Færslur: Heimsgluggi Boga

Heimsglugginn: Fátæk ríki fá bóluefni
Gana fékk í gær fyrst ríkja bóluefni við kórónuveirunni í gegnum COVAX-samstarfið, sem á að tryggja fátækum ríkjum bóluefni óháð efnahag, þeim sem ekki hafa efni á því að kaupa bóluefni. Björn Þór Sigbjörnsson og Þórunn Elísabet Bogadóttir ræddu þessa áætlun og stöðu heimsfaraldursins við Boga Ágústsson í Heimsgluggaspjallinu.
Heimsglugginn
Barist um fisk, flugvelli og námur á Grænlandi
Boðað hefur verið til þingkosninga á Grænlandi þó að kjörtímabilið renni ekki út fyrr en eftir rúmt ár. Síðast var kosið á vormánuðum 2018. Aðalmál kosningabaráttunnar verða líklega ný fiskveiðilöggjöf, bygging þriggja alþjóðaflugvalla og námuvinnsla.
Heimsglugginn
Össur um stjórnmál og námuvinnslu á Grænlandi
Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, var sérstakur gestur Heimsgluggans og Bogi Ágústsson ræddi við hann um grænlensk stjórnmál, námugröft á Grænlandi, sjaldgæfa málma, stórveldapólitík, sveitarstjórnarkosningar og möguleika Ingu Dóru Guðmundsdóttur Markussen að verða borgarstjóri í Nuuk. Sveitastjórnarkosningar verða í landinu í apríl. Ólga er í stjórnmálum á Grænlandi, í síðustu viku fækkaði stjórnarflokkunum úr þremur í tvo er Demakratiit hætti stjórnarþátttöku.
Heimsglugginn
Heimsglugginn: Mjanmar, Støjberg og Groundhog Day
Almenningur í Mjanmar, sem eitt sinn hét Búrma, mótmæli valdaráni hersins fyrr í vikunni. Helstu leiðtogar landsins, þar á meðal Aung San Suu Kyi, eru í haldi hersins og ekkert hefur spurst til þeirra.
04.02.2021 - 09:34
Heimsglugginn
Heimsglugginn: Helförin, arabíska vorið og haggis
Öfugþróun hefur verið í flestum arabaríkjum síðasta áratug, en miklar vonir voru bundnar var arabíska vorið svonefnda. Hluti þess voru mikil mótmæli í Kaíró sem leiddu til falls Hosnis Mubaraks, Egyptalandsforseta. Arabíska vorið, helförin og bresk og skosk stjórnmál voru til umræðu í Heimsglugga dagsins á Morgunvakt Rásar 1, sem og að þjóðarréttur Skota, haggis, er ekki skoskur heldur enskur að uppruna.
28.01.2021 - 10:45
Heimsglugginn
Byrjaði á ósannindum og endaði á lygi
Daginn eftir að Donald Trump lét af embætti Bandaríkjaforseta ræddu Þórunn Elísabet Bogadóttir og Bogi Ágústsson skrautlegan feril hans í Heimsglugganum á Morgunvakt Rásar-1. Áheyrendur fengu að heyra nokkur valin hljóðdæmi frá forsetatíð Trumps. Segja má að hann hafi byrjað á ósannindum um mannfjölda við embættistöku og endað á lygi um að hann hefði unnið forsetakosningarnar í nóvember.
Trump ákærður öðru sinni, bólusetningar ganga víða hægt
Fulltrúadeild Bandaríkjaþings hefur nú ákært Donald Trump forseta öðru sinni til embættismissis. Björn Þór Sigbjörnsson, Þórunn Elísabet Bogadóttir og Bogi Ágústsson ræddu í Heimsglugga dagsins mest um stöðuna í stjórnmálum í Bandaríkjunum. Þau ræddu einnig um bólusetningar gegn kórónuveirunni sem ganga afar misjafnlega.
Heimurinn í lok farsóttarársins 2020
Þórunn Elísabet Bogadóttir og Bogi Ágústsson ræddu þau mál sem hæst bar í erlendum fréttum á árinu 2020. Þau reyndu einnig að skyggnast fram í tímann og spá fyrir um hvað verður á nýju ári. Farsóttin, Brexit, popúlismi voru meðal umræðuefna í síðasta Heimsglugga ársins.
