Viltu tapa milljón?

Við höfum öll séð „skrítnu“ fréttirnar á Facebook, þar sem þekktir Íslendingar mæla með alls konar fjárfestingarævintýrum. Oftast eru þetta falsfréttir sem vísa á falssíður glæpamanna sem ná milljónum frá venjulegum Íslendingum.

Fréttirnar virðast af þekktum fréttavefjum en þegar betur er að gáð er eitthvað sem ekki passar. Vefslóðin skrítin og textinn undarlegur.

Dæmi um falsfrétt um meintan stórgróða þekkts Íslendings sem deilir töfrabrögðunum með löndum sínum. 

En ef viðvörunarbjöllurnar hringja ekki strax og smellt er áfram er líklegt að næsti viðkomustaður sé síða sem virðist tilheyra fjárfestingafyrirtæki, einmitt því sem frægi Íslendingurinn mælti svo eindregið með í „fréttinni.“

Frétt af mbl.is? Vefslóðin er skrítin - hpfotografias.com. Mogginn birtir ekki fréttirnar sínar þar. 

Þar gefst venjulegum meðaljónum tækifæri til að taka þátt í þessum ævintýrum, eigi þeir nægilegt skotsilfur til að leggja út fyrir upphafsfjárfestingunni.

Þessi „frétt“ virðist af Vísi, en eitthvað virðist fallbeyging nafns Birkis flækjast fyrir glæpamönnunum. Textinn er heldur ekki beinlínis í þekktum fréttastíl. Allt ætti þetta að hringja viðvörunarbjöllunum hjá þeim sem lesa. 

Georg gekk í gildru

Georg vill ekki koma fram undir nafni. Georg er nafnið sem við gefum honum hér. Þegar hann mætir í viðtalið endurtekur hann að hann vilji ekki þekkjast. Það tekur dágóða stund að dulbúa hann og klæða svo að fjölskylda og vinir þekki hann ekki því hann hefur ekki enn sagt því frá sem gerðist.

Georg er ósköp venjulegur Íslendingur. Hann er millistéttarmaður með góða menntun, í öruggu starfi og fjölskyldulífið gott. Hann er tölvuvanur nútímamaður. En svo rakst hann á auglýsingu á netinu sem vakti forvitni hans. Hún leit vel út, fagmannlega upp sett og fyrirsögnin spennandi: Tækifæri til að fjárfesta í verðbréfum, fylgjast með gengi þeirra í rauntíma og uppskera ótrúlega ávöxtun.

Georg er dulnefni því hann vill ekki koma fram undir nafni. 

„Ég ákvað að prófa, átti einhverjar hundrað þúsund krónur afgangs. Og þá byrjaði þetta bara að rúlla, þessi svindlmaskína. 100.000 krónur urðu 150.000 eftir viku eða hálfan mánuð eða eitthvað. Ég greiddi þetta í gegnum vísakortið. Áður en ég vissi af var ég búinn að greiða milljón inn á þetta. Og innan eins eða tveggja mánaða var þessi milljón orðin að tveimur milljónum; á vefsíðunni samkvæmt mínum reikningi. Ég var alveg í skýjunum yfir þessu, þetta var svo auðvelt allt saman.“

Lái honum hver sem vill. 100% ávöxtun hljómar hreint ekki illa. Nánast ótrúlega. Enda ekki satt, þetta er svikamylla.

Mikill vöxtur í heimsfaraldrinum

Þótt svona svik séu ekki ný af nálinni varð sprenging í heimsfaraldrinum. Kannski vorum við meira heima fyrir í tölvunni og vantaði dægradvöl, eða fjárfestingu.

Gísli Jökull Gíslason, rannsóknarlögreglumaður segir aðferðir glæpamanna orðnar mjög þróaðar. Þeir viti hvað virkar og venjulegir netnotendur eigi sér ekki viðreisnar von á móti skipulagðri glæpastarfsemi. Fórnarlömbunum hefur enda fjölgað mikið og fjárhæðirnar hækkað.

Gísli Jökull Gíslason, rannsóknarlögreglumaður, hefur rannsaka fjölmörg mál sem snúa að netsvikum. 

„Síðan 2017, þegar við byrjuðum að taka saman tölur úr tjóni, er fjárfestasvindl komið upp í næstum hálfan milljarð. Talan stendur í 473 milljónum í dag, í samanlögðu tapi frá nóvember 2017,“ segir Gísli Jökull.

