Það sem við vitum ekki 10 árum eftir hrun

Haustið 2008. Stóru viðskiptabankarnir þrír fallnir. Allra spjót beinast að stjórnendum þeirra, sem fram að hruni höfðu þegið ofurlaun og bónusa fyrir störf sín. Þetta voru eignamenn sem ferðuðust um í einkaþotum, pöntuðu heimsfræga poppara í afmælin sín, áttu snekkjur, lúxusvillur og lúxusbíla.

Haustið 2008. Stóru viðskiptabankarnir þrír fallnir. Allra spjót beinast að stjórnendum þeirra, sem fram að hruni höfðu þegið ofurlaun og bónusa fyrir störf sín. Þetta voru eignamenn sem ferðuðust um í einkaþotum, pöntuðu heimsfræga poppara í afmælin sín, áttu snekkjur, lúxusvillur og lúxusbíla.

Allur hagnaðurinn og gróðinn sem stjórnendur bankanna höfðu stært sig svo mjög af var skyndilega orðinn að minna en engu. Spurt var, hvað varð um peningana? „Eiga þeir sína eigin sjóði og leynileg fyrirtæki í skattaskjólum?“ spurði Eva Joly strax eftir hrunið 2009. „Þið verðið að leita að þessu. Og eitt er víst; ef eignum var stolið eru þær ekki á Íslandi.“

Nokkru áður var sérstakur saksóknari skipaður til að rannsaka hrunsmálin, og Joly var ráðin til að starfa náið með honum.

Rannsóknin var af gæðum

Rúmlega 200 mál voru rannsökuð, þar af fór á þriðja tug fyrir dóm. Einn opinber starfsmaður og um það bil 40 stjórnendur, bankamenn og viðskiptafélagar þeirra hlutu dóma. 25 hafa setið inni, tveir bíða afplánunar og enn eru nokkur mál til meðferðar hjá dómstólum.

„Þetta þýðir að rannsóknirnar voru vel unnar, það þýðir að dómskerfið hafði burði til að fjalla um þessi mál og það þýðir trúlega einnig að dómskerfið hjá ykkar er í góðu lagi,“ segir Joly um rannsóknina í dag.

Þessu eru margir þeirra sem dæmdir voru reyndar ósammála. Í samtölum Kveiks við fjölda þeirra sögðust þeir telja að dómstólar hefðu verið ósanngjarnir og þeir hefðu verið saksóttir að ósekju. Heiftúðugt andrúmsloft í samfélaginu hafi haft áhrif á dómgreind saksóknara og dómstóla.

„Frásagnir þeirra endurspegluðu ekki raunverulega stöðu bankanna. Það er glæpsamlegt,“ segir Joly.

„Það er ekki við öðru að búast af mönnum sem fara í gegnum þetta erfiða ferli. Þeir sem eru dæmdir fyrir þessi efnahagsbrot eru vanir því að fá sérmeðferð, að fá góða meðferð hvar sem þeir koma. Það er miklu erfiðara fyrir þá að sætta sig við þetta en fyrir innbrotsþjóf, til dæmis. Það kemur ekki á óvart að þeir sætti sig ekki við dómsúrskurðina því fall þeirra er svo hátt.“

Og nú er aftur komið bullandi góðæri

En er nóg að gert, er verkefninu lokið? Rannsóknarskýrsla Alþingis sýndi rotna menningu í efsta lagi fjármálakerfisins - svo þrátt fyrir þennan góða árangur við uppgjör og endurreisn, þá má alveg spyrja: hvað er það sem við vitum ekki áratug síðar?

Skoðaði sérstakur saksóknari eitthvað eða var einhvern tímann til rannsóknar frá því 2004 eða 5 eða hugsanlega fjársvikamál sem tengdist til dæmis aflandsfélögum eða eitthvað svoleiðis?

„Það minnir mig reyndar ekki,“ segir Ólafur Hauksson, fyrrverandi sérstakur saksóknari og nú héraðssaksóknari. „En í sjálfu sér var fókusinn fyrst á hrunið sem slíkt og mál sem voru undir áhrifum hrunsins.“

Áður en rannsókn hrunsmála lauk var embætti sérstaks saksóknara skorið niður. Starfsmönnum var fækkað úr 110 í fimmtíu á tveimur árum. „Þannig að það var nokkuð ljóst að þegar við vorum komin á þann stað að þá þurftum við fyrst og fremst náttúrulega að leggja allt afl í það að reyna að ljúka því sem við vorum með,“ segir Ólafur.

