Færslur: Kórónuveirufaraldurinn

Viðtal
Hátt í 13.000 fengu sprautuna í Höllinni í dag
Hátt í þrettán þúsund fengu bólusetningu í Laugardalshöll í dag og þetta er mesti fjöldii sem hefur verið sprautaður á einum degi. Framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu segir að vel hafi gengið að bólusetja þennan fjölda.
Myndskeið
Svandís bólusett: „Þetta er smá eins og söngleikur“
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra var meðal þeirra 14.000 sem voru boðuð í bólusetningu með bóluefni AstraZeneca í Laugardalshöll í dag, á stærsta bólusetningardeginum síðan bólusetningar við kórónuveirunni hófust hér á landi í lok síðasta árs. Ráðherra lét vel af sér að lokinni bólusetningu. „Þetta var bara æðislegt - mér finnst þetta svo magnað,“ sagði Svandís.
74 þúsund skammtar væntanlegir í maí
Rúmlega 74 þúsund skammtar af þeim fjórum tegundum bóluefna sem notuð hafa verið hér á landi við COVID-19 eru væntanlegir til landsins í þessum mánuði. Mest munar um rúmlega 50 þúsund skammta af bóluefni Pfizer. Aðeins um fimm þúsund skammtar koma frá AstraZeneca en sú tala gæti hækkað þar sem ekki liggur fyrir skammtafjöldi í síðustu viku mánaðarins. Rúmlega 7.600 skammtar eru væntanlegir frá Janssen og tæplega tólf þúsund frá Moderna.
Ísland metur 148 lönd sem há-áhættusvæði
148 lönd eru nú metin sem há-áhættusvæði í nýrri reglugerð heilbrigðisráðuneytisins sem tekur gildi á föstudag. Farþegar frá 131 landi geta sótt um undanþágu frá sóttkví í sóttvarnahúsi en farþegum 17 landa er skylt að dveljast á sóttkvíarhóteli milli fyrri og seinni sýnatöku meðal annars frá meginlandi Spánar. Þeir sem framvísa vottorði um fyrri sýkingu eða bólusetningu eru áfram undanþegnir sóttkví en þurfa að fara í eina sýnatöku við komuna til landsins.
Óbreytt í viku – reiknar með alvöru breytingum næst
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, hefur ákveðið að framlengja núverandi reglugerð um eina viku og verða samkomutakmarkanir því óbreyttar fram í næstu viku. Svandís reiknar með alvöru breytingum í næstu viku og vonandi viðamiklum.
Sveitarstjóri horfir á röðina í skimun út um gluggann
Á bilinu 200 til 300 íbúar á Flúðum verða skimaðir fyrir kórónuveirunni í dag, þar á meðal 55 sem fara í seinni skimun og geta losnað úr sóttkví reynist sýni neikvæð. Fjórir eru í einangrun með virkt smit, sá síðasti bættist í hópinn í gær. Sveitarstjóri Hrunamannahrepps horfir á röðina í skimun út um gluggann hjá sér.
Íslensk stjórnvöld hyggjast leggja Indlandi lið
Utanríkisráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið vinna saman að því að skoða með hvaða hætti sé best að styðja við indversk stjórnvöld í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn. Yfir tuttugu milljónir tilfella hafa nú greinst í landinu.
04.05.2021 - 08:18
Hróarskelduhátíðinni aflýst annað árið í röð
Hróarskelduhátíðinni hefur verið aflýst annað árið í röð vegna kórónuveirufaraldursins. Forsvarsmenn hátíðarinnar segjast miður sín að þurfa grípa til þessa úrræðis. Þetta sé ekki léttvæg ákvörðun en það sé einfaldlega ekki forsvaranlegt að halda 130 þúsund manna hátíð. Stefnt er að því að halda hátíðina á næsta ári. Þeir sem höfðu þegar keypt sér miða geta annað hvort fengið hann endurgreiddan eða geymt hann til næsta árs.
