Hugmyndir um tugi vindorkuvera á Íslandi

Engin stór vindorkuver finnast á Íslandi. Enda hafa Íslendingar einkum beislað önnur náttúruöfl til raforkuframleiðslu: vatnsafl og jarðhita. En það gæti breyst. Fjöldi hugmynda hefur verið settur fram um slíkar virkjanir hér. Vindmyllurnar yrðu háar og áberandi.

Með þróun í vindorkutækni hafa vindmyllur stækkað, bæði að umfangi og afli, og vindorkuframleiðsla hefur orðið hagkvæmari.

„Það er alveg ljóst að við eigum gnægð af auðlindinni, vindi, til að virkja,“ segir Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, forstjóri Skipulagsstofnunar. „Það er margt sem mælir með auðvitað að skoða það mjög vel að nýta þá auðlind, íslensku samfélagi til hagsbóta.“

En svipur landsvæða gæti breyst, ef stór vindorkuver verða reist. Spaðarnir geta náð upp í 150 til 200 metra hæð  í hæstu stöðu og í hverju orkuveri geta verið tugir vindmylla.

„Auk þess eru þetta auðvitað mannvirki sem, þegar þau eru í starfsemi, þá standa þau ekki kyrr. Spaðarnir snúast,“ segir Ásdís Hlökk. Þetta sé svona inngrip í íslenskt umhverfi og landslag af stærðargráðu sem þekkist ekki fyrir.

Tvær tilraunavindmyllur Landsvirkjunar standa á Þjórsársvæðinu, fyrir ofan Búrfell.

Við suðurmörk miðhálendisins, ofan við Búrfell, standa tvær vindmyllur sem framleiða raforku.

Vindmyllurnar, sem Landsvirkjun gangsetti í tilraunaskyni 2013, eru á Þjórsársvæðinu, þar sem fyrir eru sjö vatnsaflsvirkjanir. Landsvirkjun vill bæta við vindorkuveri með allt að 30 vindmyllum.

„Þetta er svakalega hentugur staður fyrir vindorkuver,“ segir Jóna Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri hjá Landsvirkjun. Vindurinn blási sterkt og jafnt niður af hálendinu.

Nýju vindmyllurnar yrðu um tvöfalt hærri en tilraunamyllurnar. Og framkvæmdunum fylgir umrót. Leggja þyrfti vegslóða að hverri myllu, búa til plan og steypa undirstöður. Rafmagn yrði flutt frá myllunum með jarðstrengjum.

„Þannig að innan svæðisins væru engar raflínur, þetta væri allt í strengjum, þannig að þetta eru aðallega þessir slóðar og síðan þessi plön undir vindmyllurnar og undirstöðurnar,“ segir Jóna.

Vindorkuver eru talin henta vel með vatnsaflsvirkjunum, því á veturna þegar lítið vatn rennur í uppistöðulón er hægt að spara vatnið og á móti framleiða raforku með vindi. Svo á sumrin, þegar ekki er jafn vindasamt, er hægt að keyra vatnsaflsvirkjanir af fullum krafti.

Úr kynningarmyndbandi Landsvirkjunar, þar sem er búið að setja vindmyllur inn á svæðið með tölvutækni.

Vindorkuver geta haft ýmiss konar áhrif á náttúru og umhverfi, eins og önnur orkuver. Á undirlendi sem er raskað geta verið jarðminjar, gróður eða menningarminjar. Á svæðinu geta líka verið búsvæði dýra eða farleiðir fugla. Augljósustu áhrifin á fólk eru svo ásýndin.

Vindmyllurnar eru oft margar saman og spaðarnir hreyfast. „Og þau eru framandi í landslaginu,“ segir Ásdís Hlökk, forstjóri Skipulagsstofnunar, um mannvirkin.

En það heyrist líka í vindmyllum og svo er það skuggaflökt, þegar spaðar snúast og varpa skuggum sem hreyfast. Ekki henta því allir staðir jafnvel fyrir vindorkuver. Og það þarf líka að vera hægt að koma aðföngum á staðinn og tengja orkuverin við flutningskerfi.

Settar hafa verið fram hugmyndir um fjölda vindorkuvera víða um land. Kortið er ekki tæmandi, en þessir 35 kostir voru teknir saman hér með hliðsjón af gögnum frá Orkustofnun. Hugmyndirnar eiga það sameiginlegt að hafa einhvern tímann verið sendar verkefnisstjórn í 3. eða 4. áfanga rammaáætlunar. Tvö einkafyrirtæki, Qair og Zephyr, standa fyrir flestum hugmyndum, Qair níu en Zephyr tíu.