Þannig að embættið var skorið niður allt of snemma?

„Það var gert, já.“

Hvenær skal stoppa?

Joly segir það alltaf erfitt að ákveða hvar eigi að hætta í rannsóknum. „En kannski hefði átt að skoða betur hverjir högnuðust af öllum þessum glæpum,“ segir hún og nefnir sérstaklega stærstu eigendur Landsbankans fyrir hrun.

„Þar var æðsti stjórnandinn sakfelldur, sem er fullkomlega eðlilegt. En eigendur bankans högnuðust á þeirri ótrúlegu virðisaukningu sem markaðsmisnotkunin færði þeim. Í því máli hefði mátt skoða atburðarásina betur. Þetta segi ég einnig vegna þess sem Panamaskjölin leiddu í ljós.“

Hún bendir til að mynda á vef aflandsfélaga sem Björgólfur Thor og faðir hans Björgólfur Guðmundsson eiga - eða áttu - en kort yfir þau var birt í Stundinni í júní 2016.

„Hér þarf að spyrja spurninga og fá svör. Erum við viss um að ekkert þessara fyrirtækja tengist hruninu? Erum við viss um að þessi félög hafi ekki fengið lán og hefur einhver borið lánabækurnar saman við þennan vef? Þetta er í raun tilefni til nýrrar rannsóknar.“

Tjáir sig ekki um Björgólfsfeðga

Ólafur Þór tjáir sig ekki um þetta. „Nú get ég voðalega lítið tjáð mig um einstök mál eða svarað ásökunum á hendur einstökum aðilum. Það var farið í þær rannsóknir sem að þótti tilefni til og reynt að leiða það fram sem menn þurftu að fá í sambandi við það,“ segir hann.

Sömu sögu hefur Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri að segja.

„Ég get ekki svarað þessu sökum þess að ég hef ekki heimild til þess að tjá mig um einstök mál. En það sem ég get þó sagt er að einhvers staðar í skattkerfinu var farið yfir alla þá aðila sem eru á listanum,“ segir hún.

Björgólfur Thor samdi um skuldir sínar og samkvæmt upplýsingum frá honum nam uppgjörið um 1200 milljörðum króna. Að hans sögn veitti hann kröfuhöfum aðgang að öllum reikningum sínum og félaga sinna nokkur ár aftur í tímann.

Björgólfur Thor er aftur orðinn ríkasti maður landsins.

Faðir hans varð hins vegar gjaldþrota. Nam gjaldþrotið 85 milljörðum króna og fengust 35 milljónir greiddar upp í lýstar kröfur. Kveikur óskaði eftir viðtali við þá feðga en fékk ekki.

Milljarðarnir fyrir hrun sem fóru

Fyrir hrun högnuðust margir gríðarlega á óeðlilegum uppgangi hlutabréfamarkaðarins, en voru ekkert endilega á því að greiða skatt af hagnaðinum. Indriði H. Þorláksson var ríkisskattstjóri á uppgangsárunum.

„Það er einn liður í þessu máli að íslenska skattalöggjöfin varðandi hvað eigum við að segja skattfrestun þegar menn selja eða fá söluhagnað af hlutabréfum að þá er það mjög einfalt bara að setja þá í að stofna félag erlendis og losna þannig við skatt. Öll þessi atriði þarf að skoða og þau gerðu þetta mögulegt á sínum tíma og þau eru flest til staðar enn þá,“ segir hann.

Og það virðast Íslendingar hafa stundað. Í Panamaskjölunum, sem voru gerð opinber í apríl 2016, var afhjúpað að Íslendingar ættu líklega heimsmet í eign aflandsfélaga. Þar af voru meðal annars þrír ráðherrar í ríkisstjórn Íslands á þeim tíma.

„Ég er að segja að í almennum skilningi er ekki hægt að vera fjármálaráðherra og í felum fyrir eftirlitsyfirvöldum landsins,“ segir Joly og bætir við: „Það er mikið áhyggjuefni.“

„Þetta þýðir að elítan vill ekki fara að leikreglunum. Hún vill fá sérstaka meðferð og þar sem þið vitið af þessu ætti að gera eitthvað í því.“

Umsvifamiklir Íslendingar

Það kom almenningi á óvart hvað Íslendingar voru umsvifamiklir í Panamaskjölunum. Líka skattinum.

