Færslur: Jarðskjálftahrina á Reykjanesskaga

Gasmengun á Vatnsleysuströnd og höfuðborgarsvæðinu
Gasmengun frá gosstöðvunum í Geldingadölum leggur að líkindum yfir Vatnsleysuströnd og höfuðborgarsvæðið í nótt og á morgun en á fimmtudag snýst vindur í suðaustanátt og mun mengunin þá mögulega leggjast yfir Reykjanesbæ. Ekki er þó talið að hætta stafi af.
Gasmengun leggur yfir norðanverðan Reykjanesskaga
Gasmengunin við og frá gosstöðvunum í Geldingadölum er svipuð og í gær. Samkvæmt spálíkani Veðurstofu Íslands eru líkur á gasmengun milli Voga og Hafna í dag. 
Gosstöðvarnar lokaðar almenningi fram eftir morgni
Stórt svæði umhverfis eldstöðvarnar á Reykjanesskaga var rýmt um leið og gjósa tók úr tveimur sprungum norðaustur af Geldingadölum í hádeginu í gær og verður það lokað almenningi fram eftir morgni hið minnsta. Þórir Þorsteinsson, vettvangsstjóri lögreglu við gosstöðvarnar, sagði í samtali við fréttastofu á miðnætti, að fulltrúar viðbragðsaðila, almannavarna og vísindamanna komi saman til fundar klukkan níu í fyrramálið og fari yfir stöðuna.
Gosið hefur vaxið - 10 rúmmetrar af kviku á sekúndu
Um sjö rúmmetrar kviku renna úr nýju sprungunni milli Geldingadala og Meradala á hverri sekúndu og heildarrennsli er að líkindum í kringum 10 rúmmetrar á sekúndu. Þetta eru niðurstöður mælinga sem vísindamenn Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands gerðu með loftmyndatöku úr flugvél í dag.
Færri í Geldingadölum í dag - kuldi í kortunum á morgun
Töluvert færra fólk lagði leið sína að gosstöðvunum í Geldingadölum á páskadag en í liðinni viku. Opnað var fyrir umferð að gosstöðvunum á hádegi, en þær höfðu þá verið lokaðar almenningi síðan á föstudagskvöld. Leiðindaveður var við gosstöðvarnar í dag en umferðin gekk að mestu áfallalaust að sögn lögreglu.
Fyrsti skjálftinn af stærðinni 3 frá 19. mars
Jarðskjálfti, 3,0 að stærð, varð á umbrotasvæðinu á Reykjanesskaga skömmu eftir klukkan tvö í nótt. Upptök hans voru á 5,7 kílómetra dýpi, hálfan annan kílómetra suðvestur af Keili. Elísabet Pálmadóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir þetta hafa verið fyrsta skjálftann á Reykjanesskaganum sem mælist 3,0 eða stærri síðan 19. mars, og þann fyrsta af þessari stærð við Keili frá 13. mars.
Gosstöðvarnar lokaðar almenningi - öllum snúið við
Nóttin hefur verið róleg við eldsumbrotasvæðið á Reykjanesskaganum og fólk virðist flest vel upplýst og meðvitað um að umferð fólks að gosstöðvunum er óheimil í dag vegna veðurs og verður það til morguns, segir Guðmundur Eyjólfsson, vettvangsstjóri lögreglu á staðnum.
50 - 60 bílar komnir að gosstöðvunum um sexleytið
Búið er að opna fyrir umferð að gosstöðvunum á Reykjanesskaga á ný, eftir rólega nótt. Atli Gunnarsson, vettvangsstjóri lögreglu við gosstöðvarnar, segir allt hafa verið með kyrrum kjörum þar syðra frá því að rýmingu gosstöðvanna lauk nokkru fyrir miðnætti.
Rólegt við gosstöðvarnar og rýmingu lokið
Rýmingu gosstöðvanna í Geldingadölum er nánast lokið. Atli Gunnarsson, vettvangsstjóri lögreglu við gosstöðvarnar, segir síðustu hópana hafa verið að tínast niður eftir gönguslóðunum nú skömmu fyrir fréttir. Talsvert var af fólki við gosstöðvarnar í kvöld en allt gekk áfallalaust, veður gott og aðstæður allar ágætar.
