Færslur: Mexíkó

Flugvallarframkvæmdum frestað vegna loðfíla
Leifar rúmlega sextíu loðfíla uppgötvuðust þegar grafið var fyrirr grunni nýrrar flugstöðvar í Mexíkóborg. Mann- og sagnfræðistofnun Mexíkó, INAH, segir beinin vera um 15 þúsund ára gömul. Deutsche Welle segir þau hafa fundist nærri þeim stað sem flugturn nýju flugstöðvarinnar verður reistur. Fornleifafræðingar hafa unnið að uppgreftri á svæðinu síðan í apríl í fyrra. 
22.05.2020 - 03:53
Áfram lokuð landamæri við Bandaríkin
Lokun landamæra Bandaríkjanna að Kanada og Mexíkó verður fram haldið til 22. júní hið minnsta. Heimavarnarráðuneytið greindi frá þessu í gærkvöld. Aðeins þeir sem nauðsynlega þurfa að komast yfir landamærin fá að fara. Landamærin hafa verið lokuð í tvo mánuði, síðan 20. mars. Lokunin er endurskoðuð á 30 daga fresti. 
20.05.2020 - 03:46
Blaðamaður myrtur í Mexíkó
Mexíkóski blaðamaðurinn Jorge Armenta var myrtur á laugardag í borginni Ciudad Obregon í norðurhluta Mexíkó. Samkvæmt mexíkóskum yfirvöldum er hann þriðji blaðamaðurinn sem er myrtur þar á þessu ári.
17.05.2020 - 03:34
70 Mexíkanar létust eftir neyslu á heimabrugguðu áfengi
Minnst sjötíu Mexíkanar hafa látið lífið vegna neyslu á heimabrugguðu áfengi síðustu tvær vikur. Áfengissala var þar víða bönnuð í apríl til þess að stemma stigu við útbreiðslu kórónuveirufaraldursins.
14.05.2020 - 07:06
Hundar fundu fjöldagröf í Mexíkó
25 lík fundust í fjöldagröf skammt utan borgarinnar Guadalajara í Mexíkó á fimmtudag. Ríkissaksóknari í Jalisco greindi frá þessu í dag. Auk þess fundust í gröfinni fimm pokar sem taldir eru geyma líkamsleifar, hefur AFP fréttastofan eftir yfirlýsingu saksóknara. 
COVID-19: Þúsundir látnar í Rómönsku-Ameríku
Yfir 15.000 hafa látist úr COVID-19 í Rómönsku-Ameríku og ríkjum við Karíbahaf samkvæmt samantekt fréttastofunnar AFP. Fleiri en 280.000 hafa greinst þar með kórónuveiruna.
06.05.2020 - 10:34
Viðbúnaður aukinn í Mexíkó vegna COVID-19
Heilbrigðisyfirvöld í Mexíkó hafa hækkað viðbúnaðarstig vegna sívaxandi fjölda kórónusmitaðra landsmanna. Forsetinn er sakaður um að hafa brugðist seint og illa við COVID-19 farsóttinni og að vera öðrum slæm fyrirmynd.
21.04.2020 - 17:53
Aldrei fleiri morð á einum degi í Mexíkó
Þrátt fyrir að yfirvöld í Mexíkó hafi skipað landsmönnum að halda sig heima vegna útbreiðslu kórónuveirunnar hefur það haft lítil áhrif á glæpaölduna sem ríkir í landinu. Yfirvöld skráðu 105 morð í landinu á sunnudag og hafa þau ekki verið fleiri á einum degi síðan 104 morð voru skráð 4. apríl. 
21.04.2020 - 07:28
Mexíkóar vilja loka landamærunum að Bandaríkjunum
Staðan við landamæri Mexíkó og Bandaríkjanna hefur snúist við síðustu daga. Íbúar mexíkósku borgarinnar Sonora, suður af Arisóna, ætla að koma í veg fyrir ferðir Bandaríkjamanna yfir landamærin til þess að reyna að hefta útbreiðslu kórónaveirufaraldursins í Mexíkó. Innan við 500 tilfelli hafa verið greind í Mexíkó það sem af er, en í Bandaríkjunum nálgast þau 86 þúsund. 
