Færslur: eldgos

„Það gutlar vel á honum núna“ - góður gangur í gosinu
„Það gutlar vel á honum núna,“ segir Sigurdís Björg Jónasdóttir náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, aðspurð um ganginn í gosinu í Geldingadölum í nótt. Með „honum“ vísar Sigurdís í stóra gíginn sem mestallt hraun rennur úr þessa dagana. Sigurdís segir litla sem enga strókavirkni að sjá en nokkuð mikið og jafnt hraunrennsli er frá gígnum, þar sem glóandi kvikan kraumar og bullar af slíkum krafti að ljómann hefur lagt upp af honum klukkustundum saman. Mikil gasmengun er við gosstöðvarnar.
Myndskeið
Verðum að búa okkur undir að eldgosið standi árum saman
Í stað þess að tala um að eldgosið á Reykjanesskaga geti staðið í nokkra mánuði verður að huga að stærri mynd - því gosið gæti varað árum saman, segir eldfjallafræðingur. Haldi gosið áfram í áratugi gæti hraunbreiðan náð yfir Grindavík og virkjunina í Svartsengi. 
Myndskeið
Eru við það að missa bústaðinn undir hraun
Afkomendur bænda í Ísólfsskála skammt austan Grindavíkur harma það að missa líklega jörðina undir hraun. Stöðugt rennsli er á hrauninu í Nátthaga þaðan sem stutt er í Suðurstrandarveg og Ísólfsskála. 
Mikill og stöðugur straumur var í Nátthaga frá miðnætti
Mikill og stöðugur hraunflaumur var framan af nóttu yfir vestari varnargarðinn í sunnanverðum Meradölum og niður í Nátthaga. Snemma á sjötta tímanum tók að draga úr flæðinu og nú er allt með kyrrum kjörum. Náttúrvárfræðingur segir alltaf erfitt að spá um hve lengi hraunstraumurinn hegði sér með ákveðnum hætti.
Ekkert leyfi veitt til framkvæmda við gosstöðvarnar
Almannavarnir hafa ekki sótt um framkvæmdaleyfi til Grindavíkurbæjar fyrir byggingu varnargarða og leiðigarða við gosstöðvarnar. Þetta staðfestir Fannar Jónasson, bæjarstjóri, og segir almannavarnir hafa heimild til þess að ráðast í framkvæmdir til að grípa til varna. Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, tekur undir það.  Prófessor í umhverfisrétti telur að samkvæmt lögum þurfi framkvæmdaleyfi að liggja fyrir vegna þeirra framkvæmda sem nú standa yfir á svæðinu.
15.06.2021 - 16:15
Beina hraunrennsli frá Nátthagakrika
Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra vinnur nú að því að byggja fjögurra metra háan leiðigarð syðst við Geldingadali til þess að beina hraunrennsli áfram niður í Nátthaga og koma í veg fyrir að hraun renni niður í Nátthagakrika þaðan sem það á greiða leið í ýmsar áttir. Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, segir þetta fremur einfalda aðgerð sem gæti haft mikið að segja.
Viðtal
Hætta á að hraun flæði yfir á fleiri stöðum
Lögreglan á Suðurnesjum, í samráði við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, hefur ákveðið að loka svæðinu við gosstöðvarnar í dag þar sem hraun hefur runnið yfir hluta af gönguleið A. Þetta er gert af öryggisástæðum. Rögnvaldur Ólafsson, yfirlögregluþjónn hjá Almannavörnum, segir að hætta sé á því að hraun úr Geldingadölum flæði yfir í Nátthaga á fleiri stöðum.
Viðtal
Örfáir metrar í að Geldingadalir fyllist
Aðeins eru örfáir metrar í að Geldingadalir fyllist og það fari að flæða úr þeim. Lengra sé í að Meradalir fyllist en hraunið hafi náð um tíu metra þykkt að jafnaði og þekur þar dalinn allan. Þetta segir Þorvaldur Þórðarson, eldfjallafræðingur, í viðtali við fréttastofu í dag.