Samkvæmt nýjum bandarískum gögnum hefur meðalaldur fórnarlamba lækkað vestanhafs svo að helmingi fleiri á aldrinum 18-39 ára falla í gildruna þar núna. Áhugi á rafmynt og lítið fjármálalæsi eru talin meðal ástæðna. Í Evrópu fær lögregla hins vegar enn langflestar tilkynningar frá eldra fólki. Hérlendis er algengt að þeir sem snúa sér til lögreglu séu komnir á sextugsaldur en aldurinn er ekki eina breytan sem skiptir máli.

Björn Bjarnason, fyrsti áhrifavaldurinn

Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, mætti næstum því kalla fyrsta áhrifavaldinn. Hann stofnaði bloggsíðu fyrir aldamót og hefur alla tíð verið áhugamaður um þróun netsins og tækni. En meira að segja Björn, vanur maður, hnaut um freistandi auglýsingu á Facebook.

„Og ég var alveg undrandi í raun og veru að sjá hvað það voru margar auglýsingar um gylliboð sem þekktir Íslendingar komu nálægt og fólk sem ég þekkti var að mæla með að nýta sér þetta tækifæri. Og svona er maður áhrifagjarn að ég ákvað að prófa að sjá hvernig þetta gengi fyrir sig,“ segir Björn, í viðtali við Kveik, og glottir.

Hann smellti á hlekkinn, fór beina leið inn á síðu til að skrá sig og ekki leið á löngu þar til „þjónustufulltrúi“ hafði samband símleiðis. Vinalegur maður sem var greinilega búinn að fletta Birni upp á netinu. Upp hófst samtal.

Björn Bjarnason við tölvuna á skrifstofu sinni.

„Hvort það væri ekki gaman að búa á Íslandi og ég veit ekki hvað og hvað. Að konan sín væri svo mikill Íslandsvinur að hún hlyti að vera mjög ánægð að það væri kominn maður frá Íslandi sem væri í sambandi við þau og vildi gera einhver viðskipti,“ rekur Björn söguna.

Allt er þetta samkvæmt uppskriftinni sem lögregla og fleiri þekkja vel. Þjónustufulltrúinn vissi strax allt um Björn og að hann hefði verið stjórnmálamaður. Því yrði að vísa honum yfir á annan þjónustufulltrúa til að safna nánari upplýsingum og staðfesta þær. Hann yrði að senda afrit af vegabréfi og fleiri skjölum. Björn ákvað að hugsa sig um áður en hann varð við þeirri kröfu, sem er eins gott því þarna var verið að leggja viðbótargildru fyrir hann, eins og Stefán Steinsson, tengiliður íslensku lögreglunnar hjá Europol, þekkir vel.

Hann segir þessi gögn geta gengið kaupum og sölum á djúpvefnum. Dæmi séu um að opnaðir séu bankareikningar í nafni fólks á grundvelli vegabréfa þess. Því megi gera ráð fyrir að um leið og einhvers konar afrit af mikilvægum gögnum séu afhent glæpamönnum noti þeir gögnin við sína iðju.

Björn ákvað að hafa samband við kunningja áður en lengra yrði haldið og ræddi í kjölfarið við Gísla Jökul sem sagði allar líkur á að þetta væri svikamylla. Björn lokaði greiðslukortinu sínu og fékk svo símtal frá „þjónustufulltrúanum“ hjá svikafyrirtækinu.

„Og hann trúði því nú varla fyrst að ég væri efins um að þetta væru góð viðskipti og sýndi mér tölur sem áttu að sanna að bara á þessum tólf tímum, hvað það var sem liðnir voru frá því að ég stofnaði til samskipta við þá, hafði féð ávaxtast á glæsilegan hátt. Það virkaði þannig að það var mjög trúverðugt allt sem þessir menn sögðu og allt það sem þeir buðu og allt það sem þeir sýndu mér í símtölunum og gátu látið mig opna einhverjar síður sem áttu að sýna hvernig ávöxtunin hefði gengið fyrir sig. Og hvað þetta væri allt traustvekjandi og glæsilegt,“ segir Björn og þakkar fyrir að hafa brugðist snarlega við, því glæpamennirnir náðu ekki nema 70 þúsund krónum af honum.

