15:30
Kiljan
Kiljan

Þáttur sem er löngu orðinn ómissandi í bókmenntaumræðunni í landinu. Egill og bókelskir félagar hans fjalla sem fyrr um forvitnilegar bækur af ýmsum toga og úr öllum áttum. Umsjón: Egill Helgason. Dagskrárgerð: Jón Víðir Hauksson.

Magnea J. Matthíasdóttir er gestur í Kilju vikunnar. Hún var vinsæll og umdeildur höfundur á áttunda áratugnum en hætti svo að gefa út skáldskap fyrr en nú að hún sendir frá sér ljóðabókina Þar sem malbikið endar. Skúli Sigurðsson kemur í sjónvarpssal og segir dálítið frá sjálfum sér en hann fékk nýskeð glæpasagnaverðlaunin Blóðdropann fyrir spennusöguna Stóri bróðir. Valur Gunnarsson spáir í því sem hefði getað orðið i bókinni Hvað ef - hvað ef til dæmis menn hefðu notað vopnin sem þeir höfðu birgt sig upp af í Hvíta stríðinu í Reykjavík 1921? Loks hittum við breska fjölmiðlamanninn Richard Osman. Hann er frægur í heimalandinu fyrir störf í sjónvarpi en tók upp á því að skrifa léttar glæpasögur sem hafa orðið feikivinsælar ? tvær þeirra hafa komið út á íslensku. Gagnrýnendur þáttarins fjalla um þrjár bækur: Farsótt eftir Kristínu Svövu, hmmm eftir Lindu Vilhjálmsdóttur og Vanþakkláta flóttamanninn eftir Dina Nayeri.

Var aðgengilegt til 11. febrúar 2024.
Lengd: 41 mín.
e
Endursýnt.
Dagskrárliður er textaður.
,