Vindorkuhugmyndir á landinu eru mjög misstórar. Og þær eru mislangt á veg komnar og misauðvelt að tengjast flutningskerfi og alls óvíst hve mörg af þessum orkuverum rísa. Að minnsta kosti tvær hugmyndir á kortinu hafa þegar verið lagðar til hliðar.

Áður en stórar virkjanir eru reistar þurfa forsvarsmenn orkufyrirtækja að fá heimild hjá hinu opinbera. Það þarf að fara í gegnum verndar- og orkunýtingaráætlun stjórnvalda, sem er jafnan kölluð rammaáætlun. Líka í gegnum umhverfismat hjá Skipulagsstofnun. Afla þarf virkjunarleyfis frá Orkustofnun, fara í skipulagsferli hjá sveitarfélagi og afla framkvæmdaleyfis og byggingarleyfis frá sveitarfélaginu. Á ýmsu getur því strandað og enn er ekkert stórt vindorkuver búið að fá öll tilskilin leyfisbréf.

Fjallað hefur verið um ýmsa vindorkukosti í rammaáætlun, en enginn þeirra hefur verið endanlega samþykktur á Alþingi. Reyndar hafa engir virkjunarkostir fengið afgreiðslu á Alþingi í mörg ár, eins og var fjallað um í síðustu þáttaröð Kveiks. Svo er umdeilt hvort vindorka eigi heima í rammaáætlun. Rök sem hefur verið teflt fram eru að vindorka sé eðlisólík vatnsorku og jarðvarma: vindorkuver sé hægt að reisa nánast hvar sem er.

„Landið undir vindmyllurnar. Það er auðlindin sem við þurfum að fara varlega með,“ segir Guðrún Pétursdóttir, fyrrverandi formaður verkefnisstjórnar rammaáætlunar. „Þess vegna skiptir máli hvar við leyfum að vindorkuver séu reist. Og nú er ég alls ekki að segja að þau séu ómöguleg,“ segir hún.

Guðrún Pétursdóttir, fyrrverandi formaður verkefnisstjórnar rammaáætlunar.

„En þau eru bara mjög áberandi í landinu, landslaginu. Þau breyta ásýnd landsins, og við verðum að fara varlega. Við erum að taka ákvörðun til margra áratuga.“

Ríkisstjórnin hefur boðað endurskoðun á lögum um rammaáætlun. Líka að sett verði sérstök lög um vindorku með það að markmiði að einfalda uppbyggingu vindorkuvera til framleiðslu á grænni orku. Í stjórnarsáttmálanum segir líka:

Áhersla verður lögð á að vindorkuver byggist upp á afmörkuðum svæðum nærri tengivirkjum og flutningslínum þar sem unnt verður að tryggja afhendingaröryggi.
Mikilvægt er að breið sátt ríki um uppbyggingu slíkra vindorkuvera og tillit sé tekið til sjónrænna áhrifa, dýralífs og náttúru. Í því samhengi verður tekin afstaða til gjaldtöku fyrir slíka nýtingu.
Stefna verður mótuð um vindorkuver á hafi.

Ásdís Hlökk telur að ríkið þurfi að setja einhvers konar ramma um hvernig uppbygging vindorkuvera á að fara fram: „Vegna þess að þetta eru svo stór mannvirki,“ segir hún, „og við erum að sjá líka svo mikinn áhuga á uppbyggingu.“

Jóna Bjarnadóttir segir að niðurstaða Landsvirkjunar sé að hentugra sé að vera með „færri svæði undir, velja þau vel, þá er ásýndin mikil á þeim stað, en ekki dreifa þeim víða um land.“ Þetta sé byggt á ráðgjöf sem Landsvirkjun hafi fengið.

Jóna Bjarnadóttir segir að niðurstaða Landsvirkjunar sé að hentugra sé að hafa vindorkuver á völdum svæðum en að dreifa þeim víða um land.

Landsvirkjun hafði hugmyndir um að reisa mun fleiri vindmyllur fyrir ofan Búrfell, en verkefnisstjórn rammaáætlunar taldi ekki rétt að afgreiða þá hugmynd í orkunýtingarflokk. Ástæðan var ekki náttúruverndarsjónarmið, heldur mikil ásýndaráhrif sem gætu haft áhrif á ferðamenn. Landsvirkjun endurhannaði orkuverið vegna niðurstöðu verkefnisstjórnarinnar og niðurstöðu umhverfismats, færði það til og fækkaði vindmyllum um meira en helming.