Navalny, Støjberg og farsóttin í Svíþjóð
Björn Þór Sigbjörnsson og Þórunn Elísabet Bogadóttir ræddu að þessu sinni við Boga Ágústsson um niðurstöðu ítarlegrar rannsóknar sem birtist á vefsíðunni Bellingcat fyrr í vikunni þar sem því er slegið föstu að rússneska leyniþjónustan FSB hafi staðið að baki er eitrað var fyrir stjórnarandstæðingnum Alexei Navalny í ágúst. Þá var rætt um Inger Støjberg málið í Danmörku og skýrslu sem er áfellisdómur yfir viðbrögðum sænskra stjórnvalda við COVID faraldrinum.
Sviptingar á Grænlandi, fríverslun og bannað jólalag
Björn Þór Sigbjörnsson og Þórunn Elísabet Bogadóttir settust við Heimsgluggann með Boga Ágústssyni og beindu augunum að Grænlandi þar sem Kim Kielsen missti formennsku í stjórnarflokknum Siumut. Erik Jensen er nýr formaður, Vivian Motzfeldt varaformaður og Inga Dóra Guðmundsdóttir Markussen varaformaður með ábyrgð á skipulagsmálum flokksins.
03.12.2020 - 10:33
Heimsglugginn
Boris talaði af sér og Mogens sagði af sér
Björn Þór Sigbjörnsson og Bogi Ágústsson ræddu stjórnmál í Bretlandi og Danmörku í Heimsglugganum á Morgunvaktinni.
19.11.2020 - 11:16
Heimsglugginn
Danska stjórnin í standandi vandræðum
Björn Þór Sigbjörnsson og Þórunn Elísabet Bogadóttir ræddu við Boga Ágústsson um minkamálið í Danmörku og stöðu kórónuveirufaraldursins í heiminum í Heimsglugganum á Morgunvaktinni í morgun.
12.11.2020 - 12:35
Demókratar með gott forskot en fólk man 2016
Björn Þór Sigbjörnsson og Þórunn Elísabet Bogadóttir ræddu hertar aðgerðir í Evrópuríkjum vegna kórónuveirunnar við Boga Ágústsson í Heimsglugga dagsins. Bæði Frakkar og Þjóðverjar hafa gripið til lokana til að reyna að koma böndum á COVID-19 faraldurinn.
Morgunvaktin
Heimsglugginn: Minntust Samuel Paty í París
Emmanuel Macron Frakklandsforseti hélt í gærkvöldi ræðu við minningarathöfn um Samuel Paty, sem myrtur var í hryðjuverkaárás í síðustu viku. Forsetinn sæmdi Paty sömuleiðis æðstu orðu Frakklands, Légion d'honneur.
Heimsglugginn
Meirihluti kjósenda vill sjálfstætt Skotland
Næstum sex af hverjum tíu kjósendum í Skotlandi vilja að landið fái sjálfstæði og slitið verði á tengslin við bresku krúnuna. Þetta er mesti stuðningur sem nokkru sinni hefur mælst við sjálfstæði Skotlands.
15.10.2020 - 11:15
Varaforsetaefni takast á
Þórunn Elísabet Bogadóttir og Bogi Ágústsson fjölluðu um kappræður varaforsetaefna stóru flokkanna í Bandaríkjunum. Þær eru venjulega ekki það sem vekur mesta athygli fyrir forsetakosningar í Bandaríkjunum en þegar forsetaefnin eru bæði á áttræðisaldri, Trump er 74 ára og Joe Biden 77 ára og heilsa forsetans nokkuð spurningamerki, hljóta kjósendur eðlilega að hafa áhuga á þeim sem yrðu mögulega eftirmenn þeirra. Hingað til hafa þessar umræður ekki haft afgerandi áhrif á kosningabaráttuna.
Viðtal
Nettröll ráðast aðallega á konur
Meirihluti kvenna sem taka þátt í stjórnmálum í Evrópulöndum verður fyrir árásum nettrölla. Þessar árásir eru oft grófar, einkennast af kvenhatri, athugasemdum um útlit og oft eru hótanir um kynferðislegt ofbeldi. Þetta kom fram í spjalli Boga Ágústssonar í Heimsglugganum á Rás 1.
03.10.2019 - 11:20
Viðtal
Trump er vandi á höndum
Donald Trump Bandaríkjaforseta er vandi á höndum vegna hættulegrar spennu á milli Írans og Sádí-Arabíu. Stjórnvöld í Riyad og Washington telja sannað að Íranir hafi staðið að árásum á olíumannvirkjum í Sádí-Arabíu. Hvernig verður brugðist við? Heimsgluggi Boga Ágústssonar var á sínum stað á Morgunvakt Rásar 1 í morgun.
