Segist allslaus fjórum árum eftir fréttir af kynferðislegri myndasendingu

Þórir Sæmundsson var rísandi stjarna á íslensku leiksviði. En eftir að kynferðisleg myndasending hans komst í hámæli árið 2017 hefur hann verið utangarðs og fær hvergi vinnu. Á hann afturkvæmt í íslenskt samfélag?

Segist allslaus fjórum árum eftir fréttir af kynferðislegri myndasendingu

Þórir Sæmundsson segist vera í vonlausri stöðu. Eftir að hann var gerður brottrækur úr Þjóðleikhúsinu fyrir fjórum árum kveðst hann hafa sótt um 200-300 störf — í umönnun, verslun og þjónustu, skóla, veitingarekstri, hreingerningum — allt án árangurs.

Hann hefur reyndar verið ráðinn til að leika í kvikmynd og sjónvarpsþætti. En áður en tökur hófust var hann rekinn því einhver gúglaði hann.

Á þessu ári tók Þórir svo meirapróf og í gegnum frænda sinn fékk hann vinnu sem bílstjóri hjá Hópbílum í verktöku fyrir Strætó. Hann var rekinn eftir fjóra daga. Yfirmaður hjá Strætó hafði gúglað hann.

Þrisvar segist Þórir hafa misst vinnu eftir ráðningu bara af því nafn hans var slegið inn í leitarvél á netinu.

„Það eru sömu forsendur í þessi þrjú skipti,“ segir Þórir um uppsagnirnar. „Við getum ekki haft þig í þessu. Út af ástæðum.“

„Það er af því að fyrsta síða á Google setur mig fram sem eitthvert skrímsli.“

Meðmælin blasa sannarlega ekki við þegar leitað er að Þóri Sæmundssyni á Google. Meðal niðurstaðna er frétt á vef DV frá haustinu 2017 þar sem sagt er frá ásökunum um að Þórir hafi sent ólögráða stúlku kynferðislega mynd. Það er svo tengt við að hann hafi verið rekinn úr Þjóðleikhúsinu nokkrum mánuðum fyrr.

Haft er eftir Þóri í fréttinni að hann hafi staðið í þeirri trú að manneskjan væri orðin sjálfráða. Og enn í dag heldur hann því fram.

Fjögurra ára gamlar fréttir af myndasendingu virðast þó vera nóg til að ákveða að slíkan mann sé ekki hægt að hafa í vinnu, hvorki í leikhúsi né á bensínstöð.

„Ég hef unnið í hjáverkum hér og þar fyrir tilstilli vina og vandamanna,“ segir Þórir.

Frétt DV birtist ekki í tómarúmi. Í október 2017 hafði áratugalangur kynferðisbrotaferill bandaríska kvikmyndaframleiðandans Harveys Weinsteins loks verið afhjúpaður. #Metoo-hreyfingin fór á flug og konur risu upp og sögðu frá áreitni, kúgun og kynferðisbrotum — líka á Íslandi.

Konur í íslenskum sviðslistum og kvikmyndagerð opinberuðu sínar #metoo-sögur í nóvember. Þórir var ekki umfjöllunarefni þeirra nafnlausu frásagna, eftir því sem Kveikur kemst næst, en daginn eftir birtist DV-fréttin.

Segja má að Þórir hafi ekki átt sér viðreisnar von síðan. „Ég fæ ekki að vinna á Íslandi. Hvorki við það sem ég er þrautþjálfaður og menntaður og reyndur í — og bara frekar góður í, ef ég má bara segja það líka,“ segir Þórir í viðtali við Kveik.

Þórir Sæmundsson segist hafa verið meira og minna atvinnulaus síðustu fjögur ár.

Hann segist í raun hafa gefist upp á leiklistinni eftir að hann missti af kvikmyndaverkefninu og sjónvarpsverkefninu.