„Þetta er búið að vera mikið lærdómsferli,“ segir Jóna. „Þetta er fyrsti svona stóri vindlundurinn sem er hannaður á Íslandi, og þetta er búið að vera margra ára prósess hjá okkur að fara í gegnum þetta.“

Landsvirkjun telur að staðsetningin sé hentug því virkjanir eru í grenndinni með tilheyrandi innviðum. En líka vegna þess að svæðinu hefur þegar verið raskað.

Í áætlunum Landsvirkjunar er gert ráð fyrir að vindorkuverið yrði staðsett neðan við Sultartangalón á Þjórsársvæðinu.

„Við teljum að þetta sé mjög mikilvægt, að fara inn á svæði sem eru þegar röskuð og innviðir eru til staðar,“ segir Jóna, en ekki inn á óröskuð svæði og svæði á borð við óbyggð víðerni: „Af því að vindmyllur eru alveg rosalega háar, þetta eru stór mannvirki.“

En nýja útfærslan komst heldur ekki í gegnum rammaáætlun, því vindorkuverið væri enn svo áberandi að það myndi hafa mikil áhrif á mörg ferðasvæði, samkvæmt drögum að niðurstöðu verkefnisstjórnar sem voru birt í fyrra.

„Mér varð svolítið illt í hjartanu þegar að við fengum Búrfellslund inn á borð til okkar,“ segir Guðrún Pétursdóttir, fyrrverandi formaður verkefnisstjórnarinnar. „Landsvirkjun hefur virkilega lagt sig fram um að vanda sig við að endurhanna Búrfellslund.“

Reyndar taldi sérfræðingahópur rammaáætlunar að áhrifa á ferðamenn gætti allt norður fyrir jökla. Vindorkuverið myndi rýra upplifun þeirra sem fara yfir Sprengisand af náttúru hálendisins. Þeir hefðu vindmyllurnar fyrir augunum í upphafi eða lok ferðar og því myndi það heildstæða svæði sem þeir upplifa sem víðerni minnka.

„Þetta er niðurstaðan,“ segir Jóna Bjarnadóttir. „En við teljum að þetta sé eitthvað sem mætti endurskoða.“ Með nýju útfærslunni yrði vindorkuverið sýnilegra frá mun færri svæðum, engum af megin áningarstöðum á svæðinu, og sæist mun minna frá Sprengisandsleið en áður var, segir hún.

Vindorkuver í útlöndum.

Fyrir utan Búrfell er ekki búið að ljúka við umhverfismat á neinum vindorkukosti, en nokkrir eru í umhverfismati. Nýja útfærslan við Búrfell hefur ekki farið sérstaklega í umhverfismat.

„Stærstu breyturnar í umhverfismati vindorkuvera eru landslags- og ásýndaráhrifin annars vegar og áhrif á fuglalíf hins vegar,“ segir Ásdís Hlökk, forstjóri Skipulagsstofnunar.

Möguleg áhrif vindorkuvers við Búrfell á fugla hafa verið rannsökuð.

„Annars vegar var það rannsóknir á þeim fuglum sem að verptu á svæðinu, eða varpfuglunum, og hins vegar á fuglum sem fara um svæðið vor og haust, farfuglum,“ segir Þorkell Lindberg Þórarinsson dýravistfræðingur sem vann við rannsóknir fyrir ofan Búrfell.

Áhrif vindorkuvera á fugla geta verið margs konar. Undirstöður og vegir geta raskað búsvæðum, orkuverin geta fælt fugla frá svo þeir verpa síður eða leita sér síður fæðu í nágrenninu. Vindmyllurnar geta líka verið hindrun fyrir fugla á flugi þannig að þeir þurfi að taka sveig framhjá orkuverinu. Svo er hætta á að fuglarnir fljúgi á vindmyllurnar.

Ratsjá var notuð við rannsóknir á mögulegum áhrifum vindorkuvers við Búrfell á fugla. Mynd: Náttúrustofa Norðausturlands.

Við rannsóknir á ferðum farfugla við Búrfell var notuð ratsjá til að fylgjast með og skrá ferðir þeirra, hversu hátt þeir flugu og hvaða leið. Fyrir nýju útfærsluna var niðurstaða reiknilíkans að miðað við að 99 prósent fugla næðu að forða sér frá árekstri myndu allt að 68 fuglar fljúga á vindmyllurnar árlega á tímabilinu apríl til október.

Þorkell Lindberg segir að mjög mikilvægt sé að vakta áhrifin í framhaldinu til að sjá og meta hvernig matið var miðað við raunveruleikann og hvort þurfi þá að grípa til einhverra ráðstafana ef í ljós kemur að matið hafi verið vitlaust.

