanna gekk á land í Texas um klukkan sautján að staðartíma, eða 22 að íslenskum tíma. Hanna er fyrsti stormur þessa fellibyljatímabils vestra og telst fyrsta stigs fellibylur, sem þýðir að meðalvindhraði nær allt að 40 metrum á sekúndu. Mikið úrhelli fylgir Hönnu og varað er við flóðahættu í suðurhluta Texas og Norðaustur-Mexíkó.
25.07.2020 - 23:47
Yfir 40.000 dauðsföll af völdum COVID-19 í Mexíkó
Dauðsföll sem rakin hafa verið til COVID-19 eru nú orðin fleiri en 40.000 í Mexíkó. Þetta kemur fram í tilkynningu mexíkóskra heilbrigðisyfirvalda. Þar segir að 915 dauðsföll hafi verið rakin til þessarar skæðu farsóttar síðasta sólarhringinn og þau þar með orðin 40.400 talsins. Einungis Bandaríkin, Brasilía og Bretland hafa orðið verr úti í faraldrinum.
22.07.2020 - 03:24
Tugþúsunda saknað í Mexíkó
Fleiri en 73.000 eru á lista yfir fólk sem saknað er í Mexíkó, en talið er að langflestir þeirra séu fórnarlömb í stríði glæpahópa í landinu.
14.07.2020 - 08:42
Metfjöldi tilfella í Mexíkó
Metfjöldi COVID-19 tilfella á einum sólarhring greindist í Mexíkó í gær. Skráð tilfelli voru tæplega 7000. Sennilega eru þau enn fleiri því lítið er skimað í landinu. Hugo Lopez-Gatell, sérfræðingur hjá heilbrigðisráðuneyti Mexíkó, telur að þrátt fyrir fjölgun smita sé að hægjast á faraldrinum.
10.07.2020 - 08:30
Mynd með færslu
Tólf þúsund ára náma í neðansjávarhelli í Mexíkó
Vísindamenn í Mexíkó birtu á föstudag niðurstöður margra mánaða rannsókna á neðansjávarhellum, þar sem áður var okkurnáma. Samkvæmt niðurstöðunum hófst námuvinnsla fyrir um tólf þúsund árum, um það leyti sem mannkynið dreifði sér um álfuna. 
05.07.2020 - 06:44
Yfir 30 þúsund látnir af völdum COVID-19 í Mexíkó
Mexíkó varð í gær fimmta ríkið í heiminum þar sem yfir 30 þúsund dauðsföll eru skráð af völdum COVID-19. Sóttvarnalæknirinn Jose Luis Alomia greindi frá þessu í gærkvöld. Fleiri hafa látið lífið á Ítalíu, Bretlandi, Brasilíu og í Bandaríkjunum.
05.07.2020 - 02:15
Öflugur jarðskjálfti í Mexíkó
Flóðbylgjuviðvörun var gefin út í Mexíkó, Hondúras, El Salvador, Gvatemala og víðar eftir að öflugur jarðskjálfti varð í dag í Oaxaca-ríki í Mexíkó, um tólf kílómetra frá bænum La Crucecita. Að sögn bandarísku jarðvísindastofnunarinnar var hann 7,4 að stærð. Hús léku á reiðiskjálfi í mið- og suðurhluta landsins.
23.06.2020 - 16:15
Noregur og Írland í Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna
Fjögur ríki hlutu í dag aðild að Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna árin 2021 og 2022. Fimmta sætinu var ekki úthlutað í dag þar sem Afríkuríkjunum Djibútí og Kenía tókst hvorugu að afla sér stuðnings tveggja þriðju aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna. Aftur verður kosið um hvort ríkið hlýtur aðild á morgun. 
17.06.2020 - 23:55
Stærsta þekkta mannvirki Maya fannst í Mexíkó
Fornleifafræðingar fundu nýverið stærsta og elsta mannvirki sem byggt var á tímum Maya, svo vitað sé. Risastór ferhyrndur flötur á upphækkun fannst í Tabasco-fylki Mexíkó. Talið er að hann hafi verið reistur á milli áranna 1000 og 800 fyrir okkar tímatal. 
04.06.2020 - 04:48
Tilfellum COVID-19 fjölgar hratt í Brasilíu
Yfir eitt þúsund létu lífið af völdum COVID-19 síðasta sólarhring bæði í Mexíkó og Brasilíu. Yfir 1.300 létust í Brasilíu, þar sem nærri 33 þúsund eru nú látnir af völdum sjúkdómsins. Fjöldi greindra smita nálgast óðum 600 þúsund, en eru að öllum líkindum mun fleiri þar sem fremur fá sýni hafa verið tekin í landinu, eða innan við milljón. 
Flugvallarframkvæmdum frestað vegna loðfíla
Leifar rúmlega sextíu loðfíla uppgötvuðust þegar grafið var fyrirr grunni nýrrar flugstöðvar í Mexíkóborg. Mann- og sagnfræðistofnun Mexíkó, INAH, segir beinin vera um 15 þúsund ára gömul. Deutsche Welle segir þau hafa fundist nærri þeim stað sem flugturn nýju flugstöðvarinnar verður reistur. Fornleifafræðingar hafa unnið að uppgreftri á svæðinu síðan í apríl í fyrra. 