„Stóru sjónvarpsverkefni erlendis, þar sem er búið að ráða mig og skrifa undir samning þegar einhverjir lögfræðingar í Bandaríkjunum bara: Hjálp, hér er #metoo-maður! Og mér er bara bolað út úr þeirri pródúksjón og það var í nóvember núna, 2020. Og þá gafst ég upp,“ segir Þórir. „Ég fann það bara, ég get ekki barist lengur.“

Þórir segist standa uppi slyppur og snauður. Og nú hefur hann verið án vinnu það lengi að hann segist ekki lengur eiga rétt á atvinnuleysisbótum.

Er þetta sanngjörn niðurstaða? #Metoo-hreyfingin hefur dregið fram í dagsljósið áreitni, innbyggða kvenfyrirlitningu, kúgun og kynferðisbrot sem hafa viðgengist víða og lengi. Konur hafa ákveðið að láta þetta ekki yfir sig ganga lengur og nú er verið að skrifa nýjar leikreglur. En fæstir fara flekklaust í gegnum lífið, án þess að gera einhvern tímann mistök. Hvenær og hvernig á fólk sem hefur misstigið sig afturkvæmt í samfélagið? Sú umræða er bæði viðkvæm og erfið.

Þórir segist standa uppi slyppur og snauður og nú eigi hann ekki lengur rétt á atvinnuleysisbótum.

Þórir, sem er 41 árs, fékk leiklistarbakteríuna í Hafnarfirði á unglingsaldri þegar hann fékk að leika Bugsy Malone í samnefndum söngleik. Áður en hann lauk grunnskóla steig hann á stóra sviðið í Borgarleikhúsinu í uppfærslu á Evu Lunu.

Leið Þóris á fjalir Þjóðleikhússins var síðan óhefðbundin. Fjölskyldan flutti til Noregs, þar sem hann útskrifaðist fyrst af leiklistarbraut í menntaskóla og komst svo beint inn í Norska leiklistarskólann, í fyrstu tilraun. Það segir Þórir að hafi ýtt undir hans verstu bresti:

„Ég held að ég hafi einhvern veginn farið að halda það í alvörunni að ég væri bara svolítið betri en aðrir. Því að ég var með yngstu nemendum sem höfðu verið teknir inn í þennan skóla og fyrsti útlendingurinn líka,“ segir hann.

„Ég sé þessa breytingu svo skýrt — hvernig þetta kemur inn í líf mitt þessi rosalegi hroki og sjálfumgleði og dómharka og svona ömurleg persónueinkenni.“

Horfðu á sjónvarpsviðtalið við Þóri
Kveikur ræðir við Þóri og veltir því upp hvenær og hvernig fólk sem hefur misstigið sig á afturkvæmt í samfélagið.

Eftir útskrift lék Þórir í Noregi í nokkur ár en ákvað svo að flytja heim til Íslands.

Honum segist svo frá að hann hafi eiginlega bara gengið inn á skrifstofu hjá Tinnu Gunnlaugsdóttur, þáverandi þjóðleikhússtjóra, og sagt að hún þyrfti á leikara eins og honum að halda. Og hún hafi ráðið hann.

Samstarfið gekk þó ekki sérlega vel. Kvartað var undan Þóri í leikhúsinu, að hann væri erfiður í samstarfi, dómharður og hrokafullur. Tinna lét hann á endanum fara og það segir Þórir að hafi verið mjög sárt en að einhverju leyti skiljanlegt.

„Ég sé auðvitað að það er ekkert hægt að vera með fólk í vinnu sem hefur slæm  áhrif á aðra eða lætur öðrum líða illa í vinnunni,“ segir hann.

Þórir drakk líka og skemmti sér meira en góðu hófi gegnir á þessum árum. Hann lék aðeins í Tjarnarbíói eftir uppsögnina og var svo þrjú ár í Borgarleikhúsinu. Samningurinn þar var ekki endurnýjaður, enda var Þórir nú kominn í fíkniefnaneyslu.

