Undrandi á gylliboðunum

Undrandi á gylliboðunum

Tugir Íslendinga tapa himinháum fjárhæðum í netsvindli á hverju ári. Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, segist hafa sloppið með skrekkinn þegar hann lenti í klóm netglæpaklíku.

Björn var meðal þeirra fyrstu sem létu til sín taka á netinu fyrir síðustu aldamót. Hann stofnaði snemma bloggsíðu og var ötull talsmaður nýrrar tækni. Björn er ekki nýr á netinu eða illa áttaður í stafrænum heimi. Engu að síður hnaut hann um auglýsingu á netinu sem vakti forvitni hans.

„Það gerði ég á Facebook og var alveg undrandi í raun og veru að sjá hvað það voru margar auglýsingar um gylliboð sem þekktir Íslendingar komu nálægt og fólk sem þekkti var að mæla með að nýta sér þetta tækifæri. Og svona er maður áhrifagjarn að ég ákvað að prófa að sjá hvernig hefur þetta gengi fyrir sig.“

Óafvitandi var Björn genginn í gildru glæpamanna eins og tugir Íslendinga árlega. Hann skráði sig á síðuna og fékk í kjölfarið símtal frá þjónustufulltrúa, sem vildi skrá nákvæmar upplýsingar og fá sent afrit af vegabréfi og fleiri skilríkjum. Birni fannst þetta undarlegt og ákvað að bíða. Eftir að hafa ráðfært sig við lögreglu lokaði hann greiðslukortinu sínu og sleit á öll samskipti við glæpamennina.

Björn er heppnari en flestir sem lenda í klóm netglæpamanna. Í þeim tilvikum sem berast lögreglu er meðaltapið 16 milljónir króna.

Gísli Jökull Gíslason rannsóknarlögreglumaður í viðtali við Kveik.

Gísli Jökull Gíslason rannsóknarlögreglumaður tekur á móti fjölda fórnarlamba. Hann segir að sorgin sé oft mikil og fjárhagslegt tjón líka.

„Í flestum þessara dæma er fólk yfirleitt komið yfir það strik sem það þolir. Það getur kannski reddað því á endanum með aðstoð góðra vina eða einhvers konar lánafyrirgreiðslu. En þeir hætta ekki á meðan þeir geta tekið af þér peninga.“

Fjallað verður um netsvik, þróuð vinnubrögð glæpamanna og sögur íslenskra fórnarlamba í Kveik í kvöld kl. 20:05 á RÚV.