22.05.2020 - 03:53
Áfram lokuð landamæri við Bandaríkin
Lokun landamæra Bandaríkjanna að Kanada og Mexíkó verður fram haldið til 22. júní hið minnsta. Heimavarnarráðuneytið greindi frá þessu í gærkvöld. Aðeins þeir sem nauðsynlega þurfa að komast yfir landamærin fá að fara. Landamærin hafa verið lokuð í tvo mánuði, síðan 20. mars. Lokunin er endurskoðuð á 30 daga fresti. 
20.05.2020 - 03:46
Blaðamaður myrtur í Mexíkó
Mexíkóski blaðamaðurinn Jorge Armenta var myrtur á laugardag í borginni Ciudad Obregon í norðurhluta Mexíkó. Samkvæmt mexíkóskum yfirvöldum er hann þriðji blaðamaðurinn sem er myrtur þar á þessu ári.
17.05.2020 - 03:34
70 Mexíkanar létust eftir neyslu á heimabrugguðu áfengi
Minnst sjötíu Mexíkanar hafa látið lífið vegna neyslu á heimabrugguðu áfengi síðustu tvær vikur. Áfengissala var þar víða bönnuð í apríl til þess að stemma stigu við útbreiðslu kórónuveirufaraldursins.
14.05.2020 - 07:06
Hundar fundu fjöldagröf í Mexíkó
25 lík fundust í fjöldagröf skammt utan borgarinnar Guadalajara í Mexíkó á fimmtudag. Ríkissaksóknari í Jalisco greindi frá þessu í dag. Auk þess fundust í gröfinni fimm pokar sem taldir eru geyma líkamsleifar, hefur AFP fréttastofan eftir yfirlýsingu saksóknara. 
COVID-19: Þúsundir látnar í Rómönsku-Ameríku
Yfir 15.000 hafa látist úr COVID-19 í Rómönsku-Ameríku og ríkjum við Karíbahaf samkvæmt samantekt fréttastofunnar AFP. Fleiri en 280.000 hafa greinst þar með kórónuveiruna.
06.05.2020 - 10:34
Viðbúnaður aukinn í Mexíkó vegna COVID-19
Heilbrigðisyfirvöld í Mexíkó hafa hækkað viðbúnaðarstig vegna sívaxandi fjölda kórónusmitaðra landsmanna. Forsetinn er sakaður um að hafa brugðist seint og illa við COVID-19 farsóttinni og að vera öðrum slæm fyrirmynd.
21.04.2020 - 17:53
Aldrei fleiri morð á einum degi í Mexíkó
Þrátt fyrir að yfirvöld í Mexíkó hafi skipað landsmönnum að halda sig heima vegna útbreiðslu kórónuveirunnar hefur það haft lítil áhrif á glæpaölduna sem ríkir í landinu. Yfirvöld skráðu 105 morð í landinu á sunnudag og hafa þau ekki verið fleiri á einum degi síðan 104 morð voru skráð 4. apríl. 
21.04.2020 - 07:28
Mexíkóar vilja loka landamærunum að Bandaríkjunum
Staðan við landamæri Mexíkó og Bandaríkjanna hefur snúist við síðustu daga. Íbúar mexíkósku borgarinnar Sonora, suður af Arisóna, ætla að koma í veg fyrir ferðir Bandaríkjamanna yfir landamærin til þess að reyna að hefta útbreiðslu kórónaveirufaraldursins í Mexíkó. Innan við 500 tilfelli hafa verið greind í Mexíkó það sem af er, en í Bandaríkjunum nálgast þau 86 þúsund. 
27.03.2020 - 04:55
Annar umhverfisverndarsinni myrtur í Mexíkó
Aðeins nokkrum dögum eftir að stjórnandi verndarsvæðis fyrir kóngafiðrildi í Mexíkó fannst látinn, fannst annar starfsmaður verndarsvæðisins myrtur. Lík Raul Hernandez Romero fannst á sunnudag, með fjölda sára eftir beittan hlut að sögn saksóknara í Michoacan fylki. Hans hafði verið saknað síðan 27. janúar, og sást síðast til hans í bænum Angangueo, í hjarta verndarsvæðis kóngafiðrildanna.
Lík umhverfisverndarsinna finnst í brunni
Lík mexíkóska umhverfisverndarsinnans Homero Gomez fannst ofan í brunni í Mexíkó eftir að hans hafði verið leitað í tvær vikur. Gomez sá um verndarsvæði fyrir fiðrildi í bænum Ocampo í Michoacan fylki. Fylkið er alræmt vegna fjölda glæpagengja sem berjast þar um yfirráð.
Nær 35.000 morð í Mexíkó í fyrra
34.582 morð og manndráp voru framin í Mexíkó árið 2019, eða nær 95 á degi hverjum að meðaltali. Þetta kemur fram í skýrslu mexíkóskra yfirvalda. Svo margir Mexíkóar hafa ekki fallið fyrir morðingja hendi á einu ári frá því að stjórnvöld byrjuðu að taka saman upplýsingar um slíka glæpi með skipulegum hætti árið 1997. Þetta eru 2,5 prósentum fleiri en 2018, þegar 33.743 manneskjur voru drepnar í Mexíkó.
22.01.2020 - 03:09