Færslur: Búrkína Fasó

Vígasveitir myrtu tugi almennra borgara í Búrkína Fasó
Vígamenn úr röðum öfga-íslamista drápu fjölda fólks þegar þeir réðust til atlögu í Búrkína Fasó í vestanverðri Afríku í gær, miðvikudag. Opinberir fjölmiðlar í landinu greina frá því að minnst 47 hafi fallið í árás íslamistanna í norðanverðu landinu; 30 almennir borgarar, 14 hermenn og þrír félagar í vopnaðri hreyfingu sem er hliðholl stjórnvöldum.
19.08.2021 - 03:55
Hrottafengin morð vígamanna í Búrkína Fasó
Vel á annað hundrað þorpsbúa í Solhan í Búrkína Fasó voru myrtir af vígamönnum í dag. Árásin er sú mannskæðasta síðan vígamenn úr röðum íslamista  hófu innreið sína í landið árið 2015 að sögn AFP fréttastofunnar. 
06.06.2021 - 01:13
16 hermenn og 24 vígamenn felldir í Níger
Glæpamenn felldu sextán nígerska hermenn í Tahoua-héraði í vestanverðu Níger í gær, laugardag. Fyrr í vikunni felldu nígerskir hermenn 24 „grunaða hryðjuverkamenn" úr röðum öfgasinnaðra íslamista þegar þeir reyndu að flýja úr haldi í nágrannahéraðinu Tillaberi.
02.05.2021 - 23:56
Myrtu minnst 15 almenna borgara í skjóli nætur
Illvirkjar vopnaðir skotvopnum drápu minnst 15 almenna borgara í næturárás á nokkur sveitaþorp í norðanverðu Búrkína Fasó aðfaranótt þriðjudags. AFP-fréttastofan hefur þetta eftir ónafngreindum starfsmanni stjórnvalda í Seytenga-héraði, þar sem árásin átti sér stað. Flestir hinna látnu eru karlmenn, að hans sögn, og meirihluti þeirra var myrtur í fyrsta þorpinu sem ráðist var á.
28.04.2021 - 04:15
Franskir hermenn féllu í Malí
Tveir franskir hermenn fórust þegar bifreið þeirra var ekið yfir sprengju í norðausturhluta Malí í gær. Einn særðist en er ekki í lífshættu.
03.01.2021 - 03:01
Herforingjar í Malí vilja að herforingjastjórn taki við
Herforingjarnir sem tóku völdin í Malí í síðustu viku hafa boðist til að láta Ibrahim Boubacar Keita forseta lausan. Þeir gera kröfu um að bráðabirgðastjórn hersins sitji í þrjú ár.
24.08.2020 - 00:27
Tólf létust í fangaklefa lögreglu í Búrkína Fasó
Tólf manns sem höfðu setið í fangaklefa lögreglu í vesturhluta Búrkína Fasó í Afríku vegna grunsemda um tengsl við hryðjuverkastarfsemi fundust látnir í klefa sínum í gær.
14.05.2020 - 02:14
Saka hermenn um aftökur 31 manns án dóms og laga
Öryggissveitir stjórnvalda í Vestur-Afríkuríkinu Búrkína Fasó eru sagðar hafa tekið 31 óvopnaðan fanga af lífi, án dóms og laga, fyrr í þessum mánuði. Alþjóðlegu mannréttindasamtökin Human Rights Watch, eða Mannréttindavaktin, greindu frá þessu í morgun og krefjast ítarlegrar rannsóknar þegar í stað.
20.04.2020 - 05:44
Fjórir hermenn og tugir vígamanna féllu í Níger
Fjórir nígerskir stjórnarhermenn og tugir vígamanna, sem taldir eru tilheyra íslömskum hryðjuverkasamtökum, féllu í hörðum bardaga í vesturhluta Níger á fimmtudag. Þetta kemur fram í tilkynningu nígerska varnarmálaráðuneytisins, sem birt var í fjölmiðlum í kvöld. Þar segir að sveit stjórnahermanna hafi ráðist á bækistöðvar hryðjuverkamanna í Tillaberi-héraði nærri landamærunum að Malí á fimmtudag.