Þá segist Þórir hafa verið kominn í ömurlega stöðu: „Allt í einu var ég atvinnulaus og þá fór ég að hugsa svona: Gæti verið að þú þurfir eitthvað að athuga þín mál, Þórir? Þannig að ég gerði það og fór í AA-samtökin og hætti að drekka og fattaði hvað ég var búinn að vera mikið skrímsli á tímabilum í lífinu,“ segir hann. „Alveg svakalegt svona óþægilegt force of nature, einhvern veginn.“

Þórir var orðinn 33 ára og ferillinn í öngstræti. En eins og oft vill verða fór lífið að ganga betur eftir að hann varð allsgáður. Tinna Gunnlaugsdóttir var enn þjóðleikhússtjóri og hún ákvað að gefa honum annað tækifæri.

„Svo stóð ég mig bara vel og skilaði mínu og svona hægt og rólega byggi mig upp í að fá þessa stöðu sem ég var kominn í. Að leika Badda í Djöflaeyjunni og Hróa hött í mjög vinsælli sýningu og fæ fastráðningu við leikhúsið.“

Þóri tókst því að endurlífga ferilinn svo um munar og því fylgdu vinsældir á samfélagsmiðlum eins og Snapchat.

Þórir segir það iðulega hafa hent að konur sendu honum skilaboð eftir sýningar og hann hafi oft svarað þeim og stundum mælt sér mót við þær, enda einhleypur á þeim tíma.

Þórir Sæmundsson í titilhlutverki í leiksýningu um Hróa hött í Þjóðleikhúsinu áður en hann var rekinn.

Á seinni hluta ársins 2016 segist hann hafa fengið skilaboð þar sem sagði eitthvað á þá leið að þar færu tvær stelpur sem langaði að eiga kvöldstund með Hróa hetti. Þær hafi sagst vera 18 ára.

„Svo var þetta eitthvað fram og til baka,“ segir hann, þangað til hann hafi fengið sendar nektarmyndir af stelpunum, án þess að andlit þeirra sæjust. „Ég beit á agnið,“ segir Þórir, og að hann hafi endað á að senda nektarmynd af sjálfum sér. „Og þá kom bara um hæl: Náðum þér!

Þórir segir að stúlkurnar hafi þá sagt honum að þær væru 15 ára. Hann hafi þá sagt við þær að þær hafi ekkert náð honum. Þær hefðu stofnað til samskiptanna við hann og í þokkabót logið til um  aldur.

„Hvernig eruð þið einhver fórnarlömb í þessu?,“ segist hann hafa svarað. „Ég myndi skilja það ef ég hefði sem fullorðinn maður viljandi orðið mér úti um Snapchat-ið hjá ykkur til þess að senda nektarmyndir af mér til ykkar, það er allt annað mál,“ segir Þórir.

Hann segir að þótt honum hafi brugðið hafi hann ekki talið að þetta yrði neitt mál. Annað kom á daginn.

Einhverjum mánuðum seinna, þegar komið var fram á árið 2017, kallaði Ari Matthíasson, þá orðinn þjóðleikhússtjóri, Þóri á fund til sín, og sagði honum að nafnlaus kvörtun hefði borist frá manni sem segðist vera faðir stúlku undir lögaldri sem hefði fengið senda mynd af kynfærum Þóris.

„Þegar Ari segir þetta, þá segi ég honum frá þessu, nákvæmlega eins og ég er að segja þér frá þessu,“ segir Þórir.

„Mín frásögn hefur ekkert breyst, í fjögur ár hef ég verið að segja sömu söguna af þessu,“ segir hann. „Og ég fæ aðvörun frá Ara, einhvers konar óformlega, munnlega aðvörun. Og trúðu mér, ég tók hana til mín.“

Þórir segist því miður ekki geta sýnt samskiptin við stúlkurnar til að sanna mál sitt, hann hafi ekki vistað þau sérstaklega og Snapchat eyði almennt öllum skilaboðum eftir ákveðinn tíma. Það séu líka liðin fimm ár síðan þetta var.