„Það kom mér á óvart hvað við vorum stór í þessu. Og það var svona meðal annars ástæðan fyrir því að ég taldi mikilvægt að þessi gögn yrðu keypt. Og það væri mikilvægt ekki bara fyrir skattayfirvöld heldur alla að átta sig með einhverjum hætti á því hvað þarna átti sér stað,“ segir Byndís.

Þessi fjölmörgu aflandsfélög eru þó engin tilviljun. Íslenskir bankar hófu að auglýsa aflandsþjónustu fyrir tuttugu árum - fyrir einkavæðingu. Henni var þá beint að efnameiri viðskiptavinum - tilgangurinn: svokallað ,,skattalegt hagræði” auk þess sem þetta var skotheld leið til þess að fela eignarhald.

Indriði segir að peningar hafi á þessum tíma streymt úr landinu

„Í sumum tilvikum héldu menn því fram að þetta væri bara hið besta mál fyrir efnahagslífið en staðreyndin er náttúrulega sú að á þessum árum að þá streymdi alveg óhugnanlega mikið af peningum út úr íslenska efnahagslífinu, meira og minna skattfrjálst,“ segir hann.

Sérfræðingar setja upp strúktúrinn

„Reynslan er sú að það eru sjaldnast skattaaðilarnir eða gjaldendurnir sjálfir sem að stilla upp planinu eða undanskotunum, það eru einhverjir sérfræðingar,“ segir hún.

Viltu að það verði hægt að sækja þá til saka fyrir að ráðleggja fólki hvernig það geti skotið undan skatti?

„Ég tel að það eigi að skoða það já - og það er reyndar almennt ákvæði í skattalögunum en ég tel að það mætti styrkja það,“ svarar Bryndís.

Ákvæðið hefur hins vegar ekki verið notað. „Ekki svona í þessum málum,“ segir hún.

Þarf að styrkja lögin

Skýrsla um skattsvik var lögð fram á Alþingi 2004. Hún sýndi að skattsvik höfðu aukist „í gegnum erlend samskipti”. Og tillögur til úrbóta voru kynntar sem söfnuðu ryki fram yfir hrun. Indriði segir að ekkert hafi gerst í þessum málum fyrr en eftir hrunið; á árunum 2009-10.

„Að mínu mati þyrfti fyrst og fremst að þeir ættu að vera skyldugir til þess að haga bókhaldi þeirra samkvæmt íslenskum reglum og skila ársreikningum samkvæmt íslenskum reglum,“ segir hann.

Bryndís segir að það megi styrkja löggjöfina til að takast á við þetta. „Að mínu viti má gera enn betur. Og þar vil ég kannski fyrst nefna eignarhaldið. Að minnsta kosti íslenskar reglur séu þannig að það liggi fyrir hverjir eru raunverulegir eigendur,“ segir hún.

Joly segir að ef ekkert verði að gert haldi aflandsvæðingin áfram.

„Ef þið takið ekki á þessu er engin ástæða til þess að þessu linni og þá endar þetta þannig að allar hárgreiðslustofur, kjötbúðir og matvöruverslanir stofna félög í Lúxemborg utan um reksturinn og þið fáið engar skatttekjur,“ segir hún.

Segist hafa séð Panamaskjölin fyrir löngu

Þó að almenningur hafi staðið á gati yfir uppljóstrunum Panamaskjalanna og skattrannsóknarstjóra hafi verið brugðið við umfangið voru ekki allir þar. Sérstakur saksóknari segir aðspurður að ekki hafi verið tilefni til frekari rannsókna eftir að skjölin komu fram.

„Nei. Vegna þess einfaldlega við vorum búin að sjá Panamaskjölin mörgum árum áður en þau komu fram. Þau voru ekkert ný fyrir okkur. Þau koma fram í tengslum við rannsókn þeirra mála sem við höfðum farið í áður,“ segir Ólafur Þór

En senduð þið þær upplýsingar þá áfram til skattrannsóknarstjóra?

„Í einhverjum tilvikum fóru upplýsingar til skattrannsóknarstjóra en við urðum líka að afmarka okkur við þau mál sem við vorum með undir,“ svarar hann.

