*

Það hjálpar til að setja andlit á umfjöllunina

„Það hjálpar mjög mikið til við að segja frá einhverjum atvikum, eða því sem er að gerast, að setja andlit á það. Þá tengir fólk betur og nær betri samsvörun við það sem er verið að fjalla um, ef það sést að það er raunveruleg manneskja á bak við þetta.“

Það hjálpar til að setja andlit á umfjöllunina

Þetta segir Freyr Arnarson pródúsent í fjórða þætti af hlaðvarpi Kveiks, um hvort persónulegar sögur eigi erindi við fólk. „Þú skilur betur hvaða áhrif svona mistök geta haft á einstaklinga og á líf fólks, og hversu mikilvægt það er þá að það sé eitthvað sem grípi fólk,“ bætir Lára Ómarsdóttir, umsjónarmaður þáttarins, við.

Freyr og Lára fjölluðu um sögu Málfríðar Þórðardóttur í þriðjudagsþætti Kveiks. Málfríður varð öryrki eftir smávægilega aðgerð og telur að mörg mistök hafi verið gerð, bæði í aðgerðinni og ítrekað eftir það. Lára og Freyr ræða um tildrög umfjöllunarinnar, rannsóknarblaðamennsku, viðkvæmar myndbirtingar og ýmislegt fleira í hlaðvarpsþættinum.

Sigríður Halldórsdóttir umsjónarmaður og Arnar Þórisson yfir-pródúsent ræða um Mats Steen, ungan Norðmann sem 25 ára gamall úr ólæknandi hrörnunarsjúkdómi. Sigríður og Arnar fjölluðu um sögu hans í þætti þriðjudagsins í tengslum við tölvuleiki og áhrif þeirra.

„Ég held kannski að við höfum einblínt svolítið mikið á að þetta sé tímaeyðsla. Ef ég segi, bara fyrir mig sem foreldri, þá finnst mér búið að hræða okkur rosalega mikið. Það er alveg kannski ástæða til, þetta getur haft mjög slæm áhrif og það er engin ástæða til þess að gera lítið úr því. En þegar ég heyrði fyrst sögu Mats Steen, þá fannst mér ég sjá alveg glænýja hlið á þessu máli. Mér fannst þetta vera saga sem var þess virði að lyfta aðeins upp, af því hún gefur tækifæri til þess að líta á málið frá aðeins annarri hlið,“ segir Sigríður.

„Á tímum þar sem að við erum alltaf að leita réttra skoðana og réttsýnna viðbragða við öllu varð ég svo hissa að ég hefði verið tekinn svona svakalega í bólinu með mínar forpokuðu og fordómafullu skoðanir gagnvart tölvuleikjum. Af hverju hef ég ekki verið að taka þátt? Af hverju veit ég ekki neitt um neinn tölvuleik?,“ segir Arnar. Hann segir viðhorf sitt til tölvuleikja hafa breyst við þáttagerðina.

Í næstu viku verður Kveiksþáttur þess þriðjudags til umfjöllunar í hlaðvarpinu og rætt við þáttagerðarmenn um hann. Hlaðvarpið er að finna í öllum helstu hlaðvarpsöppum og í appi og á vef RÚV. #Kveikur er fyrir alla þá sem vilja taka virkan þátt í umræðunni og [email protected] fyrir ábendingar.