Kveikur sendi skeyti á netfangið sem kvörtunin barst úr. Því var svarað og sagðist bréfritari vera bróðir stúlku sem hefði verið í samskiptum við Þóri. Faðir þeirra hefði sent kvörtunina til þjóðleikhússtjóra.

Hann sagði að systir hans vildi ekki ræða við Kveik í trúnaði til að hægt væri að fá hina hliðina á sögunni og staðfesta sannleiksgildið, það er að segja að þetta hefði verið stúlka eða stúlkur á unglingsaldri og hvernig samskiptunum var háttað.

Enn í dag er því ekki vitað hvert Þórir sendi myndina.

Þórir viðurkennir að hann hafi sýnt af sér dómgreindarleysi með því að senda af sér mynd á Snapchat-reikning sem hann vissi í raun ekkert hver átti.

„Ég vildi óska þess að ég hefði haft meira bein í nefinu eða eitthvert vit til þess að fara bara strax þarna og segja bara: Ég geri þá kröfu að fá að vita hver þetta er. Því ég þarf að ganga í þetta mál og leysa það,“ segir Þórir.

„Ég hugsaði bara að þetta væri búið. Enda hef ég ekkert að fela.“

Eftir aðvörun Ara hélt Þórir áfram sínum störfum í leikhúsinu. Hann var Baddi í Djöflaeyjunni og svo hófst undirbúningur fyrir sýninguna Álfahöllina.

En í fyrstu viku æfinga fyrir Álfahöllina var hann rekinn. Aftur var hann kallaður á fund þjóðleikhússtjóra og þá sat Ari Matthíasson þar, tilbúinn með uppsagnarpappíra fyrir Þóri að skrifa undir. Ástæðurnar voru sagðar rekstrarlegar.

„Mér fannst nokkuð skýrt að þetta væru ekki raunverulegar ástæður brottrekstursins,“ segir Þórir. Enda hefði það alls ekki verið rökrétt, segir hann. „Það er nýbúið að ráða mig þarna fyrir lífstíð, búinn að vera að leika bara aðalhlutverk á stóra sviðinu.“

„Það var sem sagt sparnaður sem var ástæða þess að ég var látinn fara. Ég vildi óska þess að það væri satt. Þá væri ég í annarri stöðu en ég er í dag.“

Frétt DV birtist svo nokkrum mánuðum síðar, daginn eftir að íslenskar konur í sviðslistum og kvikmyndum birtu sínar #metoo-frásagnir.

Það sem haft er eftir Þóri í DV-fréttinni er hálfruglingslegt og lýsir manni sem veit ekki hvernig hann á að bregðast við. Hann vill í aðra röndina taka ábyrgð á hegðun sinni og viðurkennir að hann sé hluti vandamálsins, en á hinn bóginn hafi hann sannarlega ekki vitað hvert hann sendi myndina, þótt það sé auðvitað líka dómgreindarskortur. Hann ætli að vinna í sínum málum og verða betri maður.

Fréttin á vef DV frá nóvember 2017.

Margir eiga erfitt með að fóta sig í #metoo-umræðunni. Karlmenn hafa stigið fram og viðurkennt að þeir hafi hreinlega ekki áttað sig á stöðunni og jafnvel óafvitandi tekið þátt í að viðhalda henni.

Þórir telur víst að hann hafi gengið of nærri samstarfskonum sínum í Borgarleikhúsinu þegar hann lék í söngleiknum Mary Poppins árið 2015.

„Þarna er ég ennþá í neyslu og er svolítið ruglaður á því og er að vinna með mörgum ungum konum,“ segir hann. Hann kveðst hafa fengið tiltal frá leikstjóranum eftir að ein þeirra kvartaði yfir skilaboðum frá honum.

„Það voru ekki nektarmyndir eða eitthvað svoleiðis, en óviðeigandi skilaboð,“ segir Þórir.