Glugginn orðinn lítill

Af þeim skattsvikamálum sem skattrannsóknarstjóri hefur sent til héraðssaksóknara hafa sextíu og tvö verið felld niður og alger óvissa ríkir um framvindu hinna eftir að dómur féll í Mannréttindadómstól Evrópu, en dómurinn kvað á um að ekki megi líða of langur tími milli endurákvörðunar álagningar skatta og þess að ákæra sé gefin út í skattsvikamáli.

„Eins og löggjöfin er núna þá höfum við ekki mikinn tíma. Og enn þann daginn í dag erum við að fá mál frávísuð. - Þannig að það verður að segjast eins og er að þessi gluggi er nú afskaplega orðinn stuttur,“ segir hann.

„Í tilteknum málum þá fórum við náttúrulega eftir þeim aðilum sem við töldum að höfðu fengið fjármuni og þá var reynt að leggja hald á þá og síðan að láta reyna á upptöku fyrir dómi. Við rákumst á í þessu ákveðnar fyrirstöður í því að löggjöfin hafði ekki verið nægilega víðtæk, en því hafði síðan verið breytt 2009.“

Ólafur segir að einhverju leyti hafi komið fram brotalamir í löggjöfinni en að öðru leyti hafi síðan verið bætt í. „Eins og nefndi hérna áðan varðandi upptökuna. Það kemur reyndar of seint inn í löggjöfina til þess að ná yfir mögulega háttsemi á árunum 2008 eða fyrir þann tíma,“ segir hann.

Einkaaðilar fóru á eftir peningum

Slitastjórnir bankanna reyndu hins vegar að elta peninga – enda beinlínis hlutverk þeirra. Reynt var að endurheimta fé bæði frá einstaklingum og fyrirtækjum, og fá viðskiptum rift með misjöfnum árangri.

Joly segir það vera stórt atriði að elta peningana – rétt eins og hún sagði strax í kjölfar hrunsins.

„Það er mjög áríðandi að elta peningana og það er mikilvægt að gera illa fengið fé upptækt. Glæpir eiga ekki að borga sig. Í lögum hafið þið úrræði til að frysta eignir og gera þær upptækar,“ segir Joly.

Löggjöfin var veik og jafnvel gölluð í fleiri tilvikum. Vel á þriðja tug mála sem Seðlabankinn sendi áfram til rannsóknar vegna gruns um brot á gjaldeyrislögum voru felld niður árið 2016 þegar í ljós kom að láðst hafði að láta viðskiptaráðherra skrifa undir reglur Seðlabankans um gjaldeyrismál.

Mörg málanna höfðu verið til rannsóknar árum saman. Tugir sérfræðinga saksóknara eyddu þúsundum klukkustunda í málin, sem öll urðu að engu. Þar með varð ómögulegt að fá að vita hverjir brutu lögin og hverjir ekki.

20 prósenta afsláttur af krónum

Margir þeirra sem högnuðust mikið í viðskiptum fyrir hrun og hafa sætt sakamálarannsókn, jafnvel hlotið dóma eru aftur orðnir með ríkustu mönnum Íslands. Sumir þeirra komu með peninga úr aflandsfélögum aftur til landsins í gegnum fjárfestingarleið Seðlabankans á árunum 2012-15.

Þeir sem fluttu fé til landsins með þessum hætti fengu 20 prósenta afslátt af krónum, gegn því að festa féð í fasteignum, verðbréfum, fyrirtækjum eða öðrum fjárfestingakostum.

Þórður Snær Júlíusson stýrir Kjarnanum sem hefur reynt að komast að því hverjir fóru fjárfestingarleiðina.

„35 prósent af þeim fjármunum sem voru fluttir í gegn voru fjármunir í eigu Íslendinga, 72 milljarðar. Þá eru þeir náttúrulega búin í flestum tilfellum af því að peningarnir höfðu farið út fyrir hrun. Búnir að taka út mikla gengisaukningu á virði þessara peninga þú veist 40-50 prósent þannig að þá eru þeir búnir að græða tvisvar,“ segir hann.