Danir ætla ekki að nota bóluefnið frá Janssen
Heilbrigðisráðherra Danmerkur upplýsti þingmenn á fundi í heilbrigðisráðuneytinu í morgun að bóluefnið frá Janssen yrði ekki notað. Þetta fullyrða bæði TV2 og Jyllands-Posten. Samtals 6.500 skammtar fara í dreifingu hér á landi í þessari viku.
Fjölgar í hópi fólks með undirliggjandi sjúkdóma
Leikskólastarfsmenn, fólk í jaðarhópum og áhafnir skipa og flugvéla eru meðal þeirra sem byrjað verður að bólusetja í vikunni. Haldið verður áfram að bólusetja fólk með undirliggjandi sjúkdóma. Sá hópur stækkaði töluvert fyrir helgi. Sóttvarnalæknir hvetur alla boðaða til að mæta. Alls fá 25 þúsund landsmenn sprautu í vikunni, litlu færri en í síðustu viku sem var sú stærsta til þessa.
03.05.2021 - 13:23
Sóttkvíarhótelin sex ættu að duga út vikuna
Sóttvarnalæknir telur ekki tímabært að slaka mikið á sóttvarnareglum. Hann skilaði minnisblaði til ráðherra um helgina. Ekki er útlit fyrir að sóttkvíarhótel fyllist í þessari viku en nú hafa sex slík verið tekin í gagnið. Umsjónarmaður sóttvarnahúsa segir að ný hótel verði opnuð eftir þörfum á meðan ríkið vill borga.
03.05.2021 - 12:14
Fjögur smit og allir sem greindust í sóttkví
Fjórir greindust með kórónuveiruna í gær. Allir sem greindust voru í sóttkví og því líklegt að smitin tengist fyrri hópsýkingum. Nokkuð mörg sýni voru tekin í gær, tæplega 800 talsins. Ekkert smit greindist á landamærunum í gær, þar voru tekin tæplega 1.100 sýni. 
03.05.2021 - 10:56
Þrjú innanlandssmit í gær og allir í sóttkví
Þrjú kórónuveirusmit greindust innanlands í gær, samkvæmt bráðabirgðatölum frá almannavörnum. Allir voru í sóttkví en einn greindist við landmærin. 
Fékk ekki viðunandi leiðbeiningar vegna heimsóknarbanns
Settur umboðsmaður Alþingis telur að stjórnvöld hafi ekki veitt hjónum viðunandi leiðbeiningar þegar hjúkrunarheimili synjaði eiginmanninum að heimsækja eiginkonu sína á hjúkrunarheimili hennar í kórónuveirufaraldrinum. Hjónin voru ekki upplýst um að þau gætu kært ákvörðunina til heilbrigðisráðuneytisins.
Um sjötíu minnisblöð og nærri sextíu reglugerðir
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sendir heilbrigðisráðherra minnisblað um helgina með tillögum um sóttvarnaaðgerðir. Minnisblöðin frá honum til ráðherra í tengslum við COVID-19 eru orðin um 70. Þegar ný reglugerð um samkomutakmarkanir innanlands verður kynnt í næstu viku verður hún sú 59. sem tekur gildi.
Breska afbrigðið virðist ekki vera meira smitandi
Breska afbrigðið virðist hvorki vera skæðara eða meira smitandi miðað við önnur afbrigði í fyrri bylgjum. Þetta sagði Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, á upplýsingafundi í morgun. Vísaði hann meðal annars til þess hversu margir hefðu þurft að leggjast inn á sjúkrahús og hversu margir hefðu smitast þegar þeir voru sóttkví.
Smitaðir hafa fengið rasísk og öfgafull skilaboð
Borið hefur á því að börn og fullorðnir hafi fengið öfgafull og rasísk skilaboð fyrir það eitt að tengjast ákveðnum hópsmitum. Jafnvel eru dæmi um að fólk hafi orðið fyrir einelti úti á götu fyrir það eitt að vera frá ákveðnu landi. Þetta kom fram í máli Víðis Reynissonar, yfirlögregluþjóns hjá almannavörnum, í upphafi upplýsingafundarins í dag.