27.03.2020 - 04:55
Annar umhverfisverndarsinni myrtur í Mexíkó
Aðeins nokkrum dögum eftir að stjórnandi verndarsvæðis fyrir kóngafiðrildi í Mexíkó fannst látinn, fannst annar starfsmaður verndarsvæðisins myrtur. Lík Raul Hernandez Romero fannst á sunnudag, með fjölda sára eftir beittan hlut að sögn saksóknara í Michoacan fylki. Hans hafði verið saknað síðan 27. janúar, og sást síðast til hans í bænum Angangueo, í hjarta verndarsvæðis kóngafiðrildanna.
Lík umhverfisverndarsinna finnst í brunni
Lík mexíkóska umhverfisverndarsinnans Homero Gomez fannst ofan í brunni í Mexíkó eftir að hans hafði verið leitað í tvær vikur. Gomez sá um verndarsvæði fyrir fiðrildi í bænum Ocampo í Michoacan fylki. Fylkið er alræmt vegna fjölda glæpagengja sem berjast þar um yfirráð.
Nær 35.000 morð í Mexíkó í fyrra
34.582 morð og manndráp voru framin í Mexíkó árið 2019, eða nær 95 á degi hverjum að meðaltali. Þetta kemur fram í skýrslu mexíkóskra yfirvalda. Svo margir Mexíkóar hafa ekki fallið fyrir morðingja hendi á einu ári frá því að stjórnvöld byrjuðu að taka saman upplýsingar um slíka glæpi með skipulegum hætti árið 1997. Þetta eru 2,5 prósentum fleiri en 2018, þegar 33.743 manneskjur voru drepnar í Mexíkó.
22.01.2020 - 03:09
Hermenn beittu táragasi gegn flóttafólki
Mörg hundruð flóttamenn frá Mið-Ameríku reyndu að ryðja sér leið yfir landamæri Gvatemala að Mexíkó í gær með því að vaða yfir á sem liggur á milli landanna. Mexíkóskir þjóðvarðliðar bægðu fólkinu frá með táragasi. 
21.01.2020 - 05:39
Hermenn hefta för flóttamanna til Mexíkó
Mexíkóskir hermenn héldu aftur af um 1.500 flóttamönnum frá Mið-Ameríku við landamærin að Gvatemala. Einn hermannanna tjáði flóttamönnunum í gegnum gjallarhorn að ferðalag þeirra væri til einskis ef þeir væru ekki með vegabréfsáritun eða önnur gögn til að komast yfir landamærin.
19.01.2020 - 03:30
Átta ára skaut kennara til bana
Nemandi í grunnskóla í borginni Torreon í norðurhluta Mexíkós mætti með byssu í skólann í dag, skaut kennara til bana og særði fimm nemendur áður en hann svipti sig lífi. Lögreglan telur að hann hafi verið á aldrinum átta til tíu ára.
10.01.2020 - 16:53
Mexíkóskir hælisleitendur hugsanlega til Gvatemala
Mexíkómenn sem leita hælis í Bandaríkjunum kunna að verða sendir til Gvatemala samkvæmt umdeildum samningi Bandaríkjanna og Gvatemala. Ráðuneyti heimavarna í Bandaríkjunum greindi frá þessu í morgun.
07.01.2020 - 09:15
Yfir 60 þúsund horfið í stríðinu gegn fíkniefnum
Mexíkósk yfirvöld greindu frá því í gær að nærri 62 þúsund manns hafi horfið eftir að stríð ríkisins gegn fíkniefnum hófst árið 2006. Verkefni stjórnvalda er því eftir sem áður ærið.