Georg féll fyrir framhaldssvindli

Georg var ekki jafnheppinn og Björn. Honum voru sýnd gröf og gögn sem áttu að sýna ótrúlega ávöxtun fjárfestingarinnar. Milljón varð að tveimur milljónum nánast yfir nótt, en þá tók skyndilega að halla undan fæti.

„Og „verðbréfin“ hrundu. En þeir voru þá, á þessum tímapunkti, búnir að ná mér á krókinn. Voru búnir að sýna mér að það var hægt að rífa þetta upp með því að leggja meiri pening inn á reikninginn. Og að kaupa hlutabréf í einhverjum öðrum fyrirtækjum. Þannig að ég fór að setja inn fleiri hundruð þúsund krónur. Á einhverjum tímapunkti var þetta orðin fimm hundruð þúsund króna innlögn í einhver skipti. Með því að setja meira inn var ég að reyna að endurheimta það sem ég hafði tapað. Á endanum var ég búinn að láta á tæpu ári einhverjar tólf milljónir. Í þessa vitleysu,“ segir Georg mæðulegur.

Þegar hér var komið sögu runnu tvær grímur á Georg. Hann hafði samband við lögreglu, fjármálastofnanir og það sem átti að vera skrifstofa fjárfestingafyrirtækisins en án árangurs. Svindlinu var hins vegar ekki lokið enn. Lögreglumenn þekkja það vel, rétt eins og hversu heitt fórnarlömb vilja trúa því að allt bjargist.

„Ef þú ert fastur í svikamyllu og farinn að trúa ákveðinni lygi, og ert kannski búinn að tapa fjárhæð sem hleypur á tugum milljóna, þá ertu kominn á þann stað að; áttu að trúa lögreglumanninum sem er að gera allt hið besta til að útskýra hvað gerðist og af hverju það gerðist,“ segir Gísli Jökull, „eða, þegar þú kemur heim til þín og ef glæpamaður nær aftur til þín. Og hann segir: Allt sem að lögreglan segir er rugl, við vitum að... við erum alveg að redda þessu. Ef þú sendir okkur hálfa milljón í viðbót þá gengur þetta allt upp.“

Misheppnaðar tilraunir Georgs til björgunar

Georg vildi reyna að bjarga því sem bjargað yrði og hóf netleit að björgunarfyrirtæki. Fyrsta fyrirtækið reyndist vafasamt svo að bankinn hans stöðvaði millifærslu á reikning þess. Hann hélt leitinni áfram og furðaði sig á því að meint björgunarfyrirtæki hefðu samband við hann að eigin frumkvæði.

„Þá var nafn mitt greinilega komið út um víðan völl hjá svona aðilum. Ég fann þá annað, sem hét Fraud Recovery. Gúglaði það og það virtist vera löglegt. Ég setti mig í samband við þau. Það er sama sagan þar. Ég þurfti að greiða einhverjar upphæðir. Einhverjar hundruð þúsund krónur til þess að starta ferlinu. En á sama hátt þá endaði þetta líka sem svindlfyrirtæki. Ég tapaði þar öðrum tveimur milljónum í viðbót. Við að reyna að endurheimta þetta,“ segir Georg og hljómar bæði hissa og dapur yfir því hvernig glæpamennirnir léku hann.

Við þetta gafst Georg upp og afskrifaði tapið. Margir lenda í enn grófari svikurum, sem halda áfram eftir þetta, eins og Gísli Jökull rekur:

„Þá koma þeir á enn einn háttinn og segjast allt í einu að vera alþjóðleg löggæslustofnun. Og segja að þú sért búinn að vera að fjármagna glæpastarfsemi eða hryðjuverk og núna er komin sekt á þig og þú verður handtekinn á Íslandi nema þú borgir þessa sekt. Það er verið að gera allt sem þeir geta til að ná öllu sem þeir mögulega geta af þér sem brotaþola.“

Hættan á að falla aftur

Á Íslandi eru þeir sem gefa sig fram við lögreglu flestir komnir yfir miðjan aldur, en fleiri þættir virðast hafa áhrif á hversu miklar líkur séu á að fólk falli fyrir svona svikum.

„Oft sjáum við, og við erum aðeins farin að leita að því, að það hefur verið eitthvað áfall í lífi viðkomandi sem nær svona tvö ár aftur í tímann, getur verið nær í tíma en upp að tveimur árum. Og það getur verið makamissir, skilnaður, alvarlegt slys, missir vinnu. Eitthvað sem gerir að verkum að varnarviðbrögðin verða verri. Þú sérð ekki eins vel hættumerkin,“ segir Gísli sem hefur tekið á móti stórum hópi fórnarlamba netglæpa á undanförnum árum.