Vindmyllur eru háar og áberandi.

Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri segir að orkuumhverfið hafi í raun breyst töluvert mikið á síðustu árum eða áratugum. „Við höfum verið að færast yfir í meira markaðsumhverfi,“ segir hún.

„Og það eru einkaaðilar sem eru að koma inn, og sumir eru íslenskir og aðrir eru erlendir. Það sem skiptir mestu máli er að lagaumhverfið sé þannig að arður af auðlind skili sér til þjóðarinnar, sama hvert eignarhaldið er nákvæmlega,“ segir Halla.

Þótt raforkuframleiðsla á Íslandi sé ekki mikil borin saman við fjölmenn lönd, framleiðir ekkert ríki jafnmikla raforku á hvern íbúa og Ísland. Tæplega 80 prósent orkunnar fara til stórnotenda sem nota hana aðallega til að bræða ál, en líka til dæmis til að grafa eftir rafmynt. Mikið er rætt um hver þörfin sé fyrir meiri raforku á næstu árum, meðal annars vegna orkuskipta.

Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri.

Spurð hvort þörf sé á þessum nýja orkugjafa segir Halla að mikil eftirspurn sé eftir grænni orku á tímum loftslagsbreytinga. „Síðan er það spurning um hvernig sú orka er nýtt.“

„Þegar þú horfir á vandaða nýtingu þá held ég að sé mikilvægt að laus orka rati í samfélagslega mikilvæg verkefni eins og orkuskipti,“ segir Halla. Hún segir að í markaðsumhverfi séu leiðir til að sjá til þess með stefnu stjórnvalda, með lagaramma. „Það eru leiðir líka með stefnu fyrirtækja, þannig að allt þarf þetta að spila saman,“ segir hún.

Halla Hrund segir að þegar horft sé á heildarsamhengi hlutanna skipti máli að hafa sýn sem að ákveðnu leyti kristallist í hugmyndafræðinni um rammaáætlun.

„Við séum að hugsa um landið í heild sinni, við séum að teikna upp hvað, hvernig við viljum sjá að landið okkar líti út eftir, sko ekki eftir tíu ár, heldur eftir 20 og 70 ár,“ segir Halla. „Og þarna reynir á samhæfingu og framsýni og hófsemi líka.“

Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, forstjóri Skipulagsstofnunar.

Vindorkuver hafa áhrif á fuglalíf og ásýnd landslags og á Íslandi eru víðerni og óbyggðir. Getur kannski verið að vindorkuver henti ekkert sérstaklega vel hér?

„Ég held að það sé kannski býsna stór ályktun, segir Ásdís Hlökk. „Vindorkuver geta verið af svo mismunandi stærðargráðu. Ég held að það sé enginn vafi á því að smærri vindorkuver geta verið mjög góð lausn hérna.“

Þegar kemur að stærri mannvirkjum og umfangsmeiri uppbyggingu séu spurningarnar stærri, segir hún, en Íslendingar búi í stóru landi og hún telji að það „megi nú mikið vera“ ef ekki sé hægt að finna staði sem flestir eða allir geti verið sáttir við, „að við getum nýtt þessa frábæru umhverfisvænu orku, samfélaginu til góða.“

Vindorkuver í útlöndum.

„Ég vildi óska þess að við hefðum ráðrúm til að staldra við núna,“ segir Guðrún Pétursdóttir. Að Íslendingar flýti sér hægt og ákveði hvort þeir vilji hafa fá og þess vegna stór vindorkuver á ákveðnum stöðum sem fólk kemur sér saman um, „og bara lifa við það.“

„Eða ætlum við að leyfa byggingu vindorkuvera hvar sem mönnum dettur í hug, og það er ekkert eins og þjóðgarður eða sérleg verðmæti sem hamla því. Það er ástandið núna,“ segir Guðrún.

„Höfum við íhugað hvernig landið verður þegar við ökum framhjá vindorkuverum mörgum sinnum á dag, nánast hvar sem við erum á landinu?“ segir hún. „Viljum við þetta?“

Halla orkumálastjóri segir að ef horft sé til dæmis til annarra landa hafi vindorka í sumum tilfellum verið að færast meira út á haf. „Þannig að umræðan um þetta í samfélaginu á eftir að þroskast,“ segir hún.

„Það á eftir að komast niðurstaða í þetta mál. Tækifærin eru þar varðandi grænu orkuna, það er eftirspurn eftir henni. Við erum líka með náttúruna sem er mjög verðmæt,“ segir Halla.

„Við verðum að viðurkenna báða þætti og finna jafnvægi í allri nálgun. Það er lykilatriði.“