90 nemendur FSu og fjölskyldur þeirra í sóttkví
Níutíu nemendur Fjölbrautaskóla Suðurlands eru komnir í sex daga sóttkví eftir að samnemandi þeirra greindist með COVID-19 í gær. Þetta staðfestir Olga Lísa Garðarsdóttir skólameistari í samtali við fréttastofu. Hún telur að smitið tengist Þorlákshöfn þar sem nú stendur yfir glíma við hópsmit. Þetta er í fyrsta skipti sem kórónuveiran hefur áhrif á skólastarf FSu.
Hefðu getað dregið úr smitum með því að hlusta á Ísland
Nefnd, sem falið var að meta viðbrögð norskra stjórnvalda við kórónuveirufaraldrinum, telur að yfirvöld hefðu að einhverju leyti getað komið í veg fyrir útbreiðslu kórónuveirusmita hefðu þau hlustað á viðvaranir frá Íslandi um skíðasvæði í Tíról í Austurríki. Áhrifin af þeim aðgerðum hefðu þó líkast til verið takmörkuð.
29.04.2021 - 08:20
Skólastarf á Eyrarbakka og Stokkseyri hefst á morgun
Skólastarf á Stokkseyri og Eyrarbakka hefst á ný á morgun. Það hefur legið niðri síðan 90 nemendur og 30 starfsmenn voru sendir í sóttkví eftir að barn í skólanum greindist með COVID-19 á laugardag.
28.04.2021 - 16:47
Myndskeið
Þórólfur bólusettur - hlaut dynjandi lófaklapp
Tímamót urðu í kórónuveirufaraldrinum þegar Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, fékk fyrri sprautuna af bóluefni AstraZeneca. Hann fær seinni sprautuna eftir þrjá mánuði. Þegar Þórólfur gekk inn í Laugardalshöll til að fá sér sæti ,eftir að hafa staðið í röð eins og aðrir, klöppuðu viðstaddir fyrir honum.
Smitin eingöngu á höfuðborgarsvæðinu og Suðurlandi
Sex af þeim níu sem greindust með COVID-19 í gær eru búsettir á Suðurlandi. Hinir þrír eru á höfuðborgarsvæðinu. Enginn er í einangrun í fimm landshlutum og aðeins einn á Suðurnesjum. Tveir af þeim sem reyndust jákvæðir eftir sýnatöku í gær voru utan sóttkvíar.
Níu innanlandssmit og tveir utan sóttkvíar
Níu kórónuveirusmit greindust innanlands í gær. Þar af voru tveir ekki í sóttkví. Hluti smitanna tengist hópsmitinu á Suðurlandi, að sögn Hjördísar Guðmundsdóttur upplýsingafulltrúa Almannavarna, en þar hafa smit meðal annars greinst í leik- og grunnskóla. Ekkert smit greindist á landamærunum.
Íbúar 14 landa grunaðir um brot á sóttkví og einangrun
Íbúar 14 landa eru grunaðir um brot á sóttkví og einangrun á þessu ári. 67 prósent þeirra sem hafa verið kærðir fyrir slík brot í ár eru ferðamenn en það eru þeir sem eru hvorki með íslenskt ríkisfang né búsetu hér á landi. Aðeins einn með íslenskt ríkisfang er grunaður um brot á sóttkví eða einangrun á þessu ári en þeir voru 39 á síðasta ári.
Stærsti bólusetningardagurinn: 9.000 fá sprautuna
Níu þúsund manns hafa verið boðaðir í bólusetningu gegn kórónuveirunni í Laugardalshöll í dag. Þetta er stærsti bólusetningardagurinn síðan byrjað var að bólusetja við veirunni hér á landi og hafist var handa við að blanda bóluefnin klukkan 7 í morgun.