07.01.2020 - 05:55
Tugir saka mexíkóska presta um ofbeldi
Ný rannsókn í Mexíkó greinir frá umfangsmiklu ofbeldi kaþólskra presta í kirkju Hermanna Krists, sem Marcial Maciel stofnaði árið 1941. Alls eru 33 prestar sakaðir um að hafa níðst á 175 börnum frá stofnun kirkjunnar, þar af saka yfir 60 börn Maciel sjálfan um ofbeldi.
23.12.2019 - 03:26
Eiturlyfjagengi ekki á hryðjuverkalista í bráð
Svo virðist sem Andres Manuel Lopez Obrador, forseta Mexíkó, hafi tekist að tala Bandaríkjaforseta af því að setja mexíkósk glæpagengi á hryðjuverkalista. Donald Trump kallaði eftir stríði gegn eiturlyfjagengjum í Mexíkó eftir að þrjár konur og sex börn úr samfélagi mormóna voru myrt af glæpagengi í landinu.
07.12.2019 - 07:07
Á þriðja tug rænt af meðferðarheimili
Vopnaðir menn rændu 23 einstaklingum af meðferðarheimili fyrir vímuefnafíkla í Mexíkó í fyrradag. 13 þeirra var sleppt úr haldi nokkru síðar, hefur AFP fréttastofan eftir lögreglu.
06.12.2019 - 06:27
Tíu árásarmenn handsamaðir í Mexíkó
Tíu voru handteknir í Mexíkó í dag, grunaðir um að eiga þátt í árás eiturlyfjagengis í og við bæinn Villa Union nærri landamærunum að Bandaríkjunum. Tveir almennir borgarar, fjórir lögreglumenn og 17 árásarmenn létu lífið í árásinni. 
04.12.2019 - 00:52
Obrador segir Morales „fórnarlamb valdaráns“
Andres Manuel Lopez Obrador, forseti Mexíkós, sagði í gær að Evo Morales, fyrrverandi forseti Bólivíu, væri „fórnarlamb valdaráns." Forsetinn ávarpaði stuðningsfólk sitt í höfuðborginni í gær og fór þar meðal annars yfir þá ákvörðun sína og ríkisstjórnarinnar að veita Morales pólitískt hæli eftir að hann hrökklaðist úr embætti.
02.12.2019 - 05:40
Mexíkó
21 fallinn í átökum lögreglu og glæpagengja um helgina
Minnst 21 hefur látið lífið í hörðum og blóðugum átökum lögreglu og glæpagengis í og við bæinn Villa Union í norðanverðu Mexíkó um helgina. Lögregla í Coahuilaríki skaut í morgun sjö byssumenn til bana nærri bænum Villa Union, ekki fjarri landamærunum að Texas. Daginn áður féllu tíu glæpamenn og fjórir lögreglumenn í hörðum, ríflega klukkustundar löngum skotbardaga sem upphófst þegar tugir þungvopnaðra glæpamanna óku inn í bæinn á fjölda pallbíla og skutu í allar áttir.
Fjórtán féllu í bardaga lögreglu og glæpagengis
Fjórtán féllu í skotbardaga lögreglu og glæpagengis í norðanverðu Mexikó í gær, fjórir lögreglumenn, sjö glæpamenn og þrír til viðbótar. Í tilkynningu frá yfirvöldum Coahuila-ríkis sló í brýnu milli alríkislögreglu og hóps þungvopnaðra manna á pallbílum í smábænum Villa Union, um 65 kílómetra suðvestur af landamæraborginni Piedras Negras.
Skilgreinir mexíkósk glæpagengi sem hryðjuverkasamtök
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, hyggst skilgreina mexíkósk glæpagengi sem hryðjuverkasamtök. Mexíkósk yfirvöld hafa þegar brugðist við yfirlýsingu hans og óskað frekari skýringa. Trump var í viðtali hjá hinum yfirlýsta hægrimanni og stuðningsmanni forsetans, Bill O'Reilly í gær.