19.09.2019 - 10:39
Heimsgluggi Boga
„Ekki mér að kenna“
Það má segja að kjarninn í því sem Theresa May sagði við við breska þingheiminn um stöðuna í Brexit-málunum endalausu hafi verið þessi: „Ekki mér að kenna.“ Hún skammaði þingið fyrir stefnuleysi og vingulshátt - en var svarað fullum hálsi.
21.03.2019 - 10:08
Evrópusambandið að gefast upp á Bretum
Segja má að Evrópusambandið hafi gefist upp á Bretum varðandi útgöngumál þeirra. Undirritaðir samningar hafa lítið gildi vegna andstöðu heimafyrir. Bretar vilji eitthvað annað - en hvað? Bogi Ágústsson ræddi þennan stöðuga vandræðagang í Brexit-málum og langlundargeð evrópskra leiðtoga, sem er á þrotum. Svo var fjallað um Venesúela, þar sem óvissa ríkir um framtíð Maduro, forseta. Sagt er að rússnesk flugvél sé tilbúinn að flytja hann á brott. Loks var skrafað svolítið um sænsk stjórnmál.
31.01.2019 - 09:38
Margt horfir til betri vegar, þrátt fyrir allt
Fréttamiðlum yfirsjást oft góð tíðindi af mannskepnunni. Það er nægt framboð af fréttum af því sem aflaga fer í heiminum. Minna ber á frásögnum af öllum litlu sigrunum. Bogi Ágústsson spjallaði dálítið um þetta á Morgunvaktinni. Hann staldraði t.d. við auknar lífslíkur fólks, minni barndauða, fækkun örsnauðra, og að þrátt fyrir allt væri lýðræði enn ráðandi í stórum hluta heims, vissulega oft gallað og bjagað, en lýðræði samt. En svo var líka talað um ógnaröldina í Venesúela.
24.01.2019 - 09:45
Veik forysta stefnir áfram að útgöngu
Theresa May, forsætiasráðherra, hefur beðið afhroð með stefnu sína - þó hún hafi naumlega haldið velli í atkvæðagreiðslu í breska þinginu um vantraust. Nú þarf hún að leggja fram áætlun B eftir helgi. Mestar líkur eru á að Bretar gangi úr Evrópusambandinu án samnings. Evrópusambandið er þreytt á að gera samninga sem síðan er hafnað. En það er heldur ekki útilokað að ný þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um útgönguna. Við ræddum þetta fram og aftur við Boga Ágústsson á Morgunvaktinni á Rás 1.
17.01.2019 - 09:55
Enn eitt áfall May
Útgöngusamningur Breta við Evrópusambandið verður væntanlega felldur á breska þinginu í næstu viku. Theresa May, forsætisráðherra, varð fyrir enn einu áfallinu á sinni vegferð þegar neðri málstofan samþykkti að stjórnin fái aðeins þrjá daga til að kynna sín næstu skref, fari svo að samningurinn verði felldur þriðjudaginn 15. janúar. Brexit er dautt, segja æ fleiri. Hvað tekur við, veit enginn. Bogi Ágústsson ræddi þessa flóknu stöðu á Morgunvaktinni en fór líka yfir deilu Trumps og þingsins.
10.01.2019 - 10:13
Ringulreið í breskum stjórnmálum
Breskur almenningur horfir vonsvikinn á ráðaleysi stjórnmálamanna gagnvart því verkefni að tryggja breska hagsmuni til framtíðar í samstarfi við önnur Evrópulönd. Þetta ræddi Bogi Ágústsson í síðasta spjalli sínu á Morgunvaktinni á Rás 1 á þessu ári. Nú eru 99 dagar fram að ætlaðri útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. En fara þeir með eða án samnings? Svo var spjallað um ráðningu Norðmannsins Ole Gunnars Solskjær sem þjálfara Manchester United, og fögnuð landa hans vegna tíðindanna.
20.12.2018 - 09:47
Breski Íhaldsflokkurinn rífur sig á hol
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, heldur til fundar við aðra leiðtoga Evrópusambandslanda löskuð eftir atkvæðagreiðslu í þingflokki hennar um vantraust á hana sem leiðtoga. Rúmur helmingur þingmanna Íhaldsflokksins lýsti vantrausti á henni í atkvæðagreiðslu. Hún neyddist til að lofa því að víkja sem leiðtogi fyrir þingkosningar 2022. Enn og aftur ríkir upplausn í Íhaldsflokknum. Bogi Ágústsson ræddi á Morgunvaktinni stöðuna í breskum stjórnmálum og verkefni leiðtogafundar ESB.
13.12.2018 - 10:15