„Svo kannski í þriðja skiptið sem þeir græða á þessu er að þeir flytja þessa peninga inn á tíma þar sem virði eigna á Íslandi er í algjöru lágmarki.“

Leið fyrir ríkt fólk

Þeir sem höfðu gerst sekir um gjaldeyrislagabrot máttu ekki taka þátt, en þeir sem til dæmis sættu rannsókn, ákæru eða hlutu dóma fyrir efnahagsbrot máttu flytja fé inn til landsins með þessum hætti. „Þannig að þetta er leið fyrir fjármagnseigendur, ríkt fólk,“ segir Þórður

„Það kom að miklu leyti frá Lúxemborg sem var svona aðal höbb íslenskra athafnamanna. Það kom líka að töluverðu leyti frá Bresku Jómfrúareyjunum, Tortólaeyjum, þannig að það er augljóst að þeir koma frá löndum þar sem er svona skattahagræði eins og það er orðað á tyllidögum.“

Seðlabankinn hefur birt upplýsingar um hvaðan féð hefur verið flutt, en ekki hverjir eru eigendur þess. Því er ekki vitað nákvæmlega hverjir komu með peninga til landsins í gegnum fjárfestingarleiðina.

„Við erum með núna í gangi fyrirspurn hjá Seðlabankanum sem er einvörðungu til þess ætluð að við getum sent hana áfram til úrskurðarnefndar um upplýsingamál og það er vel til skoðunar hjá okkur á Kjarnanum að einfaldlega fara með þetta fyrir dómstóla,“ segir Þórður.

Gætu verið hvaða peningar sem eru

Hjá bankanum fást ekki upplýsingar um það hvort peningaþvætti hafi verið rannsakað í einhverjum tilvikum.

„Þar fengum við eiginlega þau svör að þeir væru ekki alveg vissir. Það bara svona líklegast hafði ekkert mál verið tilkynnt inn til þeirra en þeir gætu ekki alveg fullyrt um það sem segir kannski ýmislegt um það hvernig hefur verið höndlað með þessi peningaþvættismál hérna,“ segir hann.

Þannig að þetta gæti verið illa fengið fé? „Jájá, vissulega.“

Joly segir fjárfestingaleiðina hafa verið skiljanlega.

„Íslendingar vildu beina fjárfestingu frá útlöndum. Flest lönd vilja það og til þess að laða að erlenda fjárfesta eru veittar ákveðnar undanþágur. En þið verðið að ganga úr skugga um að þetta sé ekki illa fengið fé sem hefur verið troðið í aflandsfélög og er nú að koma aftur til landsins,“ segir hún.

„Annars er það afar ósanngjarnt og viðbjóðslegt.“

Skatturinn með gögnin

Skattrannsóknarstjóri hefur reyndar fengið upplýsingar frá Seðlabankanum um hverjir það voru sem komu með peninga til landsins, en vill ekki gefa upp nöfnin.

„Staðan er sú að þetta er í vinnslu og þetta er gert núna í samvinnu við ríkisskattstjóraembættið. Og þau hafa sent út bréf svona fyrirspurnarbréf og við munum meta stöðuna í framhaldi af því,“ segir Bryndís. „Það er ekki í nærri því öllum tilvikum sem við sjáum í framtalinu hvaðan þessir peningar koma.“

„Og það er eitt mál í rannsókn hér núna tengt þessu þar sem að er þá grunur um refsiverð undanskot.“

Þekktir viðskiptamenn notuðu leiðina

Fjölmiðlar hafa komist að því að menn eins og Ólafur Ólafsson í Samskipum, Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings og Lýður og Ágúst Guðmundssynir, kenndir við Bakkavör komu með peninga til landsins í gegnum fjárfestingarleiðina.

En er það endilega óeðlilegt? Joly segir að ólík sjónarmið vegist á.

„Þið eruð með aðrar reglur hérna. Ein er sú að eftir að sakfelldur maður afplánar sinn dóm og greiðir skuld sína má hann hefja eðlilegt líf að nýju. En í dóma fyrir efnahagsbrot þætti mér eðlilegt að setja ákvæði um að banna viðkomandi að stunda viðskipti,“ segir hún.

„Í Frakklandi er til dæmis hægt að setja menn í fimm, tíu eða fimmtán ára bann frá viðskiptum.“

Uppfært 10. október - skuldauppgjör Björgólfs var í fyrstu sagt vera um 1200 milljónir. Það rétta er að það voru um 1200 milljarðar.