Viðtal úr hádegisfréttum
Allar mælingar benda til að hraunflæðið sé svipað
„Það urðu greinilegar breytingar klukkan fjögur í nótt,“ segir Kristín Jónsdóttir, er hópstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofunni, um breytta virkni í Fagradalsfjalli síðasta sólarhringinn. Hraun gýs ekki lengur upp úr gígnum í Geldingadölum en hraunstraumurinn er jafn.
Spegillinn
Hraunið hagar sér ekki eins og í kennslubókum
„Þetta gos segir: „Það skiptir engu máli! Ég ætla samt sem áður að búa til helluhraun og apalhraun og klumpahraun og uppbrotið helluhraun og allar þessar tegundir sem við getum nefnt, skeljahraun og ég veit ekki hvað og hvað,““ segir Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur í orðastað eldgossins í Fagradalsfjalli. Hann vísar til þess að í gosinu hafi myndast allar tegundir basalthrauns sem til eru á landi, án þess að framleiðni í gosinu hafi breyst að nokkru marki.
Spegillinn
Gott líf í vaxtarjöðrum hraunsins í Nátthaga
Það er gott líf í vaxtarjöðrunum í hrauninu í Nátthaga, segir Þorvaldur Þórðarson prófessor í eldfjallafræði. Hraun rennur enn ofan í dalinn, þó að rennsli hafi stöðvast í sumum hraunánum og storknað hafi yfir aðrar.
Myndskeið
Hraun rennur yfir vestari varnargarðinn
Hraun tók að renna yfir vestari varnargarðinn í syðri Merardölum um hálfellefuleytið í morgun. Vakt Veðurstofunnar tók eftir aukningu í óróa og gasútstreymi á mælum við eldgosið í morgun og stuttu síðar sást spýja brjóta sér leið meðfram útsýnishólnum og loks yfir vestari varnargarðinn.
Aðkoman önnur eftir að leiðin upp á Gónhól lokaðist
Aðkoman að gosstöðvunum við Fagradalsfjall breyttist nokkuð í gærmorgun þegar hraun lokaði gönguleið upp að vinsælasta útsýnisstaðnum á svæðinu, sem hefur fengið heitið Gónhóll. Bogi Adolfsson, formaður björgunarsveitarinnar Þorbjörns, segist vona að fólk reyni ekki að komast upp á hólinn, enda sé hraunið ennþá heitt.
Segir stóru myndina ekki að breytast í gosinu
Breytingar mældust á óróavirkni eldgossins í Geldingadölum í gærkvöld og nótt. Meiri viðvarandi virkni mældist og gosórói féll niður á milli. Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofunni, segir stóru myndina ekki vera að breytast; framleiðslan á hrauni sé stöðug í gosinu. „Þannig að þessar breytingar sem við erum að sjá í óróa og þessi púlserandi virkni er greinilega eitthvað aðeins að breytast. Líklega er þetta tengt grunnstæðum breytingum.“
Fagradalshraun orðið tæplega 3 ferkílómetrar
Meðalhraunrennsli í eldgosinu í Fagradalsfjalli var helmingi meira í maí en fyrsta einn og hálfa mánuðinn sem gaus. Þetta sýna nýjar mælingar Jarðvísindastofnunar sem gerðar voru í gær.
Hraunflæði ógnar gönguleiðinni
Gosið í kröftugasta gígnum á Reykjanesskaga er svo öflugt að síðasta hluta aðalgönguleiðarinnar hefur verið lokað. Eldfjallafræðingur segir að það vanti tvo til þrjá metra í að hraun renni yfir skarð á leiðinni. 