04.04.2020 - 01:31
20 almennir borgarar myrtir í Búrkína Fasó
Um 20 almennir borgarar voru drepnir af vígamönnum í norðvesturhluta Búrkína Fasó um helgina. Árásin var gerð í þorpi í Bani-héraði, norður af höfuðborginni Ouagadougou aðfaranótt laugardags. Aðeins viku fyrr voru 39 myrtir af vígamönnum á markaði í bænum Silgadji. 
03.02.2020 - 04:49
Mongólía lokar landamærum vegna kórónaveiru
Landamærum Mongólíu að Kína hefur verið lokað fyrir bílaumferð og gangandi vegfarendum í þeirri viðleitni að draga úr hættunni á að kórónaveira berist til landsins. 
27.01.2020 - 09:04
Vígamenn felldu á annan tug hermanna í Búrkína Fasó
Á annan tug hermanna féllu þegar vígasveit öfga-íslamista gerði þeim fyrirsát nærri Hallele í norðanverðu Búrkína Fasó í nótt sem leið. Fyrr um daginn höfðu stjórnvöld í landinu lýst yfir tveggja sólarhringa þjóðarsorg í landinu vegna mannskæðrar árásar hryðjuverkamanna á íbúa lítils bæjar í sama héraði og herstöð þar í grennd. 35 almennir borgarar, þar af 31 kona, létu lífið í þeirri árás, auk sjö hermanna og yfir áttatíu vígamanna.
26.12.2019 - 01:36
Á annað hundrað týndu lífinu í hryðjuverkaárás
Hryðjuverkamenn úr röðum öfgaíslamista myrtu 35 óbreytta borgara, þar af 31 konu, í einni mannskæðustu hryðjuverkaáras sem gerð hefur verið í þeirri vargöld sem ríkt hefur í Búrkína Fasó síðustu fimm ár. Þá féllu sjö stjórnarhermenn og um 80 úr hópi hryðjuverkamannanna í árásinni, sem gerð var samtímis á herstöð í Soum-héraði í norðanverðu landinu og þorpið sem hún stendur við, samkvæmt upplýsingum frá hernum. Tveggja sólarhringa þjóðarsorg hefur verið lýst yfir í landinu og jólahaldi aflýst.
25.12.2019 - 08:53
Myrtu fjórtán kirkjugesti í Búrkína Fasó
Þungvopnaðir menn réðust í gær inn í kirkju í Búrkína Fasó og myrtu þar fjórtán manns áður en þeir flýðu af vettvangi á mótorhjólum. Börn voru á meðal hinna myrtu og prestur safnaðarins líka. Fjöldi kirkjugesta særðist í árásinni, sem gerð var í bænum Hantoukoura, nærri landamærunum að Níger. Haft er eftir heimildarmönnum úr hernum að árásarmennirnir hafi verið um það bil tólf talsins og gengið fram af algjöru miskunnarleysi. Þeirra er nú leitað af her og lögreglu.
02.12.2019 - 03:14
Mannskæðasta árás í fimm ár í Búrkína Fasó
37 létu lífið í árás vígamanna á bílalest námuverkamanna í Búrkína Fasó í gær. Verkamennirnir unnu í námu kanadísks námufyrirtækis í landinu. Árásin er sú mannskæðasta í landinu í fimm ár.
07.11.2019 - 02:07
Tíu féllu í hryðjuverkaárás á lögreglustöð
Minnst tíu manns féllu í árás vígamanna á bækistöðvar lögreglu í norðanverðu Búrkína Fasó í gærmorgun; fimm lögreglumenn og fimm óbreyttir borgarar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá hernum. Atlagan að lögreglustöðinni, sem er nærri landamærunum að Malí, stóð klukkustundum saman.
05.11.2019 - 03:40
Vígamenn drápu 15 í mosku í Búrkína Fasó
Minnst fimmtán létu lífið og tveir særðust alvarlega í árás byssumanna á mosku í Búrkína Fasó á föstudagskvöld. Árásarmennirnir réðust inn á meðan bænastund var í mosku í þorpinu Salmossi. Fjölmargir íbúar þorpsins flýðu það eftir árásina. Að sögn BBC hefur enginn hópur lýst yfir ábyrgð á árásinni. 
13.10.2019 - 06:13
Myrtu um 20 gullgrafara í Búrkína Fasó
Óþekktir vígamenn myrtu um 20 manns í árás á gullvinnslusvæði í norðanverðu Búrkína Fasó í dag. Þetta er haft eftir heimildarmönnum úr röðum hers og lögreglu í landinu. Árásin var gerð á svæði þar sem fjölmargar litlar gullnámur eru reknar og enn fleiri gullgrafarar leita eðalmálmsins upp á eigin spýtur. Þá er mikið um að börnum sé þrælað út við gullleit í Búrkína Fasó.
