Færslur: Mexíkó

Yfir 150.000 dáin úr COVID-19 í Mexíkó
Yfir 150.000 dauðsföll hafa nú verið rakin til COVID-19 í Mexíkó. Þetta kemur fram í tilkynningu mexíkóska heilbrigðisráðuneytisins, daginn eftir að forseti landsins, Andres Manuel Lopez Obrador, staðfesti að hann hefði greinst með COVID-19. Í tilkynningu ráðuneytisins segir að 659 hafi dáið úr COVID-19 síðasta sólarhringinn og dauðsföll í landinu þar með orðin 150.273. Aðeins Bandaríkin, Brasilía og Indland hafa skráð fleiri dauðsföll af völdum farsóttarinnar.
Mexíkóforseti með COVID-19
Andres Manuel Lopez Obrador, forseti Mexíkó, tilkynnti í dag að hann hefði greinst með COVID-19. Einkennin væri þó væg enn sem komið er, skrifaði forsetinn, sem sagði frá veikindunum á samfélagsmiðlum. „Því miður þarf ég að greina ykkur frá því að ég er smitaður af COVID-19. Einkennin eru væg en læknismeðferð er þegar hafin,“ skrifaði forsetinn, „og eins og alltaf, þá er ég bjartsýnn.“
Mexíkóar fagna tilskipun Bidens um landamæramúrinn
Stjórnvöld í Mexíkó fagna tilskipunum Joes Bidens, forseta Bandaríkjanna, um umbætur í innflytjendamálum og að hætta skuli öllum framkvæmdum við að reisa múr á landamærum ríkjanna.
Bandaríkin hóta að slíta samstarfi við Mexíkó
Bandaríska dómsmálaráðuneytið hótar að hætta löggæslusamstarfi við Mexíkó eftir að forsetinn Andres Manuel Lopez Obrador sakaði bandarísk yfirvöld um að falsa sönnunargögn í máli gegn fyrrverandi varnarmálaráðherra Mexíkó.
16.01.2021 - 23:45
Ákæra til að halda Trump fjarri opinberum embættum
Demókratar á Bandaríkjaþingi, undir forystu Nancy Pelosi, eru staðráðnir í að ákæra Donald Trump forseta fyrir embættisglöp enda beri hann ábyrgð á árás áhangenda sinna á þinghúsið síðastliðinn miðvikudag.
Lögmenn Assange vilja hann lausan gegn tryggingu
Lögmenn Julians Assange, stofnanda Wikileaks, krefjast þess að hann verði látinn laus úr fangelsi gegn tryggingu. Sú krafa verður borin upp við dómara síðar í dag.
Bólusetning hafin í Rómönsku Ameríku
Bólusetning gegn COVID-19 hófst í Rómönsku Ameríku í gær, aðfangadag, þegar heilbrigðisyfirvöld í Mexíkó, Chile og Kostaríka hrintu bólusetningarherferðum sínum af stokkunum. Ekki verður byrjað að bóluetja í Brasilíu fyrr en um miðjan febrúar.
Bólusetning hefst í Kosta Ríka og Mexíkó
Kosta Ríka og Mexíkó hefja bólusetningu fyrir kórónuveirunni í dag fyrst ríkja í Rómönsku-Ameríku. Fyrstu 9.750 skammtarnir af bóluefni frá Pfizer-BioNTech bárust til Kosta Ríka í gærkvöld og verður hafist handa strax í dag, hafa heilbrigðisstarfsmenn og aldraðir forgang.
24.12.2020 - 09:11
Mexíkóar byrja að bólusetja á aðfangadag
Bólusetningar gegn COVID-19 hefjast í Mexíkó á morgun, aðfangadag, daginn eftir að fyrstu skammtar bóluefnisins frá Pfizer-BioNTech berast þangað. Hugo Lopez-Gatell, aðstoðarheilbrigðisráðherra Mexíkós, greindi frá því á Twitter í gærkvöld, að fyrsta sendinging af bóluefninu væri væntanleg til landsins í dag, Þorláksmessu. Nær 1.340.000 manns hafa greinst með COVID-19 í Mexíkó og tæp 120.000 dáið úr sjúkdómnum svo vitað sé.