Gísli Jökull Gíslason, rannsóknarlögreglumaður.

Reynsla og rannsóknir sýna líka að sá sem fellur einu sinni í gildruna er líklegri til að gera það aftur - og glæpamennirnir vita það. Því er eins og upplýsingar um þá sem fallið hafa fyrir svona svikum fari á lista sem gengur kaupum og sölum í glæpaheiminum.

Þá þekkja lögreglumenn dæmi um fólk sem sýnir fíknieinkenni. Það leyni sína nánustu því sem gerðist, telji sig geta reddað öllu og staðið uppi sem sigurvegarar.

Georg vill ekki segja fjölskyldunni frá

Georg hefur ekki enn sagt fjölskyldu sinni frá svikunum. Skömmin sé of mikil og hún vaxi. Hún verði að lokum svo mikil að engin leið sé að taka málið upp við hans nánustu.

Það er þungt hljóðið í Georg þegar hann lýsir þessari klemmu. „En þetta er svona svartur blettur sem maður bara setur ofan í tunnu og lokar. Með lás og opnar aldrei aftur.“

Meðaltapið er 16 milljónir

Þegar lögreglan tók saman hversu miklu fólk hefur tapað á undanförnum árum, var heildartalan, eins og áður kom fram, rétt tæpur hálfur milljarður. Enn meira sláandi er að heyra hvert meðaltapið í stökum tilvikum er, um sextán milljónir króna. Það segir þó ekki alla söguna því mörg dæmi eru um mál sem hlaupa á tugum þúsunda. Að sama skapi eru mál sem hlaupa á tugum milljóna.

„En það er engin ávöxtun í gangi, það er engin fjárfesting í gangi. Það sem er að gerast er einfaldlega að þú ert að senda peninga og glæpamenn eru að stela þeim. Það er allt sem er að gerast. Allt hitt er bara tjald og svikamylla,“ segir lögreglumaðurinn Gísli Jökull.

Og ekki svikamylla eins smáglæpamanns með tölvu. Stefán, tengiliður lögreglunnar hjá Europol, segir alþjóðlega glæpahópa standa á bak við þessi brot.

„Þau eru flókin og krefjast sérþekkingar, sem þeir reyndar stundum að kaupa, þannig séð, „crime as a service“. Til að mynda þessar úthringimiðstöðvar. Það er oft aðkeypt þjónusta og jafnvel eru dæmi um að starfsfólkið á gólfinu í úthringimiðstöðvunum viti ekki að það sé að selja falsaða eða svikna fjárfestingu. Og svo nýta þessir aðilar sér iðulega þjónustuaðila sem sérhæfa sig í peningaþvætti til þess að fela ágóðann af brotunum. Í rauninni er það þannig að það eru margir brotahópar hreinlega sem sérhæfa sig í þjónustu við aðra brotahópa.“

Hvernig er hægt að verja sig?

Sérfræðingar sem Kveikur ræddi við sögðu mikilvægt að hafa nokkur heilræði á bakvið eyrað:

  • Glæpahringirnir þróa sífellt nýjar leiðir til að svíkja og svindla. Eina vörnin er að vera vakandi.
  • Góð byrjun er að líta allar vefauglýsingar um magnaða fjárfestingu gagnrýnum augum.
  • Sendið aldrei peninga til ókunnugra
  • Þeir sem vilja ávaxta fé sitt geta leitað til hefðbundinna og þekktra fyrirtækja til þess, það er sannarlega öruggara.
  • Flottar vefsíður eða gröf sem sýna ótrúlega ávöxtun eru hreint engin vísbending um trausta og trúverðuga starfsemi eða fjárfestingu.
  • Löggæsluyfirvöld mæla eindregið gegn því að hefja viðskipti við óþekkt fjárfestingafyrirtæki yfir landamæri, því nánast vonlaust sé að sannreyna slíkt og með öllu vonlaust að endurheimta fé.
  • Aldrei ætti að deila kortaupplýsingum, hvað þá myndum af skilríkjum af einhverju tagi, með óþekktum aðilum.
  • Grunur á broti? Hafið samband við lögreglu