06.10.2019 - 00:41
Vígamenn myrtu prest og sóknarbörn
Prestur og fimm sóknarbörn voru myrt í árás byssumanna á kaþólska kirkju í bænum Dablo í Burkina Faso í gærmorgun. Á milli 20 og 30 vopnaðir menn ruddust inn í kirkjuna og skutu á kirkjugesti. AFP fréttastofan hefur eftir bæjarstjóra Dablo, Ousmane Zongo, að árásarmennirnir hafi loks kveikt í kirkjunni, nokkrum verslunum og litlu kaffihúsi áður en þeir æddu að næstu heilsugæslustöð og hrifsuðu ýmislegt með sér þaðan. Loks kveiktu þeir í bíl yfirhjúkrunarfræðings.
13.05.2019 - 04:11
Gíslum bjargað í Búrkína Fasó
Fjórum gíslum var bjargað úr haldi mannræningja í Búrkína Fasó í nótt. Tveir franskir sérsveitarmenn létu lífið í aðgerðunum. Fólkinu var rænt í Benín og það flutt yfir landamærin. Ekki hefur verið gefið út hverjir eða hvaða hópar rændu fólkinu.
10.05.2019 - 12:21
Vígamenn myrtu almenna borgara í Búrkína Fasó
14 almennir borgarar létu lífið í árás vígamanna í norðurhluta Búrkína Fasó í dag. Árásin var gerð í bænum Kain í Yatenta héraði, við landamærin að Malí. AFP hefur eftir her Búrkína Fasó að hermenn hafi ráðist á bækistöðvar vígamanna í þremur héruðum á norðurhluta landsins og fellt 146 vígamenn. Lamoussa Fofana, talsmaður hersins, sagði í yfirlýsingu að ráðist hafi verið á vígamennina úr lofti og með landher.
05.02.2019 - 01:43
10 látnir eftir árás vígamanna í Búrkína Fasó
Tíu eru látnir og tveir særðir eftir hryðjuverkaárás í norðurhluta Búrkína Fasó í dag. AFP fréttastofan hefur þetta eftir öryggissveitarmanni og embættismanni. Árásin var gerð í þorpinu Sikire í Sahel héraði, sem verður ítrekað fyrir árásum vígamanna.
28.01.2019 - 01:31
12 myrt í hryðjuverkaárás í Burkina Fasó
Minnst tólf létu lífið í hryðjuverkaárás í þorpinu Gasseliki í norðurhluta Búrkína Fasó í dag. Öll fórnarlömb árásarinnar voru óbreyttir borgarar. Róstursamt hefur verið á þessum slóðum um nokkra hríð. Þar hafa geisað blóðug átök milli þjóðarbrota auk þess sem nokkuð hefur verið um mannskæðar árásir vopnaðra hópa íslamista.
12.01.2019 - 02:51
Tíu lögreglumenn felldir í Búrkína Fasó
Tíu lögreglumenn voru felldir og þrír særðir þegar þeim var gerð fyrirsát í norðvesturhluta Búrkína Fasó á fimmtudag. Öryggismálaráðherra landsins greindi frá þessu. Flokkur lögreglumanna var á leið til þorpsins Loroni, nærri landamærunum að Malí, til að aðstoða við leit og mögulegar aðgerðir gegn vígamönnum sem þar réðust á skólabyggingu, unnu þar skemmdarverk og brenndu kennslubækur, samkvæmt heimildum AFP-fréttastofunnar. Tveir þeirra sem særðust hlutu alvarlega áverka.
28.12.2018 - 03:51
Dauðarefsing afnumin í Burkina Faso
Löggjafarþing Afríkuríkisins Búrkína Fasó samþykkti í vikunni afnám dauðarefsingar og fleiri gagngerar breytingar á refsilöggjöf landsins. Dómsmálaráðherra Búrkína Fasó, Rene Bagoro, segir breytingarnar gera refsilöggjöfina nútímalegri og trúverðugri, stuðla að jafnræði borgaranna og auka skilvirkni réttarkerfisins.
02.06.2018 - 01:57