Viðtal
Fjölskyldan flutti til Mexíkó og skildi símana eftir
„Sköpun og víðsýni eru mikilvægari en leðursófi og flatskjár,“ segir Þórdís Eyvör Valdimarsdóttir framhaldsskólakennari. Snemma árs 2016 hélt hún með fjölskylduna til Mexíkó þar sem þau hreiðruðu um sig í litlu þorpi í fjóra mánuði. Þau kenndu hvert öðru á stjörnurnar, goðafræðina, skoðuðu mexíkóska list og stofnuðu hljómsveit.
21.12.2020 - 11:13
Landamæri Kanada, Bandaríkjanna og Mexíkós áfram lokuð
Lengstu samfelldu landæmæri heims, milli Bandaríkjanna og Kanada, verða lokuð til 21. janúar hið minnsta, vegna kórónaveirufaraldursins. Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, greindi frá þessu á fréttamannafundi í gær og sagði þetta sameiginlega ákvörðun grannríkjanna. Chad Wolf, settur yfirmaður heimavarnaráðuneytisins bandaríska, greindi líka frá þessu á Twitter og tilkynnti að landamæri Bandaríkjanna og Mexíkós yrðu einnig lokuð til 21. janúar.
12.12.2020 - 06:43
Bandaríkin og Mexíkó leyfa notkun bóluefnis frá Pfizer
Heilbrigðisyfirvöld í Bandaríkjunum og Mexíkó heimiluðu í gær dreifingu og notkun bóluefnis gegn COVID-19, sem framleitt er af lyfjafyrirtækjunum Pfizer og BioNTech.
Skráð COVID-19 tilfelli komin yfir 60 milljónir
Yfir 60 milljón kórónuveirutilfelli hafa greinst á heimsvísu samkvæmt samantekt AFP fréttastofunnar.
Landamæri áfram lokuð
Landamæri Bandaríkjanna að Kanada og Mexíkó verða lokuð áfram til 21. desember næstkomandi. Chad Wolf heimavarnarráðherra Bandaríkjanna tilkynnti fyrr í dag að þessar ráðstafanir væru nauðsynlegar til að hindra útbreiðslu kórónuveirunnar.
20.11.2020 - 01:34
Fjórðungur úr milljón látinn af völdum COVID-19 vestra
Yfir 250 þúsund hafa orðið COVID-19 að bráð í Bandaríkjunum. Þetta sýna nýjustu tölur frá Johns Hopkins háskólanum. Langflest dauðsföll í heiminum af völdum sjúkdómsins hafa orðið þar í landi,
19.11.2020 - 02:44
Yfir milljón COVID-19 tilfelli staðfest í Mexíkó
Mexíkó varð í gær ellefta landið þar sem fleiri en ein milljón manns hafa greinst með COVID-19, þegar 5.860 ný smit voru greind þar í landi. Ricardo Cortes, talsmaður mexíkóska heilbrigðisráðuneytisins greindi frá þessu í gær og sagði heildarfjölda staðfestra smita vera 1.003.253. Mexíkó er enn ofar á lista Johns Hopkins háskólans bandaríska yfir fjölda látinna í heimsfaraldrinum, eða í fjórða sæti.
15.11.2020 - 05:37
Víða mikið tjón af völdum Eta
Um 150 fórust af völdum  fellibylsins Eta þegar hann fór yfir Gvatemala á dögunum og um sextíu í Hondúras. Þá fórust að minnsta kosti tuttugu í Chiapas-ríki í suðurhluta Mexíkó.
10.11.2020 - 08:17
Eta veldur enn meira manntjóni
Hitabeltisstormurinn Eta heldur áfram að valda usla í Mið-Ameríku. Hann færir sig hægt norður á bóginn og er nú yfir Mexíkó. Minnst tuttugu eru látnir í Chiapas-fylki í sunnanverðu Mexíkó að sögn yfirvalda þar. Mikið manntjón varð einnig í Hondúras og Gvatemala. 23 hafa fundist látnir af völdum flóða í Hondúras, og um 150 eru taldir af eftir að aurskriða féll á þorp í Gvatemala.