Gosáhugafólk mætti fyrir fimm og mátti bíða um stund
Fyrstu gosferðalangar dagsins mættu á bílastæðin við Suðurstrandarveg um fimmleytið í morgun en urðu að bíða í klukkustund áður en þeir fengu að ganga að gosstöðvunum. Nóttin var róleg eftir að svæðið var rýmt í gærkvöld og í dag viðrar vel til gosgöngu, að mati varðstjóra hjá lögreglunni.
Opnað fyrir umferð að gosstöðvunum á ný
Opnað var fyrir umferð að gosstöðvunum í Geldingadölum klukkan sex, tólf tímum eftir að hætt var að hleypa fólki inn á svæðið og um sex klukkustundum eftir að rýmingu þess lauk um miðnæturbil í gærkvöld. Á annan tug lögreglumanna og björgunarsveitarfóks stóð vaktina við gosstöðvarnar í nótt og stendur hana enn.
Rýming gekk vel eftir góðan dag við gosstöðvarnar
Rýming gosstöðvanna í Geldingadal hófst um tíuleytið í kvöld og lauk um miðnætti. Opnað verður fyrir aðgengi almennings á ný klukkan sex í fyrramálið en lögregla og björgunarsveitarfólk verður á vakt við gosstöðvarnar í nótt.
Búið að rýma Geldingadali
Tekist hefur að rýma gosstöðvarnar í Geldingadölum en síðustu gosferðalangarnir voru enn að skila sér af fjöllum rétt fyrir tvö í nótt, að sögn lögreglunnar á Suðurnesjum. Metfjöldi heimsótti gosstöðvarnar í dag og kvöld en lögregla og björgunarsveitir hafa unnið að því hörðum höndum að rýma svæðið frá því um miðnæturbil. Þótt nokkuð væri um að fólk meiddist og þyrfti aðstoð gekk kvöldið stóráfallalaust.
Verið að rýma Geldingadal en fjöldi fólks enn á staðnum
Mikill fjöldi fólks er enn við gosstöðvarnar í Geldingadölum en lögregla og björgunarsveitir vinna nú að því hörðum höndum að rýma svæðið. Þetta kom fram í samtali við varðstjóra hjá lögreglunni á Suðurnesjum laust fyrir eitt í nótt. Hann segir mjög kalt vera í fjalllendinu við gosstöðvarnar og mörg eiga langa göngu fyrir höndum að bílum sínum eftir að niður er komið.
Sérfræðingar rýna í jarðskjálfta á Þrengslasvæðinu
Sérfræðingar rýna nú í tvo nokkuð stóra jarðskjálfta sem urðu við Þrengslin síðastliðna nótt að sögn Böðvars Sveinsonar náttúruvársérfræðings á Veðurstofunni. Tveir skjálftar af stærðum 2,6 og 2,9 riðu þar yfir síðastliðna nótt.
Mikil hálka á gönguleið að Geldingadölum
Mikil hálka er nú á gönguleiðinni að gosstöðvunum í Geldingadölum og á fólk talsvert erfitt með að fóta sig. Sérstaklega er hált í einni brekku á leiðinni, og þeir sem eru á leið til eða frá stöðvunum því beðnir um að fara sérstaklega varlega. Að sögn Guðmundar Eyjólfssonar, vettvangsstjóra Lögreglunnar á Suðurnesjum í Grindavík, er mat björgunarsveitarfólks við gosstöðvarnar að þar séu nú um 300 manns.
Myndskeið
Hraunpollar fljótir að myndast í Geldingadölum
Hraunpollar eru fljótir að myndast í Geldingadal eins og þetta myndband sem Aníta Ólöf Jónsdóttir sendi fréttastofunni. Þarna sést hversu þunnt lag storknaðrar kviku brotnar auðveldlega undan fljótandi kvikunni í hrauntjörninni sem er undir öllu nýja svarta hrauninu.
