Vildu ekki tala þegar spennan jókst í norðri

„Líður ekki öllum vel þegar þeir hafa gert vel og fólk segir þeim það. Auðvitað er alltaf gott að fá viðurkenningu, það er partur af lífinu.“

Vildu ekki tala þegar spennan jókst í norðri

Arnar Þórison yfir-pródúsent ræðir um þriðjudagsþátt Kveiks; Rekstrarumhverfið á Íslandi, túrisma, viðurkenningu og gagnrýni, svo dæmi séu nefnd, í þriðja hlaðvarpsþætti Kveiks. Hann segir gagnrýni vera af hinu góða. „Við þurfum að hafa aktíva gagnrýni í allar áttir. Það er okkar réttur. Í flestum tilfellum er fólk sem er að gagnrýna, það sér hlutina frá öðru sjónarhorni, og þeirra sjónarhorn er alveg jafn rétthátt eins og annarra.“

Þá segir Ingvar Haukur Guðmundsson pródúsent frá því hvernig farir kvikmyndagerðarmannsins eru ekki alltaf sléttar og rifjar upp tökur, í því sem hann kallar Ikea-Wallstreet hverfi Lundúna, sem fóru ekki alveg eins og til stóð. „Ég mætti bara eins og ég kom fyrir, í minni ullarpeysu og með gula húfu og stakk svolítið í stúf við bláu jakkafötin og svörtu bindin sem voru þarna allsráðandi.“

Ingólfur Bjarni Sigfússon umsjónarmaður fór yfir umfjöllunarefni þáttar þriðjudagsins og þáttagerðina. Hann segir aukna spennu í baráttunni um ítök og yfirráð á norðurslóðum hafa gert það að verkum að fáir hafi viljað tala um efnið í mynd.

„Á meðan það var ekkert sérlega flókið að fá viðmælendur eða fólk til þess að tala um þetta fyrir ári, þá núna var eiginlega ekki nokkur leið að fá fólk til þess að segja neitt. Þessi aukna spenna hafði greinilega hlaupið í vísindasamfélagið og allir voru hræddir um að segja eitthvað sem væri vitlaust eða kæmi þeim illa.“

Í næstu viku verður Kveiksþáttur þess þriðjudags til umfjöllunar í hlaðvarpinu og þáttagerðarmenn til viðræðna um hann. Hlaðvarpið er að finna í öllum helstu hlaðvarpsöppum og í appi og á vef Rúv. #kveikur er fyrir alla þá sem vilja taka virkan þátt í umræðunni og [email protected] fyrir ábendingar.