07.11.2020 - 23:37
Önnur handtaka fyrir morð á mormónum
Ríkissaksóknari í Mexíkó greindi frá því í gær að karlmaður hafi verið handtekinn vegna morðsins á á níu manns úr samfélagi mormóna í Sonora-fylki. Maðurinn var handtekinn í Ciudad Juarez, sléttu ári eftir að morðin voru framin. Þrjár konur og sex börn voru drepin í árásinni. Einn hefur áður verið handtekinn vegna málsins, en fréttastofa BBC hefur eftir fjölskyldu fórnarlambanna að yfir 100 séu grunaðir um ódæðið.
06.11.2020 - 04:05
Yfir 400.000 dáin af völdum COVID-19 í rómönsku Ameríku
Yfir 400.000 manns hafa nú dáið af völdum COVID-19 í rómönsku Ameríku, allt frá Mexíkó og Karíbahafsríkjum í norðri til suðurodda Argentínu og Chile í suðri. Klukkan tvö í nótt að íslenskum tíma voru dauðsföllin orðin 400.524 samkvæmt frétt AFP, sem byggð er á opinberum gögnum frá öllum ríkjum þessa heimshluta.
31.10.2020 - 06:17
Zeta – enn einn fellibylurinn
Fellibylurinn Zeta er kominn að Júkatanskaga í Mexíkó. Miðja lægðarinnar fór inn yfir land norður af bænum Tulun í nótt og hafa yfirvöld varað fólk við að vera á ferli utan dyra.
27.10.2020 - 07:53
Fyrrverandi varnarmálaráðherra Mexíkós handtekinn í LA
Salvador Cienfuegos, fyrrverandi varnarmálaráðherra Mexíkós, var handtekinn í Bandaríkjunum í gær. Utanríkisráðherra Mexíkós, Marcelo Ebrard, greindi frá þessu á Twitter. Hann sagði sendiherra Bandaríkjanna í Mexíkó hafa upplýst sig um að Cienfuegos hefði verið handtekinn á flugvellinum í Los Angeles, en ekki fyrir hvaða sakir. Sagðist hann eiga von á að fá upplýsingar um sakargiftir frá mexíkóska ræðismanninum í Los Angeles von bráðar.
16.10.2020 - 04:49
Mexíkóforseti fær eiginkonu sinni ómögulegt verkefni
Eftir að forseti Mexíkó sendi eiginkonu sína með bréf til Ítalíu með ósk um afsökunarbeiðni frá kaþólsku kirkjunni segist hann nú hafa fengið henni nánast ómögulegt verkefni. Nú vill hann að hún sannfæri Austurríkismenn um að færa Mexíkóum aftur höfuðdjásn sem talið er að hafi verið í eigu Moctezuma, keisara Asteka.
13.10.2020 - 03:36
Krefst handrita og afsökunarbeiðni frá páfa
Forseti Mexíkó krefur páfagarð um afsökunarbeiðni vegna þáttar kaþólsku kirkjunnar í kúgun innfæddra þegar Spánverjar réðust inn í landið fyrir 500 árum. Krafan er lögð fram í tveggja síðna bréfi sem Andres Manuel Lopez Obrador sendi Frans páfa í byrjun mánaðarins. Þar biður hann einnig um að fá handrit að láni sem Spánverjar höfðu með sér og eru geymd í bókasafni Vatíkansins.
11.10.2020 - 07:50
Fellibylurinn Delta kominn að Júkatan-skaga
Mikill viðbúnaður er á Júkatanskaga í Mexíkó vegna fellibylsins Delta sem er að koma þar upp að ströndum. Delta telst nú þriðja stigs fellibylur og búist við ofsaveðri og flóðum þegar hann gengur á land.
07.10.2020 - 08:16