Nýja gönguleiðin að gosinu að mestu tilbúin
Innan við tuttugu björgunarsveitarmenn úr Þorbirni í Grindavík voru á vakt við gosstöðvarnar í Geldingadölum í nótt. Bogi Adolfsson formaður björgunarsveitarinnar álítur að um 25 manns hafi verið á gossvæðinu. Það hafi nýtt sér nýju gönguleiðina.
Óbreytt gosvirkni en jarðskjálftum fækkar enn
Enn gýs í Geldingadölum, þar sem hraun hefur nú runnið í rúma þrjá sólarhringa. Er ekki annað að sjá en að svipaður gangur sé í gosinu og verið hefur, að sögn Sigþrúðar Ármannsdóttur, náttúruvársérfæðings á Veðurstofu Íslands. Enn dregur úr skjálftavirkni og gangi veðurspár eftir ætti gosþyrstu göngufólki ekki að verða skotaskuld úr því að svala þeim þorsta sínum í dag, með því að rölta nýstikaðan slóðann að gosstöðvunum.
Viðtöl
„Við þurftum að láta bjarga okkur“
Fólk sem sneri aftur af gosstöðvunum síðla nætur og snemma morguns var orðið blautt, kalt og þreytt - og þurfti margt hvert á aðstoð björgunarsveita og sjálfboðaliða í fjöldahjálparstöð að halda.
Fjöldi fólks hætt kominn við gosstöðvarnar í nótt
Um 140 manns frá nær öllum björgunarsveitum á Suðvesturlandi voru að störfum í vonskuveðri við gosstöðvarnar á Reykjanesskaga og fjöllunum þar í kring í gærkvöld og nótt, ásamt nokkrum lögreglumönnum. Steinar Þórður Kristinsson, aðgerðastjóri Landsbjargar í Grindavík, sagði í fréttum klukkan fimm að tugum hafi verið hjálpað niður úr fjöllunum, verulega þrekuðum og köldum, og sumum þeirra hreinlega bjargað, svo köld og hrakin hafi þau verið þegar björgunarsveitarmenn komu þeim til hjálpar.
Almannavarnir
Mjög hættulegt að nálgast gosið vegna gasmengunar
Almannavarnir sendu rétt í þessu frá sér viðvörun þar sem sterklega er varað við því að fara nálægt gígnum í Geldingadölum vegna gasmengunar. Mælingar í morgun sýni að gasmengunin sé komin upp fyrir hættumörk og mjög hættulegt að nálgast gosið eins og er. Svæðið í kringum gosstöðvarnar sé því lokað og er fólk beðið að virða þá lokun.
Gul viðvörun og ekkert útvistarveður við gosstöðvarnar
Páll Ágúst Þórarinsson veðurfræðingur segir mjög hvasst og úrkomusamt við gosstöðvarnar og farið að kólna að auki. Veður verður áfram slæmt og gefin hefur verið út gul veðurviðvörun fyrir allan morgundaginn.
Lögregla og Landsbjörg: Snúið heim, strax!
Veðurstofan og lögreglan á Suðurnesjum vara við mjög slæmu veðri á gosstöðvunum í Geldingadölum á Reykjanesskaga. Er fólk á leið þangað hvatt til að snúa við strax. Skilaboð þessa efnis voru send í farsíma fólks á ferli á þessum slóðum. Steinar Þór Kristinsson, í aðgerðastjórn Landsbjargar í Grindavík, tekur í sama streng. Hann segir veður orðið arfaslæmt og óttast hið versta fyrir nóttina. Þegar er byrjað að skima eftir fólki í hrakningum og verið að fjölga mjög í hópi björgunarsveitarfólks.
Telur hraunið þekja um 0,15 ferkílómetra
Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, áætlar að hraunið sem runnið hefur úr gígnum í Geldingadölum í Fagradalsfjalli hafi þakið um það bil 15 hektara, eða 0.15 ferkílómetra seinnipartinn í dag. Magnús Tumi tekur fram að þetta sé ekki sérlega nákvæmt mat, en ætti ekki að vera fjarri lagi.