Myndskeið
Hrauntunga ógnar vestari varnargarðinum
Talsverður gangur hefur verið í gosinu í Geldingadölum í gærkvöld og nótt. Seint á tólfta tímanum í gærkvöld mátti sjá hvar rauðglóandi hrauntunga tók að vella inn í myndina í beinu streymi frá rúv-vélinni á Langahrygg, úr norðaustri til suðvesturs, og nú er svo komið að hrauntungan er komin alveg að vestari varnargarðinum sem reistur var í sunnanverðum Meradölum. Fari svo fram sem horfir mun hraun renna yfir varnargarðinn áður en langt um líður og þaðan niður í Nátthaga.
Annað gos í Austur-Kongó
Eldgos er hafið í öðru fjalli nærri borginni Goma í Austur-Kongó. Vika er síðan gos hófst í fjallinu Nyiragongo sem er í útjaðri borgarinnar, hundruð þúsunda hafa flúið þaðan og á fjórða tug látist. Þúsundir heimila hafa eyðilagst, tvær langar og breiðar sprungur hafa myndast í borginni og hraun flæðir yfir götur.
29.05.2021 - 13:23
Hundruð þúsunda leggja á flótta frá Goma
Hátt í fjögur hundruð þúsund íbúar borgarinnar Goma í Austur-Kongó hafa flúið eftir að varað var við eldgosi í Nyiragongo, einu virkasta og hættulegasta eldfjalli Afríku. Tugþúsundir eru heimilislausar eftir að fjallið gaus um síðustu helgi.
28.05.2021 - 16:07
Meira en 30 hektarar brunnir í eldunum á Reykjanesskaga
Meira en þrjátíu hektarar lands hafa orðið gróðureldum að bráð í kringum eldsstöðvarnar við Fagradalsfjall. Náttúrufræðistofnun Íslands endurmat nýverið umfang eldanna, sem hafa vaxið töluvert. Hraun þekur nú meira en tvo ferkílómetra og eykst dag frá degi.
Varnir Suðurstrandarvegar fullmótaðar í næstu viku
Búast má við að kostir til varnar Suðurstrandarvegi verði fullmótaðir um miðja næstu viku. Hópur sérfræðinga vinnur nú að forhönnun mannvirkja og kostnaðargreiningu, að sögn Rögnvalds Ólafssonar aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.
Myndskeið
Ástand versnar vegna eldgoss í Kongó
Tvær langar og breiðar sprungur hafa myndast í borginni Goma í Austur-Kongó og  hraun úr eldfjallinu Nyiragongo hefur náð útjaðri borgarinnar. Ringulreið ríkir meðal íbúanna, sem segja yfirvöld ekki gefa neinar upplýsingar eða fyrirmæli. Á fjórða tug íbúa eru látnir og þúsundir hafa misst heimili sín.
25.05.2021 - 17:02
Spegillinn
Leggja til hraunvarnir við Grindavík og Svartsengi
Ráðast þyrfti í umfangsmiklar aðgerðir til að verja innviði á Reykjanesskaga vegna eldsumbrota sem búast má við á næstu árum, áratugum og öldum. Verja þarf bæi, orkuver, heita- og kaldavatnslagnir og háspennulínur. Hópur, sem almannavarnir hefur kallað til, telur að rétt sé að hefja vinnu við forvarnir frekar en að bregðast við þegar eldgos er hafið.
Nokkrar vikur til stefnu áður en hraunið ógnar veginum
Allar leiðir til að verja Suðurstrandarveg verða skoðaðar. Kostnaður og hvað verja skal skiptir máli, að sögn umhverfisverkfræðings. Í vikunni verða skoðaðir allir möguleikar til að verja veginn fyrir hraunflæði úr Nátthaga.
Fimmtán látnir vegna eldgoss í Kongó
Fimmtán eru látnir og 500 heimili í rúst eftir hraunrennsli inn í þorp úr eldfjallinu Nyiragongo í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó. Eldgos hófst í gærkvöld í fjallinu og flýðu um 5.000 íbúar borgarinnar Goma yfir landamærin til Rúanda.
23.05.2021 - 22:48