Hann viðurkennir að hafa hreinlega ekki áttað sig á að hann hafi verið í einhvers konar yfirburðastöðu. Í raun hafi enginn átt þetta „samtal“ við hann: „Að ég sem fullorðinn, frægur maður, hafi einhvern status og hafi eitthvert vald yfir konum og kannski ungum konum.“

Að það sé kannski ekki alveg sjálfsagt að frægur maður á fertugsaldri sendi 18 ára stúlkum, að því er hann telur, mynd af kynfærunum á sér, jafnvel þótt samskiptin hafi verið þess eðlis fram að því.

„Ég vil ekki nota þetta sem einhverja afsökun,“ segir Þórir, „en þetta eru staðreyndir málsins: Þegar ég er unglingur og ungur maður að þá er það metið að verðleikum að leggja margar konur. Í dag hefur tíðarandinn breyst og vonandi meðvitund okkar allra líka.“

Hann segist vilja taka ábyrgð á sinni hegðun. „Ég hef í alvörunni reynt að breytast til betri vegar og bæta mig að öllu leyti,“ segir hann.

Þórir fór í áfengismeðferð árið 2015 og hafði því verið allsgáður í tvö ár þegar hann var rekinn. Framkoma hans árin sem hann drakk, neytti fíkniefna og lét ruddalega leiddu samt líklega til þess að hann átti lítið bakland í leikhúsinu. Hann var rétt byrjaður að byggja ferilinn upp aftur og ávinna sér traust samstarfsfólksins þegar Ari Matthíasson rak hann, svo hann virðist eiginlega hafa staðið einn uppi.

Kannski fannst sumum þetta bara mátulegt á hann. „Það fer ekkert á milli mála,“ segir Þórir. „Ég hef vissulega skynjað það.“

Hann segir að vel megi vera að það hafi verið réttlætanlegt að reka hann úr Þjóðleikhúsinu vegna lauslætis og almenns dólgsháttar, „sem einhvers konar dæmi fyrir okkur,“ segir hann.

„En fjórum árum seinna: allslaus og ég er ekkert að ýkja það,“ segir hann. „Ég á ekki neitt lengur og ég er stórskuldugur og ég fæ ekki að vinna fyrir mér og fyrir börnunum mínum.“ Hann segist finna til með þeim sem finnst þetta gott á hann.

Þórir gerir sér grein fyrir að hann verði að koma fram af heilindum í frásögn sinni. Því þótt ýmislegt í hans máli hafi verið staðreynt og kannað er það svo að ef hann hefur ekki sagt satt og rétt frá, eða ef hann hefur dregið eitthvað undan, eru allar líkur á að það komi upp á yfirborðið núna, eftir að hann hefur sagt sína sögu opinberlega.

Þórir segist engar áhyggjur hafa af því, hann hafi ekkert að fela: „Eins lítið og þetta samfélag er, væri það ekki komið upp á yfirborðið núna, ef ég væri einhver hrotti?“ spyr hann. „Eða ef ég væri að senda myndir af mér á grunnskólabörn út um allt af því að það væri eitthvað sem ég gerði?“

Hann virðist heldur ekki telja sig hafa miklu að tapa. Nú þegar hann kveðst ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum lengur segir hann að aðeins eitt sé eftir í stöðunni: að gerast glæpamaður.

„Þetta er staðan sem ég er í,“ segir hann. „Ég þarf annað hvort að flýja þetta land eða gerast glæpamaður.“

Þóri finnst hlutskipti sitt óréttlátt: „Ég myndi skilja þetta ef það væri einhver slóð af brotnum konum eftir mig. Það er ekki þannig,“ segir hann. „Ég hef sært þær nokkrar og verið asni. En ekki gerandi í þeirra lífi. Týpískur karlmaður kannski og allt það en það hefur hingað til ekki verið glæpsamlegt.“

Þórir var hluti af og þátttakandi í listaheiminum á Íslandi þegar fyrsta #metoo-bylgjan fór af stað. Eins og frásagnir kvenna í sviðslistum og kvikmyndagerð á Íslandi sýna var þar víða pottur brotinn.

„Þá finnst mér svo oft að ég sé að afplána fyrir helvíti marga sem komu á